Saturday, August 28, 2004

Laugardagsblús

Hæ heimur (eða öllu heldur það nanóbrot af því nanóbroti heimsins sem les íslensku sem nennir að lesa röflið í mér)

Ég sit hér og hlusta á Finlandíu Síbelíusar. Blogga í staðinn fyrir að vinna, en það ætti ég í raun að vera að gera. Verkefni dagsins er að undirbúa beiðni um fjármagn til Fjárlaganefndar hins háa Alþingis. Til þess að gera það þarf ég að gera grófa rekstaráætlun fyrir næsta ár. Til að búa hana til þarf ég að uppfæra rekstraráætlun þessa árs m.t.t. milliuppgjörs til að áætla rekstarútgjöld þessa árs. Þær tölur nota ég svo til að áætla fjárþörf næsta árs (pauses, gags, vomits into waste basket, continues blogging).

Ég hef nákvæmlega enga hugmynd um hvernig ég á að fara að þessu. En ég læt það ekki stoppa mig.

En aftur að Síbelíusi og Finnunum. Finnar og Íslendingar eru nefnilega á mjög svipaðri bylgjulengd. Álíka suicidal, þunglyndir, drykkfelldir, kuldalegir (a.m.k. við fyrstu sýn). Því er ekki að furða að Síbelíus snerti einhverja strengi hjá manni. Ég ráfaði fyrir tilviljun inn í Tónspil í gær. Ætlaði að kaupa disk með Keane. Pétur átti það ekki, þannig að ég labbaði út með Sibelius og Grieg. Svona er lífið........what happens while you're making other plans.

Enn aftur að Finnum. Ég hef kynnst nokkrum Finnum í gegnum tíðina og þeir hafa allir verið prýðisfólk. Bjarni frændi minn er giftur finnskri snót og býr í Finnlandi. Hann er reyndar á sænskumælandi svæði, þannig að hann sleppur blessunarlega við að læra 17 föll. Finnska er nefnilega fáránlega flókið tungumál. Það hlýtur að vera rosalega erfitt að halda uppi samræðum á svona flóknu tungumáli. Eins og að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara, svo að ég steli ágætri samlíkingu frá Ólafi Hauki.

Kona frænda míns, hún Marianne, á samt ekki í vændræðum með Finnskuna, þótt hún sé alin upp í sænskumælandi hluta Finnlands (hún færi líka örugglega létt með að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara). Enda talar hún einnig nánast lýtalausa íslensku, auk norðurlandamálanna, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og ensku. Hún lærði reyndar í Oxford þannig að það fór svo sem ekkert á milli mála að hún væri klár.

Ég á líka mjög góðan vin sem er Finni. Hann heitir Petri Nietosvaara og var með mér í skóla í Englandi. Við kynntumst fljótlega eftir að námið hófst. Fundum strax að við vorum á svipaðri bylgjulengd, en það var nokkurs virði í hóp þar sem finna mátti fólk af ca. 40 þjóðernum. Við Petri lærðum mikið saman og vorum líka nokkuð duglegir að drekka saman bjór og brennivín, þótt við værum ekki hálft eins duglegir við það og Grikkirnir, sem reyndar gerðu lítið annað.

Það sem endanlega innsiglaði samstöðu okkar var samt sending sem Petri fékk frá mömmu sinni í Finnlandi (hún dó fyrir tveimur árum....tímastillirinn í saunabaðinu hennar klikkaði....pælið í því!). Sendingin samanstóð af ótal pokum af saltlakkrís í mismunandi útfærslum. Saltlakkrís er nefnilega ekki til í Englandi og Petri var greinilega farinn að sakna þess nóg til að biðja mömmu sína að senda sér birgðir. Þetta var súrrealískt móment þegar við sátum við eldhúsborðið á heimavistinni hans með hrúgu af saltlakkrís fyrir framan okkur á meðan við jórtruðum saltlakkrís, annarra þjóða kvikindum til mikillar hrellingar.

Sjitt.......hvað er ég að röfla um þessa Finna? Ég ætti að vera að vinna! (hey! þetta rímar)

Smell you later!

Saturday, August 21, 2004

Að mannast

Hvenær verður maður eiginlega fullorðinn? Hafið þið pælt í þessu? Finnist þér þú vera orðinn fullorðinn? Þetta er svolítið búið að vera að bögga mig upp á síðkastið. Ég er nefnilega ekki viss um að ég sé orðinn fullorðinn. Held samt að það gæti verið kominn tími til þess að fullorðnast. En spurningin er- hvenær er maður orðinn fullorðinn. Hvað er það?

Mín mynd af þessu ástandi er sú að sá fullorðni:
 • Viti hver hann er
 • Sé öruggur með sig
 • Viti hvað hann vill (og vill ekki)
 • Sé duglegur
 • Horfist í augu við raunveruleikann
 • Sé ábyrgur
 • Sé samfélagslega meðvitaður

Spáum að eins í hvern punkt og hvort "fullorðnir" (þ.e. þeir sem eru eldri en ég) uppfylli þessi skilyrði.

 • Að vita hver maður er- Stór hluti fólks hefur mjög takmarkaða hugmynd um þetta. Veist þú hver þú ert og hvað þú stendur fyrir? Ég er alls ekki viss. Flestir reyna að presentera slétt og fellt og ábyrgt yfirborð. Eru hins vegar með ófreskjur í undirdjúpunum sem sletta upp sporðinum fyrirvaralaust.
 • Að vera öruggur með sig- Nútíminn er geðveikislega flókinn. Menn þurfa að uppfylla ótrúlegustu kröfur. Allir eiga að vera gáfaðir, fallegir, fyndnir, vel klæddir......... stórir hlutar efnahagslífs okkar vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að við séum örugg með okkur, til að selja okkur snyrtivörur, bíla, föt.............
 • Að vita hvað maður vill- Við viljum allt. Við viljum ekki skuldbinda okkur. Heimurinn er eins og risavaxið hlaðborð. Við viljum smakka allt. Ef við veljum að eins einn rétt þá þurfum við að horfa á alla hina háma í sig kræsingarnar. Ég vil vera lögga, kennari, blaðamaður, læknir, eiginmaður, elskhugi, faðir, vinur, fræðimaður, ljóðskáld, aumingi, hetja, fyllibytta, prestur.........brandarakjúklingur og ofurhetja (þó að mér finnist fínt að vera framkvæmdastjóri). Við erum alltaf með alla möguleika stanslaust fyrir augunum: á sjónvarpsskjánum, í séð og heyrt, á netinu. Allir möguleikar eru opnir. Hvernig eigum við að vita hvað við viljum?
 • Að vera duglegur- Flestir eru latir. Ég er latur. Ég vildi helst komast upp með að gera bara það sem mér sýnist. Ég held að flestir hugsi eins.
 • Að horfast í augu við raunveruleikann- Flestir eru á örvæntingarfullum flótta undan raunveruleikanum. Drekka brennivín, sökkva sér í sápur, líma saman módel, rúnka sér endalaust yfir internetklámi, sökkva sér í vinnu (ekki allir gera sér grein fyrir því að í því geti fólgist veruleikaflótti).
 • Að vera ábyrgur- Það kannski einna helst að sumum takist þetta. Samt er gríðarlega algengt að menn hlaupist frá því að bera ábyrgð, sama hvort um er að ræða börnin þeirra, vinnuna, heilsuna, fjármálin eða eitthvað annað.
 • Að vera samfélagslega meðvitaður- Flestir hugsa nánast eingöngu um eigið rassgat. Enough said......

Niðurstaða: Þótt maður eigi það til að panikka yfir því hvað maður á langt í land með að verða fullorðinn, þá er e.t.v. örlítil huggun fólgin í því að vita að það er mjög fáum sem yfir höfuð tekst að ná því þroskastigi.

Lífið er líka svolítið eins og slönguspil. Það kemur fyrir að maður er svo heppinn að lenda á stiga. Maður nær ótrúlega langt með lítilli fyrirhöfn. Stígur svo á slöngu og rennur aftur niður á byrjunarreit.

Fyrst bloggið

Yo world!

Hmmmmmm.........

Nú er ég byrjaður að blogga að áeggjan vinar míns Jóns Knúts Ásmundssonar http://knuturinn.blogspot.com , en hann er nokkuð flinkur bloggari. Tæmir ekki bara ruslið úr höfðinu á sér daglega og dembir því yfir vefheima, heldur skrifar sjaldan og þá eitthvað af viti.

Ég stefni að því að taka hann mér til fyrirmyndar og reyna að taka gæði umfram magn. Ég mun leitast við að birta hér vangaveltur, minningarbrot, eðalbull og jafnvel kveðskap.

Svo að ég útskýri aðeins titil bloggsins þá ætla ég nú að taka fram að ég hef ekki fengið neina formlega greiningu sem kvíðasjúklingur. Ég er kannski ekkert kvíðnari en gengur og gerist, eða það held ég ekki.......eða kannski er ég það?.........sjitt........kannski á ég við raunverulegt vandamál að glíma?..........braaaaaaaaaa! (flaps wings uncontrollably, rushes from desk, collides with wall and loses consciousness)