Thursday, December 27, 2007

Gleðileg jól!

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á ári komanda!

Annað árið í röð klikkaði ég algerlega á því að senda jólakort og bið ég auðmjúklega forláts. Það er samt einhvernvegin þannig að kortin sem maður fær gleðja mann, en maður pælir ekkert í því hverjir sendu manni EKKI kort. Það eru því hugsanlega skelfileg mistök að vekja máls á þessu.

Ég er búinn að hafa það svakalega gott yfir hátíðar- hef etið, drukkið, lesið og sofið til skiptis- og faðmað fólkið mitt auðvitað. Vigtin hélt því fram í morgun að ég væri einu kílógrammi þyngri en fyrir hátíðar. Geri aðrir betur! Og áramótasukkið er allt eftir! Jibbí! Þá hefur maður eitthvað að gera í janúar.

Ég ætla að skrifa hér einhverja rosalega djúpa áramótahugleiðingu innan skamms, en í augnablikinu eru æðarnar sem eiga að sjá heilanum í mér fyrir súrefni meira og minna stíflaðar af mettaðri fitu.

Hugs to all:

-Siggi

Tuesday, December 18, 2007

Miles, partí og næturvaktin

Sit hér kl:23:00 á síðkvöldi og hlusta á Miles. Kind of Blue. Snilldarplata. Týndi henni fyrr á árinu og er nýbúinn að kaupa mér annað eintak. Andinn á þessari plötu er óviðjafnanlegur. Hún er tekin upp 1959 og er jafn fersk í dag og daginn sem hún var tekin upp. Maður verður einhvernvegin......svalur þegar maður hlustar á þessa plötu. Nnnnnnnnnnice.

Fór í gott partí á laugardagskvöldið. Jón Knútur félagi var að gefa út sérdeilis skemmtilega bók sem heitir Nesk. Frábær gonzo skrif um heimahagana og þá staðreynd að þótt maður yfirgefi Nesið, þá yfirgefur Nesið mann aldrei. Það er alltaf einhver hluti af sál manns fastur inni í þessum fjallahring og neitar að fara. Eða vill það ekki......hver veit.

Skipulag útgáfuteitisins var ekki flókið..gömul pottþétt uppskrift: Skemmtilegt fólk, nóg af bjór og hljóðfæri. Það er blanda sem klikkar ekkert. Eftir að Coney Island Babies höfðu flutt nokkra tregasöngva las höfundur upp úr bókinni af stakri snilld- nýþjálfuð útvarpsröddin fór vel með sögurnar sem voru hver annarri fyndnari. Sagan um fyrstu heimsókn Jóns og Dadda í Tónspil er t.d. klassík með frábæru pönslæni sem við félagarnir höfum flissað yfir í hartnær tvo áratugi. Ég skil ekkert í því af hverju enginn hefur farið út í útgáfu einhliða geisladiska :-).

Eftir að skáldi hafði lesið og Babies leikið nokkur lög í viðbót var drukkið meira öl og á endanum var á sjálfsögðu gripið í hljóðfæri. Ég fékk að grípa í gamla Yamaha BB1000 bassann hans Haffa sem sándar vægast sagt vel. Jón Hilmar missti sig í gamlan gír og hefur ekki rokkað jafn hraustlega síðan hann stóð í gúmmístígvélum í kjallaranum á Steininum árið 1990 og framkallaði hljóð sem nýfermdir guttar ættu ekki að geta framleitt með sex rafmögnuðum strengjum. Jón Knútur, Valdi og Kiddi Umbi skiptust á að berja húðir, Geiri strömmaði Ovation og við Haffi skiptumst á að plokka bassann. Ssssssæll! Eigum við að ræða það eitthvað eða?.........

Ég kláraði í kvöld að horfa á Næturvaktina á DVD. Þetta er þrímælalaust besta sjónarvarpsefni sem Íslendingar hafa nokkru sinni framleitt. Og ég er ekki viss um að þetta verði nokkru sinni toppað. Ótrúlegir snillingar þarna á ferð. Dásamlegir grátbroslegir karakterar, fáranlegar aðstæður, snilldarlega skrifuð samtöl, óvænt tvist og nýjungar í málfari sem eru farnar að heyrast í daglegum samræðum stórs hluta landsmanna. 7 stjörnur af 5 mögulegum.

Jólakveðja:
-S

Friday, December 14, 2007

Molar

Einu sinni vorum við Valdimar (tannlæknir og stórsnillingur) búnir að hanna nýjan dálk í blaðið sem ég skrifaði einu sinni fyrir- Austurland. Dálkurinn átti að innihalda slúðursögur af tannlæknastofunni og heita "Molar" (þeir sem ekki kvikja á perunni geta flett þessu upp í ensk-íslenskri orðabók). Hehe........ Tannlæknahúmor. Þetta minningarbrot tengist efni dagsins ekki neitt, en kom upp í hugann þegar ég skellti titlinum á pistilinn.

Vikan er búin að vera skemmtilega geðveik. Búið að vera bilað að gera. Ég söng t.d. í rockshow-inu á þriðjudaginn. Það var stórskemmtilegt, enda stór hluti áheyrenda krakkaormar- þ.á.m. dóttir mín. Ég held að hún hafi ekkert skammast sín mjög fyrir pabba gamla. Ég sleppti því reyndar að bera mig, en það hef ég gert í öllum sýningum til þessa. Maður þarf að taka tillit til félagslífs afkvæmisins sko.....

Ég eyddi miðviku- og fimmtudegi í borg óttans á ýmiskonar fundum. Ég sakna þess ekki mikið að búa í Reykjavík, en mikið svakalega er gaman að hitta gamla vini og borða góðan mat. Við Hugi fórum á átum á Shalimar sem er snilldar karríbúlla í Austurstræti. Alveg ekta karrí eins og maður varð svo húkkd á í Englandi. Karrí og Cobra bjór. Já, takk. Einar Sólheim kíkti svo í bæinn og sat með okkur á Thorvaldssen (af öllum stöðum!), en þangað inn duttum við fyrir einhverja tilviljun. Það er eitthvað huggulegt við að sitja í góðra vina hópi á bar á miðvikudagskvöldi og drekka brasilískt brennivín. Um nóttina varð mér hins vegar ekki svefnsamt. Ég hélt að Grand Hótel turninn ætlaði að fjúka um koll í skítviðrinu.

Talandi um skítviðri. Mér sýnist snjórinn vera að hverfa hratt og örugglega úr Oddsskarði. Sem er sérlega jákvætt í ljósi þess að ég keypti árskort um síðustu helgi.

Allavega...........smell you later

-S

Tuesday, December 11, 2007

Show and snow

Jæja....í kvöld er síðasti séns að sjá og heyra hið stórskemmtilega rockshow Brján, en undirritaður mundast við að þenja raddbönd í þeirri ágætu sýningu. Þið getið séð dæmi á YouTube:

http://www.youtube.com/watch?v=mT0SuKNHYsk


Sýningin í kvöld er opin og ókeypis í tilefni af 1000 ára afmæli Síldarvinnslunnar.


Á skíðum skemmti ég mér..........

Fór á skíði um helgina og skemmti mér stórvel. Fríkaði út og keypti mér árskort á 14.000 kall. Finnst það vel sloppið m.v. að dagurinn er kominn upp í 1700 kall. Kosturinn við að hafa árskort er að maður getur kíkt í fjallið í klukkutíma án þess að vera svekktur yfir því að punga út 1700 kalli fyrir klukkutíma skemmtun. Ég gerði nákvæmlega það í gær. Droppaði við í fjallinu á leið heim úr vinnu og tók 10 ferðir eða svo. Geðveikt adrenalínkikk- stórsvig og brun á svívirðilegum hraða. Flaug reyndar á hausinn þar sem ég var að skíða í lausamjöll. Mæli ekki með því að gera það í myrkri. En ég mæli með skíðaiðkan. Ótrúlega skemmtilegt sport sem tekur heilmikið á skrokkinn. Það loguðu á mér lappirnar eftir klukkutíma í brekkunum og maður fann hjartað berjast í brjóstinu eftir hverja ferð. Svo er fjallaloftið örugglega heilnæmt, svo maður tali nú ekki um kyrrðina.


kv.
Siggi

Thursday, December 06, 2007

Jólin o.fl.

Mikið svakalega hlakka ég til Jólanna. Ég verð sífellt meira jólabarn, sem er áhugavert í ljósi þess að maður er nú ekki beint að yngjast með árunum. Þetta er bara svo dásamlegur tími. Góður matur, samvera með manns nánustu, að grúfa sig ofan í nýjar brakandi ferskar bækur, japla á Mackintosh, kertaljós, Brandenburgarkonstertarnir, ahhhh.. Svo ljúft, svo ljúft.

Ég þarf hins vegar að vinna eins og móðurserðir til að geta tekið mér frí með sæmilegri samvisku. Verkefnalistinn er skuggalega langur og strembinn þessa dagana, enda verið að gangsetja verksmiðjuna á fullu og málmflæðið eykst dag frá degi og stressið í takt við það. Gaman, gaman.

Álbandið mun rokka um jólin. Við ætlum að stíga á stokk í Egilsbúð á miðnætti, aðfaranótt annars í jólum. Veit ekki hvort það verða jólalög á prógramminu, en held samt ekki. Jólalög eru skelfilegur viðbjóður almennt séð og ekki vænlegur efniviður fyrir rokkhljómsveit. Stefnan er samt að bæta 5-10 lögum í lagasafn sveitarinnar og vonandi verður eitthvað af því í metnaðarfyllri kantinum. Það er gríðarlega gaman að spila með álbandinu, enda er söngvaraliðið svo sterkt að það liggja mjög fá lög utan við raddsvið sveitarinnar (ok.....”Á sjó” myndi sennilega ekki ganga). Svo er alger unun að spila með gítarsnillingi eins og Gumma Hösk. Maður veðrast allur upp. Rokk og ról.

Ég hvet lesendur til að mæta í Egilsbúð og rokka með okkur og minnast þar með fæðingar Súsa Jó fyrir rúmlega 2000 árum. Hann var svalur gaur sem hafði fullt af kúl hugmyndum eins og að bjóða alltaf fram báðar rasskinnar, elska náungann (er það ekki svolítið hýrt?) og að kasta ekki grjóti nema maður hafi efni á því. Gott stöff.

Tuesday, December 04, 2007

Norrænar glæpasögur, já takk

Ég er búinn að lesa slatta af norrænum krimmum síðustu mánuði. Þó nokkra íslenska og svo tvo sænska höfunda, Camillu Lackberg og Lizu Marklund. Það er eitthvað við þessar sögur sem fellur mér afar vel í geð. Ég er svolítið búinn að spá í hvað það er og ég held að ég sé með svarið.

Þetta eru bækur um fólk og viðbrögð þess við aðstæðum og áföllum. Í hinni engilsaxnesku “whodunit” hefð er fókusinn á afbrotið sjálft og lausn gátunnar. Fyrir þá sem horfa mikið á sjónvarp þá sést þessi munur t.d. vel með því að bera saman danska þáttinn “Forbrydelsen” og hinn skelfilega ameríska “CSI”. Í þeim fyrrnefnda er verið að fjalla um fólk. Fólk sem fremur afbrot, fólk sem rannsakar þau og fórnarlömb. Maður kynnist persónunum og það er auðvelt að setja sig í spor þeirra. Persónurnar í CSI eru eins og róbótar- ganga í sín störf af fullkominni fagmennsku og töffaraskap. Ég þarf varla að taka það fram að mér finnst Forbrydelsen vera frábær þáttur á meðan mér finnst skemmtilegra að týna ló úr naflanum á mér en að horfa á CSI.

Sænsku krimmarnir eru mjög skemmtilegir og ég var að enda við að lesa tvær bækur eftir Lizu Marklund, Rauða Úlfinn og Arf Nóbels. Hvort tveggja afskaplega læsilegar bækur. Maður hefur mikla samúð með hinni litlu og seigu Anniku Bengtzon og mér finnst innsýnin í hugarheim hennar og fjölskyldulíf í raun vera það sem gefur bókunum gildi. Atburðarrásin sem hún flækist inn í skapar svo auðvitað heilmikla spennu, en oft og tíðum er það ekki síður spennan á milli vinnunnar og fjölskyldulífsins sem er áhugaverð og við margt að því kannast maður mæta vel. Hún fjallar í raun vel um þá raun að fullorðnast. Gott stöff.

Camilla Lackberg (a-ið í Lackberg á að vera með tveimur punktum og berast fram “lj”, held ég......Leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér) er nýliði, en skrifar stórskemmtilega. Bækurnar tvær sem komnar eru út eftir hana- Ísprinsessan og Predikarinn- eru mjög skemmtilegar. Hennar persónur eru ekki eins komplexaðar og flóknar og persónur Marklund, en það er þeim mun auðveldara að láta sér líka vel við þær. Frábærar bækur.

Það sem mér finnst gott við þessar bækur er að þær eru um fólk sem gengur í gegnum erfiða reynslu og kemst í gegnum hana. Lifir af. Lærir af reynslunni. Þegar ég spái í það þá eru það þannig sögur sem ég gleypi í mig. Sögur af venjulegu fólki sem þarf að sýna óvenjulegan styrk. Sögur sem stappa í mann stálinu og minna mann á hvað er hægt að afreka með því að sýna hugrekki, þolinmæði, dugnað og dirfsku.

Það eru svoleiðis bækur sem ég fíla og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Monday, December 03, 2007

Af hverju er ekki almennilegur veitingastaður í Fjarðabyggð?

Á Egilsstöðum eru a.m.k. 3 ágætlega frambærilegir veitingastaðir. Á Seyðisfirði er mjög góður veitingastaður. Í Fjarðabyggð er hins vegar ekki einn einasti veitingastaður sem gæti talist boðlegur (með þeim fyrirvara að ég hef ekki komið á Sumarlín á Fáskrúðsfirði. Ef eitthvað annað á við um þann stað þá bið ég eigendur hans og alla Fáskrúðsfirðinga auðmjúklega afsökunar).

Hvernig í ósköðunum stendur á þessu? Hefur fólk í Fjarðabyggð ekki áhuga á því að borða góðan mat? Er ekki markaður fyrir góðan veitingastað? Ég held að svo sé og að þörfin sé raunar mjög mikil. Ef einhver tæki sig til og opnaði almennilegan veitingastað á Reyðarfirði þá gæti sá hinn sami haft fínan pening upp úr því. Fólk í Fjarðabyggð á ágætlega stætt, auk þess sem traffíkin í kringum álverið á eftir að vara í mörg ár. Á hverjum tíma eru jafnvel tugir gesta í álverinu- fólk sem er alveg til í að eyða peningum í góðan mat, enda með kreditkort frá fyrirtækinu til að borga brúsann. Þetta fólk þarf í dag að sætta sig við mjög óspennandi valkosti.

Er virkilega svona mikið mál að reka sæmilegan veitingastað. Er ekki nóg að hafa metnað, sæmilegan smekk og kunna að taka á móti gestum? Ég held að það þurfi ekki mikið meira til. Núverandi veitingastaðir í Fjarðabyggð eru hins vegar því miður nánast gersneyddir öllu framangreindu. Maturinn er mjög misjafnlega eldaður, einstaklega óspennandi og yfirleitt afar ófagmannlega fram borinn. Það hvarflar oft að manni að fólk sem þjónar til borðs hafi aldrei svo mikið sem pantað sér máltíð á alvöru veitingahúsi.

Allavega....ég var víst búinn að lofa að vera jákvæður bloggari, þannig að ég ætla að hætta þessu tuði.

Ég vil hins vegar skora á metnaðarfull, kurteist smekkfólk, hvar sem það kann að leynast, að opna almennilegan veitingastað. Ég lofa að verða reglulegur gestur og ef það verður á Norðfirði þá skal ég jafnvel mæta vikulega! Það gæti tekið smá tíma að koma íbúum upp á lagið með að fara út að borða en ég held þó að það myndi gerast hratt ef vandað væri til verka. Þetta er mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur íbúa, enda á mörkunum að samfélag geti talist lífvænlegt nema að það skarti a.m.k. einum sæmilegum veitingastað.