Skip to main content

Tónleikaferðin mikla

Um síðustu helgi fórum við Jóna á frábæra tónleika í London ásamt Bjarna bróður. Frábær ferð í alla staði. Við fórum út á föstudagsmorgni og heim á sunnudagsmorgni, þannig að ferðin var í styttra lagi. Samt ótrúlegt hvað má gera margt á tveimur dögum í þessari frábæru borg. Hér eru nokkrir hápunktar:

Chowki
Við stukkum beint í hádegismat á þessum frábæra indverska stað á Denman Street í Soho. Ég hef borðað þarna nokkrum sinnum áður og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Mæli eindregið með þessum stað. Ekta indverskur matur á hagstæðu verði. Þjónustan lipur og skemmtileg.

Denmark street
Heimsókn á Denmark Street er nauðsynleg fyrir alla áhugamenn um hljóðfæri. Við Bjarni bróðir eyddum rúmlega 2 klukkutímum í það að rölta milli hljóðfæraverslana, skoða og prófa gítara og bassa. Endalaust úrval. Sáum m.a. 1952 módel af Telecaster. Verðin eru samt í hærri kantinum og ljóst að maður hefði ekki sparað neitt á því að versla þarna. Samt gaman að skoða svona klikkað úrval.

Foyles
Geggjuð bókabúð á Charing Cross Road. Þeir áttu m.a. allt sem Paul Auster hefur gefið út. Ég bætti þremur skræðum í safnið og Bjarni bró keypti klassískar Stephen King bækur. Mæli eindregið með þessari búð fyrir bókaorma. Og ef menn eru bæði gítar- og bókaormar þá er þessi verslun eiginlega beint á móti Denmark Street. Convenient.

Comedy Store
Við kíktum í þennan skemmtilega grínklúbb og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Daginn eftir var mér illt í andlitinu. Það voru 5 grínarar á dagskránni. Þeir fyndnustu voru kynnirinn, sem er einn snjallasti stand-up gaur sem ég hef séð. Hann stökk inn á sviðið og byrjaði svo umsvifalaust að gera grín að áhorfendum með einstaklega skapandi og snjöllum hætti. Síðasti grínarinn á dagskránni sló svo allt út. Sá var kanadískur að uppruna og er hugsanlega einn fyndnasti maður á jörðinni. Hrikalega random húmor- grófur með afbrigðum. Tárin láku niður kinnarnar á mér.

Tónleikarnir- Dream Theater o.fl.
Tónleikarnir voru auðvitað megintilgangur fararinnar. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Við byrjuðum reyndar á smá klúðri. Tímanum á tónleikunum hafði verið breytt, þannig að við mættum of seint og misstum af Unexpect- sem var drullufúlt. En það var bara ekki séns að vera í einhverri fýlu á þessum tónleikum.

Fyrstir stigu á svið töffararnir í Bigelf. Ég er ekki frá því að þeir séu í heimsókn frá árinu 1974. Frontarinn er gaur sem heitir Damon Fox og hann er hrikalega svalur. Hann var með hljómborð sitthvoru megin við sig- fremst á sviðinu. Tónlistin er einhverskonar psychadelic-doom-stoner rokk. Mikil áhrif eru greinileg frá Sabbath og Purple, en einnig frá glamrokkinu. Skemmtileg blanda sem svínvirkar. Bigelf spilaði í rúmlega hálftíma og þeir voru skuggalega þéttir. Hápunkturinn var lagið Black ball, en þá steig Mike Portnoy á svið með þeim og tók í settið. Ég mæli eindregið með því að allir rokkáhugamenn kynni sér þessa sveit. Hún veldur ekki vonbrigðum.

Næstir komu snillingarnir í Opeth. Fyrir þá sem ekki þekkja Opeth þá er það band sem telst sennilega leika progressive death metal. Magnaður kokteill af fegurð og hryllingi og ótrúleg spilamennska. Þeir léku lög frá öllum ferlinum, en aðeins tvö lög af nýju plötunni. Hápunktarnir voru lögin „Deliverance“ (þéttleikinn í lokin á því lagi var með slíkum ólíkindum að ég hef varla heyrt annað eins) og „Hex Omega“. Ultimate súper dúper hápunkturinn var hins vegar lagið „Lotus Eater“. Spilamennskan var óaðfinnanleg. Akefield var ótrúlega laid back og það er hreint magnað hvernig maðurinn getur hljómað eins og engill og drýsildjöfull á víxl. Ég get ekki mælt nóg með Opeth fyrir alla rokkhunda. Þeir þurfa smá tíma í meltingu, en þetta er svooo gott stöff. Ég mun a.m.k. fylgjast grannt með þeim hér eftir.

Dream Theater voru svo auðvitað aðalnúmerið. Og þeir stóðu sko undir væntingum. Öllu heldur fóru þeir óralangt fram úr mínum villtustu trylltustu væntingum. Þeir voru endalaust þéttir, svalir, skemmtilegir og drullu HEVÍ. Spilamennskan er fullkomlega ómannleg, sama hvar niður er borið. LaBrie er svakalegur hetjutenór og með miklu meiri sviðsnærveru en ég átti von á. Þeir tóku lög af öllum ferlinum, en ekki nema þrjú lög af nýju plötunni. Uppklappslagið var hið þrælmagnaða „The Count of Tuscany“ af nýju plötunni. Ekki amalegt að fá upplappslag sem er 20 mínútur! Skemmtilegt móment á tónleikunum var magnað trommusóló. Portnoy stoppaði í miðju kafi og sagði eitthvað á þessa leið: „this kit is too fucking big for just one guy“. Svo kallaði hann til liðs við sig trommara Unexpect, Bigelf og Opeth, einn í einu og tók „einvígi“ við þá alla. Það var magnað þegar hann trommaðist á við Axenroth úr Opeth, en sá drengur er alger galdramaður. Í lokin voru þeir svo allir fjórir við settið. Brilljant!

Heilt yfir eru þetta bestu tónleikar sem ég hef farið á (og er þá mikið sagt) Ef Dream Theater fer fleiri svona „Progressive nation“ túra þá ætla ég sko ekki að láta mig vanta. Jóna mín stóð sig eins og hetja á tónleikunum. Ég held að hún hafi verið ein af 7 konum á tónleikunum. Þvílík nördahjörð! Progg og metalnördar dauðans! Þær fáu konur sem maður sá gutu augunum á fylgdarsveina sína og hugsuðu greinilega: "what a freak!" Ekki er ólíklegt að þarna hafi í einhverjum tilvikum verið um lokastefnumót að ræða. En mín stóð sig eins og hetja og fílaði þetta bara ágætlega. Mikið er maður nú vel giftur.

Stieg Larson
Á leiðinni út til London byrjaði ég á síðustu bókinni í Millennium þríleiknum. Ég kláraði hana svo núna í vikunni. Þetta er hrikalegur múrsteinn, en hún rennur afar ljúflega í gegn. Djöfulsins skandall að mannhelvítið skyldi hrökkva upp af svona langt fyrir aldur fram. Þetta er algerlega ávanabindandi stöff. Ég sá mynd nr. 2 í bíó áður en við fórum út og stóð hún ágætlega undir væntingum. Það er samt ljóst að hver bók er efni í a.m.k. 10 þátta seríu. Ég vona bara að einhver fari út í slíka þáttagerð- og reyndar þykir mér það mjög líklegt. Það eru svo margar hliðarsögur og atriði sem sleppt er í myndinni að það hlýtur einhver að sjá sér hag í að gera meira úr þessu heldur en mönnum hefur tekist með þessum myndum.

Eníhú. Bottom læn: Stórskemmtileg og ógleymanleg ferð

Comments

Sóley said…
úff, já að Jóna hafi haldið þetta út, hehe :)
En annars hlakka ég mikið til að lesa síðustu bókina í trílógíunni hans Stigs, held ég muni gera það á sænsku. En fyrst þarf ég að klára næstnýjustu bókina eftir Camillu (sjöjungfrun), gengur frekar hægt eftir að maður fékk námsbækur til að lesa líka :/
Siggi Óla said…
Já, Camilla er skemmtileg. Það er nauðsynlegt að lesa skáldsögur samhliða námsbókum. Gott fyrir geðheilsuna!

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…