Skip to main content

Stöðubreyting, rokk og ról og fleira smálegt

Hello darlings

Ef eitthvað kemur einkennilega út í þessu bloggi, þá er það vegna þess að Google hefur yfirtekið blogger.com (sem hét reyndar blospot.com þegar ég byrjaði að blogga). Semsagt...not my fault.

Það hefur ýmislegt gengið á upp á síðkastið. Synd að segja að maður hefði ekki nóg að gera þessa dagana. Hér eru nokkur dæmi:

Ég er nú formlega titlaður Fræðslustjóri ("Training manager" upp á ástkæra engilsaxneska) Alcoa Fjarðaáls. Verkefnin eru mjög skemmtileg, en jafnframt örlítið yfirþyrmandi á köflum. Ég ber nú orðið talsverða ábyrgð á því að þessar tæplega 400 sálir okkar læri allt sem þær þurfa að læra til að gera þetta að besta álveri í heimi og fái svo tækifæri til að vaxa og dafna í starfi í takt við hæfileika og áhuga. Kosturinn er hins vegar sá að þetta er ótvírætt uppbyggilegt starf þar sem ég get haft jákvæð áhrif á líf fjölmargra. Ég held því að það séu mjög jákvæðir tímar framundan. Það hjálpar líka til að ég er að vinna með stórskemmtilegu fólki sem hefur mikinn áhuga á því sem það er að gera.

Og ég var einmitt að djamma með þessu fólki síðustu helgi, en þá mættu um 150 Alcóar og makar í Egilsbúð til að eta jólamat og blóta bakkus. Ég stóð raunar stærstan hluta kvölds og nætur uppi á sviði og plokkaði bassa. Það var alveg svakalega gaman. Ég var að spila með Rokkhundunum, sem eru Lukku Láki, Snúruvaldi og Helgi (yeah..I know) Gogga. Strákarnir stóðu sig stórkostlega og var grúppan bara drulluþétt. Villi Harðar þandi með okkur raddbönd talsverðan hluta kvölds og stóð sig mjög vel- enda var ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur heldur á nokkrar af helstu hetjutenósaríum rokkbókmenntanna, svo sem Lick it up, I was made for loving you, Living on a prayer og Final Countdown. Það síðastnefnda var lokalag kvöldsins og var tekin upp sú nýbreytni að láta bassaleikarann spila sólóið. Það var gaman, enda ekki oft sem við bassaleikarar fáum að láta ljós okkar skína svo einhverjir aðrir en aðrir bassaleikarar í salnum taki eftir því. Reyndar var talsverð mannraun að spila áðurnefnt sóló, þar sem ég var á þessum tímapunkti orðinn heldur fingrahrumur (við byrjuðum að æfa fyrir giggið kvöldið áður) og ölur (við fengum ókeypis bjór).

Hanna rokk söng líka með okkur nokkur lög og var alveg stórgóð. Stúlkan sú er hörkutalent. Hún söng m.a. "Ég vil að þú komir" með Trúbroti. Við fengum það til að grúva stórvel. Hún söng líka "Play that funky music", en á meðan flutningi þess stóð lentum við í fídbakki dauðans- hausinn á eldri konu út í sal sprakk og hundar í 7 mílna radíus ærðust. Goggson æddi að mixernum til að redda málunum, sem tók lungann úr laginu, en við hin spiluðum og sungum áfram eins og sannir proffar þótt það væri farið að blæða úr eyrum, augum og öðrum líkamsopum.

Senuþjófur kvöldsins var samt Þorleifur spítubassi, sem m.a. hefur gert hefur garðinn frægann með Bubba og KK. Hann söng eigin ljóð og lék undir á bassa íklæddur glimmerskyrtu og með hatt á höfði. Snilld. Gaurinn er endalaust flottur karakter og ótrúlega næs gæi.

Svo ég haldi áfram í þessum fréttagír þá er ég að fara að spila blak um helgina. Næ vonandi að hrista af mér spikið sem ég bætti á mig á jólahlaðborðinu. Þar er um að ræða Austurlandsmót í blaki, þar sem við munum etja kappi við aðra austfirska ístrubelgi. Það ætti að verða gaman. Ég mætti á fyrstu æfinguna í vetur á síðasta mánudag og er nú með stjarnfræðilegar harðsperrur í vöðum sem ég var búinn að gleyma að ég hefði. Sjitt.

Ég fór í sprautu í dag og er með fjörfisk í upphandleggsvöðvanum. Óþægilegt.

Hvað er með þennan þátt hans Hemma. Djöfuls hörmung!

Sá í vikunni leiðinlegustu mynd sem ég hef séð um langt árabil. Pirates of the Carribabean II. Ætli það sé enginn með viti í Hollywood? Skelfileg þvæla.

Tek aftur það sem ég sagði um þáttinn hans Hemma. Er að horfa á Eirík Hauksson syngja lag með Uriah Heep. Gypsy Queen. Snilld.

Anyhoo....

Nú er ég farinn að röfla.

Smell you later

-S

Comments

inga hanna said…
til lukku með stöðuna!
Anonymous said…
Takk, takk! Reyndar telst þetta "lárétt" stöðubreyting, en ég held nú samt að þetta sé til bóta.

kv.
Siggi

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…