Tuesday, April 20, 2010

Dagurinn í dag

Nú ætla ég að fjalla um staðreynd sem er kannski flestum algerlega augljóst, en mér tekst sjálfum að gleyma mjög reglulega:

Það er bara hægt að lifa einn dag í einu

Og reyndar...ef maður virkilega hugsar málið...þá er aðeins hægt að lifa eitt augnablik í einu.

Þetta er auðvitað hverju mannsbarni ljóst, en mikið svakalega eigum við auðvelt með að gleyma þessu. Sem er kannski ekkert skrítið. Mannskepnan er þeirri náttúru gædd að geta munað hvað hefur komið fyrir hana, lært af því og pælt svo í því hvað þarf að gera á morgun til að gera betur og minnka líkurnar á einhverju fokki. Þeir einstaklingar sem voru góðir í þessu voru væntanlega líklegri til að lifa af og koma genum sínum á framfæri o.s.frv.

Þetta er þó bæði blessun og bölvun. Raunar getur hugsast að þetta sé stærsta blessun OG bölvun mannkyns. Þetta er undirrót aðskilnaðar okkar frá því sem ER. Undirrót vanlíðunar, geðveiki, stríðs....

Hvað mig persónulega varðar þá er ég gífurlega gjarn á að hugsa fram í tímann og spá í öll vandamálin sem ég á eftir að leysa. Það spillir svo ánægju minni með það sem er að gerast í kringum mig þá stundina. Ég næ kannski topp árangri í einhverju, en er strax farinn að hugsa um næsta vandamál og upplifi því ekki nema mjög skammvinna ánægju með árangurinn. Jafnvel enga.

Til (kannski barnalegrar) einföldunar má líkja lífinu við klifur upp fjallshlíð. Ef maður gónir endalaust upp fyrir sig, þá aukast líkurnar á því að maður detti á trýnið. Það getur líka dregið úr manni allan vind að sjá hvað maður á langt eftir- allar bröttu brekkurnar sem eru framundan. Það tryggir að maður missir af ánægjunni við að það að nýta klifurhæfileikana- finna hjartað slá í brjóstinu, ilminn af lynginu, nið lækjarins. Að sama skapi er varasamt að líta aftur fyrir sig. Maður getur orðið lofthræddur. Mann langar kannski bara niður af fjallinu.

Ég hef því einsett mér að æfa mig í því að vera meira HÉR og NÚ. Lifa einn dag í einu. Carpe diem!

No comments: