Monday, December 13, 2004

Af endajöxlum og rófubeinum

Ég datt inn í þátt með Sirrý, okkar útgáfu af Opruh. Þar var hún að tala við fólk sem er ofvirkt og þau vandamál sem fylgja því. Þá datt upp í huga minn hugmynd sem ég hef velt fyrir mér annað slagið. Er ofvirkni ekki bara "eðlileg"? Og árásargirni, kynferðileg áreytni og margt fleira sem við telum slæmt í nútímasamfélagi?

Nútímavæðingin hefur nefnilega átt sér stað með ótrúlega skjótum hætti. Við erum að tala um nokkra skitna áratugi í tugþúsund ára þróunarsögu Homo Sapiens, en á undan honum gengu frumtegundir mannsins um jörðina í hundruðir þúsunda ára. Í gegnum tíðina hafa ákveðin einkenni komið manninum best í lífsbaráttunni. Einkenni eins og mikil virkni, dugnaður, áræði, sterk kynhvöt og jafnvel árásargirni hafa verið einkenni sem hafa lengst af komið manninum vel. Maðurinn þurfti að veiða í matinn, verjast óvinum, viðhalda kynstofninum o.s.frv. Mjúki nútímamaðurinn hefði ekki lifað lengi af í hörðu umhverfi veiðimanna og safnara. Að sama skapi passar hinn fullkomni veiðimaður og safnari ekki vel inn í samfélag nútímans. Hann er greindur ofvirkur (ef hann er heppinn) og settur á lyf. Aðrir eru ekki eins heppnir og enda í fangelsum eða utan garðs í lífinu.

Nú fara örugglega einhverjir að saka mig um líffræðilega nauðhyggju, enda eru margir vinir mínir félagsvísindamenn. Ég vil því taka skýrt fram að ég hef alltaf verið "nurture" megin í því stóra debati. Ég held að atlæti í uppvexti skipti mun meira máli heldur en genakokteillinn viðkomandi einstaklingur er smíðaður úr. Hins vegar getum við ekki horft fram hjá því að maðurinn er dýr. Og dýr þróast eftir lögmálum náttúrunnar. Þeir hæfustu lifa af og lengst af hafa hinir ofvirku, árásarhneigðu og kynóðu verið hæfastir. Nú passa þeir bara ekki lengur inn í munstrið.

Með þessu er ég engan vegin að afsaka ofbeldishegðun eða þau vandamál sem fylgja þessum "endajöxlum" mannlegrar þróunar. Ég vil bara benda á að það eru öflug líffræðileg lögmál sem stýra talsvert miklu í hegðun mannsins og það er staðreynd sem ekki á upp á pallborðið. Það er ekkert að þeim sem eru ofvirkir eða lesblindir. Það er samfélagið sem breyttist, ekki þeir.

Kannski munu þau líffræðilegu einkenni sem lengst af hafa haldið manninum á lífi smátt og smátt dofna og hverfa. Hver veit? En það er líka á hreinu að þá mun mannkynið deyja út í næstu óhjákvæmilegu katastrofu sem gengur yfir jörðina (svo sem ísöld). Við mjúku, bókhneigðu Latté mennirnir munum nefnilega bara hjúfra okkur niður í holu og frjósa í hel. Og þar með verður homo sapiens allur.

Við skulum því ekki fordæma frummennina meðal vor. Þeir gætu átt eftir að bjarga mannkyninu.

Tuesday, November 09, 2004

Eat the rich?

Einu sinni var ég kommúnisti. Nokkuð sannfærður. Mér fannst meika sens að það væri ósanngjarnt að kapitalistarnir ættu framleiðslutækin og sætu svo bara á rassgatinu á meðan öreigarnir þræluðu í hinum “svörtu satanísku myllum” þeirra. Á þeim tíma sem Marx skrifaði var þetta ekki út í loftið. Eigendur framleiðslutækjanna höfðu gríðarleg völd og meðferð þeirra á fólki var hræðileg. Tækniþróun, árangur verkalýðshreyfingarinnar (lágmarkslaun, takmarkaður vinnutími o.s.frv.) og vöxtur millistéttarinnar kom hins vegar í veg fyrir að bylting mikla ætti sér stað. Í stuttu máli skilaði framleiðsluvél kapitalismans “velsæld” til allra.

Þegar ég byrjaði í Háskólanum hætti ég að vera kommúnisti. Það var ekki kúl að vera kommúnisti um miðjan 10. áratuginn. Múrinn var fallinn og markaðshagkerfið hafði “sigrað”. Það virtist augljóst að þetta kerfi væri málið. Ríkisafskipti væru slæm og að markaðurinn ætti að fá að blómstra án afskipta yfirvalda. Milton Friedman og Hannes Hólmsteinn skáluðu í kampavíni og brostu breitt. Ég breyttist smátt og smátt í hálfgerðan hægri krata- einhverskonar frjálshyggju/velferðargaur (þ.e. Samfylkingarmann)

Nú er ég hins vegar að verða sífellt vinstrisinnaðari á ný. Ég hef upp á síðkastið verið að lesa mikið af bókum um skuggahliðar markaðshagkerfisins, en þær eru mun fleiri en Hannes Hólmsteinn og Milton lærifaðir hans vilja vera láta. Það slær mig hvað þetta er ómannskjulegt kerfi.

Það sem keyrir kerfið áfram er fjármagn. Andlitslaust fjármagn sem þarf að vaxa. Krafan um vöxt er ófrávíkjanleg og stöðug. Fjármagnið leitar þangað sem vaxtar er að vænta. Vöxturinn felst fyrst og fremst í hlutabréfaverði, en það stjórnast bæði af afkomu fyrirtækja og væntingum markaðarins um framtíðarmöguleika fyrirtæksins. Markaðsfyrirkomulagið gerir því gífurlegar kröfur til fyrirtækjanna um arðsemi. Stjórnendur fyrirtækjanna VERÐA að sýna fram á skjótan vöxt og gróða, annars eru þeir látir fjúka (eða missa bónusinn sinn). Þessi gífurlegi þrýstingur veldur m.a. eftirfarandi:

-Stjórnendur víla ekki fyrir sér að sniðganga leikreglur markaðarins þegar það er mögulegt (eins og olíufélögin gerðu t.d.)
-Fyrirtækin reyna að ná sem allra mestu út úr starfsmönnum fyrir sem minnstan pening- Þau víla ekki fyrir sér að nota vinnuafl fólks í einræðisríkjum sem vinnur undir byssukjöftum.

-Fyrirtæki finna upp ómennskjuleg kerfi til að kúga fólk til framleiðni. Menn eiga að vinna á ákveðnum tímum, á ákveðinn hátt, á ákveðnum fatnaði o.frv.
-Fyrirtækin hika ekki við að menga umhverfið. Ef þau komast upp með það (sökum lítillar löggjafar eða eftirlits) og það sparar þeim peninga, þá gera þau það.
-Fyrirtækin hika ekki við að stofna heilsu neytenda í voða. Þeim er nákvæmlega sama þótt vörur þeirra drepi fólk ef krónurnar halda áfram að bætast í baukinn. Tóbaksfyrirtækin eru gott dæmi, en mýmörg önnur dæmi fyrirfinnast, svo sem McDonalds, Ford (man einhver eftir Pinto?), General Mills o.fl. Fyrirtækin halda því sífellt fram að neytendur hafi frjálst val um að kaupa vörur þeirra, en þau rök eiga ekki við rök að styðjast þegar auglýsingaherferðir eru hannaðar með ungabörn í huga og neytendur þurfa doktorsgráðu í matvælafræði til að lesa á matvælaumbúðir.
-Fyrirtæki hika ekki við að níðast á fátækum þjóðum til að auka hagnað sinn. Í þeim tilgangi njóta þau dyggs stuðnings Alþjóða-gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans (Áhugasamir geta t.d. kynnt sér það sem gerðist í Argentínu)

Hagfræðingar halda flestir uppi vörnum fyrir kerfið og halda því fram að það virki. Og að vissu leyti virkar það. Það hvetur vissulega til mikils vaxtar og virðisauka. Það að vissu leyti mikilli hagsæld til okkar allra, þ.e. ef við túlkum hagsæld sem getuna til að kaupa allskonar drasl, bæði nýtilegt og fánýtt. Það má svo sem segja að markaðsskipulagið sé hlutlaust- öflugt tæki til vaxtar og framfara. Gallinn liggur kannski í því hvernig það er notað. Kannski liggur gallinn í þessu andlitsleysi fjármagnsins og þeirri staðreynd að sá þrýstingur sem stjórnendur eru undir með að skapa vöxt veldur því að þeir virðast tilbúnir til að drepa fólk og skaða náttúruna til að ná vaxtarmarkmiðunum.

Hvernig sem ég sný þessu fyrir mér þá kemst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Það sem ég held að við þurfum er:
-öflugt lýðræðisskipulag þar sem borgarar hafa sem mest tækifæri til að segja álit sitt.
-Skýr lagarammi utan um markaðinn og hvað honum leyfist
-Fjármagnseigendur, stórnendur og stjórnarmenn fyrirtækja verði látnir sæta ábyrgð fyrir afbrot sín.
-Öflugar ríkisstofnanir sem hafa eftirlit með því sem fram fer á markaðnum og framfylgja lögum.
-Öflugir, sjálfstæðir, gagnrýnir og vandvirkir fjölmiðlar sem vekja athygli á því sem miður fer og veita stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald.

Við þurfum MANNESKULEGRA kerfi en það sem við búum við í dag. Núverandi kerfi gengur ekki til frambúðar. Ef við breytum þessu ekki, endar þetta með blóðsúthellingum og náttúruhamförum!


Ég var að lesa yfir það sem ég skrifaði. Oh....my....God...hvað þetta er leiðinlegt og niðurdrepandi. Ég held ég skelli mér á prósak. Vá hvað það hlýtur að vera leiðinlegt að vera Ögmundur Jónasson og hugsa svona alla daga!!!!

Smell you later

Tuesday, October 19, 2004

The big three oh (oh my God I'm getting old)

Semsagt. Ég verð þrítugur á morgun! Geggjað. Þegar ég var lítill fannst mér þrítugt fólk eldgamalt..........eða allavega gamalt. Ég var 12 ára þegar mamma mín varð þrítug!!!

Ég er svo sem ekkert að fríka á þessu, en þetta vekur mann óhjákvæmilega til umhugsunar. Mér finnst ég til dæmis ekki hafa áorkað miklu á þessum 30 árum. Stærstan hluta af þessum 30 árum hefur maður eytt í langsetur á skólabekkjum. Svo er maður búinn að eyða a.m.k. 20.000 klst. í að horfa á sjónvarp. Gríðarlegum tíma hefur maður eytt í að sofa, lesa sögubækur, rúnta, sörfa á netinu, lesa dagblöð.............. Við erum alltaf að DREPA tímann. Hafið þið pælt í því?

Samkvæmt lauslegum útreikningum mínum má ég búast við að lifa í rúmlega 700.00 klukkustundir. Ég er nú þegar búinn með rúmlega 262.000 klukkustundir eða 37% af tíma mínum á þessari jörð. Má maður við því að DREPA eitthvað af þessum tíma??? Er maður ekki rosalega sofandi fyrir því hvað tíminn er að hlaupa frá manni?

Málið er að maður veit ekki hvað í fjandanum maður á að gera við þennan tíma.

Ég hélt einmitt að maður ætti að vera búinn að finna út úr því um þrítugt. Not so, my friends, not so.

Jæja, ég ætla ekki að vera með einhverja fokking melankólíu. Ég ætla að taka þetta með stæl. Ég ætla að borða Lasagna hjá tengdó annað kvöld og bjóða Pabba, Kollu og litlu systrum mínum (og öllu Skorrastaðagenginu að sjálfsögðu). Á föstudag ætla ég til Reykjavíkur að hitta Jónu mína. Við ætlum að borða á Tapas bar um kvöldið og fara svo og horfa á íslenska dansflokkinn sprikla í Borgarleikhúsinu. Við gistum að sjálfsögðu á Hótel Sögu. Á laugardag á Jóna að útskrifast úr háskólanum. Þá ætlum við líka í nudd í Mecca Spa, í partí til fyrrverandi nágrannakonu okkar (sem er líka að útskrifast) og svo ætlum við að borða um kvöldið á Grillinu. Þvílíkt prógramm!!!

Föstudaginn 29. október ætlum við svo að halda sameiginlega útskriftar og afmælisveislu í blúskjallaranum og þangað eru allir vinir mínir og kunningjar velkomnir. Þar ætla ég að detta alveg svakalega í það og hlæja keikur framan í dauðann. Faðma mann og annan og hlæja þangað til ég fæ magapínu!

Lífið er bara röð augnablika og ég á mörg skemmtileg augnablik framundan!!

lifið heil!

P.s. By the way....það er verið að tala um Hollywood kúrinn í útvarpinu. HVAÐ GETUR FÓLK VERIÐ VITLAUST???!!! Kaupa flösku af djús fyrir einhverja þúsundkalla! Christ on a pogo stick!

Saturday, August 28, 2004

Laugardagsblús

Hæ heimur (eða öllu heldur það nanóbrot af því nanóbroti heimsins sem les íslensku sem nennir að lesa röflið í mér)

Ég sit hér og hlusta á Finlandíu Síbelíusar. Blogga í staðinn fyrir að vinna, en það ætti ég í raun að vera að gera. Verkefni dagsins er að undirbúa beiðni um fjármagn til Fjárlaganefndar hins háa Alþingis. Til þess að gera það þarf ég að gera grófa rekstaráætlun fyrir næsta ár. Til að búa hana til þarf ég að uppfæra rekstraráætlun þessa árs m.t.t. milliuppgjörs til að áætla rekstarútgjöld þessa árs. Þær tölur nota ég svo til að áætla fjárþörf næsta árs (pauses, gags, vomits into waste basket, continues blogging).

Ég hef nákvæmlega enga hugmynd um hvernig ég á að fara að þessu. En ég læt það ekki stoppa mig.

En aftur að Síbelíusi og Finnunum. Finnar og Íslendingar eru nefnilega á mjög svipaðri bylgjulengd. Álíka suicidal, þunglyndir, drykkfelldir, kuldalegir (a.m.k. við fyrstu sýn). Því er ekki að furða að Síbelíus snerti einhverja strengi hjá manni. Ég ráfaði fyrir tilviljun inn í Tónspil í gær. Ætlaði að kaupa disk með Keane. Pétur átti það ekki, þannig að ég labbaði út með Sibelius og Grieg. Svona er lífið........what happens while you're making other plans.

Enn aftur að Finnum. Ég hef kynnst nokkrum Finnum í gegnum tíðina og þeir hafa allir verið prýðisfólk. Bjarni frændi minn er giftur finnskri snót og býr í Finnlandi. Hann er reyndar á sænskumælandi svæði, þannig að hann sleppur blessunarlega við að læra 17 föll. Finnska er nefnilega fáránlega flókið tungumál. Það hlýtur að vera rosalega erfitt að halda uppi samræðum á svona flóknu tungumáli. Eins og að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara, svo að ég steli ágætri samlíkingu frá Ólafi Hauki.

Kona frænda míns, hún Marianne, á samt ekki í vændræðum með Finnskuna, þótt hún sé alin upp í sænskumælandi hluta Finnlands (hún færi líka örugglega létt með að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara). Enda talar hún einnig nánast lýtalausa íslensku, auk norðurlandamálanna, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og ensku. Hún lærði reyndar í Oxford þannig að það fór svo sem ekkert á milli mála að hún væri klár.

Ég á líka mjög góðan vin sem er Finni. Hann heitir Petri Nietosvaara og var með mér í skóla í Englandi. Við kynntumst fljótlega eftir að námið hófst. Fundum strax að við vorum á svipaðri bylgjulengd, en það var nokkurs virði í hóp þar sem finna mátti fólk af ca. 40 þjóðernum. Við Petri lærðum mikið saman og vorum líka nokkuð duglegir að drekka saman bjór og brennivín, þótt við værum ekki hálft eins duglegir við það og Grikkirnir, sem reyndar gerðu lítið annað.

Það sem endanlega innsiglaði samstöðu okkar var samt sending sem Petri fékk frá mömmu sinni í Finnlandi (hún dó fyrir tveimur árum....tímastillirinn í saunabaðinu hennar klikkaði....pælið í því!). Sendingin samanstóð af ótal pokum af saltlakkrís í mismunandi útfærslum. Saltlakkrís er nefnilega ekki til í Englandi og Petri var greinilega farinn að sakna þess nóg til að biðja mömmu sína að senda sér birgðir. Þetta var súrrealískt móment þegar við sátum við eldhúsborðið á heimavistinni hans með hrúgu af saltlakkrís fyrir framan okkur á meðan við jórtruðum saltlakkrís, annarra þjóða kvikindum til mikillar hrellingar.

Sjitt.......hvað er ég að röfla um þessa Finna? Ég ætti að vera að vinna! (hey! þetta rímar)

Smell you later!

Saturday, August 21, 2004

Að mannast

Hvenær verður maður eiginlega fullorðinn? Hafið þið pælt í þessu? Finnist þér þú vera orðinn fullorðinn? Þetta er svolítið búið að vera að bögga mig upp á síðkastið. Ég er nefnilega ekki viss um að ég sé orðinn fullorðinn. Held samt að það gæti verið kominn tími til þess að fullorðnast. En spurningin er- hvenær er maður orðinn fullorðinn. Hvað er það?

Mín mynd af þessu ástandi er sú að sá fullorðni:
 • Viti hver hann er
 • Sé öruggur með sig
 • Viti hvað hann vill (og vill ekki)
 • Sé duglegur
 • Horfist í augu við raunveruleikann
 • Sé ábyrgur
 • Sé samfélagslega meðvitaður

Spáum að eins í hvern punkt og hvort "fullorðnir" (þ.e. þeir sem eru eldri en ég) uppfylli þessi skilyrði.

 • Að vita hver maður er- Stór hluti fólks hefur mjög takmarkaða hugmynd um þetta. Veist þú hver þú ert og hvað þú stendur fyrir? Ég er alls ekki viss. Flestir reyna að presentera slétt og fellt og ábyrgt yfirborð. Eru hins vegar með ófreskjur í undirdjúpunum sem sletta upp sporðinum fyrirvaralaust.
 • Að vera öruggur með sig- Nútíminn er geðveikislega flókinn. Menn þurfa að uppfylla ótrúlegustu kröfur. Allir eiga að vera gáfaðir, fallegir, fyndnir, vel klæddir......... stórir hlutar efnahagslífs okkar vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að við séum örugg með okkur, til að selja okkur snyrtivörur, bíla, föt.............
 • Að vita hvað maður vill- Við viljum allt. Við viljum ekki skuldbinda okkur. Heimurinn er eins og risavaxið hlaðborð. Við viljum smakka allt. Ef við veljum að eins einn rétt þá þurfum við að horfa á alla hina háma í sig kræsingarnar. Ég vil vera lögga, kennari, blaðamaður, læknir, eiginmaður, elskhugi, faðir, vinur, fræðimaður, ljóðskáld, aumingi, hetja, fyllibytta, prestur.........brandarakjúklingur og ofurhetja (þó að mér finnist fínt að vera framkvæmdastjóri). Við erum alltaf með alla möguleika stanslaust fyrir augunum: á sjónvarpsskjánum, í séð og heyrt, á netinu. Allir möguleikar eru opnir. Hvernig eigum við að vita hvað við viljum?
 • Að vera duglegur- Flestir eru latir. Ég er latur. Ég vildi helst komast upp með að gera bara það sem mér sýnist. Ég held að flestir hugsi eins.
 • Að horfast í augu við raunveruleikann- Flestir eru á örvæntingarfullum flótta undan raunveruleikanum. Drekka brennivín, sökkva sér í sápur, líma saman módel, rúnka sér endalaust yfir internetklámi, sökkva sér í vinnu (ekki allir gera sér grein fyrir því að í því geti fólgist veruleikaflótti).
 • Að vera ábyrgur- Það kannski einna helst að sumum takist þetta. Samt er gríðarlega algengt að menn hlaupist frá því að bera ábyrgð, sama hvort um er að ræða börnin þeirra, vinnuna, heilsuna, fjármálin eða eitthvað annað.
 • Að vera samfélagslega meðvitaður- Flestir hugsa nánast eingöngu um eigið rassgat. Enough said......

Niðurstaða: Þótt maður eigi það til að panikka yfir því hvað maður á langt í land með að verða fullorðinn, þá er e.t.v. örlítil huggun fólgin í því að vita að það er mjög fáum sem yfir höfuð tekst að ná því þroskastigi.

Lífið er líka svolítið eins og slönguspil. Það kemur fyrir að maður er svo heppinn að lenda á stiga. Maður nær ótrúlega langt með lítilli fyrirhöfn. Stígur svo á slöngu og rennur aftur niður á byrjunarreit.

Fyrst bloggið

Yo world!

Hmmmmmm.........

Nú er ég byrjaður að blogga að áeggjan vinar míns Jóns Knúts Ásmundssonar http://knuturinn.blogspot.com , en hann er nokkuð flinkur bloggari. Tæmir ekki bara ruslið úr höfðinu á sér daglega og dembir því yfir vefheima, heldur skrifar sjaldan og þá eitthvað af viti.

Ég stefni að því að taka hann mér til fyrirmyndar og reyna að taka gæði umfram magn. Ég mun leitast við að birta hér vangaveltur, minningarbrot, eðalbull og jafnvel kveðskap.

Svo að ég útskýri aðeins titil bloggsins þá ætla ég nú að taka fram að ég hef ekki fengið neina formlega greiningu sem kvíðasjúklingur. Ég er kannski ekkert kvíðnari en gengur og gerist, eða það held ég ekki.......eða kannski er ég það?.........sjitt........kannski á ég við raunverulegt vandamál að glíma?..........braaaaaaaaaa! (flaps wings uncontrollably, rushes from desk, collides with wall and loses consciousness)