Wednesday, June 17, 2009

Djass, djass, djass

Dagana 24-28 júní verður haldin djasshátíð á Austurlandi. Á hátíðinni verður margt skemmtilegt í boði og hvet ég alla tónlistaráhugamenn til að mæta. Djasshátíðin er orðinn fastur punktur í menningarlífi Austfirðinga og er eitthvað sem tónlistaráhugamenn mega ekki missa af. Á hátíðinni hafa oft komið fram stór nöfn, en oft eru þetta líka tónlistarmenn sem maður hefur ekkert heyrt um en koma manni svo frábærlega á óvart. Mér eru t.d. minnisstæðir tónleikar með Finn Siegler og Olivier Antunis (vona að ég stafi þetta rétt) í Valaskjálf ca. 1999. Ég hafði heyrt um Siegler, en aldrei þennan Olivier Antunis. Hann reyndist svo vera einn mesti virtúós píanisti sem ég hef séð og heyrt.

Áherslan á hátíðinni í ár er á innlenda tónlist- af skiljanlegum ástæðum. Bæði hafa undanfarnar hátíðir verið dýrar (t.d. spilaði Larry Carlton á hátíðinni í fyrra!), en auk þess eru erlend atriði orðin tvöfalt dýrari en þau voru fyrir ári síðan. Þó verða á hátíðinni erlendir performerar sem örugglega eru þrælflottir. Jón Hilmar hefur átt veg og vanda af hátíðinni síðustu árin og á hann heiður skilinn fyrir metnaðarfulla dagskrá hátíðarinnar.

Ég hef orðið var við það að ótrúlega margt fólk hefur fordóma gagnvart djassi. Raunar hafði ég þá sjálfur fram eftir aldri. Ég fór ekki að hlusta á djass fyrr en upp úr tvítugu, en komst ekki verulega á bragðið fyrr en ég var farinn að halla í þrítugt. Fyrsta djassplatan sem heillaði mig upp úr skónum var "Kind of Blue" með Miles Davis. Ég fékk hana algerlega á heilann og hún gekk á fóninum hjá mér mánuðum saman á meðan ég skrifaði mastersritgerðina mína. Svo hefur áhuginn smátt og smátt aukist og nú er svo komið að ca. 70% af því sem ég hlusta á heima við er djass: Miles Davis, Oscar Peterson, Ray Brown, Wes Montgomery, Niels Henning, Pat Methany, Jaques Loussier.....dásamlegt stöff.

Það sem heillar mig við djass er fjölmargt. Spilamennskan er auðvitað yfirleitt á mjög háu plani, mikið er um fjölbreytilegan spuna og samspil er oft og tíðum nánast yfirnáttúrulegt. Ég hvet alla tónlistarháhugamenn til að gefa djassinum séns því ef maður kemst á bragðið þá eru verðlaunin ríkuleg. Það opnast fyrir manni heill heimur af tónlist og ég er handviss um að góður djass er mannbætandi. Ég skal með glöðu geði mæla með djassi fyrir byrjendur ef einhver er forvitinn, en eins og áður sagði var það "Kind of Blue" sem kveikti minn djassáhuga og er sú plata mjög aðgengileg og ljúf.

1 comment:

Valdi said...

JEA var snild. Er enþá með Bóner yfir Trúnóbandi Tómasar R Einarssonar. V'a Klikkun