Tuesday, April 29, 2008

Nautn, ánægja og hamingja

Ég las á dögunum bók sem heitir "Authentic happiness" eftir gaur sem heitir Martin Seligman. Stórfín bók sem ég mæli eindregið með. Eitt af því sem ég pikkaði upp úr þessari bók er lögmál sem ég skildi um leið og ég las það og var raunar kominn að sömu niðurstöðu sjálfur áður en ég las umrædda bók. Þetta er engin groundbreaking viska, en samt gagnleg áminning.


Það er fjölmargt sem tengist hamingju fólks en tveir mikilvægir þættir eru ánægja (gratification) og nautn (pleasure). Hvort tveggja hefur mikil áhrif á hamingju og jákvætt er að upplifa hvort tveggja. Hins vegar er of mikil áhersla á nautn varhugaverð, bæði vegna þess að nautnir eru oft ekki heilsusamlegar (matur, drykkur o.s.frv.) og ekki síður vegna þess að nautn er ekki hægt að viðhalda lengi. Maður venst henni einfaldlega- ferli sem er kallað "habituation" (sem örugglega er til gott og gilt íslenskt orð fyrir). Það sem einu sinni var nautn kemst einfaldlega upp í vana- eða jafnvel ávana/ósið (ofdrykkja, ofát o.s.frv.) Það þarf því að nota nautnir mjög varlega- treina sér þær og nota þær til að verðlauna sig. Hedonismi er semsagt blindgata- tálsýn sem getur aldrei gert mann hamingjusaman.


Ánægja (gratification) er mun jákvæðara fyrirbæri sem maður upplifir fyrst og fremst þegar maður beitir hæfileikum sínum og upplifir "flæði". Þetta er ástand þar sem maður "gleymir sér". Ekki endilega neitt himnasæluástand, heldur er maður að leggja eitthvað á sig. Uppskeran er hins vegar langvarandi ánægjuástand. Það stóreykur líkur á hamingju ef maður eyðir miklum tíma í þessu ánægjulega flæðisástandi. Ég upplifi þetta ástand t.d. þegar ég les góðar bækur, skrifa, spila á hljóðfæri, geng með hundinn minn, stunda lyftingar o.fl. Ég gleymi mér og mér líður vel á eftir. Stundum verðlauna ég mig svo með einhverri nautn- t.d. glasi af góðu víni, súkkuðlaði eða....

Þetta lögmál er afar einfalt, en ansi mörgum yfirsést þetta. Nautnirnar freista og oft virðist auðveldara og notalegra að liggja i leti en að virkja hæfileika sína til að upplifa flæði og raunverulega ánægju. Það að sitja við sjónvarpið með nammiskálina er t.d. algeng gryfja að falla í, en í þeirri gryfju upplifir enginn raunverulega ánægju eða hamingju.

Þessi hamingjumoli var í boði Lýðheilsubaðstofunnar á Skorrastað


-S


No comments: