Tuesday, December 09, 2008

Glænýjar myndir af litla strump


Litli gaurinn vex og dafnar. Spænir um allt í göngugrind, rífur kjaft og kann að gera: "hvað ertu stór?.....Svooooona stór". 

Sunday, November 30, 2008

Skemmtileg helgi

Við hjónin ákváðum í skyndilegu altrúismakasti að afbóka ferðina okkar til Sevilla á Spáni og flytja þar með ekki dýrmætan gjaldeyri úr landi heldur eyða honum  þess í stað hér heima á Fróni. Við eyddum helginni því í Reykjavík og áttum mjög náðuga daga (eða einn og hálfan dag sko). Við gistum á Hótel Sögu eins og bændum sæmir. Sagan má reyndar muna fífil sinn fegurri og er orðin veruleg þörf á að endurnýja ýmislegt þar innan stokks. Þjónustan var þó til fyrirmyndar. Við nutum frábærrar máltíðar á Grillinu sem er í algerum sérflokki að vanda. Eldamennska í mjög háum klassa og verulega notaleg og prófessjonal þjónusta. Ég skil ekki af hverju Grillið er ekki með a.m.k. eina Michelin stjörnu- ekki síst í ljósi þess að staðurinn heldur þessum standard árum og áratugum saman.

Annars var gaman að koma í verslanir og á veitingastaði í borginni. Ég er ekki frá því að það hafi verið betur tekið á móti manni en nokkru sinni fyrr. Maður fékk á tilfinninguna að maður væri velkominn- sem er kannski ekki skrítið þegar stór hluti fyrirtækja í verslun og þjónustu rambar á barmi gjaldþrots. Ég fór í Vinnufatabúðina við Laugarveg og keypti mér jakka og eigandinn gaf mér trefil í kaupbæti- algerlega upp úr þurru. Merkilegt. Og skemmtilegt, enda mun ég örugglega versla þar aftur (ef sú ágæta búð lifir kreppuna af).

Það er svolítið skrítið andrúmsloft í Reykjavík þessa dagana- miklu minni ys og þys en maður á að venjast- og ég er ekki frá því að það hafi bara farið vel í mann. Þetta var a.m.k. sennilega notalegasta helgarferð sem ég hef farið til Reykjavíkur. Maður getur þó ekki annað en velt vöngum yfir því hvernig borgarbragurinn verður ef kreppan verður jafn djúp og allt bendir til. Ætli hálfkláruð stórhýsi muni minna okkur á geðveiki útrásartímanna um ókomin ár?

Sunday, November 23, 2008

Bjartsýnisblúsinn

Kind of Death lék á bjartsýnisblúshátíðinni í Egilsbúð í gærkvöldi. Það heppnaðist bara nokkuð vel þrátt fyrir mikið æfingaleysi. Ég upplifði það í fyrsta skipti að spila djass- svo sem ekkert rocket science lag-  Route 66- en samt fleiri bassanótur en ég hef nokkurntíman spilað í einu lagi. Skemmtilegt.

Fjölmargir stigu á stokk um kvöldið, en fyrir mér voru hápunktarnir hinir geðþekku Coney Island Babies sem rokkuðu af mikilli snilld-  coveruðu m.a. Hendrix stórvel. Röddin hans Geira passar afar vel í það. Hinn hápunkturinn var svo að sjá Björgvin Gíslason spila. Djöfull er kallinn hrikalega góður gítarleikari. Hins vegar var líka áhugavert að sjá Jón Hilmar "go neck-to-neck" með kallinum. Það eru ekkert margir sem gera það og líta vel út í samanburði. Það gerði Jón hins vegar og sýnir það í hvaða klassa hann er kominn sem gítarleikari.

Mætingin hefði mátt vera betri, en ég var bara svo glaður að sjá líf í Egilsbúð að mér var eiginlega alveg sama. Stígandi lukka er líka best. Egilsbúð er hjarta bæjarins (eða vélinda a.m.k.) og það er því ákaflega gleðilegt að sjá líf færast í húsið aftur! 

Monday, November 10, 2008

Að kunna að meta list

Ég tók fyrir margt löngu spurningalistakönnun sem á að gefa vísbendingar um það í hverju styrkleikar manns liggja. Það er of langt mál og leiðinlegt að útskýra hvað liggur á bak við þessa blessuðu könnun, enda ætlaði ég ekki að skrifa hér um persónuleika eða áhugasviðspróf, kosti þeirra og annmarka. En…anyhoo…einn af mínum meginstyrkleikum skv. áðurnefndri könnun reyndist vera „Appreciation of beauty and excellence”, sem myndi ca. útleggjast: “að kunna að meta fegurð og og…….(fokk….dettur ekkert orð í hug sem nær merkingu orðsins excellence.....Frábærni? Framúrskörun? Tillögur óskast).

Í fyrstu fannt mér þetta nú ekki merkilegur eiginleiki, en þegar ég fór að hugsa málið þá var ég bara hæstánægður með þetta og handviss um að þetta passaði alveg- sem sagt að þetta lýsti mér vel (eða hluta af mér). Þetta er nefnilega í fyrsta lagi eitthvað sem er pottþétt ekki öllum gefið og í öðru lagi er þetta ákaflega dýrmætt. List af ýmsu tagi skiptir mig t.d. sífellt meira máli eftir því sem árin færast yfir. Áður fyrr var það bara tónlist sem virkaði sterkt á mig og olli mér gæsahúð og lyfti geði mínu og sál. Svo bættist ljóðlist og kvikmyndir við og nú í seinni tíð er myndlist farin að virka sífellt sterkar á mig. Ég er farinn að leggja mig eftir myndlistarsýningum og söfnum og get staðið dolfallinn fyrir framan málverk eða skúlptúr og upplifað einhverskonar „uppliftingu”,sem ég tengdi áður fyrst og fremst við tónlist. Og það skrítna er að myndir sem ég hefði gert grin að fyrir 15 árum síðan (iss, piss…ég hefði getað málað þetta…þegar ég var á leikskóla!) virka einna sterkast á mig. Einhverskonar abstract expressionismi hittir beint í mark. Ég stóð t.d. dolfallin fyrir framan stóra mynd eftir Jackson Pollock á listasafninu í Chicago á dögunum. Ég skildi ekkert í myndinni (frekar en öðrum myndum af sama meiði), en nú er mér bara orðið alveg sama. Maður þarf ekki endilega að skilja eitthvað til að þykja það fallegt. Ég skil líka lítið í sumum ljóðum Steins Steinarrs, en þykir þau samt stórfengleg.

Ég er viss um að það að kunna að meta list og fegurð sé mannbætandi, en jafnvel þótt svo væri ekki, þá auðgar þetta a.m.k. tilveruna ótvírætt.

Og þá fór ég að pæla: Er hægt að kenna fólki að læra að meta list og fegurð? Og ef svo er: Erum við að gera nóg í því að kenna börnunum okkar slíkt? (eða fullorðnum?) Það er ótrúlega fegurð að finna í þessum heimi, en ef maður kann ekki að meta hana þá missir maður af svo miklu. Þetta gæti því verið leið til að bæta líf fólks gríðarlega án þess að það kosti einhverjar stórkostlegar fjárfestingar. Þetta er spurning um að breyta skynjun og hugarfari.

List er er eitt af því markverðasta sem skilur okkur frá dýrunum- það MENNSKASTA sem við gerum. Og það er sorglegt að stór hluti mannkyns skuli algerlega fara á mis við þessi gæði- skuli aldrei finna þann unaðshroll sem fylgir flottu riffi frá AC/DC, málningarslettum frá Tolla eða orðsnilld Steins Steinarrs.

Þetta eru hlutir sem gleymist að kenna fólki, en öll áhersla lögð á að gera fólk að nothæfri smurningu á tannhjól efnahagslífsins. Það yrði nú gaman ef listir og menning fengju uppreisn æru þegar hægist á dansinum í kringum gullkálfinn (svo ég noti þreytta samlíkingu), en það er auðvitað enganvegin víst. Ég legg a.m.k. til að svo verði, enda er list og fegurð ódýr leið til að gera lífið fallegra og skemmtilegra. Ég held líka að áhersla á menningu og listir gæti minnkað líkurnar á því að við lendum aftur í svipuðum ógöngum og við höfum nú lent í.

Við getum öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar í því efni með því að halda list að börnunum okkar og hvert að öðru. T.d. er ekki vitlaust að skrifa stutta pistla um list- og menningarupplifanir á bloggsíður til að vekja athygli á því sem við erum að lesa, hlusta eða horfa á á hverjum tíma.

Wednesday, October 29, 2008

Hvað er að kapitalismanum?

Þessa dagana hriktir í stoðum kapitalismans og heimurinn stendur á heljarþröm. Við gætum verið á barmi nýrrar heimskreppu, með öllum þeim hörmungum sem því fylgja. Reyndar er heimurinn að mörgu leiti betur undir slíkt búinn en hann var í lok þriðja áratugarins en að sumu leiti er hann líka verr undir það búinn. T.d. er dreifingarfyrirkomulag matvæla orðið þannig að matvæli geta klárast á skömmum tíma ef illa fer, þótt líklegt sé að slík vændræði væru tímabundin. Hvað alla innviði varðar er hins vegar ljóst að við erum mun betur í stakk búin til að glíma við erfiðleika af þessu tagi en fyrri kynslóðir. Ef allt fer á versta veg má einnig leiða að því líkum að fituforði landsmanna muni duga í einhvern tíma, enda annar hver landsmaður vel yfir kjörþyngd.

