Sunday, November 26, 2006

Sunnudagsblogg

Mikið eru sunnudagar skrítnir dagar. Einhverskonar limbó. Maður leitast við að slappa af en nýja vinnuvikan sem vofir yfir eins og köld holskefla gerir raunverulega afslöppun erfiða. Ég hef því ekki enn fundið neina formúlu til að njóta sunnudaganna í botn. Það er mjög misjafnt hvað virkar. Ég er þó að komast á þá skoðun að það sé best að gera sem minnst. Í dag svaf ég t.d. til rúmlega 10, fór og keypti nýbakað brauð, horfði á Simpsons, horfði á skemmtilegan ferðaþátt með Michael Palin um Himalaya svæðið, horfði á fræðsluþátt um Mára, drakk kaffi, las í nýju Ben Elton bókinni minni, skrifaði í dagbókina og nú er ég að blogga.

Þetta hljómar ekki merkilegt, en dagurinn hefur verið óralengi að líða. Og það er gott! Ég er farinn að hallast að því að aðgerðarleysi sé okkur afar hollt í réttum skömmtum. Í aðgerðarleysinu slappar maður af, hugurinn hvílist, en að lokum verður maður eirðarlaus og upp úr því skapast ný orka til að framkvæma. Þetta er náttúrulega ekki ný sannindi, enda hafa flest samfélög frá örófi alda haldið hátíðlegan hvíldardag. Ég er bara svo tregur að ég er fyrst að fatta þetta núna. Silly me.

Nýja Ben Elton bókin sem ég er að lesa er stórskemmtileg. hún heitir "Chart Throb" og er um raunveruleikaþátt í ætt við X-Factor og Idol. Stórskemmtilegar pælingar um slíka þætti sem á örugglega eftir að auka andúð mína á þeim. Ég gerðist reyndar sekur um að horfa á X-Factor á föstudaginn og hafði bara nokkuð gaman af. Þetta auðvitað mjög líkt Idolinu, en ég held að það sé verulega til bóta að afnema aldurstakmörkin. Gamlingjar geta vel rokkað, eins og dæmin sanna.

Nýja Todmobile platan er t.d. dæmi um rokkandi gamlingja. Þetta er reyndar rokkaðasta plata sem Todmobile hefur sent frá sér. Ég er nú ekki búinn að hlusta á hana nema tvisvar-þrisvar sinnum þannig að ég ætla ekki að kveða upp neina endanlega dóma, en mér finnst hún svolítið formúlukennd á köflum, auk þess sem simfóníska elementið er á undanhaldi- það eru engin "Betra en nokkuð annað" eða "Brúðkaupslög" á þessari plötu. En samt, mjög áheyrilegt allt saman. Fín partíplata og verður örugglega gaman að heyra þau flytja þetta læv. Það jafnast náttúrulega ekkert á við Todmobile læv. ÞAÐ er Betra en nokkuð annað. Ég gleymi aldrei balli með þeim á Neistaflugi ca. ´95. Frábær upplifun sem gleymist seint. Ég var á vakt í löggunni fram eftir kvöldi, skellti mér svo heim í sturtu, sturtaði í mig ólyfjan og fór svo og dansaði eins og andsetinn köngulóarapi á spítti til kl:4:00 um morguninn. Ef ég man rétt þá spiluðu þau m.a. "Killing in the name of" og Bohemian rhapsody. Dásamlegt.

Ég spilaði á blakmóti í gær. Spilaði 12 hrinur á 5 tímum. Get mig varla hrært í dag. Mér er illt ALLSSTAÐAR. Það er nokkuð ljóst mál að ég verð að koma mér í eitthvað form. Þegar rúmlega fimmtugur karl faðir minn er minna þreyttur eftir svona mót heldur en ég, þá þarf að gera eitthvað í því. Ég ætla því að drullast á blakæfingar tvisvar í viku til að koma mér í spilform. Mér finnst þetta ennþá alveg hrikalega gaman og ekki spillir skemmtilegur félagsskapur fyrir. Ég hef annars slegið verulega slöku við í hreyfingu upp á síðkastið og ég held að það gæti ýtt manni vel af stað ef maður þyrfti að byrja að mæta einhversstaðar í sprikl tvisvar í viku.

Anyhoo..........

Gotta go

Ykkar:

Siggi

6 comments:

Steinunn Þóra said...

Ég man eftir þessu Todmobile balli. Líklega besta ball sem ég hef farið á.

Anonymous said...

Ég man líka eftir því. Þetta var '97 og Eyþór var hættur. Villi Goði sögn Killing, Lick it up og fleiri standarda.

Jón.

Anonymous said...

Jú, mikið rétt. Villi Goði var að syngja með þeim. Hann brilleraði algerlega.

-Siggi

Valdi said...

Gott blogg Siggi, Djöfull líst mér vel á að þú ætlir að fara að mæta á æfingar. Mikið gleðiefni

Von Klumpfff said...

Þetta er mjög alvarlegt mál. Þú ert fastur í úreltu módeli þar sem vinnuvikan er þjáning sem ekkert getur réttlætt nema helgin. Þú þarft að gera kjörorð Hertz bílaleigunnar að þínum; "It's the journey - not the destination". Þá verður lífið allt eitt ferðalag þar sem engu skiptir hvort maður sé kominn á áfangastaðinn (í þessu tilviki inn í helgina) eða ekki. Þú ert í tilvistarkreppu sem ekkert fær leyst nema póstmódernismi í stórum skömmtum. Ef ég vissi ekki betur myndi ég álykta að þú værir að vinna í gaddfreðinni kolanámum stjórnað af Marquis de Sade - eða í fiskiðjuveri SVN. Eina ljósið í þessu - en það er reyndar býsna bjart er að dagurinn var ansi góður þrátt fyrir að gallharður veruleiki komandi vinnuviku væri vomandi yfir. Palin, Elton og nýbakað brauð (hvar færð þú nýbakað brauð á Austurlandi og það á sunnudegi - bæ þe vei? Á Reyðarfirði sést aldrei nýbakað brauð og ég held reyndar að allt brauð þar sé bakað a.m.k. þriggja daga gamalt. Sérstök tækni úr gamla Gunnarsbakaraíi. En sumsé - það er einhver nett Marxísk firring í gangi. Togstreita milli einkalífs og starfs. Mundu bara að trúin er ópíum fólksins og ef þú ferð í messu hjá Sigga Ragg og gluggar svo í Sartre á eftir þá blasa við betri tímar. Vertu viss!

Anonymous said...

Lieber von Klumpfff

Það að kvíða vinnuvikunni ber ekki endilega vott um existensíalíska angist af völdum ómanneskjulegra vinnuaðstæðna. Sumir eru bara "verkkvíðnir" frá náttúrunnar hendi. Og ég er einn af þeim. Kvíðinn er hins vegar oftast horfinn um leið og ég mæti á mánudagsmorgni til að "do my thing", sem betur fer.

Hvað bakkelsi varðar, þá fæ ég nýbakað brauðmeti í Olíssjoppunni. Stórgott. Ég myndi giska á að sambærilegt kolvetnasukk sé í boði á RF.

Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara í messu til að vinna gegn firringu. Þá held ég að ég kjósi fremur ópíumið. Nú, eða J.P. Sartre.

kv.

Unteroberst von Schlumpf