Tuesday, November 29, 2005

Pönnukökur með sírópi

Var að koma heim frá Kanada. Þar var gaman. Og kalt. Ferðin gekk í stórum dráttum vel, en hún byrjaði þó ekki vel.

Hún byrjaði nefnilega á því að ég gleymdi vegabréfinu mínu. Maður þarf öllu jöfnu að muna eftir þremur hlutum þegar maður fer til útlanda: Vegabréfinu, Visakortinu og hausnum á sér. Yfirleitt er two out of three ekki slæmt þegar ég er annarsvegar, en mér leið samt eins og amöbu þegar daman í á check-in deskinu spurði hinnar óhjákvæmilegu spurningar: "Ertu með vegabréf?". Mér hefði ekki orðið meira um þótt hún hefði vippað sér fram fyrir borðið og þrusað í punginn á mér.....í takkaskóm. Mér hefur aldrei fundist ég vera jafn heimskur. Ekki hjálpaði til að ég var í hópi fólks sem var á leið í sama flug- þ.m.t. yfirmaður minn. Dísus kræst.

Mér tókst að fara alla leið til Keflavíkur án þess að hugsa nokkurntíman um fokking vegabréfið! Þetta er náttúrulega ekki hægt. Ég hef tekið ákvörðun um að láta taka skinn af fætinum á mér og græða á magann á mér þannig að ég hafi þar lítinn poka (svona eins og á kengúrum). Þar ætla ég að geyma vegabréfið. Alltaf.

Anyhoo........Ferðin var að öðru leyti fín. Ég fræddist um það hvernig ál er framleitt og kynntist fullt af skemmtilegu fólki. Quebéc-búar eru með eindæmum skemmtilegt og léttlynt fólk sem hefur gaman af því að borða, drekka og hlæja. Ég held að ég hafi aldrei heyrt jafn mikinn hlátur á einum vinnustað og í álverinu í Deschambault.

Við gistum á litlu gistihúsi sem var eins og klippt út úr væminni bíómynd- alveg ótrúlega flott og kósí- komplít með feitum, skeggjuðum vert sem heitir Claude. Hann eldar besta morgunmat sem ég hef smakkað: Pönnukökur með sírópi og.............wait for it...............SKINU OG OSTI! Þvílík snilld. Ég táraðist af sorg yfir því að Fjalar skyldi ekki vera með mér til að upplifa þetta. Allur annar matur þarna var reyndar alveg frábærlega góður- ég borðaði m.a. önd og dádýr (Andrés og Bamba) og var hvort tveggja hrikalega gott.

Við heimsóttum höfuðborg Quebéc sem heitir Quebéc City. Það er fallegasta borg sem ég hef komið til í N-Ameríku. Miðborgin er öll byggð á milli 1600 og 1700 og er nánast óbreytt (engin fokking McDonalds og KFC skilti). Í Quebec City keypti ég mér geðveikan sparigrís og málverk.

Á heimleiðinni stoppaði ég eina nótt í Boston og chillaði þar í einn dag. Mældi götur og slappaði af þess á milli. Keypti fátt- ef undan eru skildar smá gjafir handa eiginkonu og dóttur. Jú, ég keypti mér reyndar Tivoli útvarp. Snilldargræja. Ég fór líka í frábæra gítarbúð sem heitir First Act. Þeir eru með sitt eigið merki og framleiða alveg dæmalaust svala gítara. Mæli með þeim.

Svo er orðið ljóst mál að ég má ekki fara inn í bókabúðir. Mér tókst að forðast það alla ferðina, en svo datt ég inn í bókabúð á flugvellinum í Boston. Gekk út með ævisögu Anthony Kiedies (of Chilipepper fame) og Ghengis Khan (of chopping people to tiny bits fame), auk nýrrar skáldsögu eftir Stephen King (of writing stories about people being chopped to tiny bits fame).

Það er ljóst að ferðalögum er ekki lokið hjá mér. Ég er að fara til Hollands í næstu viku og til Búdapest um miðjan janúar. Jæja...........mér leiðist ekki á meðan.

Smell you later............

No comments: