Friday, November 06, 2009

Tónleikar

Ég hef farið á nokkuð marga tónleika um ævina. Það er fátt sem jafnast á við þá ánægju sem maður fær af góðum tónleikum. Stundum er um að ræða bönd sem maður er búinn að pæla í heillengi og maður veit nokkurn vegin á hverju maður á von, en stundum rennir maður alveg blint í sjóinn og upplifir svo eitthvað alveg nýtt og ferskt. Ég ætla hér að rifja upp slatta af eftirminnilegum tónleikum sem ég hef fari á í gegnum tíðina og byrja á tónleikum með erlendum rokkhljómsveitum:

1. Whitesnake/Steve Vai:

Whitesnake kom upp á frón og spilaði í Reiðhöllinni í Víðidal. Þetta var ca. 1990. Ég var nýlega búinn að kynnast gítargoðinu Steve Vai sem var þá nýlega búinn að gefa út plötuna "Passion and Warfare" sem er sennilega ein mest selda gítarrúnkplata allra tíma. Whitesnake var hins vegar að fylgja eftir hinni stórgóðu plötu "Slip of the tounge". Ég var búinn að hlusta gat á báðar plöturnar og var því vel undirbúinn. Ég fór á tónleikana með Dadda, Pabba og Smára Geirs. Við keyrðum suður á litlum og nettum Daihatsu og gistum svo á gistiheimili UMFÍ við Öldugötu á meðan á Reykjavíkurdvölinni stóð (ekkert verið að missa sig í lúxus sko..). Whitesnake hélt tónleika bæði á föstudags- og laugardagskvöldi og áttum við miða á seinni tónleikana. Það fór ekki betur en svo að David Coverdale veiktist eftir fyrri tónleikana og var óvígur á laugardeginum. Choirboys (sem hituðu upp) spiluðu því vel og lengi og stóðu sig prýðilega. Ég fílaði þá samt ekkert sérstaklega vel, enda þekkti ég þá ekki neitt. Whitesnake steig svo á svið við mikinn fögnuð, þrátt fyrir fjarveru söngvarans. Söngnum skiptu með sér hljómborðsleikarinn (sem ég man ekki hvað heitir) og Pétur Kristjánsson. Mjög spaugilegt, en gerði sig alveg þokkalega. Hljómborðsleikarinn var massasöngvari og Pétur Kristjánsson var auðvitað Pétur Kristjánsson. Senuþjófur kvöldsins var samt hinn spólgraði, snaróði gítarsnillingur sem Steve Vai heitir. Hann gersamlega steikti gítarinn og lék nokkur lög af Passion and Warfare, þar á meðal "For the love of God" sem er eitt besta gítarlag allra tíma. Ég var alveg upp við sviðið og gleymi þessari kvöldstund aldrei.


2. Iron Maiden (ca. 1992)

Ég minnist þess ekki að hafa séð neina erlenda hljómsveit á milli Whitesnake og Maiden. Á þessum árum voru komur frægra hljómsveita mikið rarítet. Ég hafði lítið hlustað á Maiden fyrr en ég keypti miða á tónleikana. Fjalar setti saman fyrir mig spólu með helstu slögurunum og svo keypti ég mér "Fear of the Dark", sem var platan sem þeir voru að fylgja eftir. Ég hlustaði á þetta út í eitt í margar vikur. Á þeim tíma vann ég í skemmunni sálugu og gat því hlustað á tónlist allan daginn á meðan ég vann. Ég fílað Maiden í botn og hlakkaði mikið til tónleikanna. Á tónleikunum var ég með Fjalari og Kela. Báðir voru þeir aðdáendur Maiden frá blautu barnsbeini. Tónleikarnir voru geðveikir. Við vorum framarlega, en sigum aðeins aftar í minni troðning og betra sánd þegar á leið. Dickinson var í hörkuformi og reyndar bandið allt. Upphitunarhljómsveit var hin stórgóða Exist. Við þekktum bassaleikarann, Jonna Bassa og hann reddaði okkur inn í eftirpartíið sem var haldið á rokkbúllu sem hét Grjótið og var við Tryggvagötu. Þar var Jonni að spila ásamt hljómsveitinni Stálfélaginu, sem var frábært kóverband. Eini munurinn á Exist og Stálfélaginu var söngvarinn. Gulli Falck á gítar, Siggi Reynis á trommur og svo man ég nú ekki hvað Stálfélagssöngvarinn hét, en Eiður Plant var söngvari í Exist. Drengirnir rokkuðu spikfeitt og tóku helstu slagara rokkbókmenntanna. Það sem gerði partíð ógleymanlegt var nærvera Iron Maiden manna. Ég tók í spaðann á þeim flestum, m.a. í járnkrumluna á Steve Harris. Ég spjallaði eitthvað við þá flesta (sagði a.m.k. eitthvað á borð við: "You're awesome dude! You guys rocked tonight!", eða eitthvað álíka lame). Mest spjallaði ég við Steve Harris og Janick Gears. Afskaplega alþýðlegir gaurar. Þeir voru bara að fíla tónlistina og drekka bjór eins og allir hinir. Engir stælar. Álit mitt á Iron Maiden minnkaði ekki við þessi kynni.


3. Joe Satriani (1994)

Ég fór og sá Satriani á stórum klúbbi í Providence, Road Island. Klúbburinn hefur kannski verði ívið stærri en Egilsbúð, en ekki mikið. Ég stóð í tröppum við endann á dansgólfinu og sá því og heyrði fullkomlega. Stu Hamm flengdi bassann og Jonathan Mover lék á trommur. Þvílíkir galdramenn! Satriani hefur nánast yfirnáttúrulegt vald á gítarnum og var í miklu stuði. Ég gleymi þessu seint. Og það eru fleiri sem gleyma þessu seint. Frænka mín og maðurinn hennar fóru með mig á tónleikana, fólk á tæplega miðjum aldri sem fílar Rod Stuart og Carly Simon. Þau fíluðu ekki Joe Satriani. Maður frænku minnar var litinn hornauga og spurður hvort hann væri í fíkniefnalögreglunni ("Duuude! Are you a narc?"). Hann minnist þessa kvölds enn með hryllingi. Upphitunarsveit fyrir Satriani var band sem hét Taiwan On. Ég kynntist þeim gaurum svo aðeins þar sem þeir voru húsband á búllunni þar sem ég hékk um helgar (sem var eina búllan sem ég komst inn á, 19 ára gamall). Sú búlla brann svo til kaldra kola eina nóttina og þar með var skemmtanalíf mitt í USA ónýtt! En það er önnur saga...
4. Rush (1994)
Það var algerlega ógleymanlegt að sjá goðin í Rush í fyrsta sinn. Ég var búinn að vera fan í 2-3 ár, en byrjaði samt fyrst að elska þá þegar þeir gáfu út Counterparts. Það var því ekki nokkur séns að ég myndi sleppa því að tékka á Rush þegar þeir áttu leið um Massachusettes fylki á vorið 1994. Þeir spiluðu í bæ sem heitir Wostchester, í ca. klukkutíma fjarlægð frá Rainham þar sem ég bjó hjá frænku minni ástkærri. Ég fór á tónleikana með tveimur stelpum sem ég vann með og vini þeirra. Frænka borgaði miðana. Og limmósínu! Alger snilld. Tónleikarnir voru algerlega ógleymanlegir. Ég söng með og lufttrommaði eins og sannur Rush-nörd. Looovely. Ég fór svo á aðra tónleika með þeim í Providence skömmu síðar. Var þá enn framar (í ca. 18. röð), drakk miklu meira og skemmti mér ENN betur!
5. Pearl Jam (1994)
Við fórum á Pearl Jam í Boston Garden (heimavöllur Boston Celtics). Fósturmamma frænku minnar bauð mér og nokkrum öðrum krökkum á tónleikana. Ég man að miðinn kostaði 12.000 kall, sem mér þótti hrikalegt. Mudhoney hitaði upp, en af einhverjum ástæðum nenntum við ekki að horfa á þá, heldur chilluðum úti á bílastæði og drukkum bjór þar til perlusultan kom á svið. Þeir rokkuðu alveg spikfeitt! Vedder-inn drakk ennþá á þessum tíma og var orðinn alveg svartur þegar dró að lokum. Fólk var að rétta honum flöskur upp á svið og hann hellti í sig gengdarlaust. Hann tók svo flottasta exit tónlistarsögunnar. Hann byrjaði að berja míkrófónstandinum í sviðið og hætti ekki fyrr en hann var búinn að brjóta gat á svðið. Svo stökk hann í gegnum gatið og hvart af sviðinu! Þetta þótti mér endalaust svalt!
To be continued.......

Wednesday, October 14, 2009

Tónleikaferðin mikla

Um síðustu helgi fórum við Jóna á frábæra tónleika í London ásamt Bjarna bróður. Frábær ferð í alla staði. Við fórum út á föstudagsmorgni og heim á sunnudagsmorgni, þannig að ferðin var í styttra lagi. Samt ótrúlegt hvað má gera margt á tveimur dögum í þessari frábæru borg. Hér eru nokkrir hápunktar:

Chowki
Við stukkum beint í hádegismat á þessum frábæra indverska stað á Denman Street í Soho. Ég hef borðað þarna nokkrum sinnum áður og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Mæli eindregið með þessum stað. Ekta indverskur matur á hagstæðu verði. Þjónustan lipur og skemmtileg.

Denmark street
Heimsókn á Denmark Street er nauðsynleg fyrir alla áhugamenn um hljóðfæri. Við Bjarni bróðir eyddum rúmlega 2 klukkutímum í það að rölta milli hljóðfæraverslana, skoða og prófa gítara og bassa. Endalaust úrval. Sáum m.a. 1952 módel af Telecaster. Verðin eru samt í hærri kantinum og ljóst að maður hefði ekki sparað neitt á því að versla þarna. Samt gaman að skoða svona klikkað úrval.

Foyles
Geggjuð bókabúð á Charing Cross Road. Þeir áttu m.a. allt sem Paul Auster hefur gefið út. Ég bætti þremur skræðum í safnið og Bjarni bró keypti klassískar Stephen King bækur. Mæli eindregið með þessari búð fyrir bókaorma. Og ef menn eru bæði gítar- og bókaormar þá er þessi verslun eiginlega beint á móti Denmark Street. Convenient.

Comedy Store
Við kíktum í þennan skemmtilega grínklúbb og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Daginn eftir var mér illt í andlitinu. Það voru 5 grínarar á dagskránni. Þeir fyndnustu voru kynnirinn, sem er einn snjallasti stand-up gaur sem ég hef séð. Hann stökk inn á sviðið og byrjaði svo umsvifalaust að gera grín að áhorfendum með einstaklega skapandi og snjöllum hætti. Síðasti grínarinn á dagskránni sló svo allt út. Sá var kanadískur að uppruna og er hugsanlega einn fyndnasti maður á jörðinni. Hrikalega random húmor- grófur með afbrigðum. Tárin láku niður kinnarnar á mér.

Tónleikarnir- Dream Theater o.fl.
Tónleikarnir voru auðvitað megintilgangur fararinnar. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Við byrjuðum reyndar á smá klúðri. Tímanum á tónleikunum hafði verið breytt, þannig að við mættum of seint og misstum af Unexpect- sem var drullufúlt. En það var bara ekki séns að vera í einhverri fýlu á þessum tónleikum.

Fyrstir stigu á svið töffararnir í Bigelf. Ég er ekki frá því að þeir séu í heimsókn frá árinu 1974. Frontarinn er gaur sem heitir Damon Fox og hann er hrikalega svalur. Hann var með hljómborð sitthvoru megin við sig- fremst á sviðinu. Tónlistin er einhverskonar psychadelic-doom-stoner rokk. Mikil áhrif eru greinileg frá Sabbath og Purple, en einnig frá glamrokkinu. Skemmtileg blanda sem svínvirkar. Bigelf spilaði í rúmlega hálftíma og þeir voru skuggalega þéttir. Hápunkturinn var lagið Black ball, en þá steig Mike Portnoy á svið með þeim og tók í settið. Ég mæli eindregið með því að allir rokkáhugamenn kynni sér þessa sveit. Hún veldur ekki vonbrigðum.

Næstir komu snillingarnir í Opeth. Fyrir þá sem ekki þekkja Opeth þá er það band sem telst sennilega leika progressive death metal. Magnaður kokteill af fegurð og hryllingi og ótrúleg spilamennska. Þeir léku lög frá öllum ferlinum, en aðeins tvö lög af nýju plötunni. Hápunktarnir voru lögin „Deliverance“ (þéttleikinn í lokin á því lagi var með slíkum ólíkindum að ég hef varla heyrt annað eins) og „Hex Omega“. Ultimate súper dúper hápunkturinn var hins vegar lagið „Lotus Eater“. Spilamennskan var óaðfinnanleg. Akefield var ótrúlega laid back og það er hreint magnað hvernig maðurinn getur hljómað eins og engill og drýsildjöfull á víxl. Ég get ekki mælt nóg með Opeth fyrir alla rokkhunda. Þeir þurfa smá tíma í meltingu, en þetta er svooo gott stöff. Ég mun a.m.k. fylgjast grannt með þeim hér eftir.

Dream Theater voru svo auðvitað aðalnúmerið. Og þeir stóðu sko undir væntingum. Öllu heldur fóru þeir óralangt fram úr mínum villtustu trylltustu væntingum. Þeir voru endalaust þéttir, svalir, skemmtilegir og drullu HEVÍ. Spilamennskan er fullkomlega ómannleg, sama hvar niður er borið. LaBrie er svakalegur hetjutenór og með miklu meiri sviðsnærveru en ég átti von á. Þeir tóku lög af öllum ferlinum, en ekki nema þrjú lög af nýju plötunni. Uppklappslagið var hið þrælmagnaða „The Count of Tuscany“ af nýju plötunni. Ekki amalegt að fá upplappslag sem er 20 mínútur! Skemmtilegt móment á tónleikunum var magnað trommusóló. Portnoy stoppaði í miðju kafi og sagði eitthvað á þessa leið: „this kit is too fucking big for just one guy“. Svo kallaði hann til liðs við sig trommara Unexpect, Bigelf og Opeth, einn í einu og tók „einvígi“ við þá alla. Það var magnað þegar hann trommaðist á við Axenroth úr Opeth, en sá drengur er alger galdramaður. Í lokin voru þeir svo allir fjórir við settið. Brilljant!

Heilt yfir eru þetta bestu tónleikar sem ég hef farið á (og er þá mikið sagt) Ef Dream Theater fer fleiri svona „Progressive nation“ túra þá ætla ég sko ekki að láta mig vanta. Jóna mín stóð sig eins og hetja á tónleikunum. Ég held að hún hafi verið ein af 7 konum á tónleikunum. Þvílík nördahjörð! Progg og metalnördar dauðans! Þær fáu konur sem maður sá gutu augunum á fylgdarsveina sína og hugsuðu greinilega: "what a freak!" Ekki er ólíklegt að þarna hafi í einhverjum tilvikum verið um lokastefnumót að ræða. En mín stóð sig eins og hetja og fílaði þetta bara ágætlega. Mikið er maður nú vel giftur.

Stieg Larson
Á leiðinni út til London byrjaði ég á síðustu bókinni í Millennium þríleiknum. Ég kláraði hana svo núna í vikunni. Þetta er hrikalegur múrsteinn, en hún rennur afar ljúflega í gegn. Djöfulsins skandall að mannhelvítið skyldi hrökkva upp af svona langt fyrir aldur fram. Þetta er algerlega ávanabindandi stöff. Ég sá mynd nr. 2 í bíó áður en við fórum út og stóð hún ágætlega undir væntingum. Það er samt ljóst að hver bók er efni í a.m.k. 10 þátta seríu. Ég vona bara að einhver fari út í slíka þáttagerð- og reyndar þykir mér það mjög líklegt. Það eru svo margar hliðarsögur og atriði sem sleppt er í myndinni að það hlýtur einhver að sjá sér hag í að gera meira úr þessu heldur en mönnum hefur tekist með þessum myndum.

Eníhú. Bottom læn: Stórskemmtileg og ógleymanleg ferð

Monday, September 14, 2009

Innri og ytri hlýindi


Mikið óskaplega er gott að fá svona hlýindi á þessum árstíma. Og ekki er verra þegar það fer saman við innri hlýindi! Hér erum við feðgar við Norðfjarðarvita þann 13. september í göngutúr með Rögnu og Sigga Kára.


Tuesday, August 18, 2009

Random stuff

Jæja. Sumarfríið búið. Það var sérlega ljúft. Ég var í fríi í mánuð. Við vorum heima í viku, svo fórum við Jóna til Barcelona í viku á meðan krakkarnir chilluðu hjá mömmu á Akureyri. Mamma keyrði svo með krakkana á móti okkur í Munaðarnes þar sem við eyddum viku í sumarbústað. Síðustu vikuna vorum við heima í afslappelsi.

Þetta er eitt besta frí sem ég man eftir. Hápunkturinn var dvölin í Barcelona sem er frábær borg í alla staði. Ótrúlegur arkítektúr, iðandi mannlíf, frábær matur, góð söfn, gott veður og góð vín. Við ákváðum að fara til Barcelona til að fagna 10 ára brúðkaupsafmæli. Sjitt hvað tíminn líður!

Við vorum nokkuð aktíf í Barcelona en samt ekkert að stressa okkur of mikið. Við vorum t.d. tvo daga á ströndinni þar sem við flatmöguðum bara og slöppuðum af. Öðrum stranddeginum eyddum við í Sitges sem er fallegur gamall strandbær. Þar sjást engin ný og ljót risahótel við ströndina, andrúmsloftið er afslappað og ströndin flott. Seinni stranddeginum eyddum við í Barcelona. Við tókum strætó og fórum eins langt frá miðborginni og hann gekk. Svo örkuðum við niður á ströndina og gengum þar beint í flasið á alsnöktum manni sem var á leið í sturtu. Þessi hluti strandarinnar reyndist sem sagt vera nektarströnd. Þar sem gestirnir virtust fyrst og fremst vera karlkyns eldriborgarar tókum við snarlega ákvörðun um að finna annan stað til að sóla okkur á. Önnur highlight úr Barcelona ferðinni voru m.a. þessi:

-Gítartónleikar í tónleikahöllinni Palau Musica. Fallegasti salur sem ég hef komið í og gítarleikur á heimsmælikvarða.
-Heimsókn á 4 ketti. Þar hélt Picasso sína fyrstu sýningu og hékk við bjórdrykkju og tapasát flesta daga ásamt ýmsum þungaviktarmönnum í menningu Spánar á þeim tíma
-Heimsókn í Parc Guell. Hinn snarklikkaði arkítekt Gaudi hannaði garðinn sem er afskaplega fallegur og sérstakur
-Mögnuð máltíð á inverskum veitingastað í hinu nett skuggalega El Raval hverfi
-Geggjaðir djasstónleikar á hinum fornfræga djassstað "Jamboree" með klikkuðum saxófónleikara- George Garzone ( http://en.wikipedia.org/wiki/George_Garzone). Gaurinn er kennari við Berkley og hefur spilað með ÖLLUM- meira að segja Elvis- og reyndar einu af mínu uppáhaldsböndum- Exreme. Grúppan sem hann var með heitir (með réttu) "The Fringe"- Sax, bassi og trommur. Samspilið var með hreinum ólíkindum, tónlistin frekar "far out" og George blés í saxið eins og enginn væri morgundagurinn. Á þessum skemmtilega klúbbi varð ég fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að borga 10 evrur fyrir lítinn San Miguel og litla kók. Ca. 1800 kall. Helvítis fokking fokk.
-Dásamleg sælkeramáltið á þessum veitingastað: http://www.cincsentits.com/en/index.htm . Þessi staður er fyrsti Michelin stjörnu veitingastaðurinn sem við prófum og það var vel þess virði. Krítarkortið logaði reyndar, en mikið svaaakalega var þetta gott. Við fengum ca. 8 rétti sem voru hver öðrum betri. Ég fékk mér sérvalin vín með sem var mjög skemmtilegt því ég fékk ítarlega kynningu á hverju víni og skýringar á því af hverju það varð fyrir valinu. Þetta er staður í heimsklassa, sem reyndar þarf ekki að koma á óvart þar sem óvíða eru fleiri topp veitingastaðir en í Barcelona. Í ca. 1-2 tíma fjarlægð frá Barcelona er t.d. veitingastaðurinn El Bulli sem hefur verið valinn besti veitingastaður í heimi síðustu árin. Það tekur ca. 2 ár að fá borð þar....ef maður er heppinn.

Helstu gallarnir við að heimsækja Barcelona á þessum tíma árs eru þeir að hitinn er frekar hár (um og yfir 30 gráður flesta dagana) og borgin er hrikalega troðin af fólki. Annað óskemmtilegt atriði var agalegur hálsrígur sem ég náði mér í, sennilega af því að sofa á lélegum hótelkodda. Djöfuls aumingi er maður orðinn af því að sofa á einhverri fjandans geimdýnu og heilsukodda! Sveiattan. Verðlagið er svo auðvitað kapituli útaf fyrir sig, en ég nenni ekki að fara út í þá þunglyndissálma. Borgin er annars afar rómantísk og ég get hreinlega ekki hugsað mér betri borg að heimsækja. Það er bókað að við Jóna förum einhverntíman aftur til Barcelona. Kannski eftir 10 ár bara?

Ég las heilmikið í fríinu, en ekkert af því neitt sérlega bitastætt. Ég las aðallega einhverja reifara, Ken Follett, Stephen King o.fl. King er reyndar snillingur. Ég var næstum búinn að gleyma hvað hann er góður. Ég stefni á að endurlesa eitthvað af því sem ég á af bókunum hans- bæði vegna þess að ég er meira og minna búinn að gleyma þessu öllu, en ekki síður vegna þess að það er fjandi dýrt að kaupa bækur. Ég er núna að lesa nýtt smásagnasafn eftir kappann sem er stórgott. Hann er mikill smásögumeistari og ég er ekki frá því að maður ætti að lesa meira af smásögum. Skemmtilegt sagnaform.

Hvað tónlist varðar er ég enn á kafi í Opeth, en er að auki farinn að melta Unexpect og Bigelf til að undirbúa tónleikana í London í október. Can't wait!

Tuesday, July 14, 2009

Eistnaflug

Ég fór á hina stórfenglegu Eistnaflugshátíð um síðustu helgi í fyrsta skipti. Skemmtilegasta tónlistarhátíð sem ég hef farið á. Ég hef aldrei farið á svo fjölmennt mannamót hér á landi sem var jafn algerlega laust við bögg og vesen. Það var eintóm ást í loftinu. Mjög sérstakt og áhugavert í ljósi þess hve tónlistin er ofuraggressíf og á köflum hreinlega djöfulleg. Einnig er stór hluti hátíðargesta afar skrautlegur svo ekki sé meira sagt. Reyndust svo upp til hópa vera bestu skinn undir svakalegu yfirborðinu. Þetta er þveröfugt við upplifun mína af ýmiskonar hátíðum og samkomum þar sem "venjulegt" fólk kemur saman. Það er ekki haldin sú harmonikkuhátíð að allt logi ekki í slagsmálum, nauðgunum og almennum leiðindum (sem gæti reyndar verið vegna þess að geðveila er forsenda þess að fíla harmonikkutónlist). Þungarokkarar virðast einfaldlega fá útrás fyrir aggressjón í tónlistinni- hvort sem þeir eru á sviði eða á dansgólfinu í "pyttinum".

Ég prófaði í fyrsta skipti á ævinni að fara í "pyttinn". Fyrir þá sem ekki hafa komið á alvöru metaltónleika þá er pytturinn (eða the mosh pit eins og þetta heitir á engilsaxnesku) þvaga af fólki, aðallega ungum strákum, sem hrinda og stjaka hverjir við öðrum þannig að úr verður kös af fólki. Þetta lítur svakalega út svona utanfrá séð, en er allt í mesta bróðerni og algerlega saklaust. Ef einhver flýgur á hausinn þá er hann umsvifalaust togaður á fætur og hugað að honum ef hann er eitthvað krambúleraður. Ég stökk ber að ofan og snaróður í pyttinn. Og er með marbletti til að sanna það. Hrikalega gaman.

Flottasta marblettinn fékk ég reyndar eftir að daman í miðasölunni beit mig á fyrsta degi hátíðarinnar. Ég stakk höndinni í gegnum lúguna til að fá armband, en skipti þá engum togum að ég var bitinn í framhandlegginn. Hún hélt því fram að ef ég týndi armbandinu þá gæti ég sýnt bitfarið. Það var sem sagt strax ljóst að maður var kominn á annarskonar hátíð en maður á að venjast.

Hvað tónlistina varðar, þá er ljóst að metalsenan á Íslandi er miklu sterkari en mann hafði grunað. Margar af þessum hljómsveitum okkar eru í mjög háum klassa á sínu sviði. Ég stóð t.d. alveg stjarfur á meðan Severed Crotch spilaði, enda tæknileg geta þeirrar hljómsveitar með miklum ólíkindum. Brain Police og Mínus fóru einnig á miklum kostum og sérstaklega kom Brain Police mér á óvart. Það var magnað að sjá trommarann taka sóló með logandi kjuðum. Æðislegt!

Sú grúppa sem ég var samt mest gáttaður á var Agent Fresco. Ég vissi ekki að við mörlendingar ættum svona hljómsveit. Það er mjög erfitt að negla þá niður á einhverja tónlistarstefnu, en mikið svakalega bragðaðist þessi grautur vel. Þeir höfða kannski sérstaklega til tónlistarnörda og hljóðfæraleikara sem hafa skilning á flóknum taktskiptingum, laglínum, geðveikum hljóðfæraleik og ýmiskonar skringilegheitum, en þó held ég að mjög margir ættu að heyra (og sjá) eitthvað við þetta band. Þeir eru gífurlega flinkir hljóðfæraleikarar og mjög óhræddir við að experimenta. Á köflum minntu þeir mig á kanadísku sveitina Unexpect. Ég mun tvímælalaust kaupa allt sem þessir drengir gefa út. Ég spái þeim miklum frama.

Eníhú...Ég mæti pottþétt á Eistnaflug á næsta ári og ég vil hvetja alla rokkáhugamenn til að láta sjá sig. Stebbi og Hrefna eiga mikinn heiður skilinn fyrir að standa fyrir þessari hátíð ár eftir ár. Ég legg til að þau verði tilnefnd til fálkaorðuveitingar fyrir vikið.

Rock on!

Wednesday, June 17, 2009

Djass, djass, djass

Dagana 24-28 júní verður haldin djasshátíð á Austurlandi. Á hátíðinni verður margt skemmtilegt í boði og hvet ég alla tónlistaráhugamenn til að mæta. Djasshátíðin er orðinn fastur punktur í menningarlífi Austfirðinga og er eitthvað sem tónlistaráhugamenn mega ekki missa af. Á hátíðinni hafa oft komið fram stór nöfn, en oft eru þetta líka tónlistarmenn sem maður hefur ekkert heyrt um en koma manni svo frábærlega á óvart. Mér eru t.d. minnisstæðir tónleikar með Finn Siegler og Olivier Antunis (vona að ég stafi þetta rétt) í Valaskjálf ca. 1999. Ég hafði heyrt um Siegler, en aldrei þennan Olivier Antunis. Hann reyndist svo vera einn mesti virtúós píanisti sem ég hef séð og heyrt.

Áherslan á hátíðinni í ár er á innlenda tónlist- af skiljanlegum ástæðum. Bæði hafa undanfarnar hátíðir verið dýrar (t.d. spilaði Larry Carlton á hátíðinni í fyrra!), en auk þess eru erlend atriði orðin tvöfalt dýrari en þau voru fyrir ári síðan. Þó verða á hátíðinni erlendir performerar sem örugglega eru þrælflottir. Jón Hilmar hefur átt veg og vanda af hátíðinni síðustu árin og á hann heiður skilinn fyrir metnaðarfulla dagskrá hátíðarinnar.

Ég hef orðið var við það að ótrúlega margt fólk hefur fordóma gagnvart djassi. Raunar hafði ég þá sjálfur fram eftir aldri. Ég fór ekki að hlusta á djass fyrr en upp úr tvítugu, en komst ekki verulega á bragðið fyrr en ég var farinn að halla í þrítugt. Fyrsta djassplatan sem heillaði mig upp úr skónum var "Kind of Blue" með Miles Davis. Ég fékk hana algerlega á heilann og hún gekk á fóninum hjá mér mánuðum saman á meðan ég skrifaði mastersritgerðina mína. Svo hefur áhuginn smátt og smátt aukist og nú er svo komið að ca. 70% af því sem ég hlusta á heima við er djass: Miles Davis, Oscar Peterson, Ray Brown, Wes Montgomery, Niels Henning, Pat Methany, Jaques Loussier.....dásamlegt stöff.

Það sem heillar mig við djass er fjölmargt. Spilamennskan er auðvitað yfirleitt á mjög háu plani, mikið er um fjölbreytilegan spuna og samspil er oft og tíðum nánast yfirnáttúrulegt. Ég hvet alla tónlistarháhugamenn til að gefa djassinum séns því ef maður kemst á bragðið þá eru verðlaunin ríkuleg. Það opnast fyrir manni heill heimur af tónlist og ég er handviss um að góður djass er mannbætandi. Ég skal með glöðu geði mæla með djassi fyrir byrjendur ef einhver er forvitinn, en eins og áður sagði var það "Kind of Blue" sem kveikti minn djassáhuga og er sú plata mjög aðgengileg og ljúf.

Tuesday, June 09, 2009

Tapas við ysta haf

Við hjónin fórum með yngra afkvæmið á Kaffi Lúlú um helgina. Við ætluðum að fá okkur snarl og fyrir valinu varð tapasdiskur fyrir tvo á krónur 3800. Það fannst mér í dýrari kantinum þangað til maturinn kom á borðið. Grafið naut með lakkríssósu, reyktur lax úr mývatnssveit, tvíeikt hangiket, parmaskinka og chorizo, fiskisúpa, innbakaður camenbert með rabbarbarachutney og bláberjasultu og nýbakað brauð. Sem sagt: Full máltíð fyrir tvo. Við náðum ekki að klára þetta allt og erum við þó ágætlega matlystugt fólk. Ég drakk rauðvín með, Jóna drakk pepsi og litli maðurinn kókómjólk og kleinu. Reikningurinn var rétt rúmar 5000 kr. Þjónustan var frábær og alúðleg og staðurinn er auðvitað eins kósí og hugsast getur. Get ekki mælt nóg með því að menn skelli sér á Lúlú! Frábært að sjá metnaðarfullt fólk sem kann á veitingabransann bjóða upp á svona þjónustu við ysta haf. Húrra fyrir Hákoni og Kötu!

Friday, June 05, 2009

Rufuz

Fór á tónleika í Blúskjallaranum í gærkveldi með hinni stórskemmtilegu hljómsveit Rufuz. Hana skipa Orri Smára, Jón Hafliði, Robbi og Hlynur Ben. Ég hef lengi haft gaman af Rufuz, en þeir fagna nú 10 ára afmæli sveitarinnar. Strákarnir hafa verið að taka upp nýtt efni og fengu tónleikagestir að hlýða á herlegheitin. Mér heyrist þeir vera að þróast í skemmtilegar áttir og brá fyrir áhrifum úr ýmsum áttum. Sérlega þótt mér gaman að heyra prog og hetjumetaláhrifin í epísku lokalagi tónleikanna þar sem skiptust á Rushkennd riff og Iron Maidenískt gobbedígobb. Stórgott!

Hlynur hefur tekið stórstígum framförum sem gítarleikari, sem skilar sér í fjölbreyttari og flóknari riffum, sem er vel því Orri og Jón Hafliði hafa þéttleika og tæknilega getu til að spila fjandi avanserað stöff. Þeir félagar voru þrælþéttir og með svona rythmagrunn er eiginlega ekki hægt að klúðra þessu.

Mér finnst skemmtilegt að Norðfjörður skuli eiga svona góða rokksveit, en Norðfirðingar hafa stundum verið sakaðir um að vera fyrst og fremst góðir ábreiðuspilamenn. Í gegnum tíðina hafa samt sveitir eins og Súellen, Hálfur undir sæng, Rufuz og Coney Island Babies rekið af okkur það slyðruorð með miklum bravör. Ekki það að ég er algerlega ósammála því að kóverspilamennska sé eitthvað ómerkileg. Ef svo er, þá telst Sinfóníuhljómsveit Íslands væntanlega ómerkilegt band, eða hvað? Það getur nefnilega falist heilmikil sköpun í lífrænni túlkun á klassísku rokki.

En...enívei....Ég var ánægður með Rufuz. Mitt litla rokkhjarta gladdist. Mig langaði að rífa mig úr að ofan og öskra með þeim, en það var einhvernvegin ekki viðeigandi. Ég lét mér því nægja að kinka kolli í takt og glotta út í bæði.


kv.
Siggi

P.S. Er nú á kafi í bandi sem heitir Opeth. Þessir gaurar eru alger monster. Þeir eru nokkuð sér á parti, nema til séu margar sænskar death-progmetalsveitir. Meira um þá síðar.

Sunday, April 05, 2009

Rokksveitin Arrrrgh!

Kíkti í dag á skemmtilega hljómsveitaræfingu. Þar kom saman í fyrsta sinn hljómsveitin Arrgh. Hana skipa undirritaður, Jón Hilmar, Orri Smára og Þorlákur Ægir. Söngvari er Jóhanna Seljan, undirritaður (kannski), Þorlákur Ægir og hugsanlega Reynir Höskuldsson. Hljómar flókið. Sem það og er.

Arrgh ætlar að leika í Egilsbúð næsta miðvikudagskvöld. Á efnisskránni er fullt af skemmtilegum lögum....Cream, Kiss, Metallica, Skunk Anansi, Rage against the machine, James Brown, Bon Jovi, Bubbi Morthens og margt, margt fleira.

Æfingin gekk vel og á köflum náðist fyrirmyndar þéttleiki. Ég hef aldrei spilað með Orra áður, en þetta fór bara skrambi vel af stað hjá okkur. Ég hef hins vegar oft spilað með Jóni Hilmari áður- fyrst þegar Jón var 14-15 ára gutti í Nokiastígvélum. Það má alveg fylgja sögunni að hann bjó til hljóð með bláa Yamaha gítarnum sínum sem 14-15 ára gutti í Nokiastígvélum ætti ekki að geta búið til.

Enívei. Unnendur rokktónlistar verða ekki sviknir af því að mæta á Arrgh.

Hljómsveitin Winson hitar upp, en það mun vera mjög áhugavert band.

Vertu þar, eða vertu ferhyrndur.

Mér skilst raunar að þetta sama kvöld verði Dylanprógramm á Lúlú. Agalegt að tvö gigg skuli rekast á í ekki stærri bæ, en hver veit, kannski er hægt að byrja á Lúlú og kíka svo í Egilsbúð? Pöbbarölt á Norðfirði! Það er svo rosalega nýtt konsept að maður nær bara ekki að höndla það!love:
Siggi

Sunday, March 29, 2009

Um Gunna Þórðar og hógværa snilld

Í gærkveldi fórum við hjónin á tónleika með Gunnari Þórðarsyni í Egilsbúð. Þetta var reyndar dinner og sjó, sem er alls ekki óviðeigandi þegar Gunni Þórðar er annarsvegar ("Flýttu þér nú elskan svo við missum ekki af Gunnari og sjóinu"........man einhver eftir þessari línu?)

Þetta var í stuttu máli sagt frábært kvöld. Maturinn var í toppklassa og myndi ég segja að máltíðin hafi jafnast fyllilega á við máltíð sem ég borðaði á Holtinu um daginn. Reyndar enginn Ásgrímur eða Kjarval á veggjunum, en maturinn og vínið var alveg á pari við Holtið....og teljast það tíðindi til næsta bæjar að hægt sé að fá svo frambærilegan mat í Neskaupstað á ný. Ég er reyndar búinn að fara 3 sinnum út að borða í Egilsbúð síðustu vikur og hef alltaf fengið mjög góðan mat. Mæli sérstaklega með núðlum með laxi og Tom Yum sósu. Yum, yum.

Mætingin í dinnerinn var þrælfín. A.m.k. 50 manns myndi ég segja, þótt reyndar hafi ég nú ekki talið hausa. Þegar nær dró tónleikunum dreif svo að múg og margmenni og ég hugsa að alls hafi í það minnsta 150 manns látið sjá sig. Gunni Þórðar virtist líka hálf hissa þegar hann steig á sviðið og sagðist reyndar vera hrærður yfir mætingunni því hann hafi átt von á 30 hræðum.

Ég var fyrir tónleikana spenntur að sjá hvernig meistarinn myndi nálgast þessi lög sín. Þetta eru jú mikil lög- oftast flott útsett- raddir, strengir og bestu söngvarar landsins- oft Pálmi Gunnarsson, Eiríkur Hauksson og þvílíkir. Ég var því ekki alveg að sjá fyrir mér að kallinn gæti flutt þessi lög einn og óstuddur og sá ég jafnvel fyrir mér að hann myndi nota skemmtara, tölvu eða teip í undirspil eins og 4 deildar performer við sundlaugarbakka á kvöldvöku á Mæjorka. Ekki svo.

Kallinn var bara með gítar að vopni og söng lögin einn og óstuddur. Og útkoman ber bæði vott um hve góð þessi lög eru og hvað Gunni er frábær talent. Hann söng lögin prýðilega og gítarspilið var auðvitað í heimsklassa. Hann flutti flest af sínum þekktustu lögum. Svalast þótti mér þegar hann tók hippasmellinn "Sail on, starlight" sem ég vissi reyndar ekki að væri eftir hann. Hann sagði svo nokkrar skemmtilegar rokksögur á milli laga og hefði reyndar mátt gera enn meira af því, svona fyrir minn smekk. Gunnar er tvímælalaust snillingur, en hann er líka frábærlega hógvær snillingur. Hann er feiminn og hæglátur maður og algerlega laus við alla stæla. Ég kíkti einu sinni í heimsókn til hans í Vesturbænum ásamt Ólafi Hauki Símonarsyni, en hann er giftur móðursystur minni. Óli hafði milligöngu um kaup mín á einum af gíturum Gunnars. Gítarinn var Fender Stratocaster '76 módel. Gítarinn keypti ég á 30 þúsund krónur og seldi hann fyrir sömu upphæð nokkrum árum síðar (AF ÞVÍ AÐ ÉG ER ÞROSKAHEFTUR). Gunnar var hinn ljúfasti heim að sækja- sýndi mér stúdíóið sitt og gítarasafnið og talaði ekki niður til mín þótt ég væri 16 ára snarfeiminn gutti.

Enívei...Tónleikarnir í gær minnkuðu svo sannarlega ekki álit mitt á Gunnari Þórðarsyni.

Ég var afskaplega ánægður með mætinguna á tónleikana og vona ég að hún sé vísir að því að Norðfirðingar og nærsveitarmenn láti sjá sig á menningarviðburðum og læri það að vel má kíkja á tónleika, fá sér eitt glas af rauðvíni (eða bara kaffibolla) og koma sér svo í háttinn á kristilegum tíma. Það þarf ekki alltaf að hrynja í það þótt maður kíki út á kvöldin.

Saturday, March 28, 2009

Um CIB.....og tónleikahald.....og samfélag

Í gærkvöldi fór ég á tónleika með hinni stórfínu hljómsveit Coney Island Babies á Kaffi Lúlú. Hljómsveitin smellpassaði við staðinn og stemningin var ljúf...kertaljós og kaffi latte. Þeir félagar léku í bland sín eigin lög og annarra og gerðu það með sínu nefi. Þeirra eigin lög eru stórfínar smíðar og fá mann eiginlega til að skammast sín fyrir að vera endalaust í þessu cover rúnki. Það er merkilegra að semja eitt gott lag en að flytja allar perlur rokkbókmenntanna. Enívei. CIB náði fínu flugi í gær. Þeir hitnuðu eftir því sem leið á prógrammið og á síðasta lagi voru þeir komnir í fantagír. Lagið heitir Pharmacist og ég held að ég hafi ekki heyrt það áður. Þrusugott lag. Kremið á þeirri köku var gítarsóló Guðmundar Höskuldssonar sem olli mér þvílíkri gæsahúð að ég fékk næstum fjarðrir.

Tónleikarnir voru sumsé stórfín skemmtun, en eins og venjulega rann mér til rifja hve fáir mættu. Þarna var band í fínum klassa að spila- ókeypis inn- og það mæta örfáar hræður. Helmingur gesta var Mannuðsteymi Alcoa Fjarðaáls+Halldór Eiríks. Skandall. Mikið rosalega hlýtur að hafa verið góð sjónvarpsdagskrá í gærkveldi.

Þetta er raunar ekkert einsdæmi og ég hef farið á tónleika á Norðfirði með heimsklassalistamönnum þar sem mæta 50 hræður. Mér eru t.d. minnisstæðir tónleikar með orgelkvartetnum Apparat, sem er einhver magnaðasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið fyrir. Þar mættu örfáir, sem klöppuðu reyndar eins og simpansar á spítti eftir hvert lag- ekki síst vegna þess að menn skömmuðust sín fyrir fámennið.

Nú er það kannski svo að tónlist höfðar ekki jafn sterkt til allra og það getur verið erfitt að rífa sig upp úr sófanum eftir langa vinnuviku. Hins vegar er það líka svo að ef Norðfirðingar mæta ekki á tónleika, þá reynist mjög erfitt að halda uppi tónlistarlífi. Ekki einu sinni tónlistarmenn bæjarins mæta á tónleika!

Þetta er slæmt í ljósi þess að tónlist hefur mannbætandi áhrif. Hún lyftir andanum alltaf meira heldur ein það sem er í sjónvarpinu. Og þegar vel lætur (eins og í gærkvöldi) fær maður gæsahúð, finnur hroll hríslast niður bakið, á andlitinu fæðist fábjánalegt glott. Maður lítur á sessunautinn, kinkar k0lli og brosir....og tilveran er dásamleg. Maður upplifir samfélag við annað fólk á sterkan hátt. Og samfélag byggir á því að fólk sé SAMAN...komi SAMAN....á SAMkomur. Allavega...ég er farinn að röfla. Punkturinn er þessi: Allir upp úr sófunum og MÆTA þegar eitthvað skemmtilegt er í gangi í Egilsbúð, á Kaffi Lúlú eða í Blúskjallaranum. Það er vel þess virði.

Pjúff. Þá er ég búinn að koma þessu frá mér.

Í kvöld ætla ég að hlusta á Gunnar Þórðarson, stórsnilling, í Egilsbúð og borða góðan mat. Segi kannski frá því síðar.

Saturday, March 21, 2009

Um lyftingar

Ég hef stundað lyftingar síðan ég var ca. 16 ára gamall. Ekki alveg stöðugt, en hef þó oft tekið tímabil þar sem ég lyfti mjög reglulega. Yfirleitt hef ég verið að lyfta a.m.k. 2-3 í viku þegar ég tek lyftingatarnir en nú er ég kominn á þá skoðun að það sé kappnóg að lyfta einu sinni í viku. Ég hef haft þann háttinn á síðustu misseri og það er einfaldlega að svínvirka. Ég mætti lengst af einu sinni í viku og lyfti í ca. 45 mínútur. Það dugði til að halda mér í fínu formi. Svo ákvað ég upp úr áramótum að herða róðurinn og fór að lyfta í ca. 90-120 mínútur, einu sinni í viku. Það hefur skilað mér bullandi framförum. Um daginn tók ég t.d. 135 kg. í bekkpressu, sem ég hef ekki gert í mörg ár. Í morgun lyfti ég 120 kg. 5 sinnum- sem ég hef aldrei gert áður. Yep...It works.

Líkamsræktariðnaðurinn vill auðvitað sannfæra mann um að það þurfi að lyfta a.m.k. 4 sinnum í viku til að eitthvað gerist- og helst moka í sig fæðubótaefnum líka. Þetta er hins vegar alls ekki rétt. Það er vel hægt að lyfta sjaldan og ná samt árangri. Þar af leiðandi er tímaskortur ekki lengur gild afsökun. Það hljóta allir að geta fundið sér 1-2 tíma einhverntíman í vikunni til að grípa í járn. Og ef það er rétt gert, þá lætur árangurinn ekki á sér standa. Lyftingar eru einfaldlega mjög öflug leið til að halda sér í formi. Þegar menn komast á minn virðulega aldur er mikilvægi þess að halda sér í formi augljóst. Valkosturinn er hrörnun (vöðvamassi rýrnar jafnt og þétt eftir ca. 27 ára aldur ef ekkert er að gert) og ég held að maður verð að vinna gegn henni eftir fremsta megni. Ég er nú orðinn sannfærður um að það geti ég gert með því að stunda lyftingar einu sinni í viku.