Tuesday, June 21, 2005

Búhú.........fríið búið

Jæja

Þá er sumarfríið búið :-( Mikið djöfull hafði maður það samt gott í Portúgal. Ég náði m.a. að lesa einar sex skáldsögur, sem var dásamlegt. Yfirleitt hef ég enga þolinmæði í að lesa reifara um morð og viðbjóð, en af einhverjum ástæðum höfðuðu slíkar bókmenntir mjög til mín þar sem ég lá á sundlaugarbakkanum með bjór í hönd. Skrítið.

Við átum líka mikið af góðum mat- sérstaklega fiski, en Portúgalir eru duglegir að elda fisk. Ég drakk líka mörg áhugaverð vín, en ég hef aldrei verið eins ruglaður í ríminu og þegar ég var að reyna að velja vín úti í búð. Ég veit ekkert um Portúgölsk vín- hvorki ræktunarsvæði, né þrúgur. Mörg þeirra vína sem ég smakkaði voru samt glettilega góð.

Það er samt eitthvað sem böggar mig pínulítið við svona algjör ferðamannasvæði. Lífið þarna snýst allt um ferðamennsku og það að plokka sem mesta peninga af túrhestunum. Og ferðamannastraumurinn er svo mikill að þeir þurfa ekki að hafa neitt sérlega mikið fyrir þessu, auk þess sem fjöldinn hefur örugglega ekki jákvæð áhrif á gestrisni og viðmót. Þetta virkaði því á köflum svolítið þurrt og.......................innantómt...........ég kem orðum ekki betur að því.

Reyndar var mér í þessu tilviki fullkomlega sama. Ég var aðeins þarna til að slappa af í friði. Mér var nokkuð sama um lókal kúltúrinn og ég held að það sama eigi við um stóran hluta þeirra sem kaupa sér pakkaferðir til sólarlanda. Dóttur minni fannst líka rosalega gaman, en hún er nú meðhöndlun vegna klór- og rjómaísseitrunar :-) Við fórum að sjálfsögðu að horfa á höfrunga og sæljón og að renna okkur í vatnsrennibrautum og þá skaut nú krakkinn í manni upp kollinum. Það er eitthvað við það að renna í ísköldu vatni á 50 km. hraða með sundskýluna lengst uppi í rassinum sem fær mann til að brosa eins og kjána.

No comments: