Skip to main content

The gospel according to Siggi Óla

Það hefur talsvert verið skrafað um trúarbrögð upp á síðkastið. Bænir í skólum. Er Kristni betri en Islam/Hindúismi o.s.frv. Í kjölfarið fór ég aðeins að pæla.

Ég held að stærsta vandamál trúarbragðanna séu kreddur þeirra aðila sem þykjast starfa í umboði Guðs. Þessir aðilar (prestar, klerkar, kirkjur, moskur, o.s.frv.) telja sig þekkja eitthvað sem ég held að sé í eðli sínu óþekkjanlegt. Trúarbrögðin búa til kenningakerfi til að útskýra heiminn og samband Guðs og manna- sem er svo sem skiljanlegt. Maðurinn er jú ekkert mjög góður í að höndla óvissu. Það er ákveðin fróun í því að vita hvernig heimurinn varð til, hvert við förum þegar við deyjum og að afa og ömmu skuli líða vel í himnaríki. Þessar kreddur hafa líka e.t.v. veitt mönnum einhverja hugarró við ömurleg lífsskilyrði fyrr á öldum og gera e.t.v. enn í fátækari löndum heimsins.

Vandamálið er það að við vitum ekki hvernig heimurinn varð til og við vitum ekki hvað gerist þegar við deyjum. Vegir Guðs ERU órannsakanlegir.

Samt smíða menn fáránlegar kenningar um þrískiptingu Guðdómsins (Faðir, sonur og heilög önd), halda fast í þá skoðun Jesús hafi verið sonur Guðs (í meiri skilningi heldur en ég og þú) og að þessi hörmungaratburður þegar fáfróðir afglapar hengdu hann upp á kross hafi verið Guðs vilji en ekki sorglegt óhæfuverk.

Vandamálið er að það trúa afskaplega fáir á þessar kreddur.

Þetta sló mig í aðventumessu í Hallgrímskirkju í hitteðfyrra. Ég fór einn í messu á sunnudegi, aðallega vegna þess að Karlakór Reykjavíkur var að syngja. Það sló mig hins vegar í messunni að ég trúði ekki einu einasta orði sem presturinn sagði. Þvílíkt endemis bull og þvæla. Þeim tekst meira að segja oftast að troða guðspjallaþvælunni inn í predikanirnar, sem eru annars fyrirtaks tækifæri til að útskýra hvernig Guð getur verið mönnum stoð og stytta í hinu hversdagslega lífi.

Þegar söfnuðurinn fór með trúarjátninguna þagði ég þunnu hljóði- sjokkeraður yfir því að uppgöta að ég get ekki talið mig Kristinn mann.

Samt trúi ég á Guð. Ég tel mig hafa fundið fyrir návist hans/hennar/þess á kveðnum stundum lífs míns. Þessi trú mín er samt mjög óskýr og móðukennd. Ég trúi því að þessi heimur okkar geti verið dásamlegur staður, þótt lífið sé vissulega erfitt. Ég trúi á hið góða- í manninum og náttúrunni. Ég trúi á fegurð og ást. Og ég er sannfærður um að maður getur átt í persónulegu sambandi við Guð, alheiminn eða hvað sem við eigum að kalla það. Ég get hins vegar ekki útskýrt í smáatriðum hver eða hvað Guð er. En það getur líka enginn- sama hvað menn þykjast.

Ég held að það gæti stórlega eflt kirkjuna ef menn horfðust í augu við þá staðreynd að vegir Guðs séu órannsakanlegir. Horfðust í augu við þá staðreynd að lang flestir trúa í hjarta sínu ekki kreddum kirkjunnar- Þær hafa enga merkingu fyrir flest okkar.

Kirkjustarfið ætti að snúast um ástríka samveru fólks sem þjappar sér saman í smæð sinni og vill njóta nærveru við þetta óúrskýranlega alheimsafl og hvert annað, hlusta á fallega tónlist og gleðjast. Slíkt kirkjustarf er vel hægt að skipuleggja án þess að tyggja kreddur upp úr Biblíunni. Kirkjustarfið gæti snúist um það hvernig við getum elskað náungann og sjálf okkur. Hvernig við getum elskað þetta líf sem okkur er gefið og náð sambandi við hið guðdómlega innra með okkur með hugleiðslu, hugleiðingum og orði og æði í daglegu lífi okkar.

Góðar stundir

Comments

Anonymous said…
Amen!
kv.

JK.
Stefán Arason said…
En er það ekki það sem fólk gerir í kirkju? Ég fer í kirkju á hverjum sunnudegi, þar sem að það er mín vinna, og þar sé ég fullt af fólki sem er glatt saman, heilsar upp á hvort annað og syngur sálma og hlustar á dagsins mótettu (músik með texta). Þau fara líka með bænir og trúarjátningu (sem ég geri yfirleitt ekki, nema þegar ég þarf að syngja hana).
Er vandamálið ekki bara þeir sem vilja troða trúnni upp á aðra með góðu eða illu? Ekki trúin sjálf?
Siggi Óla said…
Örugglega eitthvað til í þessu Stefán. Hins vegar held ég að kenningar trúarbragðanna standi óhjákvæmilega þversum í hálsi flestra hugsandi manna (og kvenna). Það fer líka yfirleitt stór hluti af helgihaldinu í að þylja upp úr Biblíunni eða leggja út af ákveðnum köflum hennar og Biblían er jú marg-editerað safn ýmiskonar þvælu sem menn hafa skrifað í aldanna rás.
Anonymous said…
Snúast trúarbrögð ekki aðallega um það að stjórna öðrum? Klerkar/imanar/o.s.frv. vilja að fólk hegði sér samkvæmt hinum eða þessum reglunum um hvað sé rétt líferni og hóta þjáningu sé því ekki hlýtt.

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…