Skip to main content

Um Gunna Þórðar og hógværa snilld

Í gærkveldi fórum við hjónin á tónleika með Gunnari Þórðarsyni í Egilsbúð. Þetta var reyndar dinner og sjó, sem er alls ekki óviðeigandi þegar Gunni Þórðar er annarsvegar ("Flýttu þér nú elskan svo við missum ekki af Gunnari og sjóinu"........man einhver eftir þessari línu?)

Þetta var í stuttu máli sagt frábært kvöld. Maturinn var í toppklassa og myndi ég segja að máltíðin hafi jafnast fyllilega á við máltíð sem ég borðaði á Holtinu um daginn. Reyndar enginn Ásgrímur eða Kjarval á veggjunum, en maturinn og vínið var alveg á pari við Holtið....og teljast það tíðindi til næsta bæjar að hægt sé að fá svo frambærilegan mat í Neskaupstað á ný. Ég er reyndar búinn að fara 3 sinnum út að borða í Egilsbúð síðustu vikur og hef alltaf fengið mjög góðan mat. Mæli sérstaklega með núðlum með laxi og Tom Yum sósu. Yum, yum.

Mætingin í dinnerinn var þrælfín. A.m.k. 50 manns myndi ég segja, þótt reyndar hafi ég nú ekki talið hausa. Þegar nær dró tónleikunum dreif svo að múg og margmenni og ég hugsa að alls hafi í það minnsta 150 manns látið sjá sig. Gunni Þórðar virtist líka hálf hissa þegar hann steig á sviðið og sagðist reyndar vera hrærður yfir mætingunni því hann hafi átt von á 30 hræðum.

Ég var fyrir tónleikana spenntur að sjá hvernig meistarinn myndi nálgast þessi lög sín. Þetta eru jú mikil lög- oftast flott útsett- raddir, strengir og bestu söngvarar landsins- oft Pálmi Gunnarsson, Eiríkur Hauksson og þvílíkir. Ég var því ekki alveg að sjá fyrir mér að kallinn gæti flutt þessi lög einn og óstuddur og sá ég jafnvel fyrir mér að hann myndi nota skemmtara, tölvu eða teip í undirspil eins og 4 deildar performer við sundlaugarbakka á kvöldvöku á Mæjorka. Ekki svo.

Kallinn var bara með gítar að vopni og söng lögin einn og óstuddur. Og útkoman ber bæði vott um hve góð þessi lög eru og hvað Gunni er frábær talent. Hann söng lögin prýðilega og gítarspilið var auðvitað í heimsklassa. Hann flutti flest af sínum þekktustu lögum. Svalast þótti mér þegar hann tók hippasmellinn "Sail on, starlight" sem ég vissi reyndar ekki að væri eftir hann. Hann sagði svo nokkrar skemmtilegar rokksögur á milli laga og hefði reyndar mátt gera enn meira af því, svona fyrir minn smekk. Gunnar er tvímælalaust snillingur, en hann er líka frábærlega hógvær snillingur. Hann er feiminn og hæglátur maður og algerlega laus við alla stæla. Ég kíkti einu sinni í heimsókn til hans í Vesturbænum ásamt Ólafi Hauki Símonarsyni, en hann er giftur móðursystur minni. Óli hafði milligöngu um kaup mín á einum af gíturum Gunnars. Gítarinn var Fender Stratocaster '76 módel. Gítarinn keypti ég á 30 þúsund krónur og seldi hann fyrir sömu upphæð nokkrum árum síðar (AF ÞVÍ AÐ ÉG ER ÞROSKAHEFTUR). Gunnar var hinn ljúfasti heim að sækja- sýndi mér stúdíóið sitt og gítarasafnið og talaði ekki niður til mín þótt ég væri 16 ára snarfeiminn gutti.

Enívei...Tónleikarnir í gær minnkuðu svo sannarlega ekki álit mitt á Gunnari Þórðarsyni.

Ég var afskaplega ánægður með mætinguna á tónleikana og vona ég að hún sé vísir að því að Norðfirðingar og nærsveitarmenn láti sjá sig á menningarviðburðum og læri það að vel má kíkja á tónleika, fá sér eitt glas af rauðvíni (eða bara kaffibolla) og koma sér svo í háttinn á kristilegum tíma. Það þarf ekki alltaf að hrynja í það þótt maður kíki út á kvöldin.

Comments

Bobba said…
Alveg hjartanlega sammála þér Siggi. Þetta var frábært kvöld, góður matur og góð skemmtun.

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…