Saturday, October 28, 2006

Sakleysi

Ég vaknaði illa í gærmorgun. Dreymdi stríð og annan viðbjóð. Ég andaði djúpt, geispaði og kveikti ljósið.

Sigga litla hafði fengið að sofa í bóli mömmu sinnar sem þurfti að fara suður á námskeið. Hún rumskaði, opnaði augun og brosti til mín.

"Góðan daginn", sagði ég. "Hvernig svafst þú elskan?"

"Vel", svaraði hún og geispaði. "Mig dreymdi að ég ætti hvolp. Hann hét Snæbert. Við vorum að tína blóm", sagði hún og brosti sællega.

Ég komst við. Þvílíkur munur á draumförum. Hvenær töpum við þessu sakleysi æskunnar. Væri ekki gaman ef við töpuðum því ekki nánast algerlega? Að við yrðum ekki svona kaldhæðin og.....hörð?

I wonder

Friday, October 20, 2006

Hann á afmælií dag...hann á afmælií dag

Jamm...Yðar einlægur er þrjátíuogtveggja í dag. Bammbarabamm!

Get ekki sagt að ég sé fróðari og þroskaðari en í gær. Finnst reyndar eins og ég sé feitari, vitlausari og eldri en í gær. Hmmm...fúlt að eiga down-dag þegar maður á afmæli.

Reyndar hefur dagurinn verið að batna jafnt og þétt síðan um hádegisbil þannig að þetta horfir nú allt til betri vegar. Nú ætlar mín ástkær eiginkona að elda handa mér nautasteik, en að því loknu ætla ég að skella mér á blakleik. Gaman, gaman.

Annars ætti maður nottlega á þessum tímamótum að hugsa um árið sem liðið er frá því að maður átti síðast afmæli. Þetta er búið að vera stórgott ár að flestu leyti. Ég náði t.d. að heimsækja þrjú áhugaverð ný lönd- Kanada, Brasilíu og Tyrkland. Það er líka búið að vera mikið rokk og ról í vinnunni og maður er búinn að læra gífurlega mikið á þessu eina ári. Vona bara að þanþol hugans sé nóg- að þetta endi ekki með sóðalegu skanners atriðið. Splatt!

Anyhoo.........

Hafið það gott


kveðja:
Siggi afmælisstrumpur

Wednesday, October 18, 2006

Eru hvalveiðar góð hugmynd?

Mér er spurn. Er þér svarn? (svo að ég steli góðum útúrsnúningi frá Orra Smára)

Nú finnst mér það meika fyllilega sens að það þurfi að halda hvalastofninum í skefjum með skynsamlegum veiðum. Eeeeen:

1. Það þarf að veiða miklu meira af hval heldur en nokkur hundruð stykki til að minnka stofnstærðina.
2. Það er algerlega óljóst hvað á að gera við afurðirnar.
3. Það hlýtur að vera ljóst mál að hvalveiðar geta haft slæm áhrif á útflutning okkar á öðrum vörum og túrisma, fyrir utan það að vera pólitískur saurstormur (þó í vatnsglasi sé).

Svo fer þessi þjóðrembingslegi tónn í umræðunni alveg svakalega í taugarnar á mér (Það er náttúrulega fyrir löngu búið að benda á tengingarnar á milli íslenskrar þjóðernishyggju og afstöðu Íslendinga til hvalveiða). Það er því ekki laust við að það sé smá popúlísk kosningalykt af þessu. Leiðindamál- Enda nenni ég ekki að skrifa meira um þetta.

Sunday, October 15, 2006

Ótrúleg kona

Hvílík ástríða. Hvílík leikni. Hvílík snilld. Hvílíkt "femme fatale"

Ég hef hlustað á þessa upptöku 1000 sinnum, en var semsagt að uppgötva að þetta er til á filmu líka.

http://www.youtube.com/watch?v=zqTrspJngJc&search=argerich

Saturday, October 14, 2006

Að fylla fötur

Ég er búinn að hugsa mikið um bjartsýni upp á síðkastið.

Ég er búin að kenna nokkrum hópum stuttan sjálfseflingarkúrs sem ég setti saman. Allir nýir starfsmenn Alcoa fara í gegnum þennan kúrs. Þegar ég setti efnið saman þá leitaði ég fanga nokkuð víða og er enn að viða að mér efni og pæla.

Eitt af því sem ég hef tæpt í námskeiðinu er um mikilvægi þess að vera virkur og taka ábyrgð á eigin gjörðum og tilfinningum. Það er nefnilega ótrúlega algengt að fólk taki enga ábyrgð á viðbrögðum sínum við áreiti. "Hann gerði mig bara brjálaðan", er oft viðkvæðið hjá fólki sem handtekið er fyrir ofbeldisbrot. Það er kannski öfgakennt dæmi um það hvernig menn geta afneitað ábyrgð á tilfinningum og gjörðum, en ég held að okkur hætti allt of mikið til að láta ytri aðstæður og atburði virka neikvætt á okkur. Við getum nefnilega alltaf valið viðbrögð. Við erum raunar eina skepnan á jörðinni sem getur brugðist við ytra áreiti með svo yfirveguðum hætti, enda erum við einu skepnurnar sem hafa til að bera sjálfsmynd, ímyndunarafl og samvisku.

Margt af því sem ég hef verið að lesa bendir til þess að við getum svo sannarlega ákveðið að vera jákvæðari og glaðari manneskjur. Það getum við t.d. gert með eftirfarandi hætti:

1. Með því að stoppa af neikvætt hugarflæði, rökræða við sjálfan sig, varast að draga víðtækar ályktanir af neikvæðum atburðum og vega og meta neikvæðar staðhæfingar okkar um okkur sjálf.

2. Með því að BROSA og bera okkur vel. Ef manni líður illa getur virkað afar vel að brosa einfaldlega. Það hefur verið sýnt fram á að þótt hegðun stjórnist yfirleitt af tilfinningum þá hefur hegðun líka áhrif á tilfinningar. Þú brosir þegar þú ert ánægður, en þú verður líka ánægður (eða ánægðari a.m.k.) þegar þú brosir. Þarna á slagorð Nike ágætlega við: Just fucking do it.

3. Með því að gera í því að hrósa öðrum og dreifa gleði hvert sem þú ferð. Ég var að enda við að lesa stórskemmtilega bók sem heitir "how full is your bucket" sem fjallar einmitt um þetta efni- þ.e. mikilvægi jákvæðni í samskiptum á vinnustað (og í lífinu almennt). Við eigum að leitast við að fylla stöðugt á "fötur" hvers annars og varast neikvæðni eins og pestina.

Anyhoo.....

Grundvallaratriðið er þetta: Við getum ákveðið að vera jákvæðari og glaðari og slík hegðun smitar út frá sér. Alveg eins og nokkrir neikvæðir einstaklingar geta eitrað andrúmsloft á vinnustað þá getur jákvæðni fárra haft gríðarlega keðjuverkun í för með sér. Tökum ábyrgð á tilfinningum okkar og hegðun og einsetjum okkur að dreifa aðeins gleði og jákvæðni. Tökum neikvæðnina úr umferð (nema að sjálfsögðu á bloggsíðum, þar sem maður VERÐUR stundum bara að fá útrás fyrir ákveðnar frústrasjónir :-)

Góðar stundir.

Monday, October 09, 2006

Lækkun matarverðs

Skyldi lækkun matarverðs tengjast því eitthvað að nú eru kostningar í vor? Duh!

Nú opnast pyngjan og við getum verði alveg viss um að hún mun opnast þegar tækifæri gefst til að gera sem mestan mat (pun intended) úr því pólitískt. Sumsagt, popúlismi af svæsnustu gerð. Hefði ekki verið sniðugt að leggja þessa milljarða t.d. í barna og unglingageðdeild eða eitthvað annað brýnt málefni. Það er ekki eins og ekki sé af nógu að taka.

(Ekki það...matvælaverð er náttúrulega fáránlega hátt á Íslandi og besta mál að mjaka því niður- en ég held bara að stóri vandinn í því samhengi séu ekki skattar, heldur innflutningshöft og gráðugir stórkaupmenn, en.....nóg um það)

Að mínu viti snýst pólitík fyrst og fremst um tvennt: a) Að tryggja að efnahagslegur jarðvegur sé frjór og laus við illgresi; og b) Að tryggja sem flestum sem besta möguleika á því að lifa góðu og hamingjuríku lífi.

Núverandi stjórnvöld hafa að mörgu leyti staðið sig vel hvað varðar lið a). Stærstur hluti þess árangurs sem nást hefur má þó öðru fremur rekja til inngöngu okkar í EES. Þó má vera að lækkun fjármagnstekjuskatts hafi haft talsverð áhrif. Það er þó klárt mál að það ríkir ekki stöðugleiki á Íslandi og menn hljóta að spyrja sig hvort svo gríðarlegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins séu forsvaranlegar. Við höldum jú úti minnsta "fljótandi" gjaldmiðli heimsins. Útflutningsgreinarnar hafa fundið VERULEGA fyrir þessum sveiflum (og þið ykkar sem ætlið að kenna stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi alfarið um hátt gengi krónunnar: Save your breath)

Hvað varðar lið b) þá er dagljóst að núverandi stjórnvöld eru að klúðra ýmsu án þess að sýna mikla tilburði í þá átt að bæta um betur. Dæmi:

Lýst er eftir menntastefnu Íslendinga. Hún sást síðast árið...uh....uh...Ok..Hún hefur aldrei sést, en ákveðnir aðilar við Sölvhólsgötu halda því statt og stöðugt fram að hún sé til. Menntakerfið okkar er náttúrulega djók. Í Noregi ljúka 98% þjóðarinnar einhverskonar starfsnámi. Á Íslandi er þessi tala um eða innan við 50% og þekkist vart annað eins í hinum vestræna heimi. Samt skera menn niður framlög til framhaldsskólastigsins og eru ótrúlega lítið að gera til að laga þetta. Mjög takmarkað framboð er á menntun fyrir þann hluta landsmanna sem ekki er svo lánsamur að búa á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir fullkomnar tæknilegar forsendur til að halda uppi öflugu fjarnámi á flestum útnesjum. Menntun er eitthvað öflugasta þjóðfélagsþróunartæki sem þekkist og við VERÐUM að standa okkur betur á því sviði. Legg til að við gerum Jón Torfa að menntamálaráðherra.

Það bendir líka margt til þess að við séum að klúðra því að gera þetta að góðu samfélagi. Skv. nýlegum fréttum koma nú reglulega tilfelli inn á BUGL, jafnvel niður í 8 ára grey, sem vilja ekki lengur vera til. 8 ára börn greinast líka með anorexíu. Við höfum það betra efnahagslega en nokkru sinni fyrr, en keppumst við að drekka og éta okkur í hel. Eða sitjum dofin í miðri dótahrúgunni og störum á sjónvarpskjáinn með bjór í hönd og sleftaum úr munnvikinu.

Kannski er þetta svaragallsraus, en mér finnst margt af þessu skuggalegt og ég vildi óska þess að við hefðum stjórnvöld sem væru að spá í hverju sætti. Stjórnvöld sem væru að spá í þá heildarmynd sem við blasir og markvissar mótvægisaðgerðir.

En það er væntanlega útópía: Heimur þar sem Jón Torfi er menntamálaráðherra, Stefán Ólafsson er félagsmálaráðherra; heimur þar sem enginn vinnur meira en 8 tíma á sólarhring; þar sem menn hugsa um INNIHALD ekki umbúðir; þar sem maður er manns gaman og menn bera virðingu hver fyrir öðrum.

Sunday, October 08, 2006

Að gera veður.....

Carry your own weather, sagði einhver spekingur. Góð og gild pæling, en það er erfitt að halda í svona hugsun þegar veðrið er jafn ömurlegt og þessa helgina. Þetta leggst óhjákvæmilega á sálartetrið. Það er ekki bara rigning, heldur HELLIRIGNING. Og rok. Depressing.

og mér finnast sunnudagskvöld yfirleitt nógu depressing fyrir. Vinnuvikan gnæfir yfir mann eins og holskefla og maður getur bara beðið í hnipri eftir gusunni...og haldið niðri í sér andanum. Til að bæta gráu ofan á svart er konan í Reykjavík þannig að maður er einn að gaufa með unganum. Sigh...

En! Upp, upp mín sál og allt mitt geð. Það er lítið gagn í að barma sér. Það þarf að spíta í lófa, bretta upp ermar og kíláða!

Saturday, October 07, 2006

Bill Bryson

Var að enda við lesa "Notes from a small island" eftir Bill Bryson í annað sinn. Gaurinn er ótrúlega fyndinn og skemmtilegur penni. Eftirfarandi er skemmtilegt brot þar sem hann er að tala um þann merkilega sið Yorkshire-búa að æða inn í hús hverjir hjá öðrum, en Bryson bjó um margra ára skeið í Yorkshire dölunum:

"They do things differently in the Dales, you see. For one thing, people who know you come right in your house. Sometimes they knock once and shout "Hullo!" before sticking their head in, but often they don't even do that. It's an unusual experience to be standing at the kitchen sink talking to yourself animatedly and doing lavish, raised-leg farts and then turning around to find a fresh pile of mail lying on the kitchen table"

Þegar ég las þessar línur fyrst þá var ég á flugi á leið heim frá Englandi. Ég fékk hálfgert móðursýkiskast af hlátri og ætlaði aldrei að ná mér. Varð eldrauður í framan og tárin láku niður kinnarnar á mér. Ég er ekki frá því að ástkær eiginkona mín hafi verið farin að skammast sín eilítið fyrir þessa sérkennilegu hegðun mína.

Bryson er í miklu uppáhaldi hjá mér og finnst mér hann sérstaklega góður að grípa í þegar ég er ekki að meika það að lesa eitthvað krefjandi. Hann skrifaði gersamlega frábæra bók sem heitir "A short history of nearly everything" sem er stórskemmtilegt rit um vísindi. Ég ætla pottþétt að endurlesa þá bók. Úr henni er t.d. þessi frábæra lýsing á Sir Isac Newton:

"upon swinging his feet out of bed in the morning he would reportedly sometimes sit for hours, immobilized by the sudden rush of thoughts to his head"

Snilld!

Eini gallinn við að lesa bækur af þessu tagi er sú örvænting sem maður fyllist þegar maður gerir sér grein fyrir því hvað það er margt sem maður veit ekki. Ég las viðtal við Illuga Gunnarsson um daginn þar sem hann lýsti því hvernig honum finnst hann vita sífellt minna með aldrinum- eða öllu heldur að því meir sem hann lærir, því meira skilur hann hvað hann á mikið ólært. Eins og talað út úr mínu hjarta. Á menntaskólaaldri taldi maður sig vita alla skapaða hluti. It's all been downhill since then.

Þetta rímar vel við stærsta vandamál vísindanna. Hver spurning sem við finnum einhverskonar svar við vekur upp ótal spurningar sem er ósvarað- svörin við þeim spurningum vekja hvert og eitt upp enn fleiri spurningar. Ergo: Því meira sem við vitum, því betur áttum við okkur á því hvað við vitum lítið.

Þetta gæti virkað niðurdrepandi hugsun, en þetta þýðir líka að við munum aldrei þekkja eða skilja eðli allra hluta. Á fyrri hluta 20. aldar töldu menn aðeins vera örfá ár í að öllum spurningum um alla skapaða hluti yrði svarað. Yrði það ekki leiðinleg tilvera?

Ég held að það sé ágætt að hafa einhverja mystík í tilverunni. Okkur ætti a.m.k. ekki að leiðast á meðan við höfum allar þessar gátur að glíma við.

Thursday, October 05, 2006

Fjölmiðlar

Einu sinni vann ég á fjölmiðli. Sá fjölmiðlill var ekki stór. Hann kallaðist Austurland og var forveri Austurgluggans. Þegar ég vann á fjölmiðli þá gerði ég mér far um að kynna mér mál af sæmilegri kostgæfni áður en ég fjallaði um þau og skrifa svo sæmilega hlutlægan/hlutlausan texta. Þetta gekk nú oftast sæmilega, en þó kom fyrir að maður fékk símtöl frá fólki sem taldi halla á þeirra hlið í umfjölluninni. Sumir voru jafnvel sárir eða æstir. Í kjölfar slíkra samtala fór maður yfir það sem skrifað var og tékkaði á staðreyndum málsins, skoðaði orðalag og vó og mat hvort maður hefði virkilega klúðrað einhverju. Stundum var það raunin og þá reyndi maður að gera betur næst.

Ég held að flestir ærlegir blaðamenn kannist við þessa lýsingu. Mér sýnist hins vegar sífellt oftar að menn vandi vinnubrögð alls ekki nógu mikið. Það er nefnilega þannig að ef maður veit eitthvað um þau mál sem eru til umfjöllunar þá sér maður ótal villur og mistúlkanir í meðferð fjölmiðla á málinu. Og ef maður sér alltaf einhverja meinbaugi á umfjöllun um þau mál sem maður þekkir sjálfur, eru þá ekki talsverðar líkur á því að það sama gildi um þau mál sem maður þekkir ekki?

Ég ætla ekki að segja að ég hafi nokkurntíman kokgleypt það sem ég les, heyri eða sé í fjölmiðlum- sérstaklega eftir að ég skreið út úr skóla, tortrygginn, kaldhæðinn og fullur af efa. Hins vegar stend ég mig að því að gleypa sífellt minna við því sem er í fjölmiðlum hverju sinni. Kveður jafnvel svo rammt að þessu að ég er hreinlega að spá í hætta að fylgjast með fréttum. Fyrir því er raunar ein ástæða í viðbót.

Málið er nefnilega að "good news is no news". Fréttir eru samsuða af öllu því neikvæðasta sem dynur yfir á hverjum tíma. Það þýðir að ef tveir aðilar deila á opinberum vettvangi, túlkun annars þeirra á þrætuefninu er neikvæð en túlkun hins jákvæð, þá er vonlaus slagsíða á umfjöllun um efnið. Jákvæði málstaðurinn er ekki fréttnæmur- hinn neikvæði er endalaus uppspretta efnis. Miðlarnir eru óseðjandi skepnur sem þrífast á ótíðindum.

Kannski er þetta vandamál óvenju slæmt á Íslandi, þar sem smæð miðlanna og markaðarins gerir fagmannleg vinnubrögð að sumu leyti erfiðari en ella. Það er mikill munur á því að vinna á blaði sem getur borgað fyrir margra vikna, mánaða eða jafvel áralangar rannsóknir á einstökum málum og nógu há laun til að laða að sér kaliberfólk.

Ekki misskilja mig...vönduð fjölmiðlun er mikilvægur hluti af lýðræðissamfélagi. Það er bara rosalegur skortur á vandaðri fjölmiðlun.

Wednesday, October 04, 2006

Að VERA

Hugvekja dagsins:

Fortíð og framtíð eru óraunveruleg fyrirbæri. Fortíðin eru minningar, framtíðin hugarórar. Líf þitt er ÞESSI STUND. Núið er lífið. Það er ekkert til utan þess.

Við eyðum hins vegar 95% af vökutíma okkar í að hugsa um fortíð eða framtíð. Við erum svefngenglar- lifum í draumaheimum. Því greindari sem þú ert og því meira krefjandi sem starfið þitt er, því ólíklegri ert þú til að vera nokkurntíman fullkomlega meðvitaður um núið. Þú getur bætt líf þitt ótrúlega mikið með því læra að skynja núið til fulls- að VERA.

Here endeth the lesson

Ég er búinn að reka mig þetta í sífellu síðustu dagana- að vera endalaust í vinnunni. Líka þegar ég er heima hjá mér, eða í göngutúr með hundinn. It is the way to madness.

Ég ætla að reyna að nýta hvert tækifæri til að vera meðvitaður og vakandi. Annars koma mennirnir með risavaxna fiðrildanetið og ná í mig.

Smell you later

-S

Tuesday, October 03, 2006

Sprengjuhótun

Í gær fengum við Sprengjuhótun. Það var ekki skemmtileg tilfinning. Eins og það hafi ekki gengið nóg á síðustu mánuði. Það er búið að kalla okkur vopnaframleiðendur, umhverfissóða, lögbrjóta, fjallkonunauðgara og ég veit ekki hvað...og nú þetta. Mikið svakalega er mikið að fólki sem gerir svona. Þetta er í raun terrorismi þótt ekkert hafi verið sprengt (ennþá a.m.k.). Tilgangurinn er að valda starfsmönnum ótta og vanlíðan og draga þannig úr líkunum á því að við náum árangri.

Ég vísa á niðurlagið í síðasta innslagi mínu. Við munum beina allri okkar orku í það að ná árangri með þessa verksmiðju og í það að byggja upp gott samfélag á Austurlandi. Terroristar, úrtölumenn, dómsdagsspámenn og aðrir fýlupúkar geta gargað sig hása mín vegna. Við MUNUM ná árangi.

Anyhoo.......

Mig vantar nýja gönguskó. Traustu Salomon skórnir eru farnir að leka og eru bara orðnir ansi þreyttir. Any recommendations?

Smell you later:

Siggi Nobb