Skip to main content

Af endajöxlum og rófubeinum

Ég datt inn í þátt með Sirrý, okkar útgáfu af Opruh. Þar var hún að tala við fólk sem er ofvirkt og þau vandamál sem fylgja því. Þá datt upp í huga minn hugmynd sem ég hef velt fyrir mér annað slagið. Er ofvirkni ekki bara "eðlileg"? Og árásargirni, kynferðileg áreytni og margt fleira sem við telum slæmt í nútímasamfélagi?

Nútímavæðingin hefur nefnilega átt sér stað með ótrúlega skjótum hætti. Við erum að tala um nokkra skitna áratugi í tugþúsund ára þróunarsögu Homo Sapiens, en á undan honum gengu frumtegundir mannsins um jörðina í hundruðir þúsunda ára. Í gegnum tíðina hafa ákveðin einkenni komið manninum best í lífsbaráttunni. Einkenni eins og mikil virkni, dugnaður, áræði, sterk kynhvöt og jafnvel árásargirni hafa verið einkenni sem hafa lengst af komið manninum vel. Maðurinn þurfti að veiða í matinn, verjast óvinum, viðhalda kynstofninum o.s.frv. Mjúki nútímamaðurinn hefði ekki lifað lengi af í hörðu umhverfi veiðimanna og safnara. Að sama skapi passar hinn fullkomni veiðimaður og safnari ekki vel inn í samfélag nútímans. Hann er greindur ofvirkur (ef hann er heppinn) og settur á lyf. Aðrir eru ekki eins heppnir og enda í fangelsum eða utan garðs í lífinu.

Nú fara örugglega einhverjir að saka mig um líffræðilega nauðhyggju, enda eru margir vinir mínir félagsvísindamenn. Ég vil því taka skýrt fram að ég hef alltaf verið "nurture" megin í því stóra debati. Ég held að atlæti í uppvexti skipti mun meira máli heldur en genakokteillinn viðkomandi einstaklingur er smíðaður úr. Hins vegar getum við ekki horft fram hjá því að maðurinn er dýr. Og dýr þróast eftir lögmálum náttúrunnar. Þeir hæfustu lifa af og lengst af hafa hinir ofvirku, árásarhneigðu og kynóðu verið hæfastir. Nú passa þeir bara ekki lengur inn í munstrið.

Með þessu er ég engan vegin að afsaka ofbeldishegðun eða þau vandamál sem fylgja þessum "endajöxlum" mannlegrar þróunar. Ég vil bara benda á að það eru öflug líffræðileg lögmál sem stýra talsvert miklu í hegðun mannsins og það er staðreynd sem ekki á upp á pallborðið. Það er ekkert að þeim sem eru ofvirkir eða lesblindir. Það er samfélagið sem breyttist, ekki þeir.

Kannski munu þau líffræðilegu einkenni sem lengst af hafa haldið manninum á lífi smátt og smátt dofna og hverfa. Hver veit? En það er líka á hreinu að þá mun mannkynið deyja út í næstu óhjákvæmilegu katastrofu sem gengur yfir jörðina (svo sem ísöld). Við mjúku, bókhneigðu Latté mennirnir munum nefnilega bara hjúfra okkur niður í holu og frjósa í hel. Og þar með verður homo sapiens allur.

Við skulum því ekki fordæma frummennina meðal vor. Þeir gætu átt eftir að bjarga mannkyninu.

Comments

Orri said…
Ein theorían er sú að það hafi hentað að í mannshjörðum sé einn og einn ofvirkur sem eltir öll áreiti sem hann kemur auga á. Hinir ofvirku hafa verið mjög skilvirkir veiðimenn en ekki ennst nema í stuttan tíma. Þar sem frumskógarlögmálið ríkir er ofvirkt fólk ekki líklegt til að lifa mjög lengi. Það myndi snemma ellta bráð sína fram af næstu klettum.....en þessi kenning er týpísk darwinísk post-hoc skýring. Ekkert hægt að fullyrða semsagt.
Siggi Óla said…
Haha

Fyndin kenning. Einn ofvirkur sem fiktar í öllu og prófar allt og er sá fyrsti sem rándýr ráðast á (hey, hvaða hljóð er þetta fyrir utan hellinn...best að athuga það........ARRRRRRGH....ZORG!...BÚRGAN!.... SVERÐTÍGUR!!!). Svona einskonar tilraunadýr hópsins.

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…