Skip to main content

Eat the rich?

Einu sinni var ég kommúnisti. Nokkuð sannfærður. Mér fannst meika sens að það væri ósanngjarnt að kapitalistarnir ættu framleiðslutækin og sætu svo bara á rassgatinu á meðan öreigarnir þræluðu í hinum “svörtu satanísku myllum” þeirra. Á þeim tíma sem Marx skrifaði var þetta ekki út í loftið. Eigendur framleiðslutækjanna höfðu gríðarleg völd og meðferð þeirra á fólki var hræðileg. Tækniþróun, árangur verkalýðshreyfingarinnar (lágmarkslaun, takmarkaður vinnutími o.s.frv.) og vöxtur millistéttarinnar kom hins vegar í veg fyrir að bylting mikla ætti sér stað. Í stuttu máli skilaði framleiðsluvél kapitalismans “velsæld” til allra.

Þegar ég byrjaði í Háskólanum hætti ég að vera kommúnisti. Það var ekki kúl að vera kommúnisti um miðjan 10. áratuginn. Múrinn var fallinn og markaðshagkerfið hafði “sigrað”. Það virtist augljóst að þetta kerfi væri málið. Ríkisafskipti væru slæm og að markaðurinn ætti að fá að blómstra án afskipta yfirvalda. Milton Friedman og Hannes Hólmsteinn skáluðu í kampavíni og brostu breitt. Ég breyttist smátt og smátt í hálfgerðan hægri krata- einhverskonar frjálshyggju/velferðargaur (þ.e. Samfylkingarmann)

Nú er ég hins vegar að verða sífellt vinstrisinnaðari á ný. Ég hef upp á síðkastið verið að lesa mikið af bókum um skuggahliðar markaðshagkerfisins, en þær eru mun fleiri en Hannes Hólmsteinn og Milton lærifaðir hans vilja vera láta. Það slær mig hvað þetta er ómannskjulegt kerfi.

Það sem keyrir kerfið áfram er fjármagn. Andlitslaust fjármagn sem þarf að vaxa. Krafan um vöxt er ófrávíkjanleg og stöðug. Fjármagnið leitar þangað sem vaxtar er að vænta. Vöxturinn felst fyrst og fremst í hlutabréfaverði, en það stjórnast bæði af afkomu fyrirtækja og væntingum markaðarins um framtíðarmöguleika fyrirtæksins. Markaðsfyrirkomulagið gerir því gífurlegar kröfur til fyrirtækjanna um arðsemi. Stjórnendur fyrirtækjanna VERÐA að sýna fram á skjótan vöxt og gróða, annars eru þeir látir fjúka (eða missa bónusinn sinn). Þessi gífurlegi þrýstingur veldur m.a. eftirfarandi:

-Stjórnendur víla ekki fyrir sér að sniðganga leikreglur markaðarins þegar það er mögulegt (eins og olíufélögin gerðu t.d.)
-Fyrirtækin reyna að ná sem allra mestu út úr starfsmönnum fyrir sem minnstan pening- Þau víla ekki fyrir sér að nota vinnuafl fólks í einræðisríkjum sem vinnur undir byssukjöftum.

-Fyrirtæki finna upp ómennskjuleg kerfi til að kúga fólk til framleiðni. Menn eiga að vinna á ákveðnum tímum, á ákveðinn hátt, á ákveðnum fatnaði o.frv.
-Fyrirtækin hika ekki við að menga umhverfið. Ef þau komast upp með það (sökum lítillar löggjafar eða eftirlits) og það sparar þeim peninga, þá gera þau það.
-Fyrirtækin hika ekki við að stofna heilsu neytenda í voða. Þeim er nákvæmlega sama þótt vörur þeirra drepi fólk ef krónurnar halda áfram að bætast í baukinn. Tóbaksfyrirtækin eru gott dæmi, en mýmörg önnur dæmi fyrirfinnast, svo sem McDonalds, Ford (man einhver eftir Pinto?), General Mills o.fl. Fyrirtækin halda því sífellt fram að neytendur hafi frjálst val um að kaupa vörur þeirra, en þau rök eiga ekki við rök að styðjast þegar auglýsingaherferðir eru hannaðar með ungabörn í huga og neytendur þurfa doktorsgráðu í matvælafræði til að lesa á matvælaumbúðir.
-Fyrirtæki hika ekki við að níðast á fátækum þjóðum til að auka hagnað sinn. Í þeim tilgangi njóta þau dyggs stuðnings Alþjóða-gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans (Áhugasamir geta t.d. kynnt sér það sem gerðist í Argentínu)

Hagfræðingar halda flestir uppi vörnum fyrir kerfið og halda því fram að það virki. Og að vissu leyti virkar það. Það hvetur vissulega til mikils vaxtar og virðisauka. Það að vissu leyti mikilli hagsæld til okkar allra, þ.e. ef við túlkum hagsæld sem getuna til að kaupa allskonar drasl, bæði nýtilegt og fánýtt. Það má svo sem segja að markaðsskipulagið sé hlutlaust- öflugt tæki til vaxtar og framfara. Gallinn liggur kannski í því hvernig það er notað. Kannski liggur gallinn í þessu andlitsleysi fjármagnsins og þeirri staðreynd að sá þrýstingur sem stjórnendur eru undir með að skapa vöxt veldur því að þeir virðast tilbúnir til að drepa fólk og skaða náttúruna til að ná vaxtarmarkmiðunum.

Hvernig sem ég sný þessu fyrir mér þá kemst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Það sem ég held að við þurfum er:
-öflugt lýðræðisskipulag þar sem borgarar hafa sem mest tækifæri til að segja álit sitt.
-Skýr lagarammi utan um markaðinn og hvað honum leyfist
-Fjármagnseigendur, stórnendur og stjórnarmenn fyrirtækja verði látnir sæta ábyrgð fyrir afbrot sín.
-Öflugar ríkisstofnanir sem hafa eftirlit með því sem fram fer á markaðnum og framfylgja lögum.
-Öflugir, sjálfstæðir, gagnrýnir og vandvirkir fjölmiðlar sem vekja athygli á því sem miður fer og veita stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald.

Við þurfum MANNESKULEGRA kerfi en það sem við búum við í dag. Núverandi kerfi gengur ekki til frambúðar. Ef við breytum þessu ekki, endar þetta með blóðsúthellingum og náttúruhamförum!


Ég var að lesa yfir það sem ég skrifaði. Oh....my....God...hvað þetta er leiðinlegt og niðurdrepandi. Ég held ég skelli mér á prósak. Vá hvað það hlýtur að vera leiðinlegt að vera Ögmundur Jónasson og hugsa svona alla daga!!!!

Smell you later

Comments

jon said…
Nei, þetta eru fínar pælingar. Maður var sannfærður kommi hérna í denn en svo gekk maður í gegnum svona Patrick Bateman-tímabil þar sem frelsi og góður fatasmekkur var málið. Upp á síðkastið hefur maður hægt og bítandi færst til vinstri aftur og nú er svo komið að maður telur í fullri alvöru að bylting sé málið - blóðug bylting!

Kv.

JKÁ
Anonymous said…
þetta er alveg þrælskemmtileg grein... Ekki þar með sagt að prósak sé eitthvað slæm hugmynd

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…