Skip to main content

Að kunna að meta list

Ég tók fyrir margt löngu spurningalistakönnun sem á að gefa vísbendingar um það í hverju styrkleikar manns liggja. Það er of langt mál og leiðinlegt að útskýra hvað liggur á bak við þessa blessuðu könnun, enda ætlaði ég ekki að skrifa hér um persónuleika eða áhugasviðspróf, kosti þeirra og annmarka. En…anyhoo…einn af mínum meginstyrkleikum skv. áðurnefndri könnun reyndist vera „Appreciation of beauty and excellence”, sem myndi ca. útleggjast: “að kunna að meta fegurð og og…….(fokk….dettur ekkert orð í hug sem nær merkingu orðsins excellence.....Frábærni? Framúrskörun? Tillögur óskast).

Í fyrstu fannt mér þetta nú ekki merkilegur eiginleiki, en þegar ég fór að hugsa málið þá var ég bara hæstánægður með þetta og handviss um að þetta passaði alveg- sem sagt að þetta lýsti mér vel (eða hluta af mér). Þetta er nefnilega í fyrsta lagi eitthvað sem er pottþétt ekki öllum gefið og í öðru lagi er þetta ákaflega dýrmætt. List af ýmsu tagi skiptir mig t.d. sífellt meira máli eftir því sem árin færast yfir. Áður fyrr var það bara tónlist sem virkaði sterkt á mig og olli mér gæsahúð og lyfti geði mínu og sál. Svo bættist ljóðlist og kvikmyndir við og nú í seinni tíð er myndlist farin að virka sífellt sterkar á mig. Ég er farinn að leggja mig eftir myndlistarsýningum og söfnum og get staðið dolfallinn fyrir framan málverk eða skúlptúr og upplifað einhverskonar „uppliftingu”,sem ég tengdi áður fyrst og fremst við tónlist. Og það skrítna er að myndir sem ég hefði gert grin að fyrir 15 árum síðan (iss, piss…ég hefði getað málað þetta…þegar ég var á leikskóla!) virka einna sterkast á mig. Einhverskonar abstract expressionismi hittir beint í mark. Ég stóð t.d. dolfallin fyrir framan stóra mynd eftir Jackson Pollock á listasafninu í Chicago á dögunum. Ég skildi ekkert í myndinni (frekar en öðrum myndum af sama meiði), en nú er mér bara orðið alveg sama. Maður þarf ekki endilega að skilja eitthvað til að þykja það fallegt. Ég skil líka lítið í sumum ljóðum Steins Steinarrs, en þykir þau samt stórfengleg.

Ég er viss um að það að kunna að meta list og fegurð sé mannbætandi, en jafnvel þótt svo væri ekki, þá auðgar þetta a.m.k. tilveruna ótvírætt.

Og þá fór ég að pæla: Er hægt að kenna fólki að læra að meta list og fegurð? Og ef svo er: Erum við að gera nóg í því að kenna börnunum okkar slíkt? (eða fullorðnum?) Það er ótrúlega fegurð að finna í þessum heimi, en ef maður kann ekki að meta hana þá missir maður af svo miklu. Þetta gæti því verið leið til að bæta líf fólks gríðarlega án þess að það kosti einhverjar stórkostlegar fjárfestingar. Þetta er spurning um að breyta skynjun og hugarfari.

List er er eitt af því markverðasta sem skilur okkur frá dýrunum- það MENNSKASTA sem við gerum. Og það er sorglegt að stór hluti mannkyns skuli algerlega fara á mis við þessi gæði- skuli aldrei finna þann unaðshroll sem fylgir flottu riffi frá AC/DC, málningarslettum frá Tolla eða orðsnilld Steins Steinarrs.

Þetta eru hlutir sem gleymist að kenna fólki, en öll áhersla lögð á að gera fólk að nothæfri smurningu á tannhjól efnahagslífsins. Það yrði nú gaman ef listir og menning fengju uppreisn æru þegar hægist á dansinum í kringum gullkálfinn (svo ég noti þreytta samlíkingu), en það er auðvitað enganvegin víst. Ég legg a.m.k. til að svo verði, enda er list og fegurð ódýr leið til að gera lífið fallegra og skemmtilegra. Ég held líka að áhersla á menningu og listir gæti minnkað líkurnar á því að við lendum aftur í svipuðum ógöngum og við höfum nú lent í.

Við getum öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar í því efni með því að halda list að börnunum okkar og hvert að öðru. T.d. er ekki vitlaust að skrifa stutta pistla um list- og menningarupplifanir á bloggsíður til að vekja athygli á því sem við erum að lesa, hlusta eða horfa á á hverjum tíma.

Comments

Esther said…
„Appreciation of beauty and excellence”? Er Jóna ekki sátt með þetta?
Siggi Óla said…
Jú, hún tekur þetta auðvitað til sín, enda bæði beautiful and excellent

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…