Tuesday, November 09, 2004

Eat the rich?

Einu sinni var ég kommúnisti. Nokkuð sannfærður. Mér fannst meika sens að það væri ósanngjarnt að kapitalistarnir ættu framleiðslutækin og sætu svo bara á rassgatinu á meðan öreigarnir þræluðu í hinum “svörtu satanísku myllum” þeirra. Á þeim tíma sem Marx skrifaði var þetta ekki út í loftið. Eigendur framleiðslutækjanna höfðu gríðarleg völd og meðferð þeirra á fólki var hræðileg. Tækniþróun, árangur verkalýðshreyfingarinnar (lágmarkslaun, takmarkaður vinnutími o.s.frv.) og vöxtur millistéttarinnar kom hins vegar í veg fyrir að bylting mikla ætti sér stað. Í stuttu máli skilaði framleiðsluvél kapitalismans “velsæld” til allra.

Þegar ég byrjaði í Háskólanum hætti ég að vera kommúnisti. Það var ekki kúl að vera kommúnisti um miðjan 10. áratuginn. Múrinn var fallinn og markaðshagkerfið hafði “sigrað”. Það virtist augljóst að þetta kerfi væri málið. Ríkisafskipti væru slæm og að markaðurinn ætti að fá að blómstra án afskipta yfirvalda. Milton Friedman og Hannes Hólmsteinn skáluðu í kampavíni og brostu breitt. Ég breyttist smátt og smátt í hálfgerðan hægri krata- einhverskonar frjálshyggju/velferðargaur (þ.e. Samfylkingarmann)

Nú er ég hins vegar að verða sífellt vinstrisinnaðari á ný. Ég hef upp á síðkastið verið að lesa mikið af bókum um skuggahliðar markaðshagkerfisins, en þær eru mun fleiri en Hannes Hólmsteinn og Milton lærifaðir hans vilja vera láta. Það slær mig hvað þetta er ómannskjulegt kerfi.

Það sem keyrir kerfið áfram er fjármagn. Andlitslaust fjármagn sem þarf að vaxa. Krafan um vöxt er ófrávíkjanleg og stöðug. Fjármagnið leitar þangað sem vaxtar er að vænta. Vöxturinn felst fyrst og fremst í hlutabréfaverði, en það stjórnast bæði af afkomu fyrirtækja og væntingum markaðarins um framtíðarmöguleika fyrirtæksins. Markaðsfyrirkomulagið gerir því gífurlegar kröfur til fyrirtækjanna um arðsemi. Stjórnendur fyrirtækjanna VERÐA að sýna fram á skjótan vöxt og gróða, annars eru þeir látir fjúka (eða missa bónusinn sinn). Þessi gífurlegi þrýstingur veldur m.a. eftirfarandi:

-Stjórnendur víla ekki fyrir sér að sniðganga leikreglur markaðarins þegar það er mögulegt (eins og olíufélögin gerðu t.d.)
-Fyrirtækin reyna að ná sem allra mestu út úr starfsmönnum fyrir sem minnstan pening- Þau víla ekki fyrir sér að nota vinnuafl fólks í einræðisríkjum sem vinnur undir byssukjöftum.

-Fyrirtæki finna upp ómennskjuleg kerfi til að kúga fólk til framleiðni. Menn eiga að vinna á ákveðnum tímum, á ákveðinn hátt, á ákveðnum fatnaði o.frv.
-Fyrirtækin hika ekki við að menga umhverfið. Ef þau komast upp með það (sökum lítillar löggjafar eða eftirlits) og það sparar þeim peninga, þá gera þau það.
-Fyrirtækin hika ekki við að stofna heilsu neytenda í voða. Þeim er nákvæmlega sama þótt vörur þeirra drepi fólk ef krónurnar halda áfram að bætast í baukinn. Tóbaksfyrirtækin eru gott dæmi, en mýmörg önnur dæmi fyrirfinnast, svo sem McDonalds, Ford (man einhver eftir Pinto?), General Mills o.fl. Fyrirtækin halda því sífellt fram að neytendur hafi frjálst val um að kaupa vörur þeirra, en þau rök eiga ekki við rök að styðjast þegar auglýsingaherferðir eru hannaðar með ungabörn í huga og neytendur þurfa doktorsgráðu í matvælafræði til að lesa á matvælaumbúðir.
-Fyrirtæki hika ekki við að níðast á fátækum þjóðum til að auka hagnað sinn. Í þeim tilgangi njóta þau dyggs stuðnings Alþjóða-gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans (Áhugasamir geta t.d. kynnt sér það sem gerðist í Argentínu)

Hagfræðingar halda flestir uppi vörnum fyrir kerfið og halda því fram að það virki. Og að vissu leyti virkar það. Það hvetur vissulega til mikils vaxtar og virðisauka. Það að vissu leyti mikilli hagsæld til okkar allra, þ.e. ef við túlkum hagsæld sem getuna til að kaupa allskonar drasl, bæði nýtilegt og fánýtt. Það má svo sem segja að markaðsskipulagið sé hlutlaust- öflugt tæki til vaxtar og framfara. Gallinn liggur kannski í því hvernig það er notað. Kannski liggur gallinn í þessu andlitsleysi fjármagnsins og þeirri staðreynd að sá þrýstingur sem stjórnendur eru undir með að skapa vöxt veldur því að þeir virðast tilbúnir til að drepa fólk og skaða náttúruna til að ná vaxtarmarkmiðunum.

Hvernig sem ég sný þessu fyrir mér þá kemst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Það sem ég held að við þurfum er:
-öflugt lýðræðisskipulag þar sem borgarar hafa sem mest tækifæri til að segja álit sitt.
-Skýr lagarammi utan um markaðinn og hvað honum leyfist
-Fjármagnseigendur, stórnendur og stjórnarmenn fyrirtækja verði látnir sæta ábyrgð fyrir afbrot sín.
-Öflugar ríkisstofnanir sem hafa eftirlit með því sem fram fer á markaðnum og framfylgja lögum.
-Öflugir, sjálfstæðir, gagnrýnir og vandvirkir fjölmiðlar sem vekja athygli á því sem miður fer og veita stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald.

Við þurfum MANNESKULEGRA kerfi en það sem við búum við í dag. Núverandi kerfi gengur ekki til frambúðar. Ef við breytum þessu ekki, endar þetta með blóðsúthellingum og náttúruhamförum!


Ég var að lesa yfir það sem ég skrifaði. Oh....my....God...hvað þetta er leiðinlegt og niðurdrepandi. Ég held ég skelli mér á prósak. Vá hvað það hlýtur að vera leiðinlegt að vera Ögmundur Jónasson og hugsa svona alla daga!!!!

Smell you later