Thursday, December 27, 2007

Gleðileg jól!

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á ári komanda!

Annað árið í röð klikkaði ég algerlega á því að senda jólakort og bið ég auðmjúklega forláts. Það er samt einhvernvegin þannig að kortin sem maður fær gleðja mann, en maður pælir ekkert í því hverjir sendu manni EKKI kort. Það eru því hugsanlega skelfileg mistök að vekja máls á þessu.

Ég er búinn að hafa það svakalega gott yfir hátíðar- hef etið, drukkið, lesið og sofið til skiptis- og faðmað fólkið mitt auðvitað. Vigtin hélt því fram í morgun að ég væri einu kílógrammi þyngri en fyrir hátíðar. Geri aðrir betur! Og áramótasukkið er allt eftir! Jibbí! Þá hefur maður eitthvað að gera í janúar.

Ég ætla að skrifa hér einhverja rosalega djúpa áramótahugleiðingu innan skamms, en í augnablikinu eru æðarnar sem eiga að sjá heilanum í mér fyrir súrefni meira og minna stíflaðar af mettaðri fitu.

Hugs to all:

-Siggi

Tuesday, December 18, 2007

Miles, partí og næturvaktin

Sit hér kl:23:00 á síðkvöldi og hlusta á Miles. Kind of Blue. Snilldarplata. Týndi henni fyrr á árinu og er nýbúinn að kaupa mér annað eintak. Andinn á þessari plötu er óviðjafnanlegur. Hún er tekin upp 1959 og er jafn fersk í dag og daginn sem hún var tekin upp. Maður verður einhvernvegin......svalur þegar maður hlustar á þessa plötu. Nnnnnnnnnnice.

Fór í gott partí á laugardagskvöldið. Jón Knútur félagi var að gefa út sérdeilis skemmtilega bók sem heitir Nesk. Frábær gonzo skrif um heimahagana og þá staðreynd að þótt maður yfirgefi Nesið, þá yfirgefur Nesið mann aldrei. Það er alltaf einhver hluti af sál manns fastur inni í þessum fjallahring og neitar að fara. Eða vill það ekki......hver veit.

Skipulag útgáfuteitisins var ekki flókið..gömul pottþétt uppskrift: Skemmtilegt fólk, nóg af bjór og hljóðfæri. Það er blanda sem klikkar ekkert. Eftir að Coney Island Babies höfðu flutt nokkra tregasöngva las höfundur upp úr bókinni af stakri snilld- nýþjálfuð útvarpsröddin fór vel með sögurnar sem voru hver annarri fyndnari. Sagan um fyrstu heimsókn Jóns og Dadda í Tónspil er t.d. klassík með frábæru pönslæni sem við félagarnir höfum flissað yfir í hartnær tvo áratugi. Ég skil ekkert í því af hverju enginn hefur farið út í útgáfu einhliða geisladiska :-).

Eftir að skáldi hafði lesið og Babies leikið nokkur lög í viðbót var drukkið meira öl og á endanum var á sjálfsögðu gripið í hljóðfæri. Ég fékk að grípa í gamla Yamaha BB1000 bassann hans Haffa sem sándar vægast sagt vel. Jón Hilmar missti sig í gamlan gír og hefur ekki rokkað jafn hraustlega síðan hann stóð í gúmmístígvélum í kjallaranum á Steininum árið 1990 og framkallaði hljóð sem nýfermdir guttar ættu ekki að geta framleitt með sex rafmögnuðum strengjum. Jón Knútur, Valdi og Kiddi Umbi skiptust á að berja húðir, Geiri strömmaði Ovation og við Haffi skiptumst á að plokka bassann. Ssssssæll! Eigum við að ræða það eitthvað eða?.........

Ég kláraði í kvöld að horfa á Næturvaktina á DVD. Þetta er þrímælalaust besta sjónarvarpsefni sem Íslendingar hafa nokkru sinni framleitt. Og ég er ekki viss um að þetta verði nokkru sinni toppað. Ótrúlegir snillingar þarna á ferð. Dásamlegir grátbroslegir karakterar, fáranlegar aðstæður, snilldarlega skrifuð samtöl, óvænt tvist og nýjungar í málfari sem eru farnar að heyrast í daglegum samræðum stórs hluta landsmanna. 7 stjörnur af 5 mögulegum.

Jólakveðja:
-S

Friday, December 14, 2007

Molar

Einu sinni vorum við Valdimar (tannlæknir og stórsnillingur) búnir að hanna nýjan dálk í blaðið sem ég skrifaði einu sinni fyrir- Austurland. Dálkurinn átti að innihalda slúðursögur af tannlæknastofunni og heita "Molar" (þeir sem ekki kvikja á perunni geta flett þessu upp í ensk-íslenskri orðabók). Hehe........ Tannlæknahúmor. Þetta minningarbrot tengist efni dagsins ekki neitt, en kom upp í hugann þegar ég skellti titlinum á pistilinn.

Vikan er búin að vera skemmtilega geðveik. Búið að vera bilað að gera. Ég söng t.d. í rockshow-inu á þriðjudaginn. Það var stórskemmtilegt, enda stór hluti áheyrenda krakkaormar- þ.á.m. dóttir mín. Ég held að hún hafi ekkert skammast sín mjög fyrir pabba gamla. Ég sleppti því reyndar að bera mig, en það hef ég gert í öllum sýningum til þessa. Maður þarf að taka tillit til félagslífs afkvæmisins sko.....

Ég eyddi miðviku- og fimmtudegi í borg óttans á ýmiskonar fundum. Ég sakna þess ekki mikið að búa í Reykjavík, en mikið svakalega er gaman að hitta gamla vini og borða góðan mat. Við Hugi fórum á átum á Shalimar sem er snilldar karríbúlla í Austurstræti. Alveg ekta karrí eins og maður varð svo húkkd á í Englandi. Karrí og Cobra bjór. Já, takk. Einar Sólheim kíkti svo í bæinn og sat með okkur á Thorvaldssen (af öllum stöðum!), en þangað inn duttum við fyrir einhverja tilviljun. Það er eitthvað huggulegt við að sitja í góðra vina hópi á bar á miðvikudagskvöldi og drekka brasilískt brennivín. Um nóttina varð mér hins vegar ekki svefnsamt. Ég hélt að Grand Hótel turninn ætlaði að fjúka um koll í skítviðrinu.

Talandi um skítviðri. Mér sýnist snjórinn vera að hverfa hratt og örugglega úr Oddsskarði. Sem er sérlega jákvætt í ljósi þess að ég keypti árskort um síðustu helgi.

Allavega...........smell you later

-S

Tuesday, December 11, 2007

Show and snow

Jæja....í kvöld er síðasti séns að sjá og heyra hið stórskemmtilega rockshow Brján, en undirritaður mundast við að þenja raddbönd í þeirri ágætu sýningu. Þið getið séð dæmi á YouTube:

http://www.youtube.com/watch?v=mT0SuKNHYsk


Sýningin í kvöld er opin og ókeypis í tilefni af 1000 ára afmæli Síldarvinnslunnar.


Á skíðum skemmti ég mér..........

Fór á skíði um helgina og skemmti mér stórvel. Fríkaði út og keypti mér árskort á 14.000 kall. Finnst það vel sloppið m.v. að dagurinn er kominn upp í 1700 kall. Kosturinn við að hafa árskort er að maður getur kíkt í fjallið í klukkutíma án þess að vera svekktur yfir því að punga út 1700 kalli fyrir klukkutíma skemmtun. Ég gerði nákvæmlega það í gær. Droppaði við í fjallinu á leið heim úr vinnu og tók 10 ferðir eða svo. Geðveikt adrenalínkikk- stórsvig og brun á svívirðilegum hraða. Flaug reyndar á hausinn þar sem ég var að skíða í lausamjöll. Mæli ekki með því að gera það í myrkri. En ég mæli með skíðaiðkan. Ótrúlega skemmtilegt sport sem tekur heilmikið á skrokkinn. Það loguðu á mér lappirnar eftir klukkutíma í brekkunum og maður fann hjartað berjast í brjóstinu eftir hverja ferð. Svo er fjallaloftið örugglega heilnæmt, svo maður tali nú ekki um kyrrðina.


kv.
Siggi

Thursday, December 06, 2007

Jólin o.fl.

Mikið svakalega hlakka ég til Jólanna. Ég verð sífellt meira jólabarn, sem er áhugavert í ljósi þess að maður er nú ekki beint að yngjast með árunum. Þetta er bara svo dásamlegur tími. Góður matur, samvera með manns nánustu, að grúfa sig ofan í nýjar brakandi ferskar bækur, japla á Mackintosh, kertaljós, Brandenburgarkonstertarnir, ahhhh.. Svo ljúft, svo ljúft.

Ég þarf hins vegar að vinna eins og móðurserðir til að geta tekið mér frí með sæmilegri samvisku. Verkefnalistinn er skuggalega langur og strembinn þessa dagana, enda verið að gangsetja verksmiðjuna á fullu og málmflæðið eykst dag frá degi og stressið í takt við það. Gaman, gaman.

Álbandið mun rokka um jólin. Við ætlum að stíga á stokk í Egilsbúð á miðnætti, aðfaranótt annars í jólum. Veit ekki hvort það verða jólalög á prógramminu, en held samt ekki. Jólalög eru skelfilegur viðbjóður almennt séð og ekki vænlegur efniviður fyrir rokkhljómsveit. Stefnan er samt að bæta 5-10 lögum í lagasafn sveitarinnar og vonandi verður eitthvað af því í metnaðarfyllri kantinum. Það er gríðarlega gaman að spila með álbandinu, enda er söngvaraliðið svo sterkt að það liggja mjög fá lög utan við raddsvið sveitarinnar (ok.....”Á sjó” myndi sennilega ekki ganga). Svo er alger unun að spila með gítarsnillingi eins og Gumma Hösk. Maður veðrast allur upp. Rokk og ról.

Ég hvet lesendur til að mæta í Egilsbúð og rokka með okkur og minnast þar með fæðingar Súsa Jó fyrir rúmlega 2000 árum. Hann var svalur gaur sem hafði fullt af kúl hugmyndum eins og að bjóða alltaf fram báðar rasskinnar, elska náungann (er það ekki svolítið hýrt?) og að kasta ekki grjóti nema maður hafi efni á því. Gott stöff.

Tuesday, December 04, 2007

Norrænar glæpasögur, já takk

Ég er búinn að lesa slatta af norrænum krimmum síðustu mánuði. Þó nokkra íslenska og svo tvo sænska höfunda, Camillu Lackberg og Lizu Marklund. Það er eitthvað við þessar sögur sem fellur mér afar vel í geð. Ég er svolítið búinn að spá í hvað það er og ég held að ég sé með svarið.

Þetta eru bækur um fólk og viðbrögð þess við aðstæðum og áföllum. Í hinni engilsaxnesku “whodunit” hefð er fókusinn á afbrotið sjálft og lausn gátunnar. Fyrir þá sem horfa mikið á sjónvarp þá sést þessi munur t.d. vel með því að bera saman danska þáttinn “Forbrydelsen” og hinn skelfilega ameríska “CSI”. Í þeim fyrrnefnda er verið að fjalla um fólk. Fólk sem fremur afbrot, fólk sem rannsakar þau og fórnarlömb. Maður kynnist persónunum og það er auðvelt að setja sig í spor þeirra. Persónurnar í CSI eru eins og róbótar- ganga í sín störf af fullkominni fagmennsku og töffaraskap. Ég þarf varla að taka það fram að mér finnst Forbrydelsen vera frábær þáttur á meðan mér finnst skemmtilegra að týna ló úr naflanum á mér en að horfa á CSI.

Sænsku krimmarnir eru mjög skemmtilegir og ég var að enda við að lesa tvær bækur eftir Lizu Marklund, Rauða Úlfinn og Arf Nóbels. Hvort tveggja afskaplega læsilegar bækur. Maður hefur mikla samúð með hinni litlu og seigu Anniku Bengtzon og mér finnst innsýnin í hugarheim hennar og fjölskyldulíf í raun vera það sem gefur bókunum gildi. Atburðarrásin sem hún flækist inn í skapar svo auðvitað heilmikla spennu, en oft og tíðum er það ekki síður spennan á milli vinnunnar og fjölskyldulífsins sem er áhugaverð og við margt að því kannast maður mæta vel. Hún fjallar í raun vel um þá raun að fullorðnast. Gott stöff.

Camilla Lackberg (a-ið í Lackberg á að vera með tveimur punktum og berast fram “lj”, held ég......Leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér) er nýliði, en skrifar stórskemmtilega. Bækurnar tvær sem komnar eru út eftir hana- Ísprinsessan og Predikarinn- eru mjög skemmtilegar. Hennar persónur eru ekki eins komplexaðar og flóknar og persónur Marklund, en það er þeim mun auðveldara að láta sér líka vel við þær. Frábærar bækur.

Það sem mér finnst gott við þessar bækur er að þær eru um fólk sem gengur í gegnum erfiða reynslu og kemst í gegnum hana. Lifir af. Lærir af reynslunni. Þegar ég spái í það þá eru það þannig sögur sem ég gleypi í mig. Sögur af venjulegu fólki sem þarf að sýna óvenjulegan styrk. Sögur sem stappa í mann stálinu og minna mann á hvað er hægt að afreka með því að sýna hugrekki, þolinmæði, dugnað og dirfsku.

Það eru svoleiðis bækur sem ég fíla og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Monday, December 03, 2007

Af hverju er ekki almennilegur veitingastaður í Fjarðabyggð?

Á Egilsstöðum eru a.m.k. 3 ágætlega frambærilegir veitingastaðir. Á Seyðisfirði er mjög góður veitingastaður. Í Fjarðabyggð er hins vegar ekki einn einasti veitingastaður sem gæti talist boðlegur (með þeim fyrirvara að ég hef ekki komið á Sumarlín á Fáskrúðsfirði. Ef eitthvað annað á við um þann stað þá bið ég eigendur hans og alla Fáskrúðsfirðinga auðmjúklega afsökunar).

Hvernig í ósköðunum stendur á þessu? Hefur fólk í Fjarðabyggð ekki áhuga á því að borða góðan mat? Er ekki markaður fyrir góðan veitingastað? Ég held að svo sé og að þörfin sé raunar mjög mikil. Ef einhver tæki sig til og opnaði almennilegan veitingastað á Reyðarfirði þá gæti sá hinn sami haft fínan pening upp úr því. Fólk í Fjarðabyggð á ágætlega stætt, auk þess sem traffíkin í kringum álverið á eftir að vara í mörg ár. Á hverjum tíma eru jafnvel tugir gesta í álverinu- fólk sem er alveg til í að eyða peningum í góðan mat, enda með kreditkort frá fyrirtækinu til að borga brúsann. Þetta fólk þarf í dag að sætta sig við mjög óspennandi valkosti.

Er virkilega svona mikið mál að reka sæmilegan veitingastað. Er ekki nóg að hafa metnað, sæmilegan smekk og kunna að taka á móti gestum? Ég held að það þurfi ekki mikið meira til. Núverandi veitingastaðir í Fjarðabyggð eru hins vegar því miður nánast gersneyddir öllu framangreindu. Maturinn er mjög misjafnlega eldaður, einstaklega óspennandi og yfirleitt afar ófagmannlega fram borinn. Það hvarflar oft að manni að fólk sem þjónar til borðs hafi aldrei svo mikið sem pantað sér máltíð á alvöru veitingahúsi.

Allavega....ég var víst búinn að lofa að vera jákvæður bloggari, þannig að ég ætla að hætta þessu tuði.

Ég vil hins vegar skora á metnaðarfull, kurteist smekkfólk, hvar sem það kann að leynast, að opna almennilegan veitingastað. Ég lofa að verða reglulegur gestur og ef það verður á Norðfirði þá skal ég jafnvel mæta vikulega! Það gæti tekið smá tíma að koma íbúum upp á lagið með að fara út að borða en ég held þó að það myndi gerast hratt ef vandað væri til verka. Þetta er mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur íbúa, enda á mörkunum að samfélag geti talist lífvænlegt nema að það skarti a.m.k. einum sæmilegum veitingastað.

Thursday, November 29, 2007

Múgíbúgíwúgí

Fór á tónleika með Mugison í Egilsbúð í gær. Þvílík snilld! Langt síðan ég hef setið eins dolfallinn á tónleikum. Sleftaumar úr báðum munnvikjum og ég held að ég þurfi á fullorðinsbleyunni að halda a.m.k. fram að helgi.

Örn var með hrikalegt gengi með sér á sviðinu. Guðni Finnsson- einn al-besti, ef ekki besti- bassaleikari landsins, Pétur Ben, gítarvirtúós og stórmúsíkant, Davíð Þór Jónsson- SNILLINGUR og strákur sem heitir Arnar (held ég) á trommur- mesti trommu GEÐSJÚKLINGUR sem ég hef séð lengi (svona eiga trommarar að vera- spólgraðir, með tunguna lafandi, bjótandi kjuða og ÓÐEÐSLEGA þéttir).

Spilamennskan var frábær og tónlistin snilldin ein. Tom Waits fílingurinn í Erni eykst með hverri plötunni. Gaurinn er fenómen.

Mætingin var bara þokkaleg miðað við miðja viku og snjókomu. Tónleikagestir voru mjög vel með á nótunum og í góðum fíling. Bandið skemmti sér líka konunglega sýndist mér.

Sex stjörnur af fimm mögulegum. Mæli líka eindregið með plötunni. Hún er frábær.


kveðja:
Siggi

Wednesday, November 28, 2007

Fjölgun á Skorrastað, óperugubb, Arnaldur Indriðason o.fl.

Nú er svo langt síðan ég hef bloggað að ég veit varla hvar ég á að byrja. Jæja…ég byrja bara einhversstaðar…..

---------------------------------------

Fjölgun stendur fyrir dyrum á Skorrastað 3. Nýtt kríli mun bætast í hóp vistmanna í aprílmánuði ef áætlanir standast. Meðganga gengur prýðilega og eiginkonan verður blómlegri með hverri vikunni. Tilhlökkun er mikil, enda eru börn dásamleg fyrirbæri. Fyrsta eintakið var sérlega vel heppnað og engin ástæða til að ætla að það næsta verði eitthvað síðra. Kyn hefur enn ekki fengið staðfest, en það mun þó gerast alveg á næstunni. Okkur er auðvitað nákvæmlega sama hvort það verður. Það verður elskað. Það er þó ljóst að það verður heilmikil breyting að fá alveg splunkunýja manneskju í hendurnar til að hugsa um. Frumburðurinn er að verða 10 ára og maður er auðvitað búinn að steingleyma því hvernig þetta smábarnastúss gengur fyrir sig. Við erum samt ótrúlega mikið betur í stakk búin til að takast á við þetta núna heldur en í fyrsta skiptið- búin að koma okkur ágætlega fyrir og búin með nám og það allt- a.m.k. í bili. Ég get ekki beðið eftir að kynnast þessari nýju himnasendingu. Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar Sigga Thea var lögð í fangið á mér. Hún starði á mig stórum bláum augum og eignaðist hjarta mitt að eilífu.

-----------------------------------------

Fjölskyldan skellti sér til Prag í síðstu viku og eyddi 5 dögum í að skoða þá merku borg. Það verður sennilega ekki mikið um borgarferðir næstu misserin þannig að við ákváðum að kýla á eina slíka til að brjóta skammdegið upp. Ég er búinn að vinna mjög mikið upp á síðkastið og Jóna er búin að vera á kafi í löggildingarprófum, þannig að okkur fannst við eiga skilið að líta aðeins upp úr annríkinu, sinna hvert öðru og barninu, sem hefur verið full afskipt síðustu vikur og mánuði. Eitthvað hefur annríkið þó komið niður á heilsufarinu því okkur tókst öllum að fá einhverja fjandans ælupest í ferðinni. Ég held að maður sé orðinn eins og karfi. Maður þarf ákveðinn umhverfisþrýsting til að vera eðlilegur. Ef þrýstingurinn fellur byrja augun á manni að þrýstast út úr höfuðkúpunni og eitthvað gefur sig.

Fjörið byrjaði nóttina fyrir brottför, en Sigga greyið ældi alla nóttina. Svo ældi hún alla leiðina í flugvélinni. Næsti dagur var fínn, við skoðuðum borgina, fórum í dýragarðinn og höfðum það gott. Daginn eftir varð ég veikur. Slappaðist niður þegar leið á daginn. Um kvöldið áttum við miða í óperuna. Ég harkaði af mér, enda búið að greiða formúu fyrir miðana. Þurfti svo að hlaupa út af miðri sýningunni til að gubba. Var óheppilega staðsettur í húsinu og þurfti að æða inn á kvennasklósettið til að æla. Varð hugsanlega fyrsti karlmaðurinn í sögunni til að æla í kvennaklósettið í óperunni í Prag. Magnað. Næsta dag hélt ég að ég væri að deyja og þegar leið á daginn var Jóna orðin lasin líka. Hún jafnaði sig ekki áður en við fórum heim. Nánast alla ferðina var sem sagt einhver veikur. Það bjargaði málunum að við vorum á 5 stjörnu hóteli og því í sæmilegu yfirlæti. Ég get algerlega mælt með Prag. Fáránlega falleg borg sem hefur varðveist mjög vel. Við erum ákveðin í að fara þangað aftur.

Við komum til landsins á aðfaranótt föstudags og ætluðum svo að mæta á árshátíð KPMG á laugardaginn. Hættum hins vegar snarlega við það og brunuðum norður til Akureyrar og gistum tvær næstur á hótel mömmu til að ná heilsu. Á sunnudag fór ég á skauta í fyrsta skipti á æfinni. Það var hrikalega gaman. Ég datt ekki neitt og Sigga Thea brunaði um og var samt bara í sinni 3 skautaferð. Ég hugsa að við gerum það að reglu að kíkja á skauta. Skemmtilegt sport og að sumu leyti svipaður fílingur og að fara á skíði.

----------------------------------------------

Ég tók forskot á sæluna og skellti mér smá sundsprett í jólabókaflóðinu. Las Harðskafa eftir Arnald og Ösku eftir Yrsu. Arnaldur er orðinn hrikalega þéttur krimmahöfundur. Ég er ekki frá því að þetta sé hans næst besta bók á eftir Grafarþögn. Þarna er hann að leika sér með draugagang, spíritisma og fleira skemmtilegt. Mjög vel heppnað. Yrsa er líka ansi lunkin. Það er erfitt að láta Öskuna frá sér fyrr en maður er búinn með hana. Ég er annars búinn að liggja í krimmum upp á síðkastið- lesa Lisu Marklund, Stefán Mána og nokkra erlenda höfunda. Stórskemmtilegt. Ég er krimmafíkill held ég. Djöfull er Stefán Máni samt svartur. Mér leið illa eftir að hafa lesið “Svartur á leik”. Það vesta er að fróðir menn hafa sagt mér að margt af því sem er í bókinni komi beint úr íslenskum veruleika og sé bara ekkert ýkt. Og segi þá eins og Bjarni bróðir minn.

Crapenhagen.

Gott í bili.

Tuesday, November 27, 2007

Andinn snýr aftur

Eftir langa fjarveru úr bloggheimum er Andinn nú að íhuga endurkomu. Ég hef ekkert bloggað vegna almenns áhugaleysis á bloggi, vegna anna, skorts á nettengingu á heimavígstöðvum, auk annarra tæknilegra vandkvæða.

Nú hefur áhugi minn á þessu fyrirbæri kviknað á ný og ekki loku fyrir það skotið að ég fari að láta ljós mitt skína aftur. Ég er samt óviss um tilganginn með því. Ég er að spá í að vera jákvæður bloggari- If you can't say something nice it's better to say nothing at all- sagði vitur maður. En hver nennir að lesa það? Vilja menn ekki helst bloggara sem tæma endaþarm hugans inn á bloggsíðuna sína svo að allir geti hnusað og velt sér upp úr skítnum (bið forláts á einstaklega óviðurkvæmilegri samlíkingu). Allavega......það les mig þá bara enginn- Það verður bara að hafa það. Hér kemur hin nýja ritstjórnarstefna Andans í stuttu máli:

1. Ég ætla að segja fréttir af sjálfum mér svo að vinir mínir og ættingjar geti séð hvað ég er að sýsla.
2. Ég ætla að segja frá bókum sem ég er að lesa, tónlist sem ég hlusta á og kvikmyndum sem ég horfi á.
3. Ef ég ræði þjóðmál þá ætla ég að forðast póstmódernískt niðurrif, svartagallsraus, yfirdrull, níhilisma og kaldhæðni (vá....þetta verður ekki auðvelt....)

Þetta er ekki endanleg útgáfa ritstjórnarstefnunnar, en dugar vonandi í bili.


kv.
Siggi

Sunday, April 08, 2007

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þetta: Af hverju er ekki a.m.k. annar hver bíll á götunum orðinn rafmagnsbíll? Ef nýtt fyrirtæki eins og Tesla getur framleitt rafknúinn ofursportbíl, þá hlýtur fyrirtæki eins og Toyota að rúlla því upp að framleiða flottan fólksbíl fyrir Jóna Jónssyni þessa heims. Flest okkar vilja bara þægilegann farskjóta til að komast frá A-B (og um helgar á stað C :-) og hafa ekkert að gera við fjögurra sekúndna hröðun í hundraðið. Með okkar ódýru og umhverfisvænu orku þá gætum við tekið stór og markverð skref í þá átt að menga minna.

Mikið svakalega grunar mig að olíhagsmunir hafi eitthvað að segja um það að svona bílar eru ekki komnir í almenna umferð. Reyndar eru sögusagnir um að ýmsar uppfinningar sem hefðu getað dregið verulega úr eldsneytisneyslu hafi verið keyptar af stóru olífélögunum og stungið ofan í skúffu. Á dögunum var grein í viðskiptablaðinu um nýjann mótor sem var á stærð við mjólkurfernu og skilaði um 400 hestöflum. Mönnum hefur greinilega dottið ýmislegt í hug sem ekki hefur fengið hljómgrunn hjá stóru bílaframleiðendunum.

Ég vona því innilega að Tesla mönnum takist ætlunarverkið- að gera rafmagnsbíla kúl. Ég skal a.m.k. glaður kaupa mér rafknúinn bíl, enda orðinn nett leiður á að eyða tugum þúsunda í bensín í mánuði hverjum.

Góðar stundir:

-S

Friday, April 06, 2007

Fuck me Gerald

Múhaha.....Snilld frá Charlie Brooker

I've instinctively hated the Tories since birth. If there was an election tomorrow, and the only two choices were the Nazis or the Tories, I'd vote Tory with an extremely heavy heart. In descending order of vehemence, my objections to the Tory species stem from a) everything they do, b) everything they say, c) everything they stand for, d) how they look, e) their stupid names and f) the noises I imagine they make in bed. I once overheard two posh people - almost certainly Tories - having sex in a hotel room. It was grim. The woman kept saying, "Fuck me, Gerald," in a cut-glass accent, which was funny, but Gerald himself soon wiped the grin off my face with his grunting, which wasn't really grunting at all, but instead consisted of the words "oh" and "ah" crisply orated aloud, like Sir Laurence Olivier reading dialogue off a card at an early rehearsal. I didn't stick around long enough to hear the climax, but I imagine the words "gosh", "crumbs", and "crikey" probably put in an appearance.

Charlie er skemmtilegasti grumpy penninn sem ég hef komist í kynni við. Endalaust kaldhæðinn og endalaust neikvæður. Refreshingly dismal, one might say.

kv.
Siggi

p.s. Ætlaði að fara að blogga um pólitík, en varð óglatt um leið og ég fór að hugsa um hana. Viðurstyggileg tík þessi pólitík.

Tuesday, April 03, 2007

Long time no writeHef verið ótrúlega latur að blogga....eiginlega til skammar. Spurning um að hætta þessu bara....hmmm..

Síðasta helgi var skemmtileg. Álverið var formlega opnað. Ég fékk að halda ræðu og klippa á borðann ásamt Álgerði, Geira Haarde og Hildi, sem er kollegi minn. Um kvöldið var svo mikið húllumhæ á Fáskrúðsfirði, þar sem við átum, drukkum (miiiiiikið) og skemmtum okkur fram á nótt. Á skemmtuninni tróð ég upp í gervi Gunther Grosskopf, eðalleðurhomma, og jóðlaði af hjartans list, auk þess að plokka bassa með léttmálmssveitinni Hösk. Gaman, gaman. Svo var dansað fram á rauða nótt við undirleik hinna geðþekku drengja í hljómsveitinni Buff.

Annars er klikkað að gera í vinnunni. Allt að gerast, enda fer heitur málmur að flæða eftir nokkra daga. Spennó.

Vorið fer einkennilega í mig. Er með kvef og hálf niðurdreginn......I smá "meaning of life" pælingum. Skapið passar hins vegar ekki alveg við veðurfarið. 20°c í dag á Reyðarfirði- svokallað skrifstofuóðveður. Blimey.

Smell you later

-S

Monday, February 19, 2007

PóstmódernismiÉg veit...búinn að vera ógeðslega latur að blogga. Fannst þetta bara svo ógeðslega fyndið að ég varð að deila þessu með einhverjum:

Postmodernism
Everyone vaguely understands what "postmodernism" is, yet no one actually knows what it means. Close your eyes and toss a shoe across the room and the chances are you'll hit something postmodern, especially if you're a saddo with a house full of po-faced furnishings.

Critics claim the term postmodern is merely a polite substitute for "smart-arsed". Post-modernists simultaneously agree and disagree with this analysis in a morally relativistic, smart-arsed sort of way, before disappearing in a puff of irony and reappearing on the panel of a pointless late-night cultural review show aimed at the sort of simpering dick who chuckles politely in theatres each time one of the characters cracks a joke about King Lear or Nietzsche or the French or criticism or politics or architecture or any of the other subjects playwrights like to crack miserably piss-weak jokes about for an audience of several dozen tittering eggheads.

In summary, the single most important function of post-modernism is to give medium-wave intellectuals a clever-sounding phrase to masturbate with while the rest of us get on with our lives and ignore them.

Þessi snilld kemur frá dálkahöfundinum Charlie Brooker sem skrifar í Guardian

http://www.guardian.co.uk/Columnists/Column/0,,1990543,00.html


Lofa að blogga eitthvað fljótlega

Monday, January 01, 2007

Jóla og nýársblogg

Sæl öll

Ég óska ykkur öllum hamingjuríks nýárs og vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðarnar.

Ég og mínir höfum haft að mjög gott. Við eyddum jólunum í Trysil í Noregi þar sem við stunduðum skíðamennsku og kappát. Það var alveg stórskemmtilegt, þrátt fyrir að lítið hafi verði um snjó. Norðmennirnir eru ansi lúnknir við að búa hann til og það er bara ágætt að skíða í tilbúnum snjó. Ég fílaði mig vel á skíðunum og ekki laust við að þetta hafi endurvakið áhuga minn á íþróttinni. Ég skíðaði núna hraðar heldur en ég hef nokkurntíman gert og var að fíla það stórvel. Ég var í brekkunum í 4-5 tíma á dag þannig að þetta var fyrsta fríið sem ég man eftir þar sem ég léttist um 1 kg. Magnað. Það var samt skrítið að vera ekki með stórfjölskyldunni um jólin og þetta var eiginlega svolítið eins og að sleppa jólunum. En...alltént, frábært frí með frábæru fólki. Tak for det.

Ég las tvær bækur í fríinu- "Sá yðar sem syndlaus er", eftir Ævar Örn og "Sér grefur gröf sem grefur", eftir Yrsu Sigurðardóttur. Djöfull er gaman hvað Íslendingar eru orðnir góðir í að skrifa reyfara! Báðar bækurnar eru stórskemmtilegar. Bók Ævars er meira raunsæisverk, en Yrsa er að stimpla sig ótrúlega sterkt inn sem hugmyndaríkur höfundur sem vílar ekki fyrir sér að skrifa algeran viðbjóð til að "mess with your head". Hún á eftir að verða stærri en Arnaldur- mark my words.

Ég eyddi áramótunum á Akureyri. Það var stórskemmtilegt. Ég fór í mat hjá Pétri, ömmubróður mínum. Hann og Ragnheiður konan hans eru mikil öndvegishjón og alltaf gott að borða hjá þeim. Frændi var í gær að vinna sinn síðasta vinnudag, orðinn 76 ára gamall (að ég held). Hann byrjaði að vinna 9 ára og því má með sanni segja að um hafi verið að ræða tímamót. Ég vona innilega að ég muni hafa þrek og áhuga til að vinna jafn lengi og frændi minn. Hann hefur átt og rekið gullsmíðaverkstæði og verslun í áratugi, en er nú búinn að selja. Hann ætlar þó að vinna eitthvað áfram sem starfsmaður og mig grunar raunar sterklega að hann muni verða í a.m.k. hálfu starfi á meðan hann hefur líkamlega getu til. Það hlýtur að vera frábært að hafa svo gaman af starfinu sínu að maður vilji ekki hætta því þrátt fyrir háan aldur.

Anyhoo....

Maturinn var góður og við enduðum svo gleðina með því að sprengja slatta af flugeldum og stúta flösku af Bollinger. Namm.

Um áramót hef ég yfirleitt horft yfir farinn veg, tekið stöðuna og spáð í næstu skref. Ég ætla tvímælalaust ekki að sleppa því í þetta sinn.

Árið var að mörgu leyti skrítið. Ég hef aldrei haft eins mikið að gera, bæði í starfi og einkalífi. Ég skipti um starf á síðari hluta ársins, þótt það væri frekar hliðarspor en eitthvað stórstökk eða breyting. Það var fínasta múv og er alveg að fíla mig fínt í þessum fræðslumálum. Allt mjög uppbyggilegt og á örugglega eftir að verða enn skemmtilegra. Ég ætla samt að vona að næsta ár verði ekki....ja....eins kaótískt. Ég held að það verði forgangsatriði að ná meiri stöðugleika í lífið og tilveruna á næsta ári. Það á bæði við um vinnu og einkalíf.

Mér finnst ég líka ekki vera í nógu góðu formi og ég er orðinn allt of háður sykri, kaffi og áfengi fyrir minn smekk. Ég ætla því að byrja árið á því að:

1. Hreyfa mig á hverjum degi. Vakna alla morgna kl:6:00 og sprikla. Mind over matress!
2. Éta hollari mat. Drekka vatn, borða í hófi og sleppa óþverranum.
3. Drekka lítið sem ekkert áfengi og venja mig af koffíni

Þetta verður ágætis áskorun, en ég hef sterklega á tilfinningunni að ég verði að koma mér í betra form og finna að ég sé ekki háður nokkrum sköpuðum hlut.

Ég set mér að sjálfsögðu fjölda annarra markmiða, en ég ætla að halda þeim fyrir mig í bili.

Ég vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt og gott og að ég hitti ykkur sem flest á næsta ári.kveðja:
Siggi