Tuesday, August 18, 2009

Random stuff

Jæja. Sumarfríið búið. Það var sérlega ljúft. Ég var í fríi í mánuð. Við vorum heima í viku, svo fórum við Jóna til Barcelona í viku á meðan krakkarnir chilluðu hjá mömmu á Akureyri. Mamma keyrði svo með krakkana á móti okkur í Munaðarnes þar sem við eyddum viku í sumarbústað. Síðustu vikuna vorum við heima í afslappelsi.

Þetta er eitt besta frí sem ég man eftir. Hápunkturinn var dvölin í Barcelona sem er frábær borg í alla staði. Ótrúlegur arkítektúr, iðandi mannlíf, frábær matur, góð söfn, gott veður og góð vín. Við ákváðum að fara til Barcelona til að fagna 10 ára brúðkaupsafmæli. Sjitt hvað tíminn líður!

Við vorum nokkuð aktíf í Barcelona en samt ekkert að stressa okkur of mikið. Við vorum t.d. tvo daga á ströndinni þar sem við flatmöguðum bara og slöppuðum af. Öðrum stranddeginum eyddum við í Sitges sem er fallegur gamall strandbær. Þar sjást engin ný og ljót risahótel við ströndina, andrúmsloftið er afslappað og ströndin flott. Seinni stranddeginum eyddum við í Barcelona. Við tókum strætó og fórum eins langt frá miðborginni og hann gekk. Svo örkuðum við niður á ströndina og gengum þar beint í flasið á alsnöktum manni sem var á leið í sturtu. Þessi hluti strandarinnar reyndist sem sagt vera nektarströnd. Þar sem gestirnir virtust fyrst og fremst vera karlkyns eldriborgarar tókum við snarlega ákvörðun um að finna annan stað til að sóla okkur á. Önnur highlight úr Barcelona ferðinni voru m.a. þessi:

-Gítartónleikar í tónleikahöllinni Palau Musica. Fallegasti salur sem ég hef komið í og gítarleikur á heimsmælikvarða.
-Heimsókn á 4 ketti. Þar hélt Picasso sína fyrstu sýningu og hékk við bjórdrykkju og tapasát flesta daga ásamt ýmsum þungaviktarmönnum í menningu Spánar á þeim tíma
-Heimsókn í Parc Guell. Hinn snarklikkaði arkítekt Gaudi hannaði garðinn sem er afskaplega fallegur og sérstakur
-Mögnuð máltíð á inverskum veitingastað í hinu nett skuggalega El Raval hverfi
-Geggjaðir djasstónleikar á hinum fornfræga djassstað "Jamboree" með klikkuðum saxófónleikara- George Garzone ( http://en.wikipedia.org/wiki/George_Garzone). Gaurinn er kennari við Berkley og hefur spilað með ÖLLUM- meira að segja Elvis- og reyndar einu af mínu uppáhaldsböndum- Exreme. Grúppan sem hann var með heitir (með réttu) "The Fringe"- Sax, bassi og trommur. Samspilið var með hreinum ólíkindum, tónlistin frekar "far out" og George blés í saxið eins og enginn væri morgundagurinn. Á þessum skemmtilega klúbbi varð ég fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að borga 10 evrur fyrir lítinn San Miguel og litla kók. Ca. 1800 kall. Helvítis fokking fokk.
-Dásamleg sælkeramáltið á þessum veitingastað: http://www.cincsentits.com/en/index.htm . Þessi staður er fyrsti Michelin stjörnu veitingastaðurinn sem við prófum og það var vel þess virði. Krítarkortið logaði reyndar, en mikið svaaakalega var þetta gott. Við fengum ca. 8 rétti sem voru hver öðrum betri. Ég fékk mér sérvalin vín með sem var mjög skemmtilegt því ég fékk ítarlega kynningu á hverju víni og skýringar á því af hverju það varð fyrir valinu. Þetta er staður í heimsklassa, sem reyndar þarf ekki að koma á óvart þar sem óvíða eru fleiri topp veitingastaðir en í Barcelona. Í ca. 1-2 tíma fjarlægð frá Barcelona er t.d. veitingastaðurinn El Bulli sem hefur verið valinn besti veitingastaður í heimi síðustu árin. Það tekur ca. 2 ár að fá borð þar....ef maður er heppinn.

Helstu gallarnir við að heimsækja Barcelona á þessum tíma árs eru þeir að hitinn er frekar hár (um og yfir 30 gráður flesta dagana) og borgin er hrikalega troðin af fólki. Annað óskemmtilegt atriði var agalegur hálsrígur sem ég náði mér í, sennilega af því að sofa á lélegum hótelkodda. Djöfuls aumingi er maður orðinn af því að sofa á einhverri fjandans geimdýnu og heilsukodda! Sveiattan. Verðlagið er svo auðvitað kapituli útaf fyrir sig, en ég nenni ekki að fara út í þá þunglyndissálma. Borgin er annars afar rómantísk og ég get hreinlega ekki hugsað mér betri borg að heimsækja. Það er bókað að við Jóna förum einhverntíman aftur til Barcelona. Kannski eftir 10 ár bara?

Ég las heilmikið í fríinu, en ekkert af því neitt sérlega bitastætt. Ég las aðallega einhverja reifara, Ken Follett, Stephen King o.fl. King er reyndar snillingur. Ég var næstum búinn að gleyma hvað hann er góður. Ég stefni á að endurlesa eitthvað af því sem ég á af bókunum hans- bæði vegna þess að ég er meira og minna búinn að gleyma þessu öllu, en ekki síður vegna þess að það er fjandi dýrt að kaupa bækur. Ég er núna að lesa nýtt smásagnasafn eftir kappann sem er stórgott. Hann er mikill smásögumeistari og ég er ekki frá því að maður ætti að lesa meira af smásögum. Skemmtilegt sagnaform.

Hvað tónlist varðar er ég enn á kafi í Opeth, en er að auki farinn að melta Unexpect og Bigelf til að undirbúa tónleikana í London í október. Can't wait!