Wednesday, October 29, 2008

Hvað er að kapitalismanum?

Þessa dagana hriktir í stoðum kapitalismans og heimurinn stendur á heljarþröm. Við gætum verið á barmi nýrrar heimskreppu, með öllum þeim hörmungum sem því fylgja. Reyndar er heimurinn að mörgu leiti betur undir slíkt búinn en hann var í lok þriðja áratugarins en að sumu leiti er hann líka verr undir það búinn. T.d. er dreifingarfyrirkomulag matvæla orðið þannig að matvæli geta klárast á skömmum tíma ef illa fer, þótt líklegt sé að slík vændræði væru tímabundin. Hvað alla innviði varðar er hins vegar ljóst að við erum mun betur í stakk búin til að glíma við erfiðleika af þessu tagi en fyrri kynslóðir. Ef allt fer á versta veg má einnig leiða að því líkum að fituforði landsmanna muni duga í einhvern tíma, enda annar hver landsmaður vel yfir kjörþyngd.

Þessi kreppa sem nú skellur á okkur ýtir við gömlum efasemdum mínum um kapitalismann, eða öllu heldur ákveðnar hliðar hans. Ég hef alltaf verið tortrygginn gagnvart hinni "ósýnilegu hönd" markaðarins og þeirri pælingu að græðgi geti orðið til góðs. Ég hef alltaf haft áhyggur af hinu andlitslausa, sálarlausa fjármagni sem heimtar VÖXT sama hvað það kostar. Friedman og hans kónar hafa reyndar haldið því fram að þannig ætti það að vera. Að fjármagnið ætti einfaldlega að leita þangað sem það fengi hæstu ávöxtun fyrir ásættanlega áhættu. Það væri svo löggjafans að setja leikreglur og gæta hagsmuna samfélagsins. Þetta hefur þann galla í för með sér að fjármagnið og þeir sem því stjórna hugsa og framkvæma alltaf hraðar heldur en löggjafinn. Það er því eins og að girða af hóp af köttum að ætla að treysta á löggjöf til að setja frjálsum markaði skorður. Fjármagnið hefur einnig einstakt lag á því að ota sínum tota og hafa áhrif á lagasetningu með ýmsu móti- bæði með því að gefa örlátlega í rétta kosningasjóði (og bjóða mönnum í veislur, veiðiferðir, flugferðir....) og einnig með því að hræða stjórnmálamenn frá því að fikta í gæsinni sem verpir gulleggjunum. Á síðustu vikum hefur einnig komið berlega í ljós að ýmsir gjörningar fjármálafyrirtækja eru svo flóknir að löggjafinn og eftirlitsaðilar ríkisvaldsins skilja þá alls ekki nógu vel (enda segir sig sjálft að stærstu heilarnir enduðu ekki í vinnu hjá Fjármálaeftirlitinu...og þannig verður það aldrei).

Kapitalisminn verður því aðeins bættur með löggjöf upp að vissu marki, þótt vissulega sé algerlega nauðsynlegt að gengið verði í að endurskoða löggjöf um rekstur og fjárfestingar fyrirtækja. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að krosseignatengslum, eignarhlut fyrirtækja í bönkum, aðskilnaði áhættufjárfestinga og hlutabréfamiðlunar (sem er galinn kokteill) og myndun auðhringa (t.d. með því að skattlegja hátt arðgreiðslur á milli fyrirtækja). En...eins og áður sagði, þá mun löggjöfin aðeins duga til að girða kettina af í skamman tíma.

Allt áðurnefnt mun nefnilega ekki valda því að fjármagnið fái samvisku- að fjármagnið fari að haga sér með ábyrgum hætti. Að það hætti að flæða í verkefni sem skemma náttúruna, drepa fólk og gera heiminn að verri stað fyrir börnin okkar. Það GERIR fjármagnið í dag. Á þessu eru engar einfaldar lausnir. Þó mætti t.d. hugsa sér að:

  • Eignarhald á fyrirtækjum breyttist þannig að starfsmenn ættu stærri hlut í þeim og tækju virkan þátt í ákvarðanatöku. Nú hlæja kannski einhverjir, en ótal dæmi eru til um fyrirtæki sem virka svona. Slík fyrirtæki taka mun síður ákvarðanir sem eru samfélaginu til ógagns í nútíð eða framtíð og laun og bónusar stjórnenda slíkra fyrirtækja eru ekki bara háð hreinum arði af starfseminni.
  • Þetta er e.t.v. útópísk hugmynd, en kannski mætti stofna hlutabréfasjóði sem einbeittu sér að samfélagslega ábyrgum, sjálfbærum fjárfestingum og höfða svo til samvisku fjármagnseigenda til að fá þá til að velja slíka kosti. Það er óþolandi að fjármagnseigendur skuli geta setið stikkfrí án þess að pæla í í hvað sparifé þeirra er notað og þetta er einn stærsti ljóðurinn á núverandi kerfi. 
Annað sem böggar mig svakalega við núverandi kerfi eru þessar órökréttu og illviðráðanlegu "bólur" ("blaðra" er reyndar meira réttnefni). Hlutabréf eru bara jafn mikils virði og einhver er tilbúinn að borga fyrir þau og það stjórnast af vonum, væntingum, sögusögnum og LYGUM. Eftir að verð er orðið óeðlilega hátt eiga allt of margir hagsmuna að gæta í því að það lækki ekki, sem veldur því að verðið hækkar og hækkar án þess að neinar raunhæfar hagnaðarvonir séu á bak við rekstur viðkomandi fyrirtækja. Eina hagnaðarvonin fyrir eigendur fyrirtækjanna er enn meiri hækkun á verði bréfanna. Þar með verður sífellt óþægilegra að benda á að keisarinn sé allsber. Það gerist þó alltaf á endanum og bólan springur- með tilheyrandi hörmungum. Ég sé enga frábæra lausn fram hjá þessu, en þó er ljóst að meiri fagmennska í fjárfestingum gæti hugsanlega breytt einhverju- að fram færi raunveruleikatengd úttekt á rekstri og vaxtarmöguleikum fyrirtækja áður en fólki væri ráðlagt að leggja fé í þau. En....þetta er kannski bara barnaleg hugmynd.

Enn eitt sem mér finnst dularfullt í þessu hagkerfi nýfrjálshyggjunnar eru öll þessi dularfullu viðskipti með afleiður, skuldabréfavafninga og slíka hluti. Þetta eru einhverjir gjörningar sem fjármálaverkfræðingar og aðrir stórspekingar hafa fundið upp og margir hafa grætt stórfé á. Í grunninn til er þetta þó ekkert annað en massíft fjárhættuspil þar sem efnahagur heilu þjóðanna er lagður undir. Mjög krípí stöff.

Í stuttu máli er ég orðinn algerlega andsnúinn því að umsvif í efnahagslífi snúist um eitthvað annað en að framleiða vörur og þjónustu sem heimurinn hefur þörf fyrir. Kerfi sem byggir á hreinni græðgi og æxliskenndum vexti, þar sem andlitslaust, samviskulaust fjármagn drottnar- virkar einfaldlega ekki þegar til lengri tíma er litið. Það steypir okkur í glötun ef ekkert er að gert.


kveðja:
Siggi

p.s. Einhverjir hafa kannski tekið eftir því að ég skrifaði heilan pistil um efnahagsmál án þess að minnast einu orði á útrásargosana. Það er vegna þess að aðgerðir þeirra, óhóf og heimska eru einungis einkenni- ekki orsök sjúkdómsins. Vandamálið er miklu dýpra en svo að stjaksetning ákveðinna manna breyti nokkrum sköpuðum hlut.

Friday, October 24, 2008

Chicagoblogg

Chicago er verulega flott borg. Geggjaður arítektúr og fín stemning. Manni finnst maður stundum vera staddur í ER þætti og fær óverðskuldaðan deja vu fíling reglulega. Ég er búinn að fara bæði á djass- og blústónleika og í gær fór ég á listasafn borgarinnar sem er hreint út sagt frábært.

Það merkilegasta sem kom fyrir í ferðinni gerðist hins vegar fyrsta morguninn okkar hér- þriðjudagsmorgun. Þar sem við erum að ganga inn í morgunverðarsalinn kem ég nefnilega auga á frænku mína, Melissu Press! What are the odds? Ég á fjóra ættingja í Ameríku og þau búa í Boston. Svo rekst ég á þau í Chicago! Fáránleg tilviljun. Það kom í ljós að þau eru með "bás" (7000 titla) á bókaheildsölukaupstefnu sem fram fer hér á Hilton hótelinu. Þar hitti ég Michael Pétur Press, frænda minn og Jeffrey Press, pabba hans líka. Fór með þeim út að borða í gærkveld og var glatt á hjalla. Þetta er sennilega eitt það furðulegasta sem hefur drifið á mína daga.

Nú tekur við löng og leiðinleg heimferð sem byrjar á flugi til Boston, en þar tekur við 5 tíma bið eftir 5 tíma löngu flugi heim á farsældarfrónið. Fuk mi.


Guð geymi ykkur

-S

(Skrifað á brókinni á 25 hæð Hiltonhótelsins í Chicago)

Monday, October 20, 2008

Ég á afmæli í dag

"Ég á afmælí dag, ég á afmæli sjálfur, ég á afmælí dag". Hiphip: Húrra!

Nú er ég orðinn 34 ára gamall. Sem er bara flott. Ég var samt að pæla...Nú er ég orðinn jafn gamall og mamma var þegar ég var 16 ára. Sjittmar....

Það er þó ekki nokkur spurning að lífið batnar jafnt og þétt með aldrinum. Ég er farinn að halda að ellin verði stórskemmtileg! Ég nenni a.m.k. ekki að vera með neinn barlóm yfir því að hrukkunum fjölgi og hárunum (á höfðinu þ.e.) fækki. Málið er að njóta þess að vera til....enjoy the ride. It's the journey, not the destination, eins og heimspekingar Hertz bílaleigunnar hafa réttilega bent á.

Í dag flýg ég til Boston og svo áfram til Chicago þar sem ég ætla að sitja áhugavert námskeið...um námskeið. Skemmtilegt. Það er ekkert ljóst hvenær maður kemst næst til útlanda, þannig að það er eins gott að njóta þess.

Ég er í miklum pælingum um kapitalisma þessa dagana. Takmarkanir hans og gallar eru að koma glögglega í ljós þessa dagana. Mig grunar að rót vandans sé hið sósíópatíska eðli kerfisins. Maður uppsker eins og maður sáir og ef maður sáir engu nema græðgi þá mun hið óskeikula lífshjól sjá til þess að uppskeran verði í takt við það. Það vantar sál og hjarta í kapitalismann, þess vegna er svona fyrir okkur komið. Þessir þankar mínir munu væntanlega skila sér fljótlega í löngu (og örugglega hrútleiðinlegu) bloggi sem enginn nennir að lesa.


Guð blessi Ísland! Stórasta land í heimi!

-SigZ

Saturday, October 04, 2008

Kind of Death

Ég stofnaði á dögunum í félagi við skemmtilegt fólk hljómsveit sem fékk nafnið "Kind of Death". Skemmtilegt band sem spilar aðallega rokk í þyngra kantinum frá 7. og 8. áratugnum. Hljómsveitina skipa Pjetur Hallgrímsson, Þröstur Rafnsson, Marínó Gylfason, Guðmundur Höskuldsson, Jóhanna Seljan og yðar enlægur. Hljómsveitin tróð upp í Blúskjallaranum þann 19. september og gekk giggið bara ágætlega. Við spiluðum:

1. Pearly Queen með Traffic
2. Alright Now með Free
3. Move over með Janis Joplin
4. Alone með Heart
5. Its only goodbye með Gentle Giant
6. Mary Long með Deep Purple
7. More than a feeling með Boston
8. Barracuda með Heart

Þetta prógramm féll í ágætis jarðveg og mikið var gaman að spila þetta. Sérstaklega var gaman að spila More than a feeling. Það var góður....fílingur.

Af einhverjum ástæðum skrifaði JensGuð, ofurbloggari um hljómsveitina- sennilega vegna þess að honum fannst nafnið sniðugt. Hann er með fáar staðreyndir á hreinu, en skemmtilegt samt:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/660491/