Tuesday, December 04, 2007

Norrænar glæpasögur, já takk

Ég er búinn að lesa slatta af norrænum krimmum síðustu mánuði. Þó nokkra íslenska og svo tvo sænska höfunda, Camillu Lackberg og Lizu Marklund. Það er eitthvað við þessar sögur sem fellur mér afar vel í geð. Ég er svolítið búinn að spá í hvað það er og ég held að ég sé með svarið.

Þetta eru bækur um fólk og viðbrögð þess við aðstæðum og áföllum. Í hinni engilsaxnesku “whodunit” hefð er fókusinn á afbrotið sjálft og lausn gátunnar. Fyrir þá sem horfa mikið á sjónvarp þá sést þessi munur t.d. vel með því að bera saman danska þáttinn “Forbrydelsen” og hinn skelfilega ameríska “CSI”. Í þeim fyrrnefnda er verið að fjalla um fólk. Fólk sem fremur afbrot, fólk sem rannsakar þau og fórnarlömb. Maður kynnist persónunum og það er auðvelt að setja sig í spor þeirra. Persónurnar í CSI eru eins og róbótar- ganga í sín störf af fullkominni fagmennsku og töffaraskap. Ég þarf varla að taka það fram að mér finnst Forbrydelsen vera frábær þáttur á meðan mér finnst skemmtilegra að týna ló úr naflanum á mér en að horfa á CSI.

Sænsku krimmarnir eru mjög skemmtilegir og ég var að enda við að lesa tvær bækur eftir Lizu Marklund, Rauða Úlfinn og Arf Nóbels. Hvort tveggja afskaplega læsilegar bækur. Maður hefur mikla samúð með hinni litlu og seigu Anniku Bengtzon og mér finnst innsýnin í hugarheim hennar og fjölskyldulíf í raun vera það sem gefur bókunum gildi. Atburðarrásin sem hún flækist inn í skapar svo auðvitað heilmikla spennu, en oft og tíðum er það ekki síður spennan á milli vinnunnar og fjölskyldulífsins sem er áhugaverð og við margt að því kannast maður mæta vel. Hún fjallar í raun vel um þá raun að fullorðnast. Gott stöff.

Camilla Lackberg (a-ið í Lackberg á að vera með tveimur punktum og berast fram “lj”, held ég......Leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér) er nýliði, en skrifar stórskemmtilega. Bækurnar tvær sem komnar eru út eftir hana- Ísprinsessan og Predikarinn- eru mjög skemmtilegar. Hennar persónur eru ekki eins komplexaðar og flóknar og persónur Marklund, en það er þeim mun auðveldara að láta sér líka vel við þær. Frábærar bækur.

Það sem mér finnst gott við þessar bækur er að þær eru um fólk sem gengur í gegnum erfiða reynslu og kemst í gegnum hana. Lifir af. Lærir af reynslunni. Þegar ég spái í það þá eru það þannig sögur sem ég gleypi í mig. Sögur af venjulegu fólki sem þarf að sýna óvenjulegan styrk. Sögur sem stappa í mann stálinu og minna mann á hvað er hægt að afreka með því að sýna hugrekki, þolinmæði, dugnað og dirfsku.

Það eru svoleiðis bækur sem ég fíla og ég skammast mín ekkert fyrir það.

No comments: