Monday, April 10, 2006

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartöskur í höndum og dauft glott á vörum. Djöfull eru þeir svalir.

Skyndilega er depurð mín horfin. Það er til fólk sem hefur sig yfir hversdagsleikann. Er öðruvísi en fólk er flest. Fólk sem lifir fyrir listina. Ég brosi í kampinn og kinka kolli til Vina Dóra, fullur af einkennilegu þakklæti."


Þetta flaug gegnum huga minn þegar ég las viðtalið við Dóra og skyndilega fylltist ég þakklæti yfir því að fuglar eins og hann skuli fljúga meðal vor. Þessir fuglar fljúga ekki alltaf í hópnum- en undurfagurt kvak þeirra og skemmtileg uppátæki gera okkur hinum ferðina bærilegri.

4 comments:

Anonymous said...

Já, nákvæmlega. Gleymi aldrei þegar ég skrapp á klósettið á miðjum konsert hjá VD í Egilsbúð ca. '95 og á meðan tók Ásgeir eitt flottasta trommusóló 20. aldarinnar (er mér sagt). Bömmer.

Hugi said...

Ég hugsa iðulega það sama þegar ég keyri Langholtsveginn og sé Helga Hóseasson standa með eithvað af skiltunum sínum.
Hann þarf ekki að gera meira til að vera þessi "karakter" sem gerir lífið bara oggulítið skemmtielgra.

Það er bara verst að þessum karakterum fer fækkandi.

Siggi Óla said...

Hehe

Ég man eftir trommusólóinu! Það var rosalegt.

Hugi.....Þú ert einn af þessum karakterum :-)

Hugi said...

Öööh, takk... Held ég...