Saturday, August 28, 2004

Laugardagsblús

Hæ heimur (eða öllu heldur það nanóbrot af því nanóbroti heimsins sem les íslensku sem nennir að lesa röflið í mér)

Ég sit hér og hlusta á Finlandíu Síbelíusar. Blogga í staðinn fyrir að vinna, en það ætti ég í raun að vera að gera. Verkefni dagsins er að undirbúa beiðni um fjármagn til Fjárlaganefndar hins háa Alþingis. Til þess að gera það þarf ég að gera grófa rekstaráætlun fyrir næsta ár. Til að búa hana til þarf ég að uppfæra rekstraráætlun þessa árs m.t.t. milliuppgjörs til að áætla rekstarútgjöld þessa árs. Þær tölur nota ég svo til að áætla fjárþörf næsta árs (pauses, gags, vomits into waste basket, continues blogging).

Ég hef nákvæmlega enga hugmynd um hvernig ég á að fara að þessu. En ég læt það ekki stoppa mig.

En aftur að Síbelíusi og Finnunum. Finnar og Íslendingar eru nefnilega á mjög svipaðri bylgjulengd. Álíka suicidal, þunglyndir, drykkfelldir, kuldalegir (a.m.k. við fyrstu sýn). Því er ekki að furða að Síbelíus snerti einhverja strengi hjá manni. Ég ráfaði fyrir tilviljun inn í Tónspil í gær. Ætlaði að kaupa disk með Keane. Pétur átti það ekki, þannig að ég labbaði út með Sibelius og Grieg. Svona er lífið........what happens while you're making other plans.

Enn aftur að Finnum. Ég hef kynnst nokkrum Finnum í gegnum tíðina og þeir hafa allir verið prýðisfólk. Bjarni frændi minn er giftur finnskri snót og býr í Finnlandi. Hann er reyndar á sænskumælandi svæði, þannig að hann sleppur blessunarlega við að læra 17 föll. Finnska er nefnilega fáránlega flókið tungumál. Það hlýtur að vera rosalega erfitt að halda uppi samræðum á svona flóknu tungumáli. Eins og að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara, svo að ég steli ágætri samlíkingu frá Ólafi Hauki.

Kona frænda míns, hún Marianne, á samt ekki í vændræðum með Finnskuna, þótt hún sé alin upp í sænskumælandi hluta Finnlands (hún færi líka örugglega létt með að draga kvaðratrót með hausinn í grænmetistætara). Enda talar hún einnig nánast lýtalausa íslensku, auk norðurlandamálanna, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og ensku. Hún lærði reyndar í Oxford þannig að það fór svo sem ekkert á milli mála að hún væri klár.

Ég á líka mjög góðan vin sem er Finni. Hann heitir Petri Nietosvaara og var með mér í skóla í Englandi. Við kynntumst fljótlega eftir að námið hófst. Fundum strax að við vorum á svipaðri bylgjulengd, en það var nokkurs virði í hóp þar sem finna mátti fólk af ca. 40 þjóðernum. Við Petri lærðum mikið saman og vorum líka nokkuð duglegir að drekka saman bjór og brennivín, þótt við værum ekki hálft eins duglegir við það og Grikkirnir, sem reyndar gerðu lítið annað.

Það sem endanlega innsiglaði samstöðu okkar var samt sending sem Petri fékk frá mömmu sinni í Finnlandi (hún dó fyrir tveimur árum....tímastillirinn í saunabaðinu hennar klikkaði....pælið í því!). Sendingin samanstóð af ótal pokum af saltlakkrís í mismunandi útfærslum. Saltlakkrís er nefnilega ekki til í Englandi og Petri var greinilega farinn að sakna þess nóg til að biðja mömmu sína að senda sér birgðir. Þetta var súrrealískt móment þegar við sátum við eldhúsborðið á heimavistinni hans með hrúgu af saltlakkrís fyrir framan okkur á meðan við jórtruðum saltlakkrís, annarra þjóða kvikindum til mikillar hrellingar.

Sjitt.......hvað er ég að röfla um þessa Finna? Ég ætti að vera að vinna! (hey! þetta rímar)

Smell you later!

1 comment:

Valdimar said...

Gott blogg...djúpur, sérstaklega í saltlakkrísnum.