Sunday, November 30, 2008

Skemmtileg helgi

Við hjónin ákváðum í skyndilegu altrúismakasti að afbóka ferðina okkar til Sevilla á Spáni og flytja þar með ekki dýrmætan gjaldeyri úr landi heldur eyða honum  þess í stað hér heima á Fróni. Við eyddum helginni því í Reykjavík og áttum mjög náðuga daga (eða einn og hálfan dag sko). Við gistum á Hótel Sögu eins og bændum sæmir. Sagan má reyndar muna fífil sinn fegurri og er orðin veruleg þörf á að endurnýja ýmislegt þar innan stokks. Þjónustan var þó til fyrirmyndar. Við nutum frábærrar máltíðar á Grillinu sem er í algerum sérflokki að vanda. Eldamennska í mjög háum klassa og verulega notaleg og prófessjonal þjónusta. Ég skil ekki af hverju Grillið er ekki með a.m.k. eina Michelin stjörnu- ekki síst í ljósi þess að staðurinn heldur þessum standard árum og áratugum saman.

Annars var gaman að koma í verslanir og á veitingastaði í borginni. Ég er ekki frá því að það hafi verið betur tekið á móti manni en nokkru sinni fyrr. Maður fékk á tilfinninguna að maður væri velkominn- sem er kannski ekki skrítið þegar stór hluti fyrirtækja í verslun og þjónustu rambar á barmi gjaldþrots. Ég fór í Vinnufatabúðina við Laugarveg og keypti mér jakka og eigandinn gaf mér trefil í kaupbæti- algerlega upp úr þurru. Merkilegt. Og skemmtilegt, enda mun ég örugglega versla þar aftur (ef sú ágæta búð lifir kreppuna af).

Það er svolítið skrítið andrúmsloft í Reykjavík þessa dagana- miklu minni ys og þys en maður á að venjast- og ég er ekki frá því að það hafi bara farið vel í mann. Þetta var a.m.k. sennilega notalegasta helgarferð sem ég hef farið til Reykjavíkur. Maður getur þó ekki annað en velt vöngum yfir því hvernig borgarbragurinn verður ef kreppan verður jafn djúp og allt bendir til. Ætli hálfkláruð stórhýsi muni minna okkur á geðveiki útrásartímanna um ókomin ár?

No comments: