Thursday, January 03, 2008

Bless bless 2007- Halló 2008

Jæja. Enn eitt árið liðið og horfið í aldanna skaut. Þetta ár var fremur viðburðaríkt og ég er ekki frá því að maður hafi lært margt nýtt.

Mikið stuð var í vinnunni- Endalaust rokk og ról við að koma Fjarðaáli á kopinn. Mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. En ekki átaka- eða stresslaust. Á ekki von á að nýja árið verði stressminna, en það er ólíkt betur í stakk búinn til að takast á við verkefnin heldur en ég var á sama tíma í fyrra. Bring it on!

Fjölskyldan flutti í nýtt hús að loknu miklu endurbótaferli á ættaróðalilnu á Skorrastað 3. Endurbæturnar tókust frábærlega og mikið er nú dásamlegt að búa í sveit!

Við fórum í stórskemmtileg frí erlendis. Sigga Thea fór með ömmu sinni í Ameríku á meðan við hjónin fórum til Englands þar sem við dvöldum á fornum námsslóðum í Bournemouth, auk þess sem við chilluðum í London í 2 daga. Í nóvember fórum við svo til Prag sem er dásamleg borg, þótt ælupest hafi nokkuð spillt fyrir.

Á haustmánuðum kom í ljós að fjölgun væri væntanleg á Skorrastað. Nýtt barn mun koma í heiminn með vorinu og standa vonir til að þetta eintak verði ekki síðra en hið fyrsta. Ég hlakka hrikalega til, enda er fátt skemmtilegra en að vera pabbi.

Í lok árs náði ástkær eiginkona mín þeim áfanga að verða löggiltur endurskoðandi (a legitimate duck-watcher) sem er ferli sem tekur að jafnaði um áratug. Hún hafði sett sér það markmið að klára þetta á þrítugasta aldursári og það hafðist. Sannaðist þar enn og aftur hvað maður er vel giftur!

Sem sagt: Viðburðaríkt ár svo ekki sé meira sagt og er ég þó örugglega að gleyma einhverju.

En hvernig verður næsta ár? Það á auðvitað eftir að koma í ljós, en ég á ekki von á að það verði neitt dauflegra en síðasta ár. Þvert á móti. Fjörið mun aukast á öllum vígstöðvum.

Ég hlakka til. Bring it on!

later:

-S

No comments: