Sunday, November 30, 2008

Skemmtileg helgi

Við hjónin ákváðum í skyndilegu altrúismakasti að afbóka ferðina okkar til Sevilla á Spáni og flytja þar með ekki dýrmætan gjaldeyri úr landi heldur eyða honum  þess í stað hér heima á Fróni. Við eyddum helginni því í Reykjavík og áttum mjög náðuga daga (eða einn og hálfan dag sko). Við gistum á Hótel Sögu eins og bændum sæmir. Sagan má reyndar muna fífil sinn fegurri og er orðin veruleg þörf á að endurnýja ýmislegt þar innan stokks. Þjónustan var þó til fyrirmyndar. Við nutum frábærrar máltíðar á Grillinu sem er í algerum sérflokki að vanda. Eldamennska í mjög háum klassa og verulega notaleg og prófessjonal þjónusta. Ég skil ekki af hverju Grillið er ekki með a.m.k. eina Michelin stjörnu- ekki síst í ljósi þess að staðurinn heldur þessum standard árum og áratugum saman.

Annars var gaman að koma í verslanir og á veitingastaði í borginni. Ég er ekki frá því að það hafi verið betur tekið á móti manni en nokkru sinni fyrr. Maður fékk á tilfinninguna að maður væri velkominn- sem er kannski ekki skrítið þegar stór hluti fyrirtækja í verslun og þjónustu rambar á barmi gjaldþrots. Ég fór í Vinnufatabúðina við Laugarveg og keypti mér jakka og eigandinn gaf mér trefil í kaupbæti- algerlega upp úr þurru. Merkilegt. Og skemmtilegt, enda mun ég örugglega versla þar aftur (ef sú ágæta búð lifir kreppuna af).

Það er svolítið skrítið andrúmsloft í Reykjavík þessa dagana- miklu minni ys og þys en maður á að venjast- og ég er ekki frá því að það hafi bara farið vel í mann. Þetta var a.m.k. sennilega notalegasta helgarferð sem ég hef farið til Reykjavíkur. Maður getur þó ekki annað en velt vöngum yfir því hvernig borgarbragurinn verður ef kreppan verður jafn djúp og allt bendir til. Ætli hálfkláruð stórhýsi muni minna okkur á geðveiki útrásartímanna um ókomin ár?

Sunday, November 23, 2008

Bjartsýnisblúsinn

Kind of Death lék á bjartsýnisblúshátíðinni í Egilsbúð í gærkvöldi. Það heppnaðist bara nokkuð vel þrátt fyrir mikið æfingaleysi. Ég upplifði það í fyrsta skipti að spila djass- svo sem ekkert rocket science lag-  Route 66- en samt fleiri bassanótur en ég hef nokkurntíman spilað í einu lagi. Skemmtilegt.

Fjölmargir stigu á stokk um kvöldið, en fyrir mér voru hápunktarnir hinir geðþekku Coney Island Babies sem rokkuðu af mikilli snilld-  coveruðu m.a. Hendrix stórvel. Röddin hans Geira passar afar vel í það. Hinn hápunkturinn var svo að sjá Björgvin Gíslason spila. Djöfull er kallinn hrikalega góður gítarleikari. Hins vegar var líka áhugavert að sjá Jón Hilmar "go neck-to-neck" með kallinum. Það eru ekkert margir sem gera það og líta vel út í samanburði. Það gerði Jón hins vegar og sýnir það í hvaða klassa hann er kominn sem gítarleikari.

Mætingin hefði mátt vera betri, en ég var bara svo glaður að sjá líf í Egilsbúð að mér var eiginlega alveg sama. Stígandi lukka er líka best. Egilsbúð er hjarta bæjarins (eða vélinda a.m.k.) og það er því ákaflega gleðilegt að sjá líf færast í húsið aftur! 

Monday, November 10, 2008

Að kunna að meta list

Ég tók fyrir margt löngu spurningalistakönnun sem á að gefa vísbendingar um það í hverju styrkleikar manns liggja. Það er of langt mál og leiðinlegt að útskýra hvað liggur á bak við þessa blessuðu könnun, enda ætlaði ég ekki að skrifa hér um persónuleika eða áhugasviðspróf, kosti þeirra og annmarka. En…anyhoo…einn af mínum meginstyrkleikum skv. áðurnefndri könnun reyndist vera „Appreciation of beauty and excellence”, sem myndi ca. útleggjast: “að kunna að meta fegurð og og…….(fokk….dettur ekkert orð í hug sem nær merkingu orðsins excellence.....Frábærni? Framúrskörun? Tillögur óskast).

Í fyrstu fannt mér þetta nú ekki merkilegur eiginleiki, en þegar ég fór að hugsa málið þá var ég bara hæstánægður með þetta og handviss um að þetta passaði alveg- sem sagt að þetta lýsti mér vel (eða hluta af mér). Þetta er nefnilega í fyrsta lagi eitthvað sem er pottþétt ekki öllum gefið og í öðru lagi er þetta ákaflega dýrmætt. List af ýmsu tagi skiptir mig t.d. sífellt meira máli eftir því sem árin færast yfir. Áður fyrr var það bara tónlist sem virkaði sterkt á mig og olli mér gæsahúð og lyfti geði mínu og sál. Svo bættist ljóðlist og kvikmyndir við og nú í seinni tíð er myndlist farin að virka sífellt sterkar á mig. Ég er farinn að leggja mig eftir myndlistarsýningum og söfnum og get staðið dolfallinn fyrir framan málverk eða skúlptúr og upplifað einhverskonar „uppliftingu”,sem ég tengdi áður fyrst og fremst við tónlist. Og það skrítna er að myndir sem ég hefði gert grin að fyrir 15 árum síðan (iss, piss…ég hefði getað málað þetta…þegar ég var á leikskóla!) virka einna sterkast á mig. Einhverskonar abstract expressionismi hittir beint í mark. Ég stóð t.d. dolfallin fyrir framan stóra mynd eftir Jackson Pollock á listasafninu í Chicago á dögunum. Ég skildi ekkert í myndinni (frekar en öðrum myndum af sama meiði), en nú er mér bara orðið alveg sama. Maður þarf ekki endilega að skilja eitthvað til að þykja það fallegt. Ég skil líka lítið í sumum ljóðum Steins Steinarrs, en þykir þau samt stórfengleg.

Ég er viss um að það að kunna að meta list og fegurð sé mannbætandi, en jafnvel þótt svo væri ekki, þá auðgar þetta a.m.k. tilveruna ótvírætt.

Og þá fór ég að pæla: Er hægt að kenna fólki að læra að meta list og fegurð? Og ef svo er: Erum við að gera nóg í því að kenna börnunum okkar slíkt? (eða fullorðnum?) Það er ótrúlega fegurð að finna í þessum heimi, en ef maður kann ekki að meta hana þá missir maður af svo miklu. Þetta gæti því verið leið til að bæta líf fólks gríðarlega án þess að það kosti einhverjar stórkostlegar fjárfestingar. Þetta er spurning um að breyta skynjun og hugarfari.

List er er eitt af því markverðasta sem skilur okkur frá dýrunum- það MENNSKASTA sem við gerum. Og það er sorglegt að stór hluti mannkyns skuli algerlega fara á mis við þessi gæði- skuli aldrei finna þann unaðshroll sem fylgir flottu riffi frá AC/DC, málningarslettum frá Tolla eða orðsnilld Steins Steinarrs.

Þetta eru hlutir sem gleymist að kenna fólki, en öll áhersla lögð á að gera fólk að nothæfri smurningu á tannhjól efnahagslífsins. Það yrði nú gaman ef listir og menning fengju uppreisn æru þegar hægist á dansinum í kringum gullkálfinn (svo ég noti þreytta samlíkingu), en það er auðvitað enganvegin víst. Ég legg a.m.k. til að svo verði, enda er list og fegurð ódýr leið til að gera lífið fallegra og skemmtilegra. Ég held líka að áhersla á menningu og listir gæti minnkað líkurnar á því að við lendum aftur í svipuðum ógöngum og við höfum nú lent í.

Við getum öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar í því efni með því að halda list að börnunum okkar og hvert að öðru. T.d. er ekki vitlaust að skrifa stutta pistla um list- og menningarupplifanir á bloggsíður til að vekja athygli á því sem við erum að lesa, hlusta eða horfa á á hverjum tíma.