Thursday, December 06, 2007

Jólin o.fl.

Mikið svakalega hlakka ég til Jólanna. Ég verð sífellt meira jólabarn, sem er áhugavert í ljósi þess að maður er nú ekki beint að yngjast með árunum. Þetta er bara svo dásamlegur tími. Góður matur, samvera með manns nánustu, að grúfa sig ofan í nýjar brakandi ferskar bækur, japla á Mackintosh, kertaljós, Brandenburgarkonstertarnir, ahhhh.. Svo ljúft, svo ljúft.

Ég þarf hins vegar að vinna eins og móðurserðir til að geta tekið mér frí með sæmilegri samvisku. Verkefnalistinn er skuggalega langur og strembinn þessa dagana, enda verið að gangsetja verksmiðjuna á fullu og málmflæðið eykst dag frá degi og stressið í takt við það. Gaman, gaman.

Álbandið mun rokka um jólin. Við ætlum að stíga á stokk í Egilsbúð á miðnætti, aðfaranótt annars í jólum. Veit ekki hvort það verða jólalög á prógramminu, en held samt ekki. Jólalög eru skelfilegur viðbjóður almennt séð og ekki vænlegur efniviður fyrir rokkhljómsveit. Stefnan er samt að bæta 5-10 lögum í lagasafn sveitarinnar og vonandi verður eitthvað af því í metnaðarfyllri kantinum. Það er gríðarlega gaman að spila með álbandinu, enda er söngvaraliðið svo sterkt að það liggja mjög fá lög utan við raddsvið sveitarinnar (ok.....”Á sjó” myndi sennilega ekki ganga). Svo er alger unun að spila með gítarsnillingi eins og Gumma Hösk. Maður veðrast allur upp. Rokk og ról.

Ég hvet lesendur til að mæta í Egilsbúð og rokka með okkur og minnast þar með fæðingar Súsa Jó fyrir rúmlega 2000 árum. Hann var svalur gaur sem hafði fullt af kúl hugmyndum eins og að bjóða alltaf fram báðar rasskinnar, elska náungann (er það ekki svolítið hýrt?) og að kasta ekki grjóti nema maður hafi efni á því. Gott stöff.

No comments: