Thursday, February 16, 2006

Fer heimur versnandi?

Á dögunum fór fram áhugaverð umræða um stöðu íslenskunnar. Yfirleitt hefur mér fundist umræða um stöðu málsins vera fremur hallærisleg og dómsdagsspár um hnignun málsins hafa runnið inn um annað eyra mitt og og út um hitt. Nú lagði ég hins vegar við hlustir.

Það er nefnilega varla hægt að neita því að maður hafi orðið var við slæma málnotkun og slælegan málskilning á síðari tímum. Ég verð t.d. var við skelfilegar málvillur í fjölmiðlum (og er þó ekki íslenskufræðingur) og slettur í daglegu máli taka orðið út yfir allan þjófabálk. Og stór hluti yngri kynslóðarinnar hefði ekki skilið setninguna hér á undan (þetta með þjófabálkinn). Þegar ég tala við 15 ára gamlan bróður minn þá hváir hann reglulega, eða skellir hreinlega uppúr, og spyr mig hvað ég sé eiginlega að meina (“Er þetta orð? Ertekki að djóka mar”). Kennarar sem ég hef rætt málið við segja sömu sögu. Þeir eyða orðið talsverðum tíma í að útskýra orð sem hefðu engra skýringa þarfnast við fyrir örfáum árum síðan.

Skýringanna þarf ekki að leita langt. Menningarumhverfi okkar er gegnsýrt af enskri tungu og börn lesa orðið í miklu minna mæli en áður þekktist.

En..........so what? (pun intended)

Er ekki bara allt í lagi þótt krakkar lesi minna? Lifum við ekki á margmiðlunaröld? Eru bækur ekki bara gamaldags? Og er ekki bara allt í lagi þótt við tölum ensku? Er ekki bara flott að enskan skuli vera orðin okkur svona töm?

Ég er hræddur um ekki:

Í fyrsta lagi er vert að minna á kenningu Marshal McLuhan um tengsl á milli miðlunarforms og hugsunar. Sú kenning gengur í stuttu máli út á það að línuleg hugsun hafi í raun fyrst orðið almenn í kjölfar prentbyltingar Gutenbergs um mitt síðasta árþúsund. Á rituðu máli eru hugsanir settar skipulega á blað- einn atburður rekur annan og að lokum kemst höfundur að einhverri niðurstöðu. Línuleg hugsun er forsenda almennrar rökhyggju og vísinda og þess samfélags sem við þekkjum í dag.

Ég ætla ekki að vera með frekari málalengingar um þessa kenningu McLuhans, en ef hún á við einhver rök að styðjast þá er getur sífellt minnkandi bóklestur augljóslega haft víðtækar afleiðingar. Talsverðar líkur eru á að það dragi úr almennri hæfni til rökrænnar hugsunar.

En, hvað með það? Lifum við ekki í margmiðlunarsamfélagi? Jú, fyrir því má færa gild rök. Hins vegar er það svo að samfélag okkar grundvallast enn alfarið á rörænni hugsun og læsi. Lög okkar eru færð í bækur og í rituðu máli miðlum við þekkingu hvert til annars og á milli kynslóða. Og hvaða gagn er t.d. af netinu ef menn eru ekki læsir (ok.....ótrúleg uppspretta kláms við allra hæfi....en þess utan....). Minnkandi læsi getur sem sagt haft víðtækar afleiðingar, burtséð frá því á hvaða tungumáli lesturinn á sér stað.

En erum við ekki bara að skipta yfir í enskuna? Er það ekki bara málið?
Neibb. Íslendingar eru nefnilega ekki nærri því jafn góðir í ensku og þeir telja sjálfir. Ármann Jakobsson skrifaði skemmtilega (ok....ekki skemmtilega......fróðlega) grein í moggann á dögunum þar sem hann benti á að þótt Íslendingar séu e.t.v. í kringum meðallag evrópuþjóða hvað varðar enskukunnáttu, þá eigum við mjög langt í land með að geta talist tvítyngd. Enskukunnáttan byggist nefnilega að talsverðu leyti á læsi og ef að fólk hefur aldrei lesið á ensku, þá myndar það aldrei nægilega sterkan grunn til að byggja upp raunverulega færni í málinu.

Mér finnst ljóst mál að við verðum að hafa áhyggjur af þessari þróun. Geta okkar til að tjá okkur og skilja hvert annað er að minnka. Og þar sem sterk tengsl eru á milli tungumáls og hugsunar má leiða að því líkur að geta okkar til að hugsa rökrétt sé líka á fallanda fæti. Það hlýtur að vera áhyggjuefni.

Ég ætla að reyna mitt besta til að bæta hæfni mína í íslensku máli og reyna að venja mig af því að sletta stöðugt. Ég ætla að vera dóttur minni góð fyrirmynd, lesa fyrir hana á hverju kvöldi og reyna með ráðum og dáð að auka áhuga hennar á bókmenntum og lestri. Þannig legg ég mitt lóð á vogarskálarnar. Þá sem hafa sýnt mér þann heiður að stauta sig í gegnum þennan texta minn hvet ég til að gera slíkt hið sama.

7 comments:

Hugi said...

Góð grein.

Ég er hjartanlega sammála hvað varðar almennan skort á lestri og málkunnáttu, maður verður áberandi var við að fólk, ekki bara unglingar heldur fullorðið fólk, á orðið oft í vandræðum með að koma hugsunum frá sér í orðum.

En ég er þó þeirrar skoðunar að íslenskan sem slík sé ekki heilög kýr. Tungumálið er fyrst og fremst verkfæri og við eigum að nota tækifærin sem gefast til að bæta það, t.d. með því að einfalda málfræði og fækka reglum, hika ekki við að taka upp góð orð úr erlendum málum, eða tileinka okkur erlendar málvenjur sem einfalda notkun tungumálsins.

Vel töluð íslenska er fallegt mál, en lengi getur gott batnað.

Orri said...

Djöfull eruð þið orðnir gamlir!

Tungumálið okkar fallega er hvorki verr né betur statt núna en nokkru sinni áður. Þið eruð bara eldri.

Fjalar said...

Góð grein, ég er líklega orðinn gamall líka. Aðeins samt að "kommenta" á pælinguna varðandi línulega hugsun. Eins og flestir vita eru Star Trek þættirnir ágætis gluggi inn í framtíðina og spá nokkuð nákvæmlega fyrir um hvaða leiðir mannkynið fer í þróun sinni m.t.t. samskipta við aðrar tegundir, það er tilgangslaust að mótmæla því svona verður þetta.

Það á eftir að há okkur talsvert þegar átt er við háþróaðar "non-corpeal" verur að við munum eiga í ýmsum vandræðum í framtíðinni, við eigum eftir að festast í hinni línulegu hugsun og munum því aldrei skynja mikilvæga þætti alheimsins sem hafa gríðarlegt vægi og notagildi. Spurning hvort mannshugurinn sé yfir höfuð fær um þetta en það er spurning hvort aukið sjónvarpsgláp hjálpi ekki til. Ég ætla allavega að prófa, mun síðan skila ítarlegri ritgerð eftir ca 70 ár sem vonandi nýtist okkur þegar Sisko fer og talar við verurnar í ormagöngunum. Þær hafa nefnilega valdið til að stöðva Lénsveldið (The dominion) og koma í veg fyrir óþarfa blóðsúthellingar...Lénið er evil...EEVIIILL !!!! Samt spurning hvort Odo reddi þessu samt sem áður ? Jæja, best að segja samt ekki of mikið.

One to beam up.

Stefán Arason said...

Góður pistill Siggi!

Sökum þess að hið ylhýra er svo sérstakt (hefur varðveists vel) og fallegt að mínu mati, finnst mér vert að vernda hana, og búa til nýyrði. T.d. finnst mér afar leitt hversu bág danskan er hjá almenningi sökum yfirtöku enskunnar í dönsku. Ég á góða danska vini sem eru bæði bókmenntafræðingar og það er mjög gaman að tala við þau því ég rekst ennþá á ný orð hjá þeim sem ég ekki skil en eru samt ekkert úrelt varðandi notagildi.

En varðandi hina línulegu hugsun, að þó svo við köllum bíl fyrir hest, og hest fyrir könnu, og könnu fyrir svartolíu, verður hugsunin ekki óskýrari, svo lengi sem við erum öll sammála þessum nýyrðum. Þannig að "fuck" getur vel komið í staðinn fyrir "árans". Við skiljum hvað verið er að meina.

En sama er mér. Sökum sérstöðu íslenskunnar finnst mér að við eigum að rækta flóru hennar, og vökva vel allar beygingar og flækjur sem prýða okkar fallega tungugarð.

En hugsið ykkur hvernig þetta væri ef við hefðum aldrei byrjað að tala, heldur bara sungið, svona eins og Tolkien skrifaði svo vel um í byrjun Silmerilsins. Það er falleg hugsun.

Siggi Óla said...

Ég er alveg sammála því að íslenskan sé svo sem ekkert heilög kýr. Þetta væri ekkert mál ef við værum öll á góðri leið með að verða jafn góð í ensku og við vorum í íslensku fyrir nokkrum áratugum. Aðalatiðið er að fólk geti tjáð sig skýrt og skilmerkilega í ræðu og riti. Sennilega er hnignun lestrar alvarlegra vandamál en hnignun íslenskunnar, þótt þessi vandamál haldist vissulega í hendur.

Svo fór ég svo sem ekkert út í að skeggræða hverju línuleg hugsun skilar okkur í raun og veru- eins og Fjalar bendir réttilega á. Línuleg hugsun er náttúrulega bara jákvæð innan ákveðins siðferðislegs ramma. T.d. voru fangaflutningar og -búðir Þjóðverja mjög línulega hugsuð fyrirbæri.

Siggi Óla said...

Vá.....ég var að lesa svarið hans Fjalar aftur. Þvílík gargandi snilld! Mér finnst að Fjalar eigi að stofna stjórnmálaflokk sem byggir stefnuskrá sína á framtíðarsýn Star Trek. Ég þekki gaur sem heitir Óskar Borg (resistance is futile) sem yrði fyrirtaks kosningastjóri! Trekkies of the world unite! Live long and prosper!

Anonymous said...

Já, ég er sammála. Framvegis er ég sammála öllu sem Fjalar skrifar og segir.
Knúturinn.