Friday, November 06, 2009

Tónleikar

Ég hef farið á nokkuð marga tónleika um ævina. Það er fátt sem jafnast á við þá ánægju sem maður fær af góðum tónleikum. Stundum er um að ræða bönd sem maður er búinn að pæla í heillengi og maður veit nokkurn vegin á hverju maður á von, en stundum rennir maður alveg blint í sjóinn og upplifir svo eitthvað alveg nýtt og ferskt. Ég ætla hér að rifja upp slatta af eftirminnilegum tónleikum sem ég hef fari á í gegnum tíðina og byrja á tónleikum með erlendum rokkhljómsveitum:

1. Whitesnake/Steve Vai:

Whitesnake kom upp á frón og spilaði í Reiðhöllinni í Víðidal. Þetta var ca. 1990. Ég var nýlega búinn að kynnast gítargoðinu Steve Vai sem var þá nýlega búinn að gefa út plötuna "Passion and Warfare" sem er sennilega ein mest selda gítarrúnkplata allra tíma. Whitesnake var hins vegar að fylgja eftir hinni stórgóðu plötu "Slip of the tounge". Ég var búinn að hlusta gat á báðar plöturnar og var því vel undirbúinn. Ég fór á tónleikana með Dadda, Pabba og Smára Geirs. Við keyrðum suður á litlum og nettum Daihatsu og gistum svo á gistiheimili UMFÍ við Öldugötu á meðan á Reykjavíkurdvölinni stóð (ekkert verið að missa sig í lúxus sko..). Whitesnake hélt tónleika bæði á föstudags- og laugardagskvöldi og áttum við miða á seinni tónleikana. Það fór ekki betur en svo að David Coverdale veiktist eftir fyrri tónleikana og var óvígur á laugardeginum. Choirboys (sem hituðu upp) spiluðu því vel og lengi og stóðu sig prýðilega. Ég fílaði þá samt ekkert sérstaklega vel, enda þekkti ég þá ekki neitt. Whitesnake steig svo á svið við mikinn fögnuð, þrátt fyrir fjarveru söngvarans. Söngnum skiptu með sér hljómborðsleikarinn (sem ég man ekki hvað heitir) og Pétur Kristjánsson. Mjög spaugilegt, en gerði sig alveg þokkalega. Hljómborðsleikarinn var massasöngvari og Pétur Kristjánsson var auðvitað Pétur Kristjánsson. Senuþjófur kvöldsins var samt hinn spólgraði, snaróði gítarsnillingur sem Steve Vai heitir. Hann gersamlega steikti gítarinn og lék nokkur lög af Passion and Warfare, þar á meðal "For the love of God" sem er eitt besta gítarlag allra tíma. Ég var alveg upp við sviðið og gleymi þessari kvöldstund aldrei.


2. Iron Maiden (ca. 1992)

Ég minnist þess ekki að hafa séð neina erlenda hljómsveit á milli Whitesnake og Maiden. Á þessum árum voru komur frægra hljómsveita mikið rarítet. Ég hafði lítið hlustað á Maiden fyrr en ég keypti miða á tónleikana. Fjalar setti saman fyrir mig spólu með helstu slögurunum og svo keypti ég mér "Fear of the Dark", sem var platan sem þeir voru að fylgja eftir. Ég hlustaði á þetta út í eitt í margar vikur. Á þeim tíma vann ég í skemmunni sálugu og gat því hlustað á tónlist allan daginn á meðan ég vann. Ég fílað Maiden í botn og hlakkaði mikið til tónleikanna. Á tónleikunum var ég með Fjalari og Kela. Báðir voru þeir aðdáendur Maiden frá blautu barnsbeini. Tónleikarnir voru geðveikir. Við vorum framarlega, en sigum aðeins aftar í minni troðning og betra sánd þegar á leið. Dickinson var í hörkuformi og reyndar bandið allt. Upphitunarhljómsveit var hin stórgóða Exist. Við þekktum bassaleikarann, Jonna Bassa og hann reddaði okkur inn í eftirpartíið sem var haldið á rokkbúllu sem hét Grjótið og var við Tryggvagötu. Þar var Jonni að spila ásamt hljómsveitinni Stálfélaginu, sem var frábært kóverband. Eini munurinn á Exist og Stálfélaginu var söngvarinn. Gulli Falck á gítar, Siggi Reynis á trommur og svo man ég nú ekki hvað Stálfélagssöngvarinn hét, en Eiður Plant var söngvari í Exist. Drengirnir rokkuðu spikfeitt og tóku helstu slagara rokkbókmenntanna. Það sem gerði partíð ógleymanlegt var nærvera Iron Maiden manna. Ég tók í spaðann á þeim flestum, m.a. í járnkrumluna á Steve Harris. Ég spjallaði eitthvað við þá flesta (sagði a.m.k. eitthvað á borð við: "You're awesome dude! You guys rocked tonight!", eða eitthvað álíka lame). Mest spjallaði ég við Steve Harris og Janick Gears. Afskaplega alþýðlegir gaurar. Þeir voru bara að fíla tónlistina og drekka bjór eins og allir hinir. Engir stælar. Álit mitt á Iron Maiden minnkaði ekki við þessi kynni.


3. Joe Satriani (1994)

Ég fór og sá Satriani á stórum klúbbi í Providence, Road Island. Klúbburinn hefur kannski verði ívið stærri en Egilsbúð, en ekki mikið. Ég stóð í tröppum við endann á dansgólfinu og sá því og heyrði fullkomlega. Stu Hamm flengdi bassann og Jonathan Mover lék á trommur. Þvílíkir galdramenn! Satriani hefur nánast yfirnáttúrulegt vald á gítarnum og var í miklu stuði. Ég gleymi þessu seint. Og það eru fleiri sem gleyma þessu seint. Frænka mín og maðurinn hennar fóru með mig á tónleikana, fólk á tæplega miðjum aldri sem fílar Rod Stuart og Carly Simon. Þau fíluðu ekki Joe Satriani. Maður frænku minnar var litinn hornauga og spurður hvort hann væri í fíkniefnalögreglunni ("Duuude! Are you a narc?"). Hann minnist þessa kvölds enn með hryllingi. Upphitunarsveit fyrir Satriani var band sem hét Taiwan On. Ég kynntist þeim gaurum svo aðeins þar sem þeir voru húsband á búllunni þar sem ég hékk um helgar (sem var eina búllan sem ég komst inn á, 19 ára gamall). Sú búlla brann svo til kaldra kola eina nóttina og þar með var skemmtanalíf mitt í USA ónýtt! En það er önnur saga...
4. Rush (1994)
Það var algerlega ógleymanlegt að sjá goðin í Rush í fyrsta sinn. Ég var búinn að vera fan í 2-3 ár, en byrjaði samt fyrst að elska þá þegar þeir gáfu út Counterparts. Það var því ekki nokkur séns að ég myndi sleppa því að tékka á Rush þegar þeir áttu leið um Massachusettes fylki á vorið 1994. Þeir spiluðu í bæ sem heitir Wostchester, í ca. klukkutíma fjarlægð frá Rainham þar sem ég bjó hjá frænku minni ástkærri. Ég fór á tónleikana með tveimur stelpum sem ég vann með og vini þeirra. Frænka borgaði miðana. Og limmósínu! Alger snilld. Tónleikarnir voru algerlega ógleymanlegir. Ég söng með og lufttrommaði eins og sannur Rush-nörd. Looovely. Ég fór svo á aðra tónleika með þeim í Providence skömmu síðar. Var þá enn framar (í ca. 18. röð), drakk miklu meira og skemmti mér ENN betur!
5. Pearl Jam (1994)
Við fórum á Pearl Jam í Boston Garden (heimavöllur Boston Celtics). Fósturmamma frænku minnar bauð mér og nokkrum öðrum krökkum á tónleikana. Ég man að miðinn kostaði 12.000 kall, sem mér þótti hrikalegt. Mudhoney hitaði upp, en af einhverjum ástæðum nenntum við ekki að horfa á þá, heldur chilluðum úti á bílastæði og drukkum bjór þar til perlusultan kom á svið. Þeir rokkuðu alveg spikfeitt! Vedder-inn drakk ennþá á þessum tíma og var orðinn alveg svartur þegar dró að lokum. Fólk var að rétta honum flöskur upp á svið og hann hellti í sig gengdarlaust. Hann tók svo flottasta exit tónlistarsögunnar. Hann byrjaði að berja míkrófónstandinum í sviðið og hætti ekki fyrr en hann var búinn að brjóta gat á svðið. Svo stökk hann í gegnum gatið og hvart af sviðinu! Þetta þótti mér endalaust svalt!
To be continued.......

3 comments:

Anonymous said...

Á ekki að klára dæmið?? Skemmtileg lesning. Kv Þorlákur

Siggi Óla said...

Vó! Las þetta einhver? Þá verð ég að skrifa meira :-)

Anonymous said...

RObbi: Þetta er þrælskemmtileg lesning, meira takk :)