Saturday, August 21, 2004

Að mannast

Hvenær verður maður eiginlega fullorðinn? Hafið þið pælt í þessu? Finnist þér þú vera orðinn fullorðinn? Þetta er svolítið búið að vera að bögga mig upp á síðkastið. Ég er nefnilega ekki viss um að ég sé orðinn fullorðinn. Held samt að það gæti verið kominn tími til þess að fullorðnast. En spurningin er- hvenær er maður orðinn fullorðinn. Hvað er það?

Mín mynd af þessu ástandi er sú að sá fullorðni:
 • Viti hver hann er
 • Sé öruggur með sig
 • Viti hvað hann vill (og vill ekki)
 • Sé duglegur
 • Horfist í augu við raunveruleikann
 • Sé ábyrgur
 • Sé samfélagslega meðvitaður

Spáum að eins í hvern punkt og hvort "fullorðnir" (þ.e. þeir sem eru eldri en ég) uppfylli þessi skilyrði.

 • Að vita hver maður er- Stór hluti fólks hefur mjög takmarkaða hugmynd um þetta. Veist þú hver þú ert og hvað þú stendur fyrir? Ég er alls ekki viss. Flestir reyna að presentera slétt og fellt og ábyrgt yfirborð. Eru hins vegar með ófreskjur í undirdjúpunum sem sletta upp sporðinum fyrirvaralaust.
 • Að vera öruggur með sig- Nútíminn er geðveikislega flókinn. Menn þurfa að uppfylla ótrúlegustu kröfur. Allir eiga að vera gáfaðir, fallegir, fyndnir, vel klæddir......... stórir hlutar efnahagslífs okkar vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að við séum örugg með okkur, til að selja okkur snyrtivörur, bíla, föt.............
 • Að vita hvað maður vill- Við viljum allt. Við viljum ekki skuldbinda okkur. Heimurinn er eins og risavaxið hlaðborð. Við viljum smakka allt. Ef við veljum að eins einn rétt þá þurfum við að horfa á alla hina háma í sig kræsingarnar. Ég vil vera lögga, kennari, blaðamaður, læknir, eiginmaður, elskhugi, faðir, vinur, fræðimaður, ljóðskáld, aumingi, hetja, fyllibytta, prestur.........brandarakjúklingur og ofurhetja (þó að mér finnist fínt að vera framkvæmdastjóri). Við erum alltaf með alla möguleika stanslaust fyrir augunum: á sjónvarpsskjánum, í séð og heyrt, á netinu. Allir möguleikar eru opnir. Hvernig eigum við að vita hvað við viljum?
 • Að vera duglegur- Flestir eru latir. Ég er latur. Ég vildi helst komast upp með að gera bara það sem mér sýnist. Ég held að flestir hugsi eins.
 • Að horfast í augu við raunveruleikann- Flestir eru á örvæntingarfullum flótta undan raunveruleikanum. Drekka brennivín, sökkva sér í sápur, líma saman módel, rúnka sér endalaust yfir internetklámi, sökkva sér í vinnu (ekki allir gera sér grein fyrir því að í því geti fólgist veruleikaflótti).
 • Að vera ábyrgur- Það kannski einna helst að sumum takist þetta. Samt er gríðarlega algengt að menn hlaupist frá því að bera ábyrgð, sama hvort um er að ræða börnin þeirra, vinnuna, heilsuna, fjármálin eða eitthvað annað.
 • Að vera samfélagslega meðvitaður- Flestir hugsa nánast eingöngu um eigið rassgat. Enough said......

Niðurstaða: Þótt maður eigi það til að panikka yfir því hvað maður á langt í land með að verða fullorðinn, þá er e.t.v. örlítil huggun fólgin í því að vita að það er mjög fáum sem yfir höfuð tekst að ná því þroskastigi.

Lífið er líka svolítið eins og slönguspil. Það kemur fyrir að maður er svo heppinn að lenda á stiga. Maður nær ótrúlega langt með lítilli fyrirhöfn. Stígur svo á slöngu og rennur aftur niður á byrjunarreit.

No comments: