Skip to main content

Til hvers er blogg?

Þar sem ég lá á mörkum svefns og vöku í morgun gerðist tvennt skrítið í hausnum á mér. Annarsvegar fattaði ég allt í einu nafnið á hinni frábæru plötu Frank Zappa, Sheik Yerbouti (fattaru?........shake your booty). Á albúminu er mynd af Zappa í einhverskonar Touareq galla- túrban og alles- og af einhverjum ástæðum hef ég bara aldrei kveikt á perunni með þetta. Djöfull getur maður verið fattlaus!

Svo leið góð stund og ég lá í rúminu og las endinn á Skugga vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón. Ég tárðaðist (er rosalega viðkvæmur fram að fyrsta kafffibolla á morgnana) og fór svo að hugsa um vini mína.

Ég fór að hugsa um þetta dásamlega fólk sem maður þekkir og hefur umgengist mest í gegnum tíðina. Ég hugsaði um það hvað maður er heppinn að þekkja svona frábært, hæfileikaríkt, fallegt og gott fólk. Svo fór ég að hugsa um það hvað ég hitti þetta fólk lítið og táraðist aftur (sjá skýringu í síðustu málsgrein).

Líf okkar flestra eru flókin og dagskrár okkar þéttskipaðar. Einhvernvegin skortir mann orku til að halda almennilega sambandi við annað fólk en nánustu fjölskyldu- og meira að segja nánasta fjölskylda er oft útundan. Jamm.....rottukapphlaupið getur verið skemmilegt og spennandi, en meðan á því stendur þá umgengst maður aðallega hinar rotturnar (ef vinnufélagar mínir lesa þetta....no pun intended)

Þá fór ég að hugsa um bloggið. Mér hefur nefnilega fundist bloggið vera ótrúlega góð leið til að halda einhverskonar sambandi við vini mína. Ég tékka á bloggi flestra þeirra á hverjum degi- jafnvel þótt þeir skrifi ekki nema endrum og eins. Bloggið gefur okkur nefnilega innsýn í sál fólks og viðheldur tengingum á milli okkar með dularfullum hætti- Ekki síst þegar jafn ritfærir og djúpþenkjandi menn og mínir vinir eiga í hlut.

Ég held því að við séum að vanmeta mátt bloggsins stórlega. Þetta skiptir meira máli en við höldum! Og það þarf ekki endilega að vera merkilegt. Það er nóg að menn skrifi nokkrar línur um það sem þeir eru að lesa eða hugsa eða hlusta eða horfa á. Eða bulli bara einhverja vitleysu.

Ég ætla því að heita því hér með að vera duglegri að blogga. Ég ætla að blogga a.m.k. einu sinni í viku og deila einhverjum molum úr lífi mínu. Ég ætla ekki að lofa því að það verði alltaf einhver snilld- en ég ætla a.m.k. að sýna lit og lífsmark.

Ég vil hvetja alla sem þetta lesa til að hugsa um mátt bloggsins og vera með í að viðhalda þessum ósýnilegu þráðum sem binda okkur saman og gera okkur kleyft að halda sambandi í þessari klikkuðu tilveru okkar.

Hafið það sem allra best!


kveðja:
Siggi

Comments

Einar Solheim said…
Þetta er eins og bloggað út úr mínum rassi.

Reyndar er betri lausn að einfaldlega hitta alla þessa vini oftar, en þar sem það er nú ekki endilega hægt þá er bloggið frábært til að halda sér inni í lífi viðkomandi.
Fjalar said…
Talandi um að hittast....á ekki að skella sér á Zappa plays Zappa ?
Siggi Óla said…
Að sjálfsögðu. Terry Bozzio, Steve Vai, Dweezil Zappa.......I'm there!

Verst að ég þarf sennilega að vera með bleyju.

Eigum við ekki að skipuleggja hópferð á geimið? Pétur í Tónspil fær 100 miða.
Hugi said…
Hehe, Sheik Yerbuti.

Ferðu ekki að kíkja suður?
Siggi Óla said…
Ég verð örugglega á ferðinni fljótlega. Jafnvel eitthvað í næstu viku. Bjalla í þig!
Sigrún said…
"Ég held því að við séum að vanmeta mátt bloggsins stórlega. Þetta skiptir meira máli en við höldum! Og það þarf ekki endilega að vera merkilegt. Það er nóg að menn skrifi nokkrar línur um það sem þeir eru að lesa eða hugsa eða hlusta eða horfa á. Eða bulli bara einhverja vitleysu."

Þetta eru vel skrifuð orð :)

ég hef nefninlega stundum verið spurð hvort ég sé virkilega orðin svona merkileg að ég þurfi að blogga, en mér finnst þetta frábær leið til að vera í sambandi við fólk.
svo hefur mér þótt mjög gaman að skoða blogg annara, sérstaklega auðvitað vina og annara nobbara :)

Nobbarakveðja frá Dk.
Siggi Óla said…
Vá.....það lesa greinilega fleiri hjá manni bloggið en mann grunar. Hver er Sigrún Jó? Sigrún, þú mátt endilega segja deili á þér ef þú dettur hér inn aftur. Og gaman þætti mér að vita hvernig þú dast inn á síðuna mína! Skemmtilegt. Undirstrikar point-ið mitt. Blogg tengir saman fjölda fólks.
Sigrún said…
ja, ég er nobbari :) er það ekki nóg? Ormsstaðir er flottasti bærinn í sveitinni, finnst mér.
datt inn á bloggið þitt gegnum einhvern annan nobbara, man ekki hvern. fann fyrst Þórey Péturs og svo í framhaldinu fullt af öðrum kunnuglegum andlitum.
Skemmtilegt :)
Siggi Óla said…
Er þetta Sigrún á Ormsstöðum? Magnað!
Sigrún said…
jamm, það er ég :) var hissa að þú þekktir mig ekki. hef ég breyst svona mikið eða þú bara kalkaður?
Siggi Óla said…
hehe:

a)Ég ER kalkaður
b)Ég man eftir þér snoðklipptri
c)Ég hef ekki séð þig í hátt í áratug

Þannig að.......

Annars finnst mér alltaf mjög vandræðalegt að þekkja ekki fólk sem ég á að þekkja og bið ég því forláts.
Sigrún said…
þetta er bara í góðu :)

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…