Monday, December 13, 2004

Af endajöxlum og rófubeinum

Ég datt inn í þátt með Sirrý, okkar útgáfu af Opruh. Þar var hún að tala við fólk sem er ofvirkt og þau vandamál sem fylgja því. Þá datt upp í huga minn hugmynd sem ég hef velt fyrir mér annað slagið. Er ofvirkni ekki bara "eðlileg"? Og árásargirni, kynferðileg áreytni og margt fleira sem við telum slæmt í nútímasamfélagi?

Nútímavæðingin hefur nefnilega átt sér stað með ótrúlega skjótum hætti. Við erum að tala um nokkra skitna áratugi í tugþúsund ára þróunarsögu Homo Sapiens, en á undan honum gengu frumtegundir mannsins um jörðina í hundruðir þúsunda ára. Í gegnum tíðina hafa ákveðin einkenni komið manninum best í lífsbaráttunni. Einkenni eins og mikil virkni, dugnaður, áræði, sterk kynhvöt og jafnvel árásargirni hafa verið einkenni sem hafa lengst af komið manninum vel. Maðurinn þurfti að veiða í matinn, verjast óvinum, viðhalda kynstofninum o.s.frv. Mjúki nútímamaðurinn hefði ekki lifað lengi af í hörðu umhverfi veiðimanna og safnara. Að sama skapi passar hinn fullkomni veiðimaður og safnari ekki vel inn í samfélag nútímans. Hann er greindur ofvirkur (ef hann er heppinn) og settur á lyf. Aðrir eru ekki eins heppnir og enda í fangelsum eða utan garðs í lífinu.

Nú fara örugglega einhverjir að saka mig um líffræðilega nauðhyggju, enda eru margir vinir mínir félagsvísindamenn. Ég vil því taka skýrt fram að ég hef alltaf verið "nurture" megin í því stóra debati. Ég held að atlæti í uppvexti skipti mun meira máli heldur en genakokteillinn viðkomandi einstaklingur er smíðaður úr. Hins vegar getum við ekki horft fram hjá því að maðurinn er dýr. Og dýr þróast eftir lögmálum náttúrunnar. Þeir hæfustu lifa af og lengst af hafa hinir ofvirku, árásarhneigðu og kynóðu verið hæfastir. Nú passa þeir bara ekki lengur inn í munstrið.

Með þessu er ég engan vegin að afsaka ofbeldishegðun eða þau vandamál sem fylgja þessum "endajöxlum" mannlegrar þróunar. Ég vil bara benda á að það eru öflug líffræðileg lögmál sem stýra talsvert miklu í hegðun mannsins og það er staðreynd sem ekki á upp á pallborðið. Það er ekkert að þeim sem eru ofvirkir eða lesblindir. Það er samfélagið sem breyttist, ekki þeir.

Kannski munu þau líffræðilegu einkenni sem lengst af hafa haldið manninum á lífi smátt og smátt dofna og hverfa. Hver veit? En það er líka á hreinu að þá mun mannkynið deyja út í næstu óhjákvæmilegu katastrofu sem gengur yfir jörðina (svo sem ísöld). Við mjúku, bókhneigðu Latté mennirnir munum nefnilega bara hjúfra okkur niður í holu og frjósa í hel. Og þar með verður homo sapiens allur.

Við skulum því ekki fordæma frummennina meðal vor. Þeir gætu átt eftir að bjarga mannkyninu.