Friday, December 14, 2007

Molar

Einu sinni vorum við Valdimar (tannlæknir og stórsnillingur) búnir að hanna nýjan dálk í blaðið sem ég skrifaði einu sinni fyrir- Austurland. Dálkurinn átti að innihalda slúðursögur af tannlæknastofunni og heita "Molar" (þeir sem ekki kvikja á perunni geta flett þessu upp í ensk-íslenskri orðabók). Hehe........ Tannlæknahúmor. Þetta minningarbrot tengist efni dagsins ekki neitt, en kom upp í hugann þegar ég skellti titlinum á pistilinn.

Vikan er búin að vera skemmtilega geðveik. Búið að vera bilað að gera. Ég söng t.d. í rockshow-inu á þriðjudaginn. Það var stórskemmtilegt, enda stór hluti áheyrenda krakkaormar- þ.á.m. dóttir mín. Ég held að hún hafi ekkert skammast sín mjög fyrir pabba gamla. Ég sleppti því reyndar að bera mig, en það hef ég gert í öllum sýningum til þessa. Maður þarf að taka tillit til félagslífs afkvæmisins sko.....

Ég eyddi miðviku- og fimmtudegi í borg óttans á ýmiskonar fundum. Ég sakna þess ekki mikið að búa í Reykjavík, en mikið svakalega er gaman að hitta gamla vini og borða góðan mat. Við Hugi fórum á átum á Shalimar sem er snilldar karríbúlla í Austurstræti. Alveg ekta karrí eins og maður varð svo húkkd á í Englandi. Karrí og Cobra bjór. Já, takk. Einar Sólheim kíkti svo í bæinn og sat með okkur á Thorvaldssen (af öllum stöðum!), en þangað inn duttum við fyrir einhverja tilviljun. Það er eitthvað huggulegt við að sitja í góðra vina hópi á bar á miðvikudagskvöldi og drekka brasilískt brennivín. Um nóttina varð mér hins vegar ekki svefnsamt. Ég hélt að Grand Hótel turninn ætlaði að fjúka um koll í skítviðrinu.

Talandi um skítviðri. Mér sýnist snjórinn vera að hverfa hratt og örugglega úr Oddsskarði. Sem er sérlega jákvætt í ljósi þess að ég keypti árskort um síðustu helgi.

Allavega...........smell you later

-S

No comments: