Tuesday, December 18, 2007

Miles, partí og næturvaktin

Sit hér kl:23:00 á síðkvöldi og hlusta á Miles. Kind of Blue. Snilldarplata. Týndi henni fyrr á árinu og er nýbúinn að kaupa mér annað eintak. Andinn á þessari plötu er óviðjafnanlegur. Hún er tekin upp 1959 og er jafn fersk í dag og daginn sem hún var tekin upp. Maður verður einhvernvegin......svalur þegar maður hlustar á þessa plötu. Nnnnnnnnnnice.

Fór í gott partí á laugardagskvöldið. Jón Knútur félagi var að gefa út sérdeilis skemmtilega bók sem heitir Nesk. Frábær gonzo skrif um heimahagana og þá staðreynd að þótt maður yfirgefi Nesið, þá yfirgefur Nesið mann aldrei. Það er alltaf einhver hluti af sál manns fastur inni í þessum fjallahring og neitar að fara. Eða vill það ekki......hver veit.

Skipulag útgáfuteitisins var ekki flókið..gömul pottþétt uppskrift: Skemmtilegt fólk, nóg af bjór og hljóðfæri. Það er blanda sem klikkar ekkert. Eftir að Coney Island Babies höfðu flutt nokkra tregasöngva las höfundur upp úr bókinni af stakri snilld- nýþjálfuð útvarpsröddin fór vel með sögurnar sem voru hver annarri fyndnari. Sagan um fyrstu heimsókn Jóns og Dadda í Tónspil er t.d. klassík með frábæru pönslæni sem við félagarnir höfum flissað yfir í hartnær tvo áratugi. Ég skil ekkert í því af hverju enginn hefur farið út í útgáfu einhliða geisladiska :-).

Eftir að skáldi hafði lesið og Babies leikið nokkur lög í viðbót var drukkið meira öl og á endanum var á sjálfsögðu gripið í hljóðfæri. Ég fékk að grípa í gamla Yamaha BB1000 bassann hans Haffa sem sándar vægast sagt vel. Jón Hilmar missti sig í gamlan gír og hefur ekki rokkað jafn hraustlega síðan hann stóð í gúmmístígvélum í kjallaranum á Steininum árið 1990 og framkallaði hljóð sem nýfermdir guttar ættu ekki að geta framleitt með sex rafmögnuðum strengjum. Jón Knútur, Valdi og Kiddi Umbi skiptust á að berja húðir, Geiri strömmaði Ovation og við Haffi skiptumst á að plokka bassann. Ssssssæll! Eigum við að ræða það eitthvað eða?.........

Ég kláraði í kvöld að horfa á Næturvaktina á DVD. Þetta er þrímælalaust besta sjónarvarpsefni sem Íslendingar hafa nokkru sinni framleitt. Og ég er ekki viss um að þetta verði nokkru sinni toppað. Ótrúlegir snillingar þarna á ferð. Dásamlegir grátbroslegir karakterar, fáranlegar aðstæður, snilldarlega skrifuð samtöl, óvænt tvist og nýjungar í málfari sem eru farnar að heyrast í daglegum samræðum stórs hluta landsmanna. 7 stjörnur af 5 mögulegum.

Jólakveðja:
-S

1 comment:

Anonymous said...

Þakka frábært kvöld og frábæra samveru. Endurtökum leikinn hið fyrsta.

Kv.

Jón Knútur.