Tuesday, July 14, 2009

Eistnaflug

Ég fór á hina stórfenglegu Eistnaflugshátíð um síðustu helgi í fyrsta skipti. Skemmtilegasta tónlistarhátíð sem ég hef farið á. Ég hef aldrei farið á svo fjölmennt mannamót hér á landi sem var jafn algerlega laust við bögg og vesen. Það var eintóm ást í loftinu. Mjög sérstakt og áhugavert í ljósi þess hve tónlistin er ofuraggressíf og á köflum hreinlega djöfulleg. Einnig er stór hluti hátíðargesta afar skrautlegur svo ekki sé meira sagt. Reyndust svo upp til hópa vera bestu skinn undir svakalegu yfirborðinu. Þetta er þveröfugt við upplifun mína af ýmiskonar hátíðum og samkomum þar sem "venjulegt" fólk kemur saman. Það er ekki haldin sú harmonikkuhátíð að allt logi ekki í slagsmálum, nauðgunum og almennum leiðindum (sem gæti reyndar verið vegna þess að geðveila er forsenda þess að fíla harmonikkutónlist). Þungarokkarar virðast einfaldlega fá útrás fyrir aggressjón í tónlistinni- hvort sem þeir eru á sviði eða á dansgólfinu í "pyttinum".

Ég prófaði í fyrsta skipti á ævinni að fara í "pyttinn". Fyrir þá sem ekki hafa komið á alvöru metaltónleika þá er pytturinn (eða the mosh pit eins og þetta heitir á engilsaxnesku) þvaga af fólki, aðallega ungum strákum, sem hrinda og stjaka hverjir við öðrum þannig að úr verður kös af fólki. Þetta lítur svakalega út svona utanfrá séð, en er allt í mesta bróðerni og algerlega saklaust. Ef einhver flýgur á hausinn þá er hann umsvifalaust togaður á fætur og hugað að honum ef hann er eitthvað krambúleraður. Ég stökk ber að ofan og snaróður í pyttinn. Og er með marbletti til að sanna það. Hrikalega gaman.

Flottasta marblettinn fékk ég reyndar eftir að daman í miðasölunni beit mig á fyrsta degi hátíðarinnar. Ég stakk höndinni í gegnum lúguna til að fá armband, en skipti þá engum togum að ég var bitinn í framhandlegginn. Hún hélt því fram að ef ég týndi armbandinu þá gæti ég sýnt bitfarið. Það var sem sagt strax ljóst að maður var kominn á annarskonar hátíð en maður á að venjast.

Hvað tónlistina varðar, þá er ljóst að metalsenan á Íslandi er miklu sterkari en mann hafði grunað. Margar af þessum hljómsveitum okkar eru í mjög háum klassa á sínu sviði. Ég stóð t.d. alveg stjarfur á meðan Severed Crotch spilaði, enda tæknileg geta þeirrar hljómsveitar með miklum ólíkindum. Brain Police og Mínus fóru einnig á miklum kostum og sérstaklega kom Brain Police mér á óvart. Það var magnað að sjá trommarann taka sóló með logandi kjuðum. Æðislegt!

Sú grúppa sem ég var samt mest gáttaður á var Agent Fresco. Ég vissi ekki að við mörlendingar ættum svona hljómsveit. Það er mjög erfitt að negla þá niður á einhverja tónlistarstefnu, en mikið svakalega bragðaðist þessi grautur vel. Þeir höfða kannski sérstaklega til tónlistarnörda og hljóðfæraleikara sem hafa skilning á flóknum taktskiptingum, laglínum, geðveikum hljóðfæraleik og ýmiskonar skringilegheitum, en þó held ég að mjög margir ættu að heyra (og sjá) eitthvað við þetta band. Þeir eru gífurlega flinkir hljóðfæraleikarar og mjög óhræddir við að experimenta. Á köflum minntu þeir mig á kanadísku sveitina Unexpect. Ég mun tvímælalaust kaupa allt sem þessir drengir gefa út. Ég spái þeim miklum frama.

Eníhú...Ég mæti pottþétt á Eistnaflug á næsta ári og ég vil hvetja alla rokkáhugamenn til að láta sjá sig. Stebbi og Hrefna eiga mikinn heiður skilinn fyrir að standa fyrir þessari hátíð ár eftir ár. Ég legg til að þau verði tilnefnd til fálkaorðuveitingar fyrir vikið.

Rock on!