Þessi kreppa sem nú skellur á okkur ýtir við gömlum efasemdum mínum um kapitalismann, eða öllu heldur ákveðnar hliðar hans. Ég hef alltaf verið tortrygginn gagnvart hinni "ósýnilegu hönd" markaðarins og þeirri pælingu að græðgi geti orðið til góðs. Ég hef alltaf haft áhyggur af hinu andlitslausa, sálarlausa fjármagni sem heimtar VÖXT sama hvað það kostar. Friedman og hans kónar hafa reyndar haldið því fram að þannig ætti það að vera. Að fjármagnið ætti einfaldlega að leita þangað sem það fengi hæstu ávöxtun fyrir ásættanlega áhættu. Það væri svo löggjafans að setja leikreglur og gæta hagsmuna samfélagsins. Þetta hefur þann galla í för með sér að fjármagnið og þeir sem því stjórna hugsa og framkvæma alltaf hraðar heldur en löggjafinn. Það er því eins og að girða af hóp af köttum að ætla að treysta á löggjöf til að setja frjálsum markaði skorður. Fjármagnið hefur einnig einstakt lag á því að ota sínum tota og hafa áhrif á lagasetningu með ýmsu móti- bæði með því að gefa örlátlega í rétta kosningasjóði (og bjóða mönnum í veislur, veiðiferðir, flugferðir....) og einnig með því að hræða stjórnmálamenn frá því að fikta í gæsinni sem verpir gulleggjunum. Á síðustu vikum hefur einnig komið berlega í ljós að ýmsir gjörningar fjármálafyrirtækja eru svo flóknir að löggjafinn og eftirlitsaðilar ríkisvaldsins skilja þá alls ekki nógu vel (enda segir sig sjálft að stærstu heilarnir enduðu ekki í vinnu hjá Fjármálaeftirlitinu...og þannig verður það aldrei).

Kapitalisminn verður því aðeins bættur með löggjöf upp að vissu marki, þótt vissulega sé algerlega nauðsynlegt að gengið verði í að endurskoða löggjöf um rekstur og fjárfestingar fyrirtækja. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að krosseignatengslum, eignarhlut fyrirtækja í bönkum, aðskilnaði áhættufjárfestinga og hlutabréfamiðlunar (sem er galinn kokteill) og myndun auðhringa (t.d. með því að skattlegja hátt arðgreiðslur á milli fyrirtækja). En...eins og áður sagði, þá mun löggjöfin aðeins duga til að girða kettina af í skamman tíma.

Allt áðurnefnt mun nefnilega ekki valda því að fjármagnið fái samvisku- að fjármagnið fari að haga sér með ábyrgum hætti. Að það hætti að flæða í verkefni sem skemma náttúruna, drepa fólk og gera heiminn að verri stað fyrir börnin okkar. Það GERIR fjármagnið í dag. Á þessu eru engar einfaldar lausnir. Þó mætti t.d. hugsa sér að:

  • Eignarhald á fyrirtækjum breyttist þannig að starfsmenn ættu stærri hlut í þeim og tækju virkan þátt í ákvarðanatöku. Nú hlæja kannski einhverjir, en ótal dæmi eru til um fyrirtæki sem virka svona. Slík fyrirtæki taka mun síður ákvarðanir sem eru samfélaginu til ógagns í nútíð eða framtíð og laun og bónusar stjórnenda slíkra fyrirtækja eru ekki bara háð hreinum arði af starfseminni.
  • Þetta er e.t.v. útópísk hugmynd, en kannski mætti stofna hlutabréfasjóði sem einbeittu sér að samfélagslega ábyrgum, sjálfbærum fjárfestingum og höfða svo til samvisku fjármagnseigenda til að fá þá til að velja slíka kosti. Það er óþolandi að fjármagnseigendur skuli geta setið stikkfrí án þess að pæla í í hvað sparifé þeirra er notað og þetta er einn stærsti ljóðurinn á núverandi kerfi. 
Annað sem böggar mig svakalega við núverandi kerfi eru þessar órökréttu og illviðráðanlegu "bólur" ("blaðra" er reyndar meira réttnefni). Hlutabréf eru bara jafn mikils virði og einhver er tilbúinn að borga fyrir þau og það stjórnast af vonum, væntingum, sögusögnum og LYGUM. Eftir að verð er orðið óeðlilega hátt eiga allt of margir hagsmuna að gæta í því að það lækki ekki, sem veldur því að verðið hækkar og hækkar án þess að neinar raunhæfar hagnaðarvonir séu á bak við rekstur viðkomandi fyrirtækja. Eina hagnaðarvonin fyrir eigendur fyrirtækjanna er enn meiri hækkun á verði bréfanna. Þar með verður sífellt óþægilegra að benda á að keisarinn sé allsber. Það gerist þó alltaf á endanum og bólan springur- með tilheyrandi hörmungum. Ég sé enga frábæra lausn fram hjá þessu, en þó er ljóst að meiri fagmennska í fjárfestingum gæti hugsanlega breytt einhverju- að fram færi raunveruleikatengd úttekt á rekstri og vaxtarmöguleikum fyrirtækja áður en fólki væri ráðlagt að leggja fé í þau. En....þetta er kannski bara barnaleg hugmynd.

Enn eitt sem mér finnst dularfullt í þessu hagkerfi nýfrjálshyggjunnar eru öll þessi dularfullu viðskipti með afleiður, skuldabréfavafninga og slíka hluti. Þetta eru einhverjir gjörningar sem fjármálaverkfræðingar og aðrir stórspekingar hafa fundið upp og margir hafa grætt stórfé á. Í grunninn til er þetta þó ekkert annað en massíft fjárhættuspil þar sem efnahagur heilu þjóðanna er lagður undir. Mjög krípí stöff.

Í stuttu máli er ég orðinn algerlega andsnúinn því að umsvif í efnahagslífi snúist um eitthvað annað en að framleiða vörur og þjónustu sem heimurinn hefur þörf fyrir. Kerfi sem byggir á hreinni græðgi og æxliskenndum vexti, þar sem andlitslaust, samviskulaust fjármagn drottnar- virkar einfaldlega ekki þegar til lengri tíma er litið. Það steypir okkur í glötun ef ekkert er að gert.


kveðja:
Siggi

p.s. Einhverjir hafa kannski tekið eftir því að ég skrifaði heilan pistil um efnahagsmál án þess að minnast einu orði á útrásargosana. Það er vegna þess að aðgerðir þeirra, óhóf og heimska eru einungis einkenni- ekki orsök sjúkdómsins. Vandamálið er miklu dýpra en svo að stjaksetning ákveðinna manna breyti nokkrum sköpuðum hlut.

Friday, October 24, 2008

Chicagoblogg

Chicago er verulega flott borg. Geggjaður arítektúr og fín stemning. Manni finnst maður stundum vera staddur í ER þætti og fær óverðskuldaðan deja vu fíling reglulega. Ég er búinn að fara bæði á djass- og blústónleika og í gær fór ég á listasafn borgarinnar sem er hreint út sagt frábært.

Það merkilegasta sem kom fyrir í ferðinni gerðist hins vegar fyrsta morguninn okkar hér- þriðjudagsmorgun. Þar sem við erum að ganga inn í morgunverðarsalinn kem ég nefnilega auga á frænku mína, Melissu Press! What are the odds? Ég á fjóra ættingja í Ameríku og þau búa í Boston. Svo rekst ég á þau í Chicago! Fáránleg tilviljun. Það kom í ljós að þau eru með "bás" (7000 titla) á bókaheildsölukaupstefnu sem fram fer hér á Hilton hótelinu. Þar hitti ég Michael Pétur Press, frænda minn og Jeffrey Press, pabba hans líka. Fór með þeim út að borða í gærkveld og var glatt á hjalla. Þetta er sennilega eitt það furðulegasta sem hefur drifið á mína daga.

Nú tekur við löng og leiðinleg heimferð sem byrjar á flugi til Boston, en þar tekur við 5 tíma bið eftir 5 tíma löngu flugi heim á farsældarfrónið. Fuk mi.


Guð geymi ykkur

-S

(Skrifað á brókinni á 25 hæð Hiltonhótelsins í Chicago)

Monday, October 20, 2008

Ég á afmæli í dag

"Ég á afmælí dag, ég á afmæli sjálfur, ég á afmælí dag". Hiphip: Húrra!

Nú er ég orðinn 34 ára gamall. Sem er bara flott. Ég var samt að pæla...Nú er ég orðinn jafn gamall og mamma var þegar ég var 16 ára. Sjittmar....

Það er þó ekki nokkur spurning að lífið batnar jafnt og þétt með aldrinum. Ég er farinn að halda að ellin verði stórskemmtileg! Ég nenni a.m.k. ekki að vera með neinn barlóm yfir því að hrukkunum fjölgi og hárunum (á höfðinu þ.e.) fækki. Málið er að njóta þess að vera til....enjoy the ride. It's the journey, not the destination, eins og heimspekingar Hertz bílaleigunnar hafa réttilega bent á.

Í dag flýg ég til Boston og svo áfram til Chicago þar sem ég ætla að sitja áhugavert námskeið...um námskeið. Skemmtilegt. Það er ekkert ljóst hvenær maður kemst næst til útlanda, þannig að það er eins gott að njóta þess.

Ég er í miklum pælingum um kapitalisma þessa dagana. Takmarkanir hans og gallar eru að koma glögglega í ljós þessa dagana. Mig grunar að rót vandans sé hið sósíópatíska eðli kerfisins. Maður uppsker eins og maður sáir og ef maður sáir engu nema græðgi þá mun hið óskeikula lífshjól sjá til þess að uppskeran verði í takt við það. Það vantar sál og hjarta í kapitalismann, þess vegna er svona fyrir okkur komið. Þessir þankar mínir munu væntanlega skila sér fljótlega í löngu (og örugglega hrútleiðinlegu) bloggi sem enginn nennir að lesa.


Guð blessi Ísland! Stórasta land í heimi!

-SigZ

Saturday, October 04, 2008

Kind of Death

Ég stofnaði á dögunum í félagi við skemmtilegt fólk hljómsveit sem fékk nafnið "Kind of Death". Skemmtilegt band sem spilar aðallega rokk í þyngra kantinum frá 7. og 8. áratugnum. Hljómsveitina skipa Pjetur Hallgrímsson, Þröstur Rafnsson, Marínó Gylfason, Guðmundur Höskuldsson, Jóhanna Seljan og yðar enlægur. Hljómsveitin tróð upp í Blúskjallaranum þann 19. september og gekk giggið bara ágætlega. Við spiluðum:

1. Pearly Queen með Traffic
2. Alright Now með Free
3. Move over með Janis Joplin
4. Alone með Heart
5. Its only goodbye með Gentle Giant
6. Mary Long með Deep Purple
7. More than a feeling með Boston
8. Barracuda með Heart

Þetta prógramm féll í ágætis jarðveg og mikið var gaman að spila þetta. Sérstaklega var gaman að spila More than a feeling. Það var góður....fílingur.

Af einhverjum ástæðum skrifaði JensGuð, ofurbloggari um hljómsveitina- sennilega vegna þess að honum fannst nafnið sniðugt. Hann er með fáar staðreyndir á hreinu, en skemmtilegt samt:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/660491/

Monday, June 23, 2008

With friends like these, who needs enemas?


Var að kíkja í gegnum myndasafnið mitt og rakst á þessa mynd. Hún gladdi hjarta mitt ósegjanlega. Hún prýðir nú skjáborðið hjá mér og gleður mig á hverjum degi. Ég er viss um að það þekkir enginn mennina á myndinni. Guys, you know who you are. And I love you. Við VERÐUM að fara að hittast!


-S

p.s. Ætla að ganga á Hólmatind á morgun. Fara svo á Larry Carlton á fimmtudagskvöldið. Gaman gaman.

Tuesday, May 06, 2008

Fleiri myndir af litla manninum


Það gengur annars afar vel með litla manninn. Hann aðlagast lífinu á Skorrastað undrafljótt. Hann sefur ca. 18-20 tíma á sólarhring, drekkur eins og fiskur og þyngist jafnt og þétt...eh...svona svipað og pabbinn bara. 

Júlíus er sterkur strákur, spyrnir og sparkar, getur nánast haldið haus, hefur greindarlegt augnaráð og er langt kominn með að læra Einræður Starkaðar utanbrókar. Svo brosir hann eins og engill. Við vitum ekki að hverju, en það er eins og hann sé að rifja upp eitthvað sniðugt. Smábörn eru merkilegar verur.


-S

Thursday, May 01, 2008

Nýr Júlíus
Drengur er fæddur, Júlíus Bjarni Sigurðsson. Móður og syni heilsast vel. Drengurinn kom í heiminn á slaginu 8:00 í morgun, en 8 tímum áður, á miðnætti, fossaði legvatn skyndilega um allt svefnherbergisgólf. Fæðing gekk stóráfallalaust og drengurinn er hraustur og heilbrigður, 13,5 merkur. 
Þetta er greinilega mjög akkúrat drengur og ekki ólíklegt að hann eigi framtíð fyrir sér sem verkalýðsforkólfur. Hann er auk þess fæddur á uppstigningardag, eins og Óli afi hans, sem þó er fæddur 27. maí. Hann hefur verið nefndur Júlíus Bjarni í höfuðið á langöfum sínum, en ótækt þótti að ekki væri lengur neinn Júlli á Skorrastað. Nafnið Bjarni smellpassar svo sem miðnafn. Tvö sterk nöfn fengin frá tveimur sterkum karakterum. Kannski drengurinn verði útvegsbóndi... 
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af gripnum, þreyttri móður og stoltri systur:


kv.
Siggi

P.s. Á Skorrastað fæddist einnig folald í nótt og lamb í morgun...þetta er greinilega að ganga

Tuesday, April 29, 2008

Nautn, ánægja og hamingja

Ég las á dögunum bók sem heitir "Authentic happiness" eftir gaur sem heitir Martin Seligman. Stórfín bók sem ég mæli eindregið með. Eitt af því sem ég pikkaði upp úr þessari bók er lögmál sem ég skildi um leið og ég las það og var raunar kominn að sömu niðurstöðu sjálfur áður en ég las umrædda bók. Þetta er engin groundbreaking viska, en samt gagnleg áminning.


Það er fjölmargt sem tengist hamingju fólks en tveir mikilvægir þættir eru ánægja (gratification) og nautn (pleasure). Hvort tveggja hefur mikil áhrif á hamingju og jákvætt er að upplifa hvort tveggja. Hins vegar er of mikil áhersla á nautn varhugaverð, bæði vegna þess að nautnir eru oft ekki heilsusamlegar (matur, drykkur o.s.frv.) og ekki síður vegna þess að nautn er ekki hægt að viðhalda lengi. Maður venst henni einfaldlega- ferli sem er kallað "habituation" (sem örugglega er til gott og gilt íslenskt orð fyrir). Það sem einu sinni var nautn kemst einfaldlega upp í vana- eða jafnvel ávana/ósið (ofdrykkja, ofát o.s.frv.) Það þarf því að nota nautnir mjög varlega- treina sér þær og nota þær til að verðlauna sig. Hedonismi er semsagt blindgata- tálsýn sem getur aldrei gert mann hamingjusaman.


Ánægja (gratification) er mun jákvæðara fyrirbæri sem maður upplifir fyrst og fremst þegar maður beitir hæfileikum sínum og upplifir "flæði". Þetta er ástand þar sem maður "gleymir sér". Ekki endilega neitt himnasæluástand, heldur er maður að leggja eitthvað á sig. Uppskeran er hins vegar langvarandi ánægjuástand. Það stóreykur líkur á hamingju ef maður eyðir miklum tíma í þessu ánægjulega flæðisástandi. Ég upplifi þetta ástand t.d. þegar ég les góðar bækur, skrifa, spila á hljóðfæri, geng með hundinn minn, stunda lyftingar o.fl. Ég gleymi mér og mér líður vel á eftir. Stundum verðlauna ég mig svo með einhverri nautn- t.d. glasi af góðu víni, súkkuðlaði eða....

Þetta lögmál er afar einfalt, en ansi mörgum yfirsést þetta. Nautnirnar freista og oft virðist auðveldara og notalegra að liggja i leti en að virkja hæfileika sína til að upplifa flæði og raunverulega ánægju. Það að sitja við sjónvarpið með nammiskálina er t.d. algeng gryfja að falla í, en í þeirri gryfju upplifir enginn raunverulega ánægju eða hamingju.

Þessi hamingjumoli var í boði Lýðheilsubaðstofunnar á Skorrastað


-S


Friday, April 25, 2008

Fréttaskot frá Skorrastað

Eins og venjulega eftri mikla bloggleti fallast manni hendur. Hvar á maður að byrja? Úff. Ég byrja bara einhversstaðar. Þetta verður því samhengislítil samsuða af molum úr ýmsum áttum:

Stóra málið er auðvitað væntanlegur erfingi. Hann kemur í heiminn á næstu dögum. Skv. áætlun á það að gerast 6. maí, en móðir hans hefur trú á að það verði heldur fyrr. Spennan eykst, búið að skrúfa saman rimlarúm og skiptiborð, sauma utan um vöggu, redda bílstól o.s.frv. Eiginkonan á reyndar mestan heiður að þessu öllu saman, þótt ég reyni auðvitað að vera duglegur. Ég held raunar að karlmenn séu eins og sauðir þegar kemur að barneignum- alveg þangað til þeir fá skælandi krílið í hendurnar. Þá fer okkar hormónaframleiðsla á fullt og við komum okkur í gírinn við að verja hellinn og veiða sverðtígra til að grilla í hvert mál.

Ég á reyndar varla orð yfir dugnað eiginkonunnar sem ákvað að skipta um vinnu kominn 8 mánuði á leið. Hún er að taka við sem fjármálastjóri (eða forstöðukona fjármála öllu heldur) Fjarðabyggðar. Ég er ekkert smá stoltur af minni og veit að hún á eftrir að brillera í þessu djobbi. Mikill fengur fyrir sveitarfélagið, enda ekkert lítið mál í dag að halda utan um fjárhag sveitarfélaga og láta þetta allt ganga upp. Endalausar kröfur um þjónustustig og takmarkaður skilningur á því að allt kostar þetta jú peninga. Þá er ekki verra að fá löggiltan endurskoðanda með massíft bein í nefinu til að halda utan um fjárhaginn!

Við Hugi, stórsnillingur, Þórðarson erum að fara á tónleika í London í Júli sem ég bind miklar vonir við. Við ætlum að sjá súpergrúppuna "Return to forever", en hana skipa Chick Korea, Stanley Clarke, Al Di-Meola og Lenney White. Chick, Stanley og Al eru auðvitað goðsagnir í lifanda lífi. Þetta er eins og að sjá Jesúm, Múhameð og Búdda saman á sviði- eitthvað sem maður hélt ekki að maður ætti eftir að upplifa. Og ekki get ég hugsað mér mikið skemmtilegri ferðafélaga! Ekki er ólíklegt að við félagarnir eigum eftir að kíkja á Ronnie Scott's a.m.k eitt kvöld og það ætti ekki að verða skortur á skemmtan þessa daga sem við stoppum í Lundúnum. Frábær borg.

Ég er búinn að liggja í tónlist og bókum sem aldrei fyrr. Er búinn að vera að hlusta á algerlega frábæra lævplötu með Wes Montgomery frá 1962. Platan er tekin upp á kaffihúsi í Berkely og hljómurinn er ótrúlega góður. Magnað hvað margar af þessum gömlu djassplötum hljóma vel. Flutningurinn á þessari plötu er virkilega góður. Wes kallinn var einn besti gírtarleikari sem uppi hefur verið, það er alveg á hreinu.

Talandi um gítarleikara, þá er Larry Carlton á leið á Djasshátíð Austurlands sem Jón Hilmar vinur minn á veg og vanda að. Glæsilegt framtak að fá svona stórstjörnu á svæðið. Larry var, eins og allir vita, "hinn gaurinn" í Steeley Dan. Gífurlega flinkur gítaristi og tónlistarmaður. Mikill fengur í því að fá hann hingað austur og ef þessi hátíð er ekki komin á kortið, þá hlýtur hún að komast þangað núna.

Hvað lestur varðar þá er ég búinn að lesa vítt og breitt upp á síðkastið. Er núna að lesa enn eina bókina eftir Paul Auster: Mr. Vertigo. Djöfull er gaurinn massífur penni. Hef nýlokið við Steinsmiðinn eftir Camillu Lackberg sem er fínasti krimmi. Hef áður lýst ást minni á skandenavískum "mannlegum" glæpasögum, en hún minnkaði síst við lestur þessarar bókar. Las líka nýlega góðar bækur eftir Paul Theroux og Ben Elton, auk massífrar bókar sem heitir Authentic Happiness og er eftir dr. Martin Seligman sem er faðir jákvæðrar sálfræði. Mæli endregið með henni. Það mætti fyrirbyggja stóran hluta geðsjúkdóma og óhamingju ef allir gætu lesið og meðtekið þá skræðu.

Ég tróð upp á árshátíð Fjarðaáls um síðustu helgi, bæði sem bassastrumpur álbandins og sem geðþekki leðurpervertinn Gunther Grosskopf. Það gekk stórvel og Helga Braga, sem var veislustjóri, var alveg að fíla Gunther.

Púff....eitthvað fleira?

Já! Hvað eru þessir fjárans trukkabílstjórar að pæla? Ímynda þeir sér að það sé einhver séns að það verði orðið við kröfum þeirra út því sem komið er? Ef svo er, þá eru þeir heimskari en þeir líta út fyrir að vera (and boy, do they look stupid). Stjórnvöld geta einfaldlega ekki bakkað fyrir svona ruddaskap- sem er af sömu ástæðu og bandarísk stjórnvöld semja aldrei við hryðjuverkamenn og mannræningja.

...Yfir og út

Thursday, March 20, 2008

Hólí fokking shit

Smellið á titilinn. Að þyrla með annari...ekkert mál. Þessi gaur er geðveikur

Thursday, March 06, 2008

Álbandið í Eskivík

Jæja! Álbandið tryllir lýðinn í Eskivík um helgina. Ball frá 24:00-3:00. Alcoar mæta kl:22:00, hita upp og skála. Við lofum miklu rokki og róli! Be there....or be square!

Afsaka annars gríðarlega bloggleti upp á síðkastið. Hef ekki fundið mig knúinn til að segja margt. Er á mjög skrítnu skeiði í tónlistarpælingum. Er enn stórneytandi á Bach, sérstaklega selló- og lútusónóturnar, en er svo dottinn í minimalíska nútíma tónlist...Arvo Part og Jóhann Jóhannsson. Hlusta út í eitt á verk sem heitir Te Deum eftir Part sem Hugi vinur gaf mér um árið. Algjör snilld. Mikil handanheimsfegurð þar á ferð. Var að panta mér ca. 4 titla í viðbót af Part. Jóhann Jóhannsson er líka alger snillingur. Ég hlusta mikið á verk sem heitir Virðulegu forsetar. Bæði þessi verk hafa þá eiginleika að manni finnst maður vera betri manneskja eftir að hafa hlustað. Ég hef heyrt að tónlist Jóhanns við leikritið Englabörn sé alger snilld, enda pantaði ég hana af Amazon (eftir að hafa reynt að fá hana í Skífunni og Tónspil, án árangurs. How weird is that?).

Ég er líka búinn að liggja í djassi af ýmsu tagi- nú síðast Thelonius Monk og Charles Mingus. Skrítnir fuglar. Fíla Monk betur en Mingus. Það er einhver illilegur undirtónn í Mingus. Monk er hins vegar ljúfari- skemmtilega sérvitur og frumlegur píanóleikari. Samt eiga þeir heilmikið sameiginlegt. Ég var líka að panta mér slatta af djassi. Þrjár plötur með Miles- Birth of the cool, Round Midnight og Milestones. Hlakka til að sökkva tönnunum í þær. Pantaði mér líka plötu með franska gítarsnillingnum Sylvain Luc, sem er sennilega besti gítarleikari sem ég hef séð spila- að Steve Vai meðtöldum. 

Til að fullkomna skitsófreníuna í Amazonpöntuninni minni þá pantaði ég líka Symphony X, sem er progmetalsveit dauðans. Feit (bókstaflega) útgáfa af Dream Theater- með helmingi stærri eistu. 

Minimalismi og progg.....Skitsó fritsó..skitsó fritsó


-S

Thursday, January 03, 2008

Bless bless 2007- Halló 2008

Jæja. Enn eitt árið liðið og horfið í aldanna skaut. Þetta ár var fremur viðburðaríkt og ég er ekki frá því að maður hafi lært margt nýtt.

Mikið stuð var í vinnunni- Endalaust rokk og ról við að koma Fjarðaáli á kopinn. Mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. En ekki átaka- eða stresslaust. Á ekki von á að nýja árið verði stressminna, en það er ólíkt betur í stakk búinn til að takast á við verkefnin heldur en ég var á sama tíma í fyrra. Bring it on!

Fjölskyldan flutti í nýtt hús að loknu miklu endurbótaferli á ættaróðalilnu á Skorrastað 3. Endurbæturnar tókust frábærlega og mikið er nú dásamlegt að búa í sveit!

Við fórum í stórskemmtileg frí erlendis. Sigga Thea fór með ömmu sinni í Ameríku á meðan við hjónin fórum til Englands þar sem við dvöldum á fornum námsslóðum í Bournemouth, auk þess sem við chilluðum í London í 2 daga. Í nóvember fórum við svo til Prag sem er dásamleg borg, þótt ælupest hafi nokkuð spillt fyrir.

Á haustmánuðum kom í ljós að fjölgun væri væntanleg á Skorrastað. Nýtt barn mun koma í heiminn með vorinu og standa vonir til að þetta eintak verði ekki síðra en hið fyrsta. Ég hlakka hrikalega til, enda er fátt skemmtilegra en að vera pabbi.

Í lok árs náði ástkær eiginkona mín þeim áfanga að verða löggiltur endurskoðandi (a legitimate duck-watcher) sem er ferli sem tekur að jafnaði um áratug. Hún hafði sett sér það markmið að klára þetta á þrítugasta aldursári og það hafðist. Sannaðist þar enn og aftur hvað maður er vel giftur!

Sem sagt: Viðburðaríkt ár svo ekki sé meira sagt og er ég þó örugglega að gleyma einhverju.

En hvernig verður næsta ár? Það á auðvitað eftir að koma í ljós, en ég á ekki von á að það verði neitt dauflegra en síðasta ár. Þvert á móti. Fjörið mun aukast á öllum vígstöðvum.

Ég hlakka til. Bring it on!

later:

-S