Friday, June 05, 2009

Rufuz

Fór á tónleika í Blúskjallaranum í gærkveldi með hinni stórskemmtilegu hljómsveit Rufuz. Hana skipa Orri Smára, Jón Hafliði, Robbi og Hlynur Ben. Ég hef lengi haft gaman af Rufuz, en þeir fagna nú 10 ára afmæli sveitarinnar. Strákarnir hafa verið að taka upp nýtt efni og fengu tónleikagestir að hlýða á herlegheitin. Mér heyrist þeir vera að þróast í skemmtilegar áttir og brá fyrir áhrifum úr ýmsum áttum. Sérlega þótt mér gaman að heyra prog og hetjumetaláhrifin í epísku lokalagi tónleikanna þar sem skiptust á Rushkennd riff og Iron Maidenískt gobbedígobb. Stórgott!

Hlynur hefur tekið stórstígum framförum sem gítarleikari, sem skilar sér í fjölbreyttari og flóknari riffum, sem er vel því Orri og Jón Hafliði hafa þéttleika og tæknilega getu til að spila fjandi avanserað stöff. Þeir félagar voru þrælþéttir og með svona rythmagrunn er eiginlega ekki hægt að klúðra þessu.

Mér finnst skemmtilegt að Norðfjörður skuli eiga svona góða rokksveit, en Norðfirðingar hafa stundum verið sakaðir um að vera fyrst og fremst góðir ábreiðuspilamenn. Í gegnum tíðina hafa samt sveitir eins og Súellen, Hálfur undir sæng, Rufuz og Coney Island Babies rekið af okkur það slyðruorð með miklum bravör. Ekki það að ég er algerlega ósammála því að kóverspilamennska sé eitthvað ómerkileg. Ef svo er, þá telst Sinfóníuhljómsveit Íslands væntanlega ómerkilegt band, eða hvað? Það getur nefnilega falist heilmikil sköpun í lífrænni túlkun á klassísku rokki.

En...enívei....Ég var ánægður með Rufuz. Mitt litla rokkhjarta gladdist. Mig langaði að rífa mig úr að ofan og öskra með þeim, en það var einhvernvegin ekki viðeigandi. Ég lét mér því nægja að kinka kolli í takt og glotta út í bæði.


kv.
Siggi

P.S. Er nú á kafi í bandi sem heitir Opeth. Þessir gaurar eru alger monster. Þeir eru nokkuð sér á parti, nema til séu margar sænskar death-progmetalsveitir. Meira um þá síðar.

No comments: