Sunday, March 28, 2010

Naumhyggja

Bið lesendur mína forláts á bloggleti síðustu vikna. Lofa (aftur) að bæta mig. Ástæða bloggletinnar er sú að ég hef verið ákaflega upptekinn síðustu vikurnar. Það er samt ekki gild afsökun. Það versta við svona langt hlé er að maður veit ekki á hverju maður á að byrja. En þetta er svo sem ekki háalvarlegur fréttamiðill eða tilraun til krónólógískrar skrásetningar á lífi mínu, þannig að maður ætti kannski ekki að hafa of miklar áhyggur af því arna.

Síðustu vikurnar hef ég annað slagið dottið í pælingar um naumhyggju (minimalisma) sem lífsstefnu. Mér finnst eitthvað heillandi við þessar hugmyndir, þótt sumir gangi auðvitað ansi langt í þessu. Sumir ganga svo langt að skera eigur sínar niður í það sem kemst í einn bakpoka. Eða einn húsbíl. Það er mjög langt gengið en mér finnst það SAMT heillandi hugmynd. Myndi ekki henta mér vel, en maður veltir því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef fleiri hugsuðu svona.

Þeir sem eru í þessum minimalismapælingum hafa fengið upp í kok á neyslu- og efnishyggju. Þeir vilja einfaldara líf þar sem áherslan er á samveru, sköpun og einfalda ánægju. Þeir sjá og skynja að þessi árátta mannsins að leita hamingju í hlutum eða rafrænni skemmtun er blindgata sem leiðir mann ekki að hamingjunni. Draslið gerir ekkert nema að íþyngja manni og endalaust sjónvarpsgláp gerir lítið annað en að kveikja nýjar langanir í meira drasl.

Þetta rímar við margt af því sem ég hef verið að uppgötva síðustu árin, en maður á nú samt langt í land með að verða minimalisti. Ég hef þó gert smá tilraunir til að "afdrasla" og hyggst fjölga þeim. Ég tók t.d. fataskápinn minn í gegn um daginn og losaði mig við fullan stóran ruslapoka af fötum. Þegar ég fór í gegnum hrúguna fann ég fullt af fötum sem ég hafði ekki farið í svo mánuðum skipti. Og til hvers þá að halda í dótið? Af því að maður borgaði einhverntíman fyrir það? Það finnast mér ekki nægilega sterk rök. Ég losaði mig því við dótið og leið betur á eftir. Nú er ég fljótur að finna mér föt að fara í vegna þess að það sem eftir er í skápnum eru föt sem ég vil ganga í. Mig grunar að sambærilegum árangri megi ná í ýmsu öðru, svo sem bóka- og diskasafninu. Ég efast samt um að ég geti mannað mig upp í að losa mig við diska. En eitthvað af þeim mætti kannski vera í kassa uppi á lofti, en ekki í stútfullri hillu þar sem maður finnur aldrei neitt í öllu kraðakinu.

Þetta passar líka ágætlega við þær pælingar sem ég hef verið í varðandi mataræði og hreyfingu. Borða minna- sem mest náttúrulegt og einfalt- og hreyfa mig skynsamlega. Ég lyfti einu sinni í viku, spila blak þegar ég má vera að, fer í labbitúra og fjallgöngur...Einfalt, skemmtilegt og gott. Það þarf ekki flókin kerfi, eða æfingar á hverjum degi til að ná árangri!

Ég held að það væri fátt hollara fyrir Íslendinga að læra akkúrat núna en naumhyggju. Að njóta þess einfalda og átta sig á því að maður þarf ekki allt þetta veraldlega prjál til að verða hamingjusamur.

No comments: