Saturday, September 25, 2010

Föstudagar

Hjá mér eru allir dagar föstudagar. Let me explain:

Ég virðist vera þeirri náttúru gæddur að ef ég myndi borða allt sem mig langar í, þá myndi ég á tiltölulega skömmum tíma fara að líkjast Goodyear loftbelgnum. Þetta kallar á einhverskonar aðhald til að halda spikinu í skefjum.

Í því skyni hef ég gert margar tilraunir. Stundum hef ég passað hrikalega vel hvað ég læt ofan í mig og þá fyrst og fremst forðast óþverra eins og kornmeti, sykur og önnur slæm kolvetni. Þetta hefur oftast skilað fínum árangri, en er svolítið erfitt fyrir sálina. Margt að því sem er óhollt er jú hluti af okkar kúltúr og endalaust á borðstólnum. Það kemur því yfirleitt að því að maður springur á limminu og þá læðast kílóin að manni.

Ég hef því verið að prófa nýja aðferð síðustu vikurnar. Hún gengur út á að minnka þann tíma sem maður borðar, fækka þannig kaloríunum sem maður lætur ofan í sig og gefa líkamanum tækifæri til að vinna úr því sem maður lætur ofan í sig.

Aðferðin er í stuttu máli þannig að ég borða ekkert á milli 20:00 á kvöldin og fram að hádegi daginn eftir. Ég fasta því í 15-16 tíma á sólarhring. Þannig eru allir dagar föstudagar hjá mér.

Í stuttu máli sagt virðist þetta vika skrambi vel. Ég hef alls ekki verið fanatískur á það hvað ég borða, heldur bara hvenær. Síðustu tvær vikur hef ég t.d. borðað fullt af alls kyns óþverra án þess að bæta á mig grammi. Aðferðin hefur líka þann kost að hún er einföld og þjáningarlaus. Maður er mjög fljótur að venjast því að borða bara á tímanum 12:00-20:00. Maður losnar við það að spá í að borða á morgnana og það virðist vera alger mýta að það sé lífsnauðsynlegt að gúffa einhverju í sig um leið og maður vaknar.

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á föstum af þessu tagi benda til þess að þær séu þrælheilsusamlegar. Ég ætla því að halda þessu áfram og sjá hvað gerist. Stefni reyndar á að éta heldur hollari mat en ég hef gert upp á síðkastið og hreyfa mig meira. Það verður gaman að sjá hverju það skilar.

Þessi aðferð er mjög á skjön við það sem meginstraums næringar- og íþrótta"fræði" predika, en skv. postulum þeirra trúarbragða þá virðist vera vonlaust að ná árangri nema að vera síétandi og síspriklandi. Ég tel mig vera búinn að sannreyna (a.m.k. fyrir sjálfan mig) að það er algert kjaftaæði.

Wednesday, July 07, 2010

Fótbolti- Óheiðarlegasta íþrótt í heimi?

Ég er búinn að horfa talsvert á HM. Hef haft ansi gaman af því, þótt mér leiðist fótbolti svona almennt séð. Ég fylgist ekki með ensku, eða neinni annarri deild. Ég hef reyndar svipað viðhorf til íþrótta og til kynlífs: Mér finnst skemmtilegra að stunda þær en að horfa á einhverja aðra spreyta sig.

HM er hins vegar "a whole different ball game". Þarna kljást þjóðir og heimsálfur og dramatíkin er mikil. Á köflum sér maður hæfileika á dásamlegu plani og þótt ég haldi ekki sérstaklega með neinni þjóð þá er þetta oft unun á að líta. Ég er samt ekki frá því að ég sé farinn að halda með Þjóðverjum, enda eru þeir með einstaklega skemmtilegt og ungt lið. Bunderslígan er ekki sú ríkasta í heimi, þannig að þeir hafa lagt mikið upp úr því að ala upp góða leikmenn og að uppskera árangur erfiðisins núna. Ég vona að þeir vinni keppnina.

Við það að horfa á þessa leiki hefur það samt farið sífellt meira í taugarnar á mér hvað óheiðarleiki og óíþróttamannsleg framkoma er ríkur hluti af þessari íþrótt. Dæmi:

 • Ef það er svo mikið sem andað á leikmenn þá kasta þeir sér í jörðina eins og þeir hafi stigið á jarðsprengju. Þetta er kallað að "fiska". Þetta er ömurleg hegðun. Ég man ekki eftir því úr nokkurri annarri íþrótt að það sé svona ríkur hluti af leiknum að reyna að blekkja dómara með þessum hætti.
 • Í hvert einasta skipti sem boltinn fer út af vellinum, þá halda báðir leikmenn því fram að þeir eigi boltann. Annar þeirra er alltaf að ljúga. Þeir vita nákvæmlega hver á boltann. Hvað er málið?!!
 • Leikmaður sem brýtur á öðrum leikmanni þrætir nánast undantekningalaust fyrir því að hafa gert það. Verður jafnvel oft alveg brjálaður út í dómarann ef dæmd er aukaspyrna eða spjald. Leikmaðurinn vissi alveg hvað hann gerði. Áhorfendur vita alveg hvað hann gerði (enda myndavélar að taka upp frá ótal sjónarhornum). Samt er tuðað, oft af mikilli vandlætingu.
 • Það er viðurkennd hegðun að bjálast út í dómarann. Menn æða mjög ógnandi að honum og öskra eins og vitlausir menn. Af hverju er þetta leyft? Af hverju eru menn ekki reknir umsvifalaust af velli fyrir svona nokkuð?

Mér finnst sorglegt að ofangreint skuli vera viðurkenndur hluti af leiknum. Hverskonar siðferðisboðskapur er þetta? Er þetta eitthvað sem við viljum hafa í heiðri og kenna börnunum okkar?

Eh...nei takk!

Mér finnst að fótboltinn þurfi að gera gangskör í að laga þetta og það væri ágætt að byrja á að laga þetta á HM. Og þetta er einfalt. Það á bara að fara yfir leikinn eftirá og spjalda öll þessu brot. Ef menn "fiska" víti= Rautt spjald. Ef menn sparka í einhvern viljandi og þykjast svo vera saklausir sem nýfædd lömb=Rautt spjald. O.s.frv.

Ég held að þetta sé eina leiðin til að breyta þessu. Það virðist a.m.k. ólíklegt að leikmenn taki það upp hjá sjálfum sér að haga sér eins og alvöru íþróttamenn.

Friday, June 18, 2010

Að vera í sambandi

Í nútímanum eru allir "tengdir". Það er kúl að vera tengdur. Símafyrirtækin markaðssetja 3G síma af miklum krafti og því er sífellt haldið að fólki að allir eigi að vera tengdir- helst alltaf. Lífið hjá þeim sem eru tengdir er skemmtilegra. Þeir eiga mörg þúsund vini! Það er klikkað fjör hjá þeim!

Það er orðið algengt að vinnuveitendur geri þá kröfu, beint eða óbeint, að starfsmenn séu alltaf tiltækir. Það er gert ráð fyrir að menn lesi póstinn sinn jafnóðum og hann berst. Það gerir vinnuveitandanum auðvelt fyrir að starfsmanninum finnst þetta bara fjandi kúl. Það er svalt að vera tengdur og að vera hrikalega upptekinn. "Er ekki nóg að gera?"......"Jú, maður! Alltaf brjálað að gera!"

Ætli þetta hafi góð áhrif á einbeitingu fólks? Ætli þetta stuðli að því að fólk hugsi málin og taki yfirvegaðar ákvarðanir? Ætli þetta hjálpi fólki að líða vel?

Eða hefur þetta þveröfug áhrif? Vinnur þetta gegn andlegri ró og yfirvegun? Hver er tilgangurinn með þvi að stækka brauðsneiðina sífellt þegar maður alltaf jafn mikið smjör (eða jafnvel sífellt minna smjör)?

Ég hallast að því síðarnefnda. Ég er enginn luddíti, en ég held að notkun þessarar tækni sé farin úr böndunum. Ég held að það sé einfaldlega ekkert sniðugt að það sé hægt að ná í hvern sem er, hvenær sem er. En ég held að það megi lágmarka skaðann á ýmsan hátt. T.d. með því að:

 • Skoða póstinn sinn bara á ákveðnum tímum dags-Afgreiða hann t.d. á morgnana og áður en maður fer heim á kvöldin (fyrir þá sem vinna á skrifstofu)
 • Fækka vinum á Facebook. Ef um er að ræða manneskju sem þú myndir spjalla við þegar þú hittir hana úti í búð, þá er hún "vinur". Annars ekki. Rannsóknir benda til þess að það sé ekki hægt að "þekkja" nema 100-150 manns.
 • Ekki svara í símann ef það má bíða og þú ert upptekinn við eitthvað annað. Það er ekki skylda að svara í símann. Þú sérð alveg hver var að hringja. Hringdu bara til baka þegar betur stendur á.
 • Ekki hafa kveikt á gemsanum heima hjá þér. Ef fólk vill ná í þig þá getur það hringt í heimasímann.
 • Prófaðu að slökkva á símanum þegar þú ferð í frí. Bentu fólki á að senda þér sms ef það þarf að ná í þig. Svo hringir þú til baka í þá sem þú nennir að tala við.
 • Ekki fá þér netið í símann. Það er rugl.

Friday, April 30, 2010

Good? Bad? Who knows?

Ég hef svolítið hugsað um dómhörku upp á síðkastið. Það er enginn skortur á henni þessa dagana. Við köllum fólk fífl, hálfvita, glæpamenn, landráðamenn og margt verra.

Þetta er eitt birtingarform þess hvernig við dæmum menn og málefni. Við erum að þessu allan daginn. Hlutir gerast og við verðum ánægð, eða pirruð, eða reið . Við gerum okkur fyrirfram væntingar um það hvað Á að gerast og svo miðast viðbrögðin við væntingarnar.

En hvað ef maður hefði engar væntingar? Hvað ef maður hætti að setja merkimiða á alla skapaða hluti og tæki þeim eins og þeir bera að án þess að dæma?

Þegar maður spáir í það þá er þessi tilhneiging okkar til að svekkja okkur á því sem gerist frekar barnaleg. Maður ákveður hvernig hlutirnir EIGA að vera og er svo hundfúll þegar raunin verður önnur, eins og lítill krakki sem fær ekki nammið sem hann langaði í.

Svo erum við ekki alltaf fær um að ákveða fyrirfram hvað er best fyrir okkur. Það getur farið alveg eftir sjónarhorninu hvort atburður er jákvæður eða neikvæður. Hér er dæmisaga sem mér finnst skemmtileg:

http://saveourspecies.wordpress.com/2008/10/19/good-bad-who-knows/

Við vitum ekki alltaf hvort það sem hendir okkur er jákvætt eða neikvætt til lengri tíma litið. Þá er alveg spurning um að hætta bara að dæma það sem gerist. Taka því bara eins og það ber að höndum. Anda djúpt og brosa.

Mér finnst það allavega ágæt pæling. Eða er það slæm pæling? Hver veit?

Wednesday, April 28, 2010

Reach out and touch someone

Þetta er merkilegt:

http://www.nytimes.com/2010/02/23/health/23mind.html

Snerting er sennilega enn mikilvægari en maður hélt. Hún virðist skipta miklu máli í því að byggja upp tengsl fólks og bæta líðan. Það er því mikilvægt að faðma fólkið sitt!

Tilviljunarkennt röfl að morgni dags

Vaknaði kl:05:10 í morgun. Verð greinilega að bæta myrkvun í herbergi litla mannsins. Ekki alveg að meika þetta.

Annars hefur það sína kosti að vakna fyrir allar aldir. Þetta er rólegur tími sem maður getur nýtt í lestur. Jafnvel skriftir. Margt vitlausara en það. Eitt af markmiðum ársins hjá mér var að skrifa að minnsta kosti tvær smásögur sem ég væri ánægður með. Hef enn varla skrifað stafkrók og því þörf á bragarbót.

Ég er líka búinn að vera fulllatur við lesturinn. Hef varla náð að lesa eina bók á viku á þessu ári. Var að klára aðra endurminningabók Ólafs Hauks Símonarsonar sem er ákaflega ljúf lesning. Hann fjallar þar um nokkur ár í uppvextinum- frá ca. 10-16 ára aldurs. Mæli eindregið með henni, eins og öllu sem Óli hefur skrifað. Núna er ég að lesa bókina Fortress of solitude eftir Jonathan Lathem. Sú fjallar um uppvöxt hvíts drengs í Brooklyn á áttunda áratugnum. Ansi magnað stöff, en svolítið uppskafningslegur og mikill texti. Fíla knappari penna betur. Djöfull hlakka ég til að ná mér í nýju Paul Auster bókina! Hún ætti að koma á kilju núna fljótlega.

Það hefur annars ekki verið nein lognmolla hjá mér síðustu vikur. Brjálað að gera í vinnunni og Urð á fínu flugi. Við erum að bæta við okkur nýjum lögum og það gengur bara eins og í sögu. Við spiluðum á þriðju tónleikunum okkar um síðustu helgi og það gekk bara fínt. Við erum að plana upptökur í sumar og tónleikahald með CIB og fleirum. Fjör. Á næsta leyti er svo öldungamót í blaki í Mosfellsbæ. Það verður eflaust gaman eins og alltaf, þótt oft hafi ég verið í betra formi (reyndar í mun verra formi líka).

Talandi um form, þá hef ég verið nokkuð harður á að borða hollt þótt æfingar hafi verið af skornum skammti. Ég borða svona ca. 80% "rétt". Það dugar til að halda þyngd í rétt rúmlega 80 kg. Ég er aftur farinn að lyfta af krafti, en fer bara einu sinni í viku og tek vel á því. Er orðinn nokkuð sannfærður um að það sé málið, þótt auðvitað megi flá kött á ýmsa vegu. Það er samt mjög margt sem ég hef verið að lesa sem bendir til þess að þessi blanda- kolvetnalítið fæði+stuttar föstur+lyftingar- sé ansi magnaður kokteill.

Saturday, April 24, 2010

Er menntakerfið okkar meingallað?

Síðustu misseri hef ég annað slagið verið að pæla í menntun. Þessar pælingar hafa gjarnan fylgt pælingum um vestrænt samfélag almennt, kosti þess og galla. Aðallega galla reyndar, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég hef talsvert verið að spá í hvernig hægt er að bæta samfélagið okkar. Þessar pælingar koma auðvitað í kjölfar HRUNSINS, þar sem við vorum skyndilega minnt á hve brothætt og skrítið þetta efnahagskerfi okkar er.

Eitt af því sem slær mann þegar maður skoðar aðdraganda hrunsins er sú blinda græðgi og samkeppni sem einkenndi framferði fólks. Þessi óslökkvandi þrá eftir MEIRU. Að vera MEIRI en hinir. Við bendum á útrásarvíkingana og bankafólkið, þar sem þetta var auðvitað mjög skýrt, en gleymum því að þetta var hið almenna viðhorf og andrúmsloft í þjóðfélaginu. Og er kannski enn? Ég er nefnilega alls ekki viss um að efnishyggja hafi minnkað.

Annað sem slær mann er skortur á ábyrgðartilfinningu. Menn æða áfram í blindri græðgi og bera svo enga ábyrgð þegar allt hrynur í höndunum á þeim.

Samkeppni, efnishyggja og ábyrgðarleysi. Hvaðan kemur þetta? Af hverju erum við svona? Af hverju ekki samvinna, nægjusemi og ábyrgð?

Þetta er auðvitað risavaxin spurning sem ekki verður svarað í litlu og ómerkilegu bloggi, en þó ætla ég að velta við a.m.k. einum steini í leit að svari. Ég hef nefnilega verið að spá í hvort menntakerfið og aðferðir okkar við að mennta fólk geti verið hluti af svarinu.

Ég vil þó áður en lengra er haldið taka það skýrt fram að ég ber gífurlega virðingu fyrir kennurum, enda er ég kennarabarn. Margir ættingjar mínir og vinir eru kennarar og ég veit að þetta er fólk sem hefur einlægan áhuga á því að efla nemendur sína með ráðum og dáð og fær fyrir það allt of lítið þakklæti og laun. Það er ERFITT starf að vera kennari, sérstaklega ef fólk hefur metnað og samvisku til að sinna því vel.

Það sem ég hef hins vegar spáð í er hvort menntaKERFIÐ sé gallað, m.a. af þessum sökum:

 • Í skóla eiga allir að læra það sama. Þeir eiga að læra það sem skólayfirvöldum þóknast (ég veit, ég veit...einstaklingsmiðað nám...blabla, en þegar öllu er á botninn hvolft ER þetta svona. Nemandi hefur ekkert val um það hvort hann lærir náttúrufræði. Hann fær bara erfiðari verkefni ef hann er góður í náttúrufræði)
 • Skólinn er einræðisstofnun. Skólastjórinn ræður. Og kennararnir. Nemandinn ræður engu og hefur ekkert að segja um námsumhverfið.
 • Þar sem nemandinn ræður engu, þá ber hann líka í raun litla ábyrgð. Hann ber auðvitað ábyrgð á eigin hegðun að einhverju marki, svipað og fangi ber ábyrð á því að fylgja fangelsisreglunum
 • Skólar hvetja til samkeppni. Allir eru metnir eftir sömu mælistikunni og menn keppast við að ná sem bestum árangri, enda hrósað fyrir þann árangur. Þeir sem ná ekki "árangri" skv. mælistikunni sitja eftir með bogna sjálfsmynd.
 • Krakkar hafa innbyggða þörf fyrir að læra. Það sést vel á því hvað þau læra ÁÐUR en þau byrja í skóla. Þau læra að tala, ganga og milljón aðra hluti. Enginn kennir þeim neitt af þessu með markvissum hætti. Þau einfaldlega herma eftir, spyrja, prófa sig áfram og fá endurgjöf frá umhverfinu. Svona eru börn víruð til að læra.
 • Í skólanum er börnum hins vegar sagt hvernig þau eiga að læra, hvað þau skuli læra, hvernig þau skuli hegða sér þegar þau læra, hvenær þau eiga að standa og hvenær að sitja. Þau læra líka í hópi jafnaldra sinna þar sem þau geta ekki fylgst með þeim sem eldri eru og lært af þeim, eins og náttúran gerir ráð fyrir. Þetta er fullkomlega ónáttúruleg aðferð við að læra. Fyrstu tvö árin í skóla fara því í að "aðlaga" (móta? brjóta?) börnin að módeli skólans.

Ég spyr: Er þetta kerfi líklegt til að kenna fólki ábyrgð, samvinnu og nægjusemi? Eða elur það á ábyrgðarleysi, samkeppni og firringu? Af hverju koma svona margir út úr skólum án þess að vita hverjir þeir eru eða hvað þeir vilja? Af hverju vita sumir ekki einu sinni á hverju þeir hafa áhuga? Getur hugsast að þetta kerfi sé til þess fallið að gera okkur að góðum neytendum? Að þrælum í einhverri vél?

Ég hef ekki svarið, en mér finnst a.m.k. áhugavert að velta þessu fyri mér. Ég veit nefnileg að það hafa verið gerðar tilraunir með öðruvísi skóla sem byggja á lýðræði, samábyrgð og frelsi. T.d. svokallaðir Sudbury skólar:

http://en.wikipedia.org/wiki/Sudbury_Valley_School

Í þessum skólum er engin námsskrá og algert lýðræði. Nemendur eru frá 4- 19 ára og engin aldursskipting. Engin skipuleg kennsla fer fram nema nemendunum finnist þörf fyrir það. Nemendur geta kosið um að láta kennara fara og þeir taka ákvarðanir um ráðningar. Hljómar ótrúlega, en þessir skólar ná fínum árangri. Um 80% nema úr Sudbury Valley skólanum klárar háskólanám. Og ég þori að veðja að þeir vita hverjir þeir eru, á hverju þeir hafa áhuga, að þeir kunni að vinna með öðrum og bera ábyrgð.

Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að skoða betur?

Tuesday, April 20, 2010

Dagurinn í dag

Nú ætla ég að fjalla um staðreynd sem er kannski flestum algerlega augljóst, en mér tekst sjálfum að gleyma mjög reglulega:

Það er bara hægt að lifa einn dag í einu

Og reyndar...ef maður virkilega hugsar málið...þá er aðeins hægt að lifa eitt augnablik í einu.

Þetta er auðvitað hverju mannsbarni ljóst, en mikið svakalega eigum við auðvelt með að gleyma þessu. Sem er kannski ekkert skrítið. Mannskepnan er þeirri náttúru gædd að geta munað hvað hefur komið fyrir hana, lært af því og pælt svo í því hvað þarf að gera á morgun til að gera betur og minnka líkurnar á einhverju fokki. Þeir einstaklingar sem voru góðir í þessu voru væntanlega líklegri til að lifa af og koma genum sínum á framfæri o.s.frv.

Þetta er þó bæði blessun og bölvun. Raunar getur hugsast að þetta sé stærsta blessun OG bölvun mannkyns. Þetta er undirrót aðskilnaðar okkar frá því sem ER. Undirrót vanlíðunar, geðveiki, stríðs....

Hvað mig persónulega varðar þá er ég gífurlega gjarn á að hugsa fram í tímann og spá í öll vandamálin sem ég á eftir að leysa. Það spillir svo ánægju minni með það sem er að gerast í kringum mig þá stundina. Ég næ kannski topp árangri í einhverju, en er strax farinn að hugsa um næsta vandamál og upplifi því ekki nema mjög skammvinna ánægju með árangurinn. Jafnvel enga.

Til (kannski barnalegrar) einföldunar má líkja lífinu við klifur upp fjallshlíð. Ef maður gónir endalaust upp fyrir sig, þá aukast líkurnar á því að maður detti á trýnið. Það getur líka dregið úr manni allan vind að sjá hvað maður á langt eftir- allar bröttu brekkurnar sem eru framundan. Það tryggir að maður missir af ánægjunni við að það að nýta klifurhæfileikana- finna hjartað slá í brjóstinu, ilminn af lynginu, nið lækjarins. Að sama skapi er varasamt að líta aftur fyrir sig. Maður getur orðið lofthræddur. Mann langar kannski bara niður af fjallinu.

Ég hef því einsett mér að æfa mig í því að vera meira HÉR og NÚ. Lifa einn dag í einu. Carpe diem!

Monday, April 19, 2010

Minningarorð um tengdaafa

Í gær var Júlíus Þórðarson, tengdaafi minn, jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju. Athöfnin var falleg og látlaus og meira sungið af ættjarðarlögum en sálmum. Karlinn hefði verið ánægður með það.

Ég kynntist Júlíus, eða Júlla á Skorrastað eins og hann var alltaf kallaður, þegar við Jóna fórum að skjóta okkur saman árið 1994. Reyndar kom ég oft í heimsókn á Skorrastað sem barn. Pabbi fór oft með mig að skoða hinn fjölbreytta bústofn bæjarins, enda voru hann og tengdapabbi samkennarar. Þá hefur sennilega engan grunað að ég ætti eftir að vera húsbóndi í húsinu sem Júlli og Jóna byggðu sér, en svona er nú lífið skrítið.

Hjá Júlla mætti ég aldrei öðru en mikilli vinsemd og gestrisni. Mér fannst ég alltaf vera fullkomlega velkominn á heimilinu. Við bjuggum hjá Jónu og Júlla sumrin '96 og '97 þegar ég var í sumarfríum í Háskólanum. Ég vann sem lögreglumaður á sumrin og var af því nokkuð ónæði, enda ekkert farsímasamband á Skorrastað og vaktsíminn því tengdur beint í heimasíma. Aldrei létu þau heiðurshjón það fara hið minnsta í taugarnar á sér. Eftir að ég kláraði BA próf og við Jóna fluttum austur, bjuggum við hjá þeim í heilt ár, með Siggu Theu pínulitla. Hún lærði að labba í stofunni á Skorrastað, sem núna er stofan okkar og var í miklu uppáhaldi hjá langömmu og langafa. Þegar við fluttum svo enn og aftur á Austurlandið árið 2004 eftir dvöl erlendis og í Reykjavík, þá bjuggum við fyrst um sinn hjá gömlu hjónunum.

Þessi ótrúlega gestrisni var Júlla algerlega í blóð borin. Það leið ekki sá dagur að ekki kæmu einhverjir gestir og var þeim öllum tekið fagnandi. Á sumrin var heimilið oft eins og umferðarmiðstöð- stundum gestir í hverju herbergi. Stundum þótti manni nóg um. En þau gömlu tóku öllum jafn vel og létu alla finna að þeir væru fullkomlega velkomnir. Ég er hræddur um að slík gestrisni sé nokkuð á undanhaldi.

Ég gæti skrifað langan pistil um Júlla, en ég ætla að láta tvö lítil minningarbrot duga:

-Fyrir nokkrum árum síðan, rétt áður en Júlli hætti mjólkurbúskap, var ég að keyra heim að bæ. Karlinn hefur verið kominn fast að áttræðu held ég. Hann var að reka kýrnar heim í fjós í mjaltir. Skyndilega hleypur ein kýrin út undan sér. Karlinn brást hratt við og tók á sprett til að koma henni aftur á rétt spor! Ótrúlega sprækur miðað við aldur og fyrri störf.

-Eitt sinn fór ég með Júlla að sækja mjöl út í bræðslu. Mjölið var sett í hálfar síldartunnur. Ég skellti tunnunum í skottið á bílnum og keyrði heim að fjósi. Svo tók ég tunnurnar úr skottinu og bar upp tröppur og inn í fjós (fjandans tunnurnar voru níðþungar, en ég ætlaði sko ekki að láta á því bera að mér þætti þetta eitthvað mál). Þá drundi í karlinum "Haha! Þú er sterkur!" Ég man ekki til að mér hafi mikið verið hrósað fyrir krafta, en þetta var karlinn ánægður með.

Já, Júlli á Skorrastað var KARAKTER. Hann var spes. Hann var hann sjálfur. Ég veit ekki hvort ég hef eitthvað til míns máls, en mér finnst týpur eins og hann vera sífellt fágætari. Fólk sem er ósmeykt við að vera það sjálft og er laust við narcissískar tilvistarkreppur og aumingjaskap.

Ég mun aldrei gleyma Júlla á Skorrastað. Hann á eftir að lifa í minningunni. Ég bý í húsinu sem hann byggði, er giftur sonardóttur hans og skýrði son minn í höfuðið á honum, þannig að ég þyrfti nú reyndar að kalka all verulega til að gleyma honum. Ég verð ávallt þakklátur fyrir allt sem hann gaf mér.

Megi hann hvíla í friði.

Monday, April 05, 2010

Íslenska þjóðin í djúpum skít...what else is new?

Ég var í morgunsárið að blaða í árbók ársins 1982. Á þessu herrans ári var ég 8 ára gamall og rámar því í eitthvað af þessu. Og ekki laust við að þetta hristi aðeins upp í manni. Það er ekkert voðalega langt síðan við frónverjar vorum ansi aftarlega á merinni. Helsta efnahagsmarkmið þáverandi ríkisstjórnar var t.d. að koma verðbólgunni NIÐUR í 40%. Skipsskaðar og slysadauðsföll voru nánast daglegt brauð. Ungmenni grilluðu í sér heilabúið með kveikjarabensíni og lími. Latté var óþekkt fyrirbæri og kremkex frá Frón þótti bara nokkuð fínt.

Ég man alveg hvernig var að vera barn á þessum tímum. Við fengum stundum nammi á laugardögum, annars alls ekki. Við fórum ekki til útlanda í frí. Það gerðu fáir. Við fórum ekki mikið í frí yfir höfuð. Til þess voru hvorki tími né peningar.

Þótt nú séu ekki beint bjartir tímar, þá er ágætt að hafa í huga hvernig við lifðum fyrir ekki svo mjög löngu. Við erum miklu betur stödd í dag en fyrir aldarfjórðungi síðan: Ríkari, betur menntuð og tiltölulega sófistikeraðir heimsborgarar. Fær í flestan sjó. Það er því ákveðin huggun að glugga í söguna og líta nokkur ár aftur í tímann. Það er ekkert nýtt að pólitíkusar séu misvitrir, efnahagslífið í klessu, gjaldmiðillinn ónýtur, menn ráði frændur sína í opinberar stöður, að útvegsmenn séu brjálaðir, að menn rífist um orkuverð til stóriðju. Svona var þetta allt árið 1982.

Og það er líka gott að hafa í huga að við getum verið hamingjusöm þótt kjör okkar rýrni og þjóðfélagsástandið sé skrítið. Ég minnist a.m.k. ekki annars en að æska mín hafi verið ákaflega hamingjurík þótt maður hafi ekki átt alla skapaða hluti.

Saturday, April 03, 2010

Smásögur

Ég var að flakka um vefinn í morgunsárið. Rakst á skemmtilega síðu sem ég varð að deila með ykkur. Síðuna á Ágúst Borþór Sverrisson, en hann er stórskemmtilegur penni sem hefur sérhæft sig í ritun smásagna. Ágúst er einn fárra íslenskra höfunda sem hefur sinnt þessu formi af einhverjum krafti, fyrir utan snillinginn Gyrði Elíasson auðvitað.

Smásagan er vanmetið sagnaform sem reynir mjög á höfundinn. Striginn sem höfundur málar myndir sínar á er smár, eðli málsins samkvæmt. Og allt of oft ganga menn fram hjá þessum smámyndum og mæna upp á stórar og litríkari myndir sem eru betur til þess fallnar að grípa athyglina. Það er nefnilega svolítið þversagnakennt að þótt smásögur séu stuttar þá gera þær oft meiri kröfur til lesandans en skáldsögur. Þar sem höfundur hefur lítið svigrúm fyrir lýsingar og útlistanir á samhengi, þá reynir smásagan talsvert á ímyndunarafl og athyglisgáfu lesandans. Og Það held ég að sé ástæðan fyrir því að smásagan nýtur ekki meiri hylli. Stór hluti fólks lítur á þær og hugsar "What the fuck? Er þetta eitthvað merkilegt?"

Svarið við þeirri spurningu er.....JÁ. Góðar smásögur eru stórmerkilegar og geta kveikt magnaða tilfinningu fyrir dýpt. Þær geta snert við manni á einhvern hátt sem skáldsögur gera sjaldnast. Þær hafa stundum svipuð áhrif á mann og ljóð, en þó á annan hátt.

Ég hvet ykkur til þess að tékka betur á smásögum, sérstaklega þá sem yfir höfuð eru bókhneigðir. Hér er t.d. frábær saga frá Ágústi Borgþóri um dag í lífi atvinnulauss manns. Frábær smáatriði, mikil dýpt og næmni.

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaAgust/smasaga

Ágúst birtir reglulega sögur sínar á pressunni og það er vel þess virði að tékka á honum. Ég á pottþétt eftir að kaupa bækurnar hans líka, enda aldrei eins að lesa sögu á tölvuskjá og á prenti.

Sunday, March 28, 2010

Naumhyggja

Bið lesendur mína forláts á bloggleti síðustu vikna. Lofa (aftur) að bæta mig. Ástæða bloggletinnar er sú að ég hef verið ákaflega upptekinn síðustu vikurnar. Það er samt ekki gild afsökun. Það versta við svona langt hlé er að maður veit ekki á hverju maður á að byrja. En þetta er svo sem ekki háalvarlegur fréttamiðill eða tilraun til krónólógískrar skrásetningar á lífi mínu, þannig að maður ætti kannski ekki að hafa of miklar áhyggur af því arna.

Síðustu vikurnar hef ég annað slagið dottið í pælingar um naumhyggju (minimalisma) sem lífsstefnu. Mér finnst eitthvað heillandi við þessar hugmyndir, þótt sumir gangi auðvitað ansi langt í þessu. Sumir ganga svo langt að skera eigur sínar niður í það sem kemst í einn bakpoka. Eða einn húsbíl. Það er mjög langt gengið en mér finnst það SAMT heillandi hugmynd. Myndi ekki henta mér vel, en maður veltir því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef fleiri hugsuðu svona.

Þeir sem eru í þessum minimalismapælingum hafa fengið upp í kok á neyslu- og efnishyggju. Þeir vilja einfaldara líf þar sem áherslan er á samveru, sköpun og einfalda ánægju. Þeir sjá og skynja að þessi árátta mannsins að leita hamingju í hlutum eða rafrænni skemmtun er blindgata sem leiðir mann ekki að hamingjunni. Draslið gerir ekkert nema að íþyngja manni og endalaust sjónvarpsgláp gerir lítið annað en að kveikja nýjar langanir í meira drasl.

Þetta rímar við margt af því sem ég hef verið að uppgötva síðustu árin, en maður á nú samt langt í land með að verða minimalisti. Ég hef þó gert smá tilraunir til að "afdrasla" og hyggst fjölga þeim. Ég tók t.d. fataskápinn minn í gegn um daginn og losaði mig við fullan stóran ruslapoka af fötum. Þegar ég fór í gegnum hrúguna fann ég fullt af fötum sem ég hafði ekki farið í svo mánuðum skipti. Og til hvers þá að halda í dótið? Af því að maður borgaði einhverntíman fyrir það? Það finnast mér ekki nægilega sterk rök. Ég losaði mig því við dótið og leið betur á eftir. Nú er ég fljótur að finna mér föt að fara í vegna þess að það sem eftir er í skápnum eru föt sem ég vil ganga í. Mig grunar að sambærilegum árangri megi ná í ýmsu öðru, svo sem bóka- og diskasafninu. Ég efast samt um að ég geti mannað mig upp í að losa mig við diska. En eitthvað af þeim mætti kannski vera í kassa uppi á lofti, en ekki í stútfullri hillu þar sem maður finnur aldrei neitt í öllu kraðakinu.

Þetta passar líka ágætlega við þær pælingar sem ég hef verið í varðandi mataræði og hreyfingu. Borða minna- sem mest náttúrulegt og einfalt- og hreyfa mig skynsamlega. Ég lyfti einu sinni í viku, spila blak þegar ég má vera að, fer í labbitúra og fjallgöngur...Einfalt, skemmtilegt og gott. Það þarf ekki flókin kerfi, eða æfingar á hverjum degi til að ná árangri!

Ég held að það væri fátt hollara fyrir Íslendinga að læra akkúrat núna en naumhyggju. Að njóta þess einfalda og átta sig á því að maður þarf ekki allt þetta veraldlega prjál til að verða hamingjusamur.