Thursday, October 05, 2006

Fjölmiðlar

Einu sinni vann ég á fjölmiðli. Sá fjölmiðlill var ekki stór. Hann kallaðist Austurland og var forveri Austurgluggans. Þegar ég vann á fjölmiðli þá gerði ég mér far um að kynna mér mál af sæmilegri kostgæfni áður en ég fjallaði um þau og skrifa svo sæmilega hlutlægan/hlutlausan texta. Þetta gekk nú oftast sæmilega, en þó kom fyrir að maður fékk símtöl frá fólki sem taldi halla á þeirra hlið í umfjölluninni. Sumir voru jafnvel sárir eða æstir. Í kjölfar slíkra samtala fór maður yfir það sem skrifað var og tékkaði á staðreyndum málsins, skoðaði orðalag og vó og mat hvort maður hefði virkilega klúðrað einhverju. Stundum var það raunin og þá reyndi maður að gera betur næst.

Ég held að flestir ærlegir blaðamenn kannist við þessa lýsingu. Mér sýnist hins vegar sífellt oftar að menn vandi vinnubrögð alls ekki nógu mikið. Það er nefnilega þannig að ef maður veit eitthvað um þau mál sem eru til umfjöllunar þá sér maður ótal villur og mistúlkanir í meðferð fjölmiðla á málinu. Og ef maður sér alltaf einhverja meinbaugi á umfjöllun um þau mál sem maður þekkir sjálfur, eru þá ekki talsverðar líkur á því að það sama gildi um þau mál sem maður þekkir ekki?

Ég ætla ekki að segja að ég hafi nokkurntíman kokgleypt það sem ég les, heyri eða sé í fjölmiðlum- sérstaklega eftir að ég skreið út úr skóla, tortrygginn, kaldhæðinn og fullur af efa. Hins vegar stend ég mig að því að gleypa sífellt minna við því sem er í fjölmiðlum hverju sinni. Kveður jafnvel svo rammt að þessu að ég er hreinlega að spá í hætta að fylgjast með fréttum. Fyrir því er raunar ein ástæða í viðbót.

Málið er nefnilega að "good news is no news". Fréttir eru samsuða af öllu því neikvæðasta sem dynur yfir á hverjum tíma. Það þýðir að ef tveir aðilar deila á opinberum vettvangi, túlkun annars þeirra á þrætuefninu er neikvæð en túlkun hins jákvæð, þá er vonlaus slagsíða á umfjöllun um efnið. Jákvæði málstaðurinn er ekki fréttnæmur- hinn neikvæði er endalaus uppspretta efnis. Miðlarnir eru óseðjandi skepnur sem þrífast á ótíðindum.

Kannski er þetta vandamál óvenju slæmt á Íslandi, þar sem smæð miðlanna og markaðarins gerir fagmannleg vinnubrögð að sumu leyti erfiðari en ella. Það er mikill munur á því að vinna á blaði sem getur borgað fyrir margra vikna, mánaða eða jafvel áralangar rannsóknir á einstökum málum og nógu há laun til að laða að sér kaliberfólk.

Ekki misskilja mig...vönduð fjölmiðlun er mikilvægur hluti af lýðræðissamfélagi. Það er bara rosalegur skortur á vandaðri fjölmiðlun.

No comments: