Tuesday, December 12, 2006

Á síðustu metrunum

Hæhó

Fór í stórskemmtilega jólaveislu á Seyðisfirði um síðustu helgi. Það var mikið gaman. Maturinn stórfínn og hljómsveitin Bermúda (sem ég rangnefndi Barracuda í færslu hér á dögunum) stóð sig stórvel.

Ég átti skemmtilegt móment þar sem ég labbaði á barinn í Herðubreið og pantaði tvær flöskur af víni með matnum (ekki bara fyrir mig sko....) 8500 kall takk fyrir. Sjjjjjjitt.

Er annars á síðustu metrunum að klára það sem klárað verður fyrir hátíðar. Er að fara til Reykjavíkur á morgun. Flýg svo til Hollands á sunnudag og til Frakklands á mánudaginn. Heim á þriðjudag (nokkurra tíma stoppi á Heathrow) og út til Norge á fimmtudag. Fuk mi. Ég hugsa að maður liggi í kóma fyrstu dagana í Noregi.

Anyhoo......

Veit ekki hvort ég má vera að því að blogga fyrr en á nýju ári. Ef ekki, þá óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og ánægjulegs nýárs. Megi kvarkar ykkar sveiflast í takt við alheiminn. Ef ég hef gleymt að senda ykkur jólakort (eða jólagjöf) þá bið ég innilega forláts. It's not because I don't love you :-)


kv.
Siggi

Tuesday, December 05, 2006

Skál fyrir bassaleikurum!!

Sit í sófanum, vinn (eða sko....vinn, blogga og drekk bjór á víxl) með Muse tónleika í DVD spilaranum. Djöfull eru þetta svalir drengir. Samt eru þeir nettir proggarar. Gleður mitt litla progghjarta að sjá svala proggara sem tekst að laða kvennfólk á tónleika.

Ég var hins vegar bara að kveikja almennilega á perunni með það núna hvað bassaleikarinn í Muse er ÓGEÐSLEGA góður. Hann er bara gjörsamlega í skugganum af Bellamy, sem náttúrulega súperstjarna. Bassaleikarinn heitir semsagt Chris Wolstenholme. Gaurinn er skuggalega þéttur og sándar eins og móðurserðir. Það er ekkert auðvelt að halda uppi þéttleika í þriggja manna bandi þar sem einn meðlimurinn er athyglissjúkur virtúós.

Þetta blogg er almennt séð tileinkað proggurum, en bassaleikurum sérstaklega. Bassaleikarar fá sjaldnast athyglina, en eru þó allt í öllu. Hljómsveit getur gert ágæta hluti með slakann gítarleikara innanborðs. Hljómsveit með lélegann bassaleikara er hins vegar...LÉLEG. Og hananú!

Skál fyrir bassaleikurum þessa heims! Skál fyrir Fjalari! Skál fyrir Jóni Hafliði! Skál fyrir Vidda Gúmm! Og (dare I say it?.....) skál fyrir mér!


kveðja:
Siggi


p.s. flest sem ég sagði áðan á líka við um trommuleikara. Skálum líka fyrir trommuleikurum!

Sunday, December 03, 2006

Hálfnakin Andrea ca. 1991, Ben Elton og fleira smálegt

Sit hér í dæmigerðum sunnudagsþægindum. Er að hlusta á Gunnar Kvaran sarga selló og drekka te. Nice.

Ég tek aftur allar efasemdir sem ég hafði um nýju Todmobile plötuna. Hún er gargandi snilld. Textagerð hefur vissulega aldrei verið þeirra sterkasta hlið, en tónlistin er bara svo góð að það gleymist algerlega. Hvílíkar raddir! Hvílíkar melódíur! Ég get ekki beðið eftir að heyra þessi lög live. Það er örugglega magnað. Ég hlustaði á plötuna á leið í og úr vinnu alla vikuna. Fæ enn reglulega gæsahúð þegar ég hlusta á hana.

Þegar ég var að hlusta á eitt lag plötunnar skaut gömul minning upp kollinum:

Árið er ca. 1991. Ég er á heim úr blakferð með Þrótti Nes og við stoppum í Staðarskála til að tæma blöðrur og fylla maga. Þar sem ég stend á miðju gólfi og er við það að stinga upp í mig pylsu með tómat, sinnepi og steiktum, opnast hurðin og inn gengur Andrea Gylfadóttir. Á þessum tíma var ég þegar orðinn einlægur aðdáandi og ég er ekki frá því að hún hafi birst mér oftar en einu sinni í draumum af votara taginu. Mér varð þvi ekkert lítuð um að sjá stjörnuna birtast holdi klædda á svo óvæntum stað, en það var þó ekki síst klæðaburðurinn sem vakti óskipta athygli mína. Hún var nefnilega BARA í lopapeysu og ENGU öðru. Peysan var það stór að hún átti hana örugglega ekki. Hún náði rétt niður fyrir rass. Andrea var ekki í neinu öðru- hvorki skóm né sokkum. Hún brosti feimnislega til okkar og trítlaði svo niður stigann. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn nálægt því að fá heilablóðfall af skyndilegum viðsnúningi blóðflæðis.

Það þarf vart að taka það fram að umrætt atvik varð ekki til þess að minnka aðdáun mína á Andreu og hefur sá áhugi lifað fram á þennan dag, þótt hún sé löngu hætt að vitja mín í draumi. Hvílík rödd, hvílík rödd.

-----------------------------------------------

Ég var að ljúka lestri á nýjustu bók Ben Elton. Elton er einn af mínum uppáhaldspennum. Hefur gríðarlegt innsæi í líðandi stund og tekst að skrifa bækur með verulegum broddi og ríku innihaldi sem eru líka frábærlega skemmtilegar aflestrar. Hér hefur hann samt skitið yfir markið, því "Chart Throb" fannst mér ekki nógu góð bók. Hún rennur svo sem nokkuð ljúflega í gegn, en stór hluti af karakterunum er svo skelfilega viðurstyggilegur að maður tengir ekki mikið við þá. Ádeilan mistekst líka að talsverðu leyti. Ég held þó að ég muni ekki horfa á "veruleikaþætti" með sama hætti og áður- ekki það að ég hafi horft mikið á slíka þætti yfir höfuð, enda megnið af þeim óttalegt rusl.

Ég er núna að lesa John Grisham. Ekki mikill súbstans, en afar læsilegt og skemmtilegt. Maður á ekki að vanmeta gildi góðra afþreyingarbókmennta.

-----------------------------------------------

Við Jóna fórum á jólahlaðborð á Skriðuklaustri í gærkvöldi í boði KPMG. Þar vorum við ásamt starfsmönnum Intrum og fasteignasölunnar Domus. Það var stórskemmtilegt og maturinn var frábær. Þessi julefrokost tími er ótrúlegt álag á meltingarfærin. Um næstu helgi förum við svo í jólaveislu á Seyðisfirði þar sem við fáum gourmet mat frá Öldunni og dillum okkur svo við tóna frá hljómsveitinni Barracuda. Ætti að verða fjör.

----------------------------------------------

Við erum að fara til Noregs á skíði yfir jólin. Fljúgum út 21. des og verðum í viku. Við verðum í Trysil, sem er stærsta skíðasvæði í Noregi (ca. 60-70 lyftur). Nú ber hins vegar svo við að ekkert hefur snjóað í Trysil. Hlýjasta haust þar um slóðir í 200 ár. Ég ætla rétt að vona að það rætist úr því, enda búið að borga flug og hótel.

----------------------------------------------

Gífurlega bissí vinnuvika framundan. Ég þarf að verja tveimur dögum í vikunni í kennslu. Það tekur alltaf á. Það er ótrúlega erfitt að kenna sama hópnum í 8 tíma í beit. Veit ekki hvernig það mun ganga með hálsbólgu og kvef. Auk þess þarf ég að gera 12.000.000 aðra hluti í vikunni. Púff.

Bið að heilsa ykkur


kv.
Siggi