Saturday, March 21, 2009

Um lyftingar

Ég hef stundað lyftingar síðan ég var ca. 16 ára gamall. Ekki alveg stöðugt, en hef þó oft tekið tímabil þar sem ég lyfti mjög reglulega. Yfirleitt hef ég verið að lyfta a.m.k. 2-3 í viku þegar ég tek lyftingatarnir en nú er ég kominn á þá skoðun að það sé kappnóg að lyfta einu sinni í viku. Ég hef haft þann háttinn á síðustu misseri og það er einfaldlega að svínvirka. Ég mætti lengst af einu sinni í viku og lyfti í ca. 45 mínútur. Það dugði til að halda mér í fínu formi. Svo ákvað ég upp úr áramótum að herða róðurinn og fór að lyfta í ca. 90-120 mínútur, einu sinni í viku. Það hefur skilað mér bullandi framförum. Um daginn tók ég t.d. 135 kg. í bekkpressu, sem ég hef ekki gert í mörg ár. Í morgun lyfti ég 120 kg. 5 sinnum- sem ég hef aldrei gert áður. Yep...It works.

Líkamsræktariðnaðurinn vill auðvitað sannfæra mann um að það þurfi að lyfta a.m.k. 4 sinnum í viku til að eitthvað gerist- og helst moka í sig fæðubótaefnum líka. Þetta er hins vegar alls ekki rétt. Það er vel hægt að lyfta sjaldan og ná samt árangri. Þar af leiðandi er tímaskortur ekki lengur gild afsökun. Það hljóta allir að geta fundið sér 1-2 tíma einhverntíman í vikunni til að grípa í járn. Og ef það er rétt gert, þá lætur árangurinn ekki á sér standa. Lyftingar eru einfaldlega mjög öflug leið til að halda sér í formi. Þegar menn komast á minn virðulega aldur er mikilvægi þess að halda sér í formi augljóst. Valkosturinn er hrörnun (vöðvamassi rýrnar jafnt og þétt eftir ca. 27 ára aldur ef ekkert er að gert) og ég held að maður verð að vinna gegn henni eftir fremsta megni. Ég er nú orðinn sannfærður um að það geti ég gert með því að stunda lyftingar einu sinni í viku.

No comments: