Skip to main content

Eistnaflug

Ég fór á hina stórfenglegu Eistnaflugshátíð um síðustu helgi í fyrsta skipti. Skemmtilegasta tónlistarhátíð sem ég hef farið á. Ég hef aldrei farið á svo fjölmennt mannamót hér á landi sem var jafn algerlega laust við bögg og vesen. Það var eintóm ást í loftinu. Mjög sérstakt og áhugavert í ljósi þess hve tónlistin er ofuraggressíf og á köflum hreinlega djöfulleg. Einnig er stór hluti hátíðargesta afar skrautlegur svo ekki sé meira sagt. Reyndust svo upp til hópa vera bestu skinn undir svakalegu yfirborðinu. Þetta er þveröfugt við upplifun mína af ýmiskonar hátíðum og samkomum þar sem "venjulegt" fólk kemur saman. Það er ekki haldin sú harmonikkuhátíð að allt logi ekki í slagsmálum, nauðgunum og almennum leiðindum (sem gæti reyndar verið vegna þess að geðveila er forsenda þess að fíla harmonikkutónlist). Þungarokkarar virðast einfaldlega fá útrás fyrir aggressjón í tónlistinni- hvort sem þeir eru á sviði eða á dansgólfinu í "pyttinum".

Ég prófaði í fyrsta skipti á ævinni að fara í "pyttinn". Fyrir þá sem ekki hafa komið á alvöru metaltónleika þá er pytturinn (eða the mosh pit eins og þetta heitir á engilsaxnesku) þvaga af fólki, aðallega ungum strákum, sem hrinda og stjaka hverjir við öðrum þannig að úr verður kös af fólki. Þetta lítur svakalega út svona utanfrá séð, en er allt í mesta bróðerni og algerlega saklaust. Ef einhver flýgur á hausinn þá er hann umsvifalaust togaður á fætur og hugað að honum ef hann er eitthvað krambúleraður. Ég stökk ber að ofan og snaróður í pyttinn. Og er með marbletti til að sanna það. Hrikalega gaman.

Flottasta marblettinn fékk ég reyndar eftir að daman í miðasölunni beit mig á fyrsta degi hátíðarinnar. Ég stakk höndinni í gegnum lúguna til að fá armband, en skipti þá engum togum að ég var bitinn í framhandlegginn. Hún hélt því fram að ef ég týndi armbandinu þá gæti ég sýnt bitfarið. Það var sem sagt strax ljóst að maður var kominn á annarskonar hátíð en maður á að venjast.

Hvað tónlistina varðar, þá er ljóst að metalsenan á Íslandi er miklu sterkari en mann hafði grunað. Margar af þessum hljómsveitum okkar eru í mjög háum klassa á sínu sviði. Ég stóð t.d. alveg stjarfur á meðan Severed Crotch spilaði, enda tæknileg geta þeirrar hljómsveitar með miklum ólíkindum. Brain Police og Mínus fóru einnig á miklum kostum og sérstaklega kom Brain Police mér á óvart. Það var magnað að sjá trommarann taka sóló með logandi kjuðum. Æðislegt!

Sú grúppa sem ég var samt mest gáttaður á var Agent Fresco. Ég vissi ekki að við mörlendingar ættum svona hljómsveit. Það er mjög erfitt að negla þá niður á einhverja tónlistarstefnu, en mikið svakalega bragðaðist þessi grautur vel. Þeir höfða kannski sérstaklega til tónlistarnörda og hljóðfæraleikara sem hafa skilning á flóknum taktskiptingum, laglínum, geðveikum hljóðfæraleik og ýmiskonar skringilegheitum, en þó held ég að mjög margir ættu að heyra (og sjá) eitthvað við þetta band. Þeir eru gífurlega flinkir hljóðfæraleikarar og mjög óhræddir við að experimenta. Á köflum minntu þeir mig á kanadísku sveitina Unexpect. Ég mun tvímælalaust kaupa allt sem þessir drengir gefa út. Ég spái þeim miklum frama.

Eníhú...Ég mæti pottþétt á Eistnaflug á næsta ári og ég vil hvetja alla rokkáhugamenn til að láta sjá sig. Stebbi og Hrefna eiga mikinn heiður skilinn fyrir að standa fyrir þessari hátíð ár eftir ár. Ég legg til að þau verði tilnefnd til fálkaorðuveitingar fyrir vikið.

Rock on!

Comments

sunnajúlía said…
haha beit miðasöludaman þig :') ?
Fjalar said…
Djöfull hljómar þetta vel allt saman.
Siggi Óla said…
Gaur! Þú mætir á næsta ári!

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…