Saturday, March 28, 2009

Um CIB.....og tónleikahald.....og samfélag

Í gærkvöldi fór ég á tónleika með hinni stórfínu hljómsveit Coney Island Babies á Kaffi Lúlú. Hljómsveitin smellpassaði við staðinn og stemningin var ljúf...kertaljós og kaffi latte. Þeir félagar léku í bland sín eigin lög og annarra og gerðu það með sínu nefi. Þeirra eigin lög eru stórfínar smíðar og fá mann eiginlega til að skammast sín fyrir að vera endalaust í þessu cover rúnki. Það er merkilegra að semja eitt gott lag en að flytja allar perlur rokkbókmenntanna. Enívei. CIB náði fínu flugi í gær. Þeir hitnuðu eftir því sem leið á prógrammið og á síðasta lagi voru þeir komnir í fantagír. Lagið heitir Pharmacist og ég held að ég hafi ekki heyrt það áður. Þrusugott lag. Kremið á þeirri köku var gítarsóló Guðmundar Höskuldssonar sem olli mér þvílíkri gæsahúð að ég fékk næstum fjarðrir.

Tónleikarnir voru sumsé stórfín skemmtun, en eins og venjulega rann mér til rifja hve fáir mættu. Þarna var band í fínum klassa að spila- ókeypis inn- og það mæta örfáar hræður. Helmingur gesta var Mannuðsteymi Alcoa Fjarðaáls+Halldór Eiríks. Skandall. Mikið rosalega hlýtur að hafa verið góð sjónvarpsdagskrá í gærkveldi.

Þetta er raunar ekkert einsdæmi og ég hef farið á tónleika á Norðfirði með heimsklassalistamönnum þar sem mæta 50 hræður. Mér eru t.d. minnisstæðir tónleikar með orgelkvartetnum Apparat, sem er einhver magnaðasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið fyrir. Þar mættu örfáir, sem klöppuðu reyndar eins og simpansar á spítti eftir hvert lag- ekki síst vegna þess að menn skömmuðust sín fyrir fámennið.

Nú er það kannski svo að tónlist höfðar ekki jafn sterkt til allra og það getur verið erfitt að rífa sig upp úr sófanum eftir langa vinnuviku. Hins vegar er það líka svo að ef Norðfirðingar mæta ekki á tónleika, þá reynist mjög erfitt að halda uppi tónlistarlífi. Ekki einu sinni tónlistarmenn bæjarins mæta á tónleika!

Þetta er slæmt í ljósi þess að tónlist hefur mannbætandi áhrif. Hún lyftir andanum alltaf meira heldur ein það sem er í sjónvarpinu. Og þegar vel lætur (eins og í gærkvöldi) fær maður gæsahúð, finnur hroll hríslast niður bakið, á andlitinu fæðist fábjánalegt glott. Maður lítur á sessunautinn, kinkar k0lli og brosir....og tilveran er dásamleg. Maður upplifir samfélag við annað fólk á sterkan hátt. Og samfélag byggir á því að fólk sé SAMAN...komi SAMAN....á SAMkomur. Allavega...ég er farinn að röfla. Punkturinn er þessi: Allir upp úr sófunum og MÆTA þegar eitthvað skemmtilegt er í gangi í Egilsbúð, á Kaffi Lúlú eða í Blúskjallaranum. Það er vel þess virði.

Pjúff. Þá er ég búinn að koma þessu frá mér.

Í kvöld ætla ég að hlusta á Gunnar Þórðarson, stórsnilling, í Egilsbúð og borða góðan mat. Segi kannski frá því síðar.

4 comments:

Anonymous said...

Sæll!

Er svona að velta því fyrir mér hvort ég eigi að hripa niður á mitt eigið blogg hugsun sem hvarflar að mér við þennan lestur.

En. Sko...

Ég þakka auðvitað komplimentið þó mér finnist nú sjálfum að CIB hafi átt betri daga en þannig líður manni nú stundum - líklega oftast - eftir tónleika.

...

Eflaust eru margar ástæður fyrir slakri mætingu en ég held að meginástæðan sé nú bara skortur á hefð. Í Nesk, líkt og í öðrum krummaskuðum (sem er fallegt orð), tengir fólk tónleika við dansleiki og fyllerí. Aftur á móti tónleikar sem byrja klukkan tíu og eru ef til vill búnir klukkan 12 - það er bara allt önnur Ella!

Eina leiðin til að rjúfa hefðir, hafi maður á annað borð löngun til þess, er bara að halda sínu striki og blása til tónleika þótt fáir mæti. Síðan fer þetta bara að virka eins og hjá krökkum. Þeir sem mæta ekki sjá og heyra að það er svaka stuð á tónleikum og innan tíðar vilja þeir vera með líka. Í þessu skiptir Brján máli. Sá félagskapur á að sjá til þess að það séu að minnsta kosti tveir tónleikar í hverjum mánuði. Annar hver föstudagur með rokki! Það væri ekki amalegt og ég efast ekki um að það yrði jafnvel saga til næsta bæjar.

Svona var þetta fyrir aðeins nokkrum árum. Ég man meira að segja eftir plötukynningu hjá Sigga presti í Blúskjallaranum þangað sem mættu um fimmtíu manns!

Á plötukynningu hjá Sigga presti!

Á PLÖTUKYNNINGU hjá Sigga presti!!

Á plötukynningu hjá SIGGA PRESTI!!!

Fimmtíu manns!

Jamm...

Jón.

ES. Ánægður með kraftinn í blogginu hjá þér síðustu daga.

Anonymous said...

Þið áttuð hrósið meira en skilið. Þetta er flott band hjá ykkur.

Ég er hjartanlega sammála þér. Menn tengja tónleika ekki við tónlistarupplifun heldur fyllerí. Þetta birtist stundum í því að menn mæta á tónleika (á kristilegum tíma), en standa svo í hrókasamræðum- vel slompaðir- og hlusta ekkert á tónlistina. Ég sá t.d. nokkur góð dæmi um þetta á tónleikunum með Gunna Þórðar í gærkveldi.

Það voru, nota bene, mjög góðir tónleikar og vel sóttir. Ég hugsa að það hafi á milli 150 og 200 manns mætt. Frábært...og fyllti mig smá vonarglætu um að Norðfirðingum væri við bjargandi.

Hvað Brján varðar þá er ég líka alveg sammála. Það virðast hins vegar vera skiptar skoðanir um það um hvað starfsemi þess klúbbs eigi að snúast um og er það sko efni í sér blogg. Ég hvet reyndar alla til að mæta á aðalfund Brján mánudaginn 6. apríl. Það þarf tvímælalaust að blása í glæðurnar og ná einhverjum krafti í klúbbinn.

-S

Fjalar said...

Pharmacist....kúúúl.

Anonymous said...

Hehe...já Fjalar. Lyfjafræðingar rokka. En vissir þú að Móses var lyfjafræðingur? Hann fór upp á Sínaifjall og kom aftur niður með tvær töflur.

kv.
siggi