Saturday, May 13, 2006

Af barflugum og bassaföntum

Ég fór á hraustlegt fyllerí í gær. Djöfull er nú nauðsynlegt að detta í það annað slagið. Og það þarf ekki leggja upp með eitthvað rosalegt plan til að ná skemmtilegu djammi...ónei.

Konseptið var einfalt. Helstu innihaldsefni voru tvær kippur af bjór, nýju plöturnar með Chilipeppers og Pearl Jam og góða skapið. Þáttakendur voru tveir, að mér meðtöldum. Hinn þáttakandinn var sem sagt Knúturinn.

Og mikið fjári var þetta gaman. Chilipeppers grúva eins og móðurserðar á nýju plötunni. Flea er besti bassaleikari á plánetunni. Þeir sem halda öðru fram eru afstrympi. Frusciante er líka í fantaformi og hefur ekki verið betri síðan á Bloodsugar. Heví góð plata. Fimm stjörnur.

Pearl Jam eru líka í hörkuformi og hafa ekki verið jafn beittir í langan tima. Það rifjuðust aftur upp fyrir mér tónleikarnir þeirra í Boston Garden árið 1994, en þar fékk ég að berja þá augum (og eyrum). Vedderinn var orðinn frekar ölur í lok tónleikanna (eftir að hafa rokkað eins fathermocker) og í siðasta laginu fór hann að berja míkrófónstatífinu í sviðið eins og óður maður. Á endanum kom gat á sviðið sem Vedderinn stækkað með spörkum. Svo hoppaði hann í gegnum gatið og hvarf af sviðinu! Þvílíkt rokk! Verður seint toppað.

Anyhoo.......

Þegar bjórinn var búinn fórum við Knúturinn í bæinn. Fórum fyrst í biðröð á Ölstofunni þar sem hassreykur liðaðist út um glugga og dyr (ég er ekki að grínast). Við gáfumst upp á því og röltum niður í Austurstræti. Þar byrjuðum við á að fara á Pravda, af öllum stöðum. Tilgangurinn var að framkvæma stutta ethnógrafíska rannsókn á kúnnum Pravda. Við stútuðum einum bjór og komumst að því að mannfræðirannsóknir á Pravda eru einkar leiðinleg iðja.

Til þess að tryggja það að kvöldið yrði algerlega ódæmigert þá héldum við næst á Rex. Við vorum búnir að gefa mannfræðina upp á bátinn. Langaði bara í góðan kokteil. Á Rex drukkum við Mojito kokteila, dönsuðum eins heilalamaðir simpansar við einstaklega hörmulega tónlist. Það er magnað hvað sumir plötusnúðar eru miklir afglapar. Djöfull sakna ég 22. Þar var góð tónlist.

Í morgun var þynnkan talsverð, enda létum við ofan í okkur óskynsamlegt magn af ólyfjan. Ólyfjan er best læknuð með lyfjan og ég er búinn að komast að því að optimal skammtur af íbúfeni eru 1200 milligrömm. Svínvirkar.

Andleg líðan var frábær eftir vel heppnað fyllerí og þar sem skandaliseruðum ekkert (flettum okkur ekki klæðum, átum ekki kerti...you catch my drift), þá var maður alveg laus við bömmerinn. Ég endaði svo daginn á ríflega klukkutíma göngutúr út undir Nípu. Fann hriklega flottan útsýnisstað þar sem maður sér tugi kílómetra út á sjó. Bjútifúl. Ég held að ég sofni vel í kvöld.

Ást:
Siggi