Monday, April 10, 2006

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartöskur í höndum og dauft glott á vörum. Djöfull eru þeir svalir.

Skyndilega er depurð mín horfin. Það er til fólk sem hefur sig yfir hversdagsleikann. Er öðruvísi en fólk er flest. Fólk sem lifir fyrir listina. Ég brosi í kampinn og kinka kolli til Vina Dóra, fullur af einkennilegu þakklæti."


Þetta flaug gegnum huga minn þegar ég las viðtalið við Dóra og skyndilega fylltist ég þakklæti yfir því að fuglar eins og hann skuli fljúga meðal vor. Þessir fuglar fljúga ekki alltaf í hópnum- en undurfagurt kvak þeirra og skemmtileg uppátæki gera okkur hinum ferðina bærilegri.

Thursday, April 06, 2006

Veðurtepptur

Ég er búinn að vera veðurtepptur á Norðfirði í allan dag. Það var reyndar bara ágætt, enda get ég svo sem unnið hvar sem er ef ég hef tölvu og síma. Þetta vekur mann samt til umhugsunar um samgöngumálin.

Það þarf ekkert tala við elstu menn til að rifja upp tímabil þegar veður eins og við upplifðum hér í dag voru mjög algeng á vetrum. Fyrir 15-20 árum var svona veður oft á vetri og raunar var talað um mildan vetur ef skaflar urðu ekki hærri en einlyft hús. Þrátt fyrir umtalaða hnatthlýnun, þá er ég smeykur um að við gætum átt eftir að upplifa svona vetur á ný.

Sem undirstikar nauðsyn þess að fá almennileg göng í gegnum þessi fjöll okkar. Oddskarðsgöng eru náttúrulega löngu orðin gersamlega fáránleg, og þau eru raunar ólögleg skv. Evrópustöðlum. Ég keyri þarna í gegn á hverjum degi og oftar en ekki lendir maður í því að bakka af því að einhver örviti kann ekki reglurnar, eða er ófær um að finna bakkgírinn. Göng takk....strax!

Ef stjórnvöld vilja styðja við þá uppbyggingu sem nú á sér stað á Austurlandi, þá geta þau ekki eytt peningunum í neitt betra en Oddskarðsgöng (til að byrja með...svo þurfum við náttúrulega tengingu við Seyðisfjörð og Hérað) Þetta meikar sens á ýmsum forsendum:

-Það myndi gera Fjarðabyggð að einu atvinnusvæði. Raunhæfu atvinnusvæði þar sem menn þyrftu ekki að vera haldnir sjálfeyðingarhvöt til að láta sér detta í hug að sækja vinnu í næsta byggðarlagi.

-Það myndi veita Austfirðingum greiðari aðgang að Fjórðungssjúkrahúsinu (krefst ekki frekari útskýringa)

-Það myndi veita Austfirðingum greiðari aðgang að eina iðnskólanum í fjórðungnum. Þessi punktur skiptir miklu máli á tímum þar sem iðnaður er í gríðarlegri uppsveiflu og framtíðarskortur á iðnmenntuðu fólki blasir við.

-Það myndi senda sterk skilaboð til sveitarfélaga um að sameining skili einhverri góðvild hjá ríkinu.

-Það myndi gefa mér rúman klukkutíma á dag til að eyða í eitthvað annað en að hristast í blikkdollu og brenna jarðefnaeldsneyti.

Nuff said

Fékk það staðfest í dag að ég er á leið til Brasilíu í maímánuði. Það verður örugglega áhugavert. Ég er að fara á námskeið og að skoða álver sem náð hefur athyglisverðum árangri í gæðamálum. Er að spá í að eyða helgi í Lissabon á leiðinni út. Það eru hins vegar tveir alvarlegir gallar við þessa ferð:

-Ég missi sennilega af afmælinu hennar Jónu, þann 27. maí

-Ég þarf að fá spautur við stífkrampa, taugaveiki, mænuveiki, svartadauða, malaríu, hægðatregðu, niðurgangi, eyrnaveiki, nýrnaveiki, heilabilun, gin og skaufaveiki.

Ég elska Jónu

Ég hata spautur

Wednesday, April 05, 2006

Change

Rule 1: One change leads to another.
Rule 2: Adding change to change causes chaos
Rule 3: People create change- people constrain change
Rule 4: Accomplished change is change chosen and carried out carefully

Sit og pæli í breytingastjórnun. Skemmtilegar pælingar. Ákvað að uppfræða ykkur um grundvallarlögmál breytingastjórnunar....svona til að dreifa gleðinni og viskunni.

Eric Johnson rúllar á fóninum- Ah via musicom. Dásamleg tímalaus snilld. Sumt þarfnast engra breytinga. Ahhhhhh............

Tuesday, April 04, 2006

Bokmenntir og tonlist

Kannski banal pæling, en rosalega eru bókmenntir og tónlist mikil blessun. Ég er búinn að vera á kafi í vinnu, en það er ótrúleg huggun og upplifting að geta týnt sér í góðri bók eða upplífgandi tónlist.

Ég var að klára bók sem heitir "Í skugga vindsins" eftir Carlos Ruiz Zafón. Ég gaf mömmu þessa bók í jólagjöf...og ég verð að játa að það var ekki alfarið óeigingjörn gjöf þar sem ég vissi mætavel að ég ætti eftir að fá hana lánaða. Bókin er í einu orði sagt frábær. Persónur og sögusvið er ljóslifandi fyrir manni, húmorinn dásamlegur og ótrúlegum örlögum lýst. Þýðing Tómasar R. er líka frábær og hefði vel mátt trúa því að bókin hefði upphaflega verið skrifuð á íslensku. Tómas hefur greinilega jafn góð tök á hljómfalli tungumáls og tónlistar.

Það er gaman að lesa bækur úr öðrum menningarheimi en hinum engilsaxneska, en það er ca. 80% af því sem ég les....því miður. Það gefur manni að einhverju leyti ferskt sjónarhorn að lesa bækur úr menningarheimum sem maður gjörþekkir ekki.

Og það á líka við um tónlist. Ég er búinn að liggja í proggi, djassi, Sjostokovich og Zappa (sem er ekki nokkur leið að draga í dilk). Hef verið að hlusta á Return to Forever (Romantic warrior), Miles Davis (Bitches Brew/Sketches of Spain), strengjakvarteta Sjosta og bland í poka með Zappa.

Zappa var náttúrulega alger snillingur. Platan Over nite sensation er einstaklega skemmtileg og stútfull af dásamlegri vitleysu. Highly recommended. "Moving to Montana sooooooon......gonna be a dental floss tycoooooooon!" Ég trúi því varla að ég sé fyrst núna að uppgötva Zappa. Þetta er algerlega mín deild. Ég hugsa að það hafi fælt mann frá hvað karlinn gaf mikið út. 70 titlar. Frekar yfirþyrmandi.

Talandi um þarma, þá er ljóst mál að ég mun þurfa bleyju á tónleikunum í júni! Mikið svakalega hlakka ég til!

Anyhoo..........smell you later

Saturday, April 01, 2006

Til hvers er blogg?

Þar sem ég lá á mörkum svefns og vöku í morgun gerðist tvennt skrítið í hausnum á mér. Annarsvegar fattaði ég allt í einu nafnið á hinni frábæru plötu Frank Zappa, Sheik Yerbouti (fattaru?........shake your booty). Á albúminu er mynd af Zappa í einhverskonar Touareq galla- túrban og alles- og af einhverjum ástæðum hef ég bara aldrei kveikt á perunni með þetta. Djöfull getur maður verið fattlaus!

Svo leið góð stund og ég lá í rúminu og las endinn á Skugga vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón. Ég tárðaðist (er rosalega viðkvæmur fram að fyrsta kafffibolla á morgnana) og fór svo að hugsa um vini mína.

Ég fór að hugsa um þetta dásamlega fólk sem maður þekkir og hefur umgengist mest í gegnum tíðina. Ég hugsaði um það hvað maður er heppinn að þekkja svona frábært, hæfileikaríkt, fallegt og gott fólk. Svo fór ég að hugsa um það hvað ég hitti þetta fólk lítið og táraðist aftur (sjá skýringu í síðustu málsgrein).

Líf okkar flestra eru flókin og dagskrár okkar þéttskipaðar. Einhvernvegin skortir mann orku til að halda almennilega sambandi við annað fólk en nánustu fjölskyldu- og meira að segja nánasta fjölskylda er oft útundan. Jamm.....rottukapphlaupið getur verið skemmilegt og spennandi, en meðan á því stendur þá umgengst maður aðallega hinar rotturnar (ef vinnufélagar mínir lesa þetta....no pun intended)

Þá fór ég að hugsa um bloggið. Mér hefur nefnilega fundist bloggið vera ótrúlega góð leið til að halda einhverskonar sambandi við vini mína. Ég tékka á bloggi flestra þeirra á hverjum degi- jafnvel þótt þeir skrifi ekki nema endrum og eins. Bloggið gefur okkur nefnilega innsýn í sál fólks og viðheldur tengingum á milli okkar með dularfullum hætti- Ekki síst þegar jafn ritfærir og djúpþenkjandi menn og mínir vinir eiga í hlut.

Ég held því að við séum að vanmeta mátt bloggsins stórlega. Þetta skiptir meira máli en við höldum! Og það þarf ekki endilega að vera merkilegt. Það er nóg að menn skrifi nokkrar línur um það sem þeir eru að lesa eða hugsa eða hlusta eða horfa á. Eða bulli bara einhverja vitleysu.

Ég ætla því að heita því hér með að vera duglegri að blogga. Ég ætla að blogga a.m.k. einu sinni í viku og deila einhverjum molum úr lífi mínu. Ég ætla ekki að lofa því að það verði alltaf einhver snilld- en ég ætla a.m.k. að sýna lit og lífsmark.

Ég vil hvetja alla sem þetta lesa til að hugsa um mátt bloggsins og vera með í að viðhalda þessum ósýnilegu þráðum sem binda okkur saman og gera okkur kleyft að halda sambandi í þessari klikkuðu tilveru okkar.

Hafið það sem allra best!


kveðja:
Siggi