Saturday, October 14, 2006

Að fylla fötur

Ég er búinn að hugsa mikið um bjartsýni upp á síðkastið.

Ég er búin að kenna nokkrum hópum stuttan sjálfseflingarkúrs sem ég setti saman. Allir nýir starfsmenn Alcoa fara í gegnum þennan kúrs. Þegar ég setti efnið saman þá leitaði ég fanga nokkuð víða og er enn að viða að mér efni og pæla.

Eitt af því sem ég hef tæpt í námskeiðinu er um mikilvægi þess að vera virkur og taka ábyrgð á eigin gjörðum og tilfinningum. Það er nefnilega ótrúlega algengt að fólk taki enga ábyrgð á viðbrögðum sínum við áreiti. "Hann gerði mig bara brjálaðan", er oft viðkvæðið hjá fólki sem handtekið er fyrir ofbeldisbrot. Það er kannski öfgakennt dæmi um það hvernig menn geta afneitað ábyrgð á tilfinningum og gjörðum, en ég held að okkur hætti allt of mikið til að láta ytri aðstæður og atburði virka neikvætt á okkur. Við getum nefnilega alltaf valið viðbrögð. Við erum raunar eina skepnan á jörðinni sem getur brugðist við ytra áreiti með svo yfirveguðum hætti, enda erum við einu skepnurnar sem hafa til að bera sjálfsmynd, ímyndunarafl og samvisku.

Margt af því sem ég hef verið að lesa bendir til þess að við getum svo sannarlega ákveðið að vera jákvæðari og glaðari manneskjur. Það getum við t.d. gert með eftirfarandi hætti:

1. Með því að stoppa af neikvætt hugarflæði, rökræða við sjálfan sig, varast að draga víðtækar ályktanir af neikvæðum atburðum og vega og meta neikvæðar staðhæfingar okkar um okkur sjálf.

2. Með því að BROSA og bera okkur vel. Ef manni líður illa getur virkað afar vel að brosa einfaldlega. Það hefur verið sýnt fram á að þótt hegðun stjórnist yfirleitt af tilfinningum þá hefur hegðun líka áhrif á tilfinningar. Þú brosir þegar þú ert ánægður, en þú verður líka ánægður (eða ánægðari a.m.k.) þegar þú brosir. Þarna á slagorð Nike ágætlega við: Just fucking do it.

3. Með því að gera í því að hrósa öðrum og dreifa gleði hvert sem þú ferð. Ég var að enda við að lesa stórskemmtilega bók sem heitir "how full is your bucket" sem fjallar einmitt um þetta efni- þ.e. mikilvægi jákvæðni í samskiptum á vinnustað (og í lífinu almennt). Við eigum að leitast við að fylla stöðugt á "fötur" hvers annars og varast neikvæðni eins og pestina.

Anyhoo.....

Grundvallaratriðið er þetta: Við getum ákveðið að vera jákvæðari og glaðari og slík hegðun smitar út frá sér. Alveg eins og nokkrir neikvæðir einstaklingar geta eitrað andrúmsloft á vinnustað þá getur jákvæðni fárra haft gríðarlega keðjuverkun í för með sér. Tökum ábyrgð á tilfinningum okkar og hegðun og einsetjum okkur að dreifa aðeins gleði og jákvæðni. Tökum neikvæðnina úr umferð (nema að sjálfsögðu á bloggsíðum, þar sem maður VERÐUR stundum bara að fá útrás fyrir ákveðnar frústrasjónir :-)

Góðar stundir.

No comments: