Wednesday, June 17, 2009

Djass, djass, djass

Dagana 24-28 júní verður haldin djasshátíð á Austurlandi. Á hátíðinni verður margt skemmtilegt í boði og hvet ég alla tónlistaráhugamenn til að mæta. Djasshátíðin er orðinn fastur punktur í menningarlífi Austfirðinga og er eitthvað sem tónlistaráhugamenn mega ekki missa af. Á hátíðinni hafa oft komið fram stór nöfn, en oft eru þetta líka tónlistarmenn sem maður hefur ekkert heyrt um en koma manni svo frábærlega á óvart. Mér eru t.d. minnisstæðir tónleikar með Finn Siegler og Olivier Antunis (vona að ég stafi þetta rétt) í Valaskjálf ca. 1999. Ég hafði heyrt um Siegler, en aldrei þennan Olivier Antunis. Hann reyndist svo vera einn mesti virtúós píanisti sem ég hef séð og heyrt.

Áherslan á hátíðinni í ár er á innlenda tónlist- af skiljanlegum ástæðum. Bæði hafa undanfarnar hátíðir verið dýrar (t.d. spilaði Larry Carlton á hátíðinni í fyrra!), en auk þess eru erlend atriði orðin tvöfalt dýrari en þau voru fyrir ári síðan. Þó verða á hátíðinni erlendir performerar sem örugglega eru þrælflottir. Jón Hilmar hefur átt veg og vanda af hátíðinni síðustu árin og á hann heiður skilinn fyrir metnaðarfulla dagskrá hátíðarinnar.

Ég hef orðið var við það að ótrúlega margt fólk hefur fordóma gagnvart djassi. Raunar hafði ég þá sjálfur fram eftir aldri. Ég fór ekki að hlusta á djass fyrr en upp úr tvítugu, en komst ekki verulega á bragðið fyrr en ég var farinn að halla í þrítugt. Fyrsta djassplatan sem heillaði mig upp úr skónum var "Kind of Blue" með Miles Davis. Ég fékk hana algerlega á heilann og hún gekk á fóninum hjá mér mánuðum saman á meðan ég skrifaði mastersritgerðina mína. Svo hefur áhuginn smátt og smátt aukist og nú er svo komið að ca. 70% af því sem ég hlusta á heima við er djass: Miles Davis, Oscar Peterson, Ray Brown, Wes Montgomery, Niels Henning, Pat Methany, Jaques Loussier.....dásamlegt stöff.

Það sem heillar mig við djass er fjölmargt. Spilamennskan er auðvitað yfirleitt á mjög háu plani, mikið er um fjölbreytilegan spuna og samspil er oft og tíðum nánast yfirnáttúrulegt. Ég hvet alla tónlistarháhugamenn til að gefa djassinum séns því ef maður kemst á bragðið þá eru verðlaunin ríkuleg. Það opnast fyrir manni heill heimur af tónlist og ég er handviss um að góður djass er mannbætandi. Ég skal með glöðu geði mæla með djassi fyrir byrjendur ef einhver er forvitinn, en eins og áður sagði var það "Kind of Blue" sem kveikti minn djassáhuga og er sú plata mjög aðgengileg og ljúf.

Tuesday, June 09, 2009

Tapas við ysta haf

Við hjónin fórum með yngra afkvæmið á Kaffi Lúlú um helgina. Við ætluðum að fá okkur snarl og fyrir valinu varð tapasdiskur fyrir tvo á krónur 3800. Það fannst mér í dýrari kantinum þangað til maturinn kom á borðið. Grafið naut með lakkríssósu, reyktur lax úr mývatnssveit, tvíeikt hangiket, parmaskinka og chorizo, fiskisúpa, innbakaður camenbert með rabbarbarachutney og bláberjasultu og nýbakað brauð. Sem sagt: Full máltíð fyrir tvo. Við náðum ekki að klára þetta allt og erum við þó ágætlega matlystugt fólk. Ég drakk rauðvín með, Jóna drakk pepsi og litli maðurinn kókómjólk og kleinu. Reikningurinn var rétt rúmar 5000 kr. Þjónustan var frábær og alúðleg og staðurinn er auðvitað eins kósí og hugsast getur. Get ekki mælt nóg með því að menn skelli sér á Lúlú! Frábært að sjá metnaðarfullt fólk sem kann á veitingabransann bjóða upp á svona þjónustu við ysta haf. Húrra fyrir Hákoni og Kötu!

Friday, June 05, 2009

Rufuz

Fór á tónleika í Blúskjallaranum í gærkveldi með hinni stórskemmtilegu hljómsveit Rufuz. Hana skipa Orri Smára, Jón Hafliði, Robbi og Hlynur Ben. Ég hef lengi haft gaman af Rufuz, en þeir fagna nú 10 ára afmæli sveitarinnar. Strákarnir hafa verið að taka upp nýtt efni og fengu tónleikagestir að hlýða á herlegheitin. Mér heyrist þeir vera að þróast í skemmtilegar áttir og brá fyrir áhrifum úr ýmsum áttum. Sérlega þótt mér gaman að heyra prog og hetjumetaláhrifin í epísku lokalagi tónleikanna þar sem skiptust á Rushkennd riff og Iron Maidenískt gobbedígobb. Stórgott!

Hlynur hefur tekið stórstígum framförum sem gítarleikari, sem skilar sér í fjölbreyttari og flóknari riffum, sem er vel því Orri og Jón Hafliði hafa þéttleika og tæknilega getu til að spila fjandi avanserað stöff. Þeir félagar voru þrælþéttir og með svona rythmagrunn er eiginlega ekki hægt að klúðra þessu.

Mér finnst skemmtilegt að Norðfjörður skuli eiga svona góða rokksveit, en Norðfirðingar hafa stundum verið sakaðir um að vera fyrst og fremst góðir ábreiðuspilamenn. Í gegnum tíðina hafa samt sveitir eins og Súellen, Hálfur undir sæng, Rufuz og Coney Island Babies rekið af okkur það slyðruorð með miklum bravör. Ekki það að ég er algerlega ósammála því að kóverspilamennska sé eitthvað ómerkileg. Ef svo er, þá telst Sinfóníuhljómsveit Íslands væntanlega ómerkilegt band, eða hvað? Það getur nefnilega falist heilmikil sköpun í lífrænni túlkun á klassísku rokki.

En...enívei....Ég var ánægður með Rufuz. Mitt litla rokkhjarta gladdist. Mig langaði að rífa mig úr að ofan og öskra með þeim, en það var einhvernvegin ekki viðeigandi. Ég lét mér því nægja að kinka kolli í takt og glotta út í bæði.


kv.
Siggi

P.S. Er nú á kafi í bandi sem heitir Opeth. Þessir gaurar eru alger monster. Þeir eru nokkuð sér á parti, nema til séu margar sænskar death-progmetalsveitir. Meira um þá síðar